Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

Verum staðföst og óhagganleg

Verum staðföst og óhagganleg

‚Kæru bræður og systur, verið staðföst og óhagganleg.‘ – 1. KOR. 15:58.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

YFIRLIT a

1, 2. Hvað er líkt með kristnum manni og skýjakljúfi? (1. Korintubréf 15:58)

 SEINT á áttunda áratug síðustu aldar reis 60 hæða skýjakljúfur yfir nærliggjandi byggingar í Tókýó í Japan. Fólk velti fyrir sér hvernig hann gæti staðist jarðskjálftana sem voru svo tíðir í þessari borg. Hvert var leyndarmálið? Verkfræðingar hönnuðu bygginguna þannig að hún yrði sterkbyggð en um leið nægilega sveigjanleg til að standast höggbylgjur í jarðskjálftum. Líkja má kristnum mönnum við þannig skýjakljúf. Hvernig?

2 Kristinn maður þarf að gæta jafnvægis milli staðfestu og sveigjanleika. Hann þarf að vera staðfastur og óhagganlegur þegar lög Jehóva og mælikvarði eru annars vegar. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Hann er „fús til að hlýða“ og gerir engar málamiðlanir. En þegar það er mögulegt eða jafnvel nauðsynlegt þarf hann að vera sveigjanlegur‚ eða ‚sanngjarn‘. (Jak. 3:17) Þjónn Jehóva sem hefur tileinkað sér slíkt jafnvægi forðast að fara út í öfgar og vera annaðhvort of stífur eða of umburðarlyndur. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum verið óhagganleg. Við skoðum líka fimm leiðir sem Satan notar til að reyna að veikja ásetning okkar og hvernig við getum staðið gegn tilraunum hans.

HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ STAÐFÖST?

3. Hvaða lög æðsta löggjafans má finna í Postulasögunni 15:28, 29?

3 Jehóva er æðsti löggjafinn og hefur stöðugt séð fólki sínu fyrir skýrum lögum. (Jes. 33:22) Stjórnandi ráð á fyrstu öld minntist til dæmis á þrennt sem þjónar Guðs þyrftu að gera til að vera staðfastir: (1) hafna skurðgoðadýrkun og tilbiðja Jehóva einan, (2) virða heilagleika blóðsins og (3) fylgja háum siðferðisstaðli Biblíunnar. (Lestu Postulasöguna 15:28, 29.) Hvernig geta þjónar Jehóva nú á dögum verið staðfastir á þessum þrem sviðum?

4. Hvernig veitum við Jehóva óskipta hollustu? (Opinberunarbókin 4:11)

4 Við höfnum skurðgoðadýrkun og tilbiðjum Jehóva einan. Hann fyrirskipaði Ísraelsmönnum að veita sér óskipta hollustu. (5. Mós. 5:6–10) Og þegar Jesú var freistað af Djöflinum tók hann það skýrt fram að við megum aðeins tilbiðja Jehóva. (Matt. 4:8–10) Við tilbiðjum þess vegna ekki trúarleg líkneski. Við dýrkum ekki heldur menn og komum fram við þá eins og þeir væru guðir, hvort heldur eru trúarleiðtogar, stjórnmálamenn, íþróttastjörnur eða stjörnur í skemmtanaheiminum. Við stöndum með Jehóva og tilbiðjum aðeins hann sem ‚skapaði allt‘. – Lestu Opinberunarbókina 4:11.

5. Hvers vegna höldum við í heiðri lög Jehóva um heilagleika lífs og blóðs?

5 Við höldum í heiðri lög Jehóva um heilagleika lífs og blóðs. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva segir að blóð tákni lífið, sem er dýrmæt gjöf frá honum. (3. Mós. 17:14) Þegar Jehóva gaf mönnum leyfi til að borða kjöt af dýrum tók hann það fram að þeir mættu ekki borða blóðið. (1. Mós. 9:4) Hann endurtók þessi fyrirmæli þegar hann lét Ísraelsmenn fá Móselögin. (3. Mós. 17:10) Og hann lét stjórnandi ráð á fyrstu öld fyrirskipa öllum kristnum mönnum að ‚halda sig frá blóði‘. (Post. 15:28, 29) Við hlýðum þessum fyrirmælum staðfastlega þegar við tökum ákvarðanir varðandi læknismeðferð. b

6. Hvað gerum við til að lifa eftir háum siðferðisstaðli Jehóva?

6 Við víkjum ekki frá háum siðferðisstaðli Jehóva. (Hebr. 13:4) Páll notar áhrifaríkt myndmál þegar hann segir okkur að ‚deyða‘ jarðneskar tilhneigingar, það er að segja, að leggja hart að okkur að losa okkur við rangar holdlegar langanir. Við forðumst að horfa á eða gera nokkuð sem gæti leitt okkur út í kynferðislegt siðleysi. (Kól. 3:5; Job. 31:1) Þegar við stöndum andspænis freistingu vísum við samstundis á bug öllum hugsunum og verkum sem gætu spillt sambandi okkar við Guð.

