Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 32

Líkjum eftir Jehóva og verum sanngjörn

Líkjum eftir Jehóva og verum sanngjörn

„Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ – FIL. 4:5.

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

YFIRLIT a

Hvort tréð myndir þú vilja vera? (Sjá 1. grein.)

1. Á hvaða hátt þurfa þjónar Guðs að vera eins og tré? (Sjá einnig mynd.)

 „VINDURINN brýtur ekki tré sem getur svignað.“ Þessi málsháttur undirstrikar mikilvægi eiginleika sem gerir trjám mögulegt að þrífast: sveigjanleika. Þegar lífið er erfitt verðum við líka að vera sveigjanleg til að geta þjónað Jehóva með gleði. Hvernig förum við að því? Við þurfum að sýna sanngirni með því að aðlagast þegar aðstæður okkar breytast og með því að virða skoðanir og ákvarðanir annarra.

2. Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að aðlagast breyttum aðstæðum og hvað skoðum við í þessari námsgrein?

2 Við sem þjónum Jehóva viljum vera sanngjörn. Við viljum líka vera auðmjúk og sýna samúð. Í þessari grein sjáum við hvernig slíkir eiginleikar hjálpuðu sumum kristnum mönnum að takast á við breyttar aðstæður. Við skoðum líka hvernig þessir eiginleikar geta hjálpað okkur. En athugum fyrst hvað við getum lært af Jehóva og Jesú, sem eru fullkomnar fyrirmyndir um sanngirni.

JEHÓVA OG JESÚS ERU SANNGJARNIR

3. Hvernig vitum við að Jehóva er sanngjarn?

3 Jehóva er kallaður „kletturinn“ vegna þess að hann er staðfastur og óhagganlegur. (5. Mós. 32:4) En hann er líka sanngjarn. Eftir því sem aðstæður breytast í heiminum lagar Guð sig að breytingunum og tryggir að allt sem hann hefur lofað verði að veruleika. Jehóva skapaði manninn í sinni mynd, meðal annars með hæfileikann til að laga sig að breyttum aðstæðum. Hann sá okkur fyrir skýrum meginreglum í Biblíunni sem hjálpa okkur að taka viturlegar ákvarðanir, sama hvaða áskorunum við mætum. Fordæmi Jehóva og meginreglur fullvissa okkur um að hann sé sanngjarn á sama tíma og hann er „kletturinn“.

4. Nefndu dæmi um sanngirni Jehóva. (3. Mósebók 5:7, 11)

4 Vegir Jehóva eru fullkomnir og sanngjarnir. Hann er ekki harður í samskiptum sínum við menn. Hugsum okkur til dæmis hvernig Jehóva sýndi sanngirni í samskiptum við Ísraelsþjóðina. Hann krafðist ekki sömu fórna af öllum, hvort sem þeir voru ríkir eða fátækir. Í sumum tilfellum leyfði hann hverjum og einum að færa fórn í samræmi við aðstæður sínar. – Lestu 3. Mósebók 5:7, 11.

5. Nefndu dæmi um auðmýkt og samúð Jehóva.

5 Auðmýkt Jehóva og samúð knýr hann til að vera sanngjarn. Auðmýkt hans kom til dæmis vel í ljós þegar hann ætlaði að eyða illum íbúum Sódómu. Fyrir milligöngu engla gaf Jehóva hinum réttláta Lot leiðbeiningar um að flýja til fjalla. Lot óttaðist að fara þangað. Hann sárbændi því Jehóva um að hann og fjölskylda hans fengju að leita skjóls í Sóar, litlum bæ sem Jehóva hafði ákveðið að eyða. Jehóva hefði getað krafist þess að Lot gerði nákvæmlega eins og hann hafði sagt. En hann varð við bón Lots, jafnvel þótt það þýddi að hann þyrmdi Sóar. (1. Mós. 19:18–22) Öldum síðar sýndi Jehóva íbúum Níníve samúð. Hann sendi spámanninn Jónas til að boða yfirvofandi eyðingu borgarinnar og illra íbúa hennar. En þegar Nínívemenn iðruðust fann Jehóva til með þeim og þyrmdi borginni. – Jónas 3:1, 10; 4:10, 11.