7. Hvað ættum við að einsetja okkur og hvers vegna?

7 Jehóva væntir þess að við ‚hlýðum í einlægni‘. (Rómv. 6:17) Leiðsögn hans er okkur alltaf fyrir bestu og lög hans eru afdráttarlaus. (Jes. 48:17, 18; 1. Kor. 6:9, 10) Við reynum okkar besta til að þóknast Jehóva og hafa sama viðhorf og sálmaskáldið sem lýsti yfir: „Ég hef einsett mér að hlýða ákvæðum þínum öllum stundum eins lengi og ég lifi.“ (Sálm. 119:112) En Satan reynir að veikja ásetning okkar. Hvaða aðferðir notar hann?

HVERNIG REYNIR SATAN AÐ VEIKJA ÁSETNING OKKAR?

8. Hvernig notar Satan ofsóknir til að reyna að veikja ásetning okkar?

8 Ofsóknir. Djöfullinn beitir bæði líkamlegu ofbeldi og þrýstingi til að veikja ásetning okkar. Hann vill „gleypa“ okkur, spilla sambandi okkar við Jehóva. (1. Pét. 5:8) Hinir frumkristnu fengu hótanir, voru barðir og jafnvel drepnir vegna þess að þeir voru ákveðnir í að vera staðfastir. (Post. 5:27, 28, 40; 7:54–60) Satan notar ofsóknir nú á dögum líka. Dæmi um það er sú grimmilega meðferð sem bræður okkar og systur sæta í Rússlandi og fleiri löndum. Og mörg trúsystkini okkar verða fyrir annars konar andstöðu.

9. Nefndu dæmi sem sýnir að við þurfum að vera á varðbergi gangvart lúmskum þrýstingi.

9 Lúmskur þrýstingur. Auk beinna árása notar Satan „slóttugar árásir“. (Ef. 6:11) Tökum sem dæmi reynslu Bobs sem lá á spítala og átti eftir að fara í stóra skurðaðgerð. Hann lét læknana vita að hann myndi ekki undir neinum kringumstæðum þiggja blóðgjöf. Skurðlæknirinn sagðist ætla að virða ákvörðun hans. En nóttina fyrir aðgerðina leit svæfingalæknir inn til Bobs, eftir að fjölskyldan hans var farin heim. Hann sagði Bob að honum yrði líklega ekki gefið blóð en að það yrði til staðar til öryggis. Kannski hugsaði læknirinn að Bob myndi snúast hugur nú þegar fjölskyldan var farin. En Bob var staðfastur og sagðist ekki undir neinum kringumstæðum þiggja blóð.

10. Hvers vegna er viska manna snara? (1. Korintubréf 3:19, 20)

10 Viska manna. Ef við lítum á málin frá mannlegum sjónarhóli gætum við farið að hunsa Jehóva og lög hans. (Lestu 1. Korintubréf 3:19, 20.) „Viska þessa heims“ höfðar gjarnan til holdlegra langana. Fáeinir kristnir einstaklingar í Pergamos og Þýatíru urðu fyrir áhrifum þeirra sem voru siðlausir og tilbáðu skurðgoð. Jesús áminnti söfnuðina alvarlega fyrir að umbera siðleysi. (Opinb. 2:14, 20) Við verðum líka fyrir þrýstingi til að tileinka okkur rangt hugarfar. Fjölskylda og kunningjar geta reynt að höfða til tilfinninga okkar og hvatt okkur til að gera málamiðlanir. Þau gætu sagt að það skipti engu máli að vera siðferðilega hreinn og að siðferðismælikvarði Biblíunnar sé úreltur.

11. Hvað verðum við að forðast til að vera staðföst?

11 Stundum gæti okkur fundist að leiðbeiningar Jehóva séu ekki nógu skýrar. Við gætum jafnvel freistast til að ‚ganga lengra en skrifað er‘. (1. Kor. 4:6) Trúarleiðtogar á dögum Jesú gerðust sekir um þetta. Með því að bæta reglum sem menn höfðu samið við Móselögin lögðu þeir þungar byrðar á fólk. (Matt. 23:4) Jehóva gefur okkur skýra leiðsögn í orði sínu og fyrir milligöngu safnaðar síns. Við höfum enga ástæðu til að bæta við leiðbeiningarnar sem hann sér okkur fyrir. (Orðskv. 3:5–7) Við göngum því ekki lengra en það sem stendur í Biblíunni eða búum til reglur fyrir trúsystkini okkar um það sem er einkamál hvers og eins.

12. Hvernig beitir Satan „innantómum blekkingum“?

12 Blekkingar. Satan notar ‚innantómar blekkingar‘ og „hugmyndafræði heimsins“ til að afvegaleiða fólk og sundra því. (Kól. 2:8) Á fyrstu öld var þetta meðal annars heimspeki byggð á hugmyndum manna, kenningum Gyðinga sem voru ekki byggðar á Biblíunni og þeirri hugmynd að kristnir menn þyrftu að fylgja Móselögunum. Þetta voru allt blekkingar því að það dró athygli fólks frá uppsprettu viskunnar, Jehóva. Nú á dögum notar Satan fjölmiðla og samfélagsmiðla til að dreifa samsæriskenningum og falsfréttum sem stjórnmálaleiðtogar koma á framfæri. Það voru margar slíkar sögur á kreiki meðan COVID-19 faraldurinn geisaði. c Vottar Jehóva sem hlustuðu á leiðbeiningar safnaðarins komust hjá óþarfa áhyggjum eins og þeir höfðu sem hlustuðu á þessar villandi upplýsingar. – Matt. 24:45.

13. Hvers vegna þurfum við að vera á verði gegn því sem truflar okkur?

13 Truflun. Við þurfum að geta „metið hvað sé mikilvægt“. (Fil. 1:9, 10) Þegar við verðum fyrir truflunum getur það rænt okkur tíma og orku frá því sem er gagnlegt. Venjulegir þættir lífsins eins og að borða, drekka, stunda afþreyingu og vinna geta farið að valda truflun ef við látum þá verða það mikilvægasta í lífi okkar. (Lúk. 21:34, 35) Auk þess rignir fréttum yfir okkur á hverjum degi um þjóðfélagslegan og stjórnmálalegan ágreining. Við megum ekki við því að láta slíkar deilur trufla okkur. Annars gætum við farið að taka afstöðu með deiluaðilum í huga okkar og hjarta. Satan beitir öllum framangreindum aðferðum til að ná því markmiði að veikja ásetning okkar að gera rétt. Skoðum hvernig við getum staðið gegn tilraunum hans og verið staðföst.

HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ STAÐFÖST?

Til að standa stöðugur skaltu velta fyrir þér vígslu þinni og skírn, rannsaka orð Guðs og hugleiða það, rækta með þér stöðugt hjarta og treysta Jehóva. (Sjá 14.–18. grein.)

14. Hvað getur hjálpað okkur að halda okkur Jehóva megin?

14 Veltu fyrir þér hvers vegna þú vígðist Jehóva og skírðist. Þú tókst þessar ákvarðanir vegna þess að þú vildir taka afstöðu með Jehóva. Rifjaðu það upp sem hjálpaði þér að vera viss um að þú hefðir fundið sannleikann. Þú fékkst nákvæma þekkingu á föður þínum á himnum og fórst að virða hann og elska. Þú byggðir upp trú og iðraðist. Hjarta þitt knúði þig til að hætta að gera það sem Jehóva hatar og fara að lifa lífinu í samræmi við vilja hans. Þér var létt þegar þú skildir að Guð hafði fyrirgefið þér. (Sálm. 32:1, 2) Þú mættir á safnaðarsamkomur og fórst að segja öðrum frá þeim frábæru sannindum sem þú hafðir lært. Þú vígðir Jehóva líf þitt og lést skírast og gengur nú á veginum til lífsins og gerir þitt besta til að halda þig á honum. – Matt. 7:13, 14.

15. Hvers vegna er gagnlegt fyrir okkur að rannsaka orð Guðs og hugleiða það?

15 Rannsakaðu orð Guðs og hugleiddu það. Rétt eins og tré getur staðið stöðugt ef rætur þess liggja djúpt, getum við verið staðföst ef trú okkar á sér djúpar rætur í orði Guðs. Þegar tré vex leita rætur þess dýpra og lengra út. Þegar við rannsökum og hugleiðum Biblíuna styrkjum við trú okkar og sannfæringu um að það sem Guð segir okkur að gera sé best. (Kól. 2:6, 7) Veltu fyrir þér hvernig leiðbeiningar Jehóva, ráð og vernd hjálpuðu þjónum hans áður fyrr. Esekíel fylgdist til dæmis vel með þegar engill mældi vandlega musterið sem Esekíel sá í sýn. Sýnin gaf honum styrk og hún gefur okkur gagnlegar leiðbeiningar um það hvernig við getum haldið mælikvarða Jehóva um hreina tilbeiðslu á lofti. d (Esek. 40:1–4; 43:10–12) Við höfum líka gagn af því að taka okkur tíma til að rannsaka og hugleiða dýpri sannindi orðs Guðs.