6. Nefndu dæmi um hvernig Jesús líkti eftir sanngirni Jehóva.

6 Jesús líkti eftir sanngirni Jehóva. Hann var sendur til jarðar til að boða ‚týndum sauðum af ætt Ísraels‘ trúna. En hann sýndi sanngirni þegar hann sinnti þessu verkefni. Við eitt tækifæri bað kona sem var ekki af Ísraelsþjóðinni hann að lækna dóttur sína sem var „sárþjáð af illum anda“. Jesús sýndi samúð og gerði eins og konan bað hann um og læknaði dóttur hennar. (Matt. 15:21–28) Skoðum annað dæmi. Fyrr á þjónustutíma sínum lýsti Jesús yfir: „Þeim sem afneitar mér … mun ég einnig afneita.“ (Matt. 10:33) En afneitaði hann Pétri sem afneitaði honum þrisvar? Nei. Jesús tók iðrun og trúfesti Péturs með í reikninginn. Eftir upprisu sína birtist hann Pétri og hefur þá líklega fullvissað hann um fyrirgefningu sína og kærleika. – Lúk. 24:33, 34.

7. Hvernig viljum við að aðrir líti á okkur samkvæmt Filippíbréfinu 4:5?

7 Við höfum séð að Jehóva Guð og Jesús Kristur eru sanngjarnir. Hvað um okkur? Jehóva væntir þess að við séum sanngjörn. (Lestu Filippíbréfið 4:5.) Við getum spurt okkur: Er ég sanngjarn, eftirgefanlegur og umburðarlyndur í augum annarra? Eða er ég álitinn harður, strangur og þrjóskur? Krefst ég þess að aðrir geri hlutina nákvæmlega eins og ég vil að þeir séu gerðir? Eða hlusta ég á aðra og fer að óskum þeirra þegar það er hægt? Því sanngjarnari sem við erum því betur líkjum við eftir Jehóva og Jesú. Skoðum tvennt sem kallar á sanngirni: Þegar persónulegar kringumstæður okkar breytast og þegar skoðanir og ákvarðanir annarra eru ólíkar okkar.

VERUM SANNGJÖRN ÞEGAR KRINGUMSTÆÐUR BREYTAST

8. Hvað getur hjálpað okkur að vera sanngjörn þegar aðstæður breytast? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

8 Við þurfum að vera sanngjörn og sveigjanleg þegar kringumstæður okkar breytast. Slíkar breytingar geta þýtt óvænta erfiðleika fyrir okkur. Við gætum skyndilega staðið frammi fyrir alvarlegu heilsuvandamáli. Skyndilegar breytingar á efnahags- eða stjórnmálaástandinu geta verið okkur mjög erfiðar. (Préd. 9:11; 1. Kor. 7:31) Það getur jafnvel verið erfitt ef söfnuður Jehóva gefur okkur nýtt verkefni. Hver sem áskorunin er getum við tekist á við hana með góðum árangri ef við gerum fernt: (1) sættum okkur við stöðuna, (2) hugsum um framtíðina, (3) beinum athyglinni að því sem er jákvætt og (4) gerum eitthvað fyrir aðra. b Skoðum hvernig þetta hefur komið nokkrum bræðrum og systrum að gagni.

9. Hvernig tókust trúboðshjón á við óvænta erfiðleika?

9 Sættum okkur við stöðuna. Emanuele og Francescu var falið að starfa sem trúboðar í öðru landi. Þau voru rétt að byrja að læra tungumálið og kynnast bræðrum og systrum í söfnuðinum þegar COVID-19 faraldurinn braust út og þau þurftu að einangra sig. Þá dó móðir Francescu skyndilega. Francescu langaði mjög að hitta fjölskylduna sína en faraldurinn kom í veg fyrir að hún kæmist til hennar. Hvað hjálpaði henni að takast á við alla þessa erfiðleika? Þau hjónin báðu saman til Jehóva um visku til að taka einn dag í einu. Jehóva svaraði bænum þeirra á réttum tíma með hjálp safnaðar síns. Það sem bróðir einn sagði í viðtali í myndbandi uppörvaði þau til dæmis mjög mikið: „Því fyrr sem við sættum okkur við aðstæður okkar því fyrr endurheimtum við gleðina og eigum auðveldara með að nýta okkur þessar nýju aðstæður.“ c Þau fengu líka hvatningu til að taka framförum í að boða trúna í síma og komu jafnvel af stað biblíunámskeiði. Og þau þáðu kærleiksríka uppörvun og stuðning bræðra og systra á staðnum. Hugulsöm systir sendi þeim stutt skilaboð ásamt biblíuversi á hverjum degi í heilt ár. Þegar við sættum okkur við nýjar kringumstæður verðum við ánægð með það sem við getum gert.

10. Hvernig aðlagaðist systir breyttum aðstæðum?

10 Hugsum um framtíðina og beinum athyglinni að því sem er jákvætt. Christina er rúmensk systir og búsett í Japan. Hún varð fyrir vonbrigðum þegar enski söfnuðurinn sem hún tilheyrði var lagður niður. En hún dvaldi ekki við það sem var liðið. Hún ákvað að gera sitt besta með japönskumælandi söfnuði á staðnum með því að leggja sig fram við að boða trúna á því máli. Hún bað konu sem hún hafði unnið með að kenna sér að tala japönsku betur. Konan féllst á að nota Biblíuna og bæklinginn Von um bjarta framtíð til að kenna Christinu japönsku. Christina tók ekki bara framförum í að tala tungumálið heldur fór konan líka að sýna sannleikanum áhuga. Þegar við horfum fram á við og erum jákvæð geta ófyrirsjáanlegar breytingar haft óvænta blessun í för með sér.

11. Hvað hjálpaði hjónum sem voru í fjárhagsvandræðum?

11 Gerum eitthvað fyrir aðra. Hjón sem eru búsett í landi þar sem starfsemi okkar er bönnuð misstu föst laun þegar efnahagur landsins hrundi. Hvernig löguðu þau sig að breytingunum? Fyrst einfölduðu þau líf sitt. Því næst ákváðu þau að einblína ekki á eigin vandamál heldur einbeita sér að því að hjálpa öðrum með því að vera upptekin af því að boða trúna. (Post. 20:35) Eiginmaðurinn sagði: „Þegar við vorum upptekin í boðuninni höfðum við minni tíma til að dvelja við það neikvæða og meiri tíma til að einbeita okkur að því að gera vilja Guðs.“ Þegar kringumstæður okkar breytast megum við ekki gleyma mikilvægi þess að hjálpa öðrum, sérstaklega með því að boða trúna.

12. Hvernig getur fordæmi Páls postula hjálpað okkur að vera sveigjanleg í boðuninni?

12 Við þurfum að vera sveigjanleg í boðuninni. Við hittum fólk sem hefur mismunandi trú, viðhorf og bakgrunn. Páll postuli var sveigjanlegur og við getum lært af honum. Jesús útnefndi Pál til að vera „postuli meðal þjóðanna“. (Rómv. 11:13) Hann boðaði trúna Gyðingum, Grikkjum, menntuðu fólki, verkafólki, tignarfólki og konungum. Páll varð „öllum allt“ til að ná til hjarta alls konar fólks. (1. Kor. 9:19–23) Hann veitti athygli menningu, bakgrunni og trúarskoðunum áheyrenda sinna og lagaði mál sitt að því. Við getum líka náð betri árangri í þjónustu okkar ef við erum útsjónarsöm og lögum boðun okkar að þörfum áheyrenda okkar.

VIRÐUM SKOÐANIR ANNARRA

Ef við erum sanngjörn virðum við skoðanir annarra. (Sjá 13. grein.)

13. Hvaða hættu sem er nefnd í 1. Korintubréfi 8:9 getum við forðast ef við virðum skoðanir annarra?

13 Sanngirni hjálpar okkur líka að virða skoðanir annarra. Sumar systur okkar nota til dæmis andlitsfarða en aðrar kjósa að gera það ekki. Sumir þjónar Jehóva njóta þess að drekka vín í hófi en aðrir hafa ákveðið að halda sig alveg frá því. Allir þjónar Guðs vilja hafa góða heilsu en kjósa mismunandi aðferðir til þess. Ef við teldum skoðanir okkar alltaf réttar og reyndum að sannfæra bræður og systur um að gera eins og við, gætum við orðið öðrum til hrösunar og valdið sundrung. Það viljum við að sjálfsögðu ekki. (Lestu 1. Korintubréf 8:9; 10:23, 24.) Skoðum tvö dæmi sem sýna að það hjálpar okkur að forðast öfgar og viðhalda friði að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

Ef við erum sanngjörn virðum við skoðanir annarra. (Sjá 14. grein.)

14. Hvaða meginregla Biblíunnar ætti að leiðbeina okkur varðandi klæðaburð og útlit?

14 Klæðaval og útlit. Jehóva setur ekki strangar reglur um klæðaburð heldur hefur hann gefið okkur meginreglur til að fara eftir. Við eigum að klæða okkur á þann hátt sem er viðeigandi fyrir þjóna Guðs, „með hógværð og skynsemi“. (1. Tím. 2:9, 10; 1. Pét. 3:3) Við viljum þess vegna ekki draga óviðeigandi athygli að okkur sjálfum með klæðaburði okkar. Meginreglur Biblíunnar hjálpa líka öldungum að forðast að setja eigin reglur um klæðaval og útlit. Öldungar í einum söfnuði vildu til dæmis hjálpa nokkrum ungum bræðrum sem höfðu tekið upp hártísku þar sem hárið var stutt en mjög úfið. Hvernig gátu öldungarnir hjálpað þeim án þess að búa til reglu? Farandhirðirinn ráðlagði öldungunum að segja við bræðurna: „Þegar þið eruð uppi á sviði og áheyrendur taka betur eftir því hvernig þið lítið út heldur en því sem þið segið, þá er eitthvað að klæðavali og útliti ykkar.“ Þessi einfalda útskýring leysti málið án þess að sett væri nein regla. d

Ef við erum sanngjörn virðum við skoðanir annarra. (Sjá 15. grein.)