16. Hvernig verndaði stöðugt hjarta Bob? (Sálmur 112:7)

16 Ræktaðu með þér stöðugt hjarta. Davíð konungur lýsti því yfir að hann myndi aldrei hætta að elska Jehóva þegar hann söng: „Ég er staðfastur í hjarta, Guð minn.“ (Sálm. 57:7) Við getum líka verið staðföst í hjarta og treyst algerlega á Jehóva. (Lestu Sálm 112:7.) Veltu því fyrir þér hvernig þetta hjálpaði Bob sem áður er minnst á. Þegar honum var sagt að blóð yrði haft til staðar til öryggis svaraði hann samstundis að ef það væri minnsti möguleiki á að þeir gæfu honum blóð myndi hann yfirgefa spítalann strax. Síðar sagði Bob: „Ég var ekki í neinum vafa og hafði engar áhyggjur.“

Ef við höfum byggt upp sterka trú getum við verið staðföst, hvaða prófraun sem við mætum. (Sjá 17. grein.)

17. Hvað getum við lært af Bob? (Sjá einnig mynd.)

17 Bob var staðfastur vegna þess að hann hafði tekið ákvörðun um það löngu áður en hann fór á spítala. Hann langaði að gleðja Jehóva. Hann rannsakaði það sem Biblían og biblíutengd rit segja um heilagleika lífs og blóðs. Og hann var sannfærður um að Jehóva myndi launa honum fyrir að hlýða lögum hans. Við getum líka haft stöðugt hjarta, hvaða prófraunum sem við kunnum að mæta.

Barak og menn hans elta hugrakkir her Sísera. (Sjá grein 18.)

18. Hvernig lærum við af Barak að treysta á Jehóva? (Sjá forsíðumynd.)

18 Treystu á Jehóva. Hugleiddu hvernig það var Barak til góðs að treysta leiðbeiningum Jehóva. Þótt það væri hvorki til skjöldur né spjót í öllu landinu sagði Jehóva honum að fara í stríð við Sísera hershöfðingja Kanaaníta og her hans sem var vel vopnum búinn. (Dóm. 5:8) Debóra spákona sagði Barak að fara niður á sléttuna til að mæta Sísera og 900 stríðsvögnum hans. Barak hlýddi þótt það væri greinilega ávinningur fyrir andstæðinginn að vera með vagnana á sléttunni. Þegar hermennirnir héldu til Taborfjalls lét Jehóva koma úrhellisrigningu. Stríðsvagnar Sísera festust í leðjunni og Jehóva gaf Barak sigur. (Dóm. 4:1–7, 10, 13–16) Á líkan hátt veitir Jehóva okkur sigur ef við treystum á hann og leiðsögnina sem hann veitir fyrir atbeina safnaðar síns. – 5. Mós. 31:6.

VERUM ÁKVEÐIN Í AÐ VERA STAÐFÖST

19. Hvers vegna vilt þú vera staðfastur?

19 Barátta okkar til að vera staðföst heldur áfram eins lengi og við lifum í þessu heimskerfi. (1. Tím. 6:11, 12; 2. Pét. 3:17) Verum ákveðin í að láta ekki ofsóknir, lúmskan þrýsting, visku manna, blekkingar og truflanir koma okkur úr jafnvægi. (Ef. 4:14) Höldum óhagganleg áfram að elska Jehóva og hlýða honum, stöðug og ákveðin í hollustu okkar. En við þurfum líka að vera sanngjörn. Í næstu námsgrein skoðum við fullkomið fordæmi Jehóva og Jesú í að sýna sanngirni.

SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð

a Frá því á dögum Adams og Evu hefur Satan reynt að telja fólki trú um að það eigi sjálft að ákveða hvað sé rétt og hvað sé rangt. Hann vill koma sömu hugsun að hjá okkur gagnvart lögum Guðs og leiðbeiningunum sem við fáum í söfnuði hans. Þessi námsgrein hjálpar okkur að vera á verði gegn sjálfstæðisanda heims Satans og ákveðin í að hlýða Jehóva alltaf.

b Sjá 39. kafla í bókinni Von um bjarta framtíð til að fræðast betur um hvernig kristinn maður getur virt viðhorf Guðs til blóðs.

c Sjá greinina „Vertu á verði gagnvart röngum upplýsingum“ á jw.org.