15. Hvaða meginreglur Biblíunnar hjálpa okkur að taka ákvarðanir varðandi heilsu okkar? (Rómverjabréfið 14:5)

15 Heilsa. Hver og einn þjónn Guðs verður að ákveða hvað hann vill gera til að hugsa vel um heilsuna. (Gal. 6:5) Aðeins fáein lög Biblíunnar, eins og þau um að halda sig frá blóði og spíritisma, hafa áhrif á val kristinna manna varðandi heilsumeðferð. (Post. 15:20; Gal. 5:19, 20) Að öðru leyti geta þeir sjálfir kosið þá meðferð sem þeir vilja. Sumir vilja eingöngu leita til lækna um læknismeðferð en aðrir velja frekar óhefðbundnar leiðir. Við verðum að virða rétt bræðra okkar og systra til að taka eigin ákvarðanir varðandi heilsuna, sama hversu sterkar skoðanir við höfum á ákveðnum meðferðum. Við ættum að hafa eftirfarandi í huga: (1) Aðeins undir stjórn Guðsríkis fær fólk bót allra meina sinna. (Jes. 33:24) (2) Hver og einn þjónn Guðs ætti að „fylgja eigin sannfæringu“ um hvað er best fyrir sig. (Lestu Rómverjabréfið 14:5.) (3) Við dæmum ekki aðra fyrir ákvarðanir þeirra og gerum ekkert sem getur orðið þeim að falli. (Rómv. 14:13) (4) Þjónar Guðs sýna kærleika og skilja að eining safnaðarins er mikilvægari en þeirra eigin skoðanir. (Rómv. 14:15, 19, 20) Ef við höfum þetta í huga höldum við nánu sambandi við bræður okkar og systur og stuðlum að friði í söfnuðinum.

Ef við erum sanngjörn virðum við skoðanir annarra. (Sjá 16. grein.)

16. Hvernig getur öldungur sýnt sanngirni í samskiptum við aðra öldunga? (Sjá einnig mynd.)

16 Öldungar þurfa að vera góðar fyrirmyndir í að sýna sanngirni. (1. Tím. 3:2, 3) Öldungur ætti til dæmis ekki að vænta þess að skoðunum hans sé alltaf fylgt bara vegna þess að hann er eldri en hinir öldungarnir. Hann skilur að andi Jehóva getur knúið hvern sem er í öldungaráðinu til að tjá sig þannig að það stuðli að skynsamlegri ákvörðun. Sanngjarnir öldungar styðja fúslega ákvörðun meirihluta öldungaráðsins svo framarlega sem engar meginreglur eru brotnar, jafnvel þótt þeir hefðu kosið eitthvað annað.

KOSTIRNIR VIÐ AÐ SÝNA SANNGIRNI

17. Hvaða blessunar njóta þjónar Guðs sem eru sanngjarnir?

17 Við sem þjónum Guði uppskerum mikla blessun þegar við sýnum sanngirni. Við eigum ánægjulegri samskipti við bræður okkar og systur og friður ríkir í söfnuðinum. Við sjáum fegurðina í fjölbreytileika fólks og siða meðal sameinaðra þjóna Jehóva. Og það sem mestu máli skiptir, þá veitir það okkur ánægju að líkja eftir Jehóva, sanngjörnum Guði okkar.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

a Jehóva og Jesús eru sanngjarnir og þeir vilja að við ræktum með okkur þennan eiginleika. Ef við erum sanngjörn eigum við auðveldara með að vera sveigjanleg, til dæmis ef heilsufar okkar breytist eða fjárhagsstaða. Við leggjum líka okkar að mörkum til að friður og eining ríki í söfnuðinum.

b Sjá greinina „Að takast á við breytingar“ í Vaknið! nr. 4 2016.

c Horfðu á myndbandið Viðtal við bróður Dmitriy Mikhaylov sem er að finna í krækju í greininni „Jehóva breytir ofsóknum í tækifæri til að boða trúna“ í Líf okkar og boðun vinnubók fyrir samkomur mars–apríl 2021.

d Þú getur fengið frekari upplýsingar um klæðnað og útlit í 52. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð.