Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 28

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

Berðu kennsl á sannleikann?

Berðu kennsl á sannleikann?

„Verið … staðföst, gyrt belti sannleikans um mittið.“EF. 6:14.

Í HNOTSKURN

Það er mikilvægt að sjá muninn á sannleikanum sem Jehóva hefur kennt okkur og lygunum sem Satan og andstæðingar okkar koma á framfæri.

1. Hvaða tilfinningar berðu til sannleikans?

 ÞJÓNAR Jehóva elska sannleikann í orði Guðs. Við byggjum trú okkar á honum. (Rómv. 10:17) Við erum sannfærð um að Jehóva hafi séð til þess að söfnuðurinn sé „stoð og stólpi sannleikans“. (1. Tím. 3:15) Og við sýnum þeim undirgefni af glöðu geði „sem fara með forystuna“, útskýra sannleikann í Biblíunni og veita leiðbeiningar sem hjálpa okkur að gera vilja Guðs. – Hebr. 13:17.

2. Hvað gæti gerst eftir að við höfum kynnst sannleikanum samkvæmt Jakobsbréfinu 5:19?

2 En við gætum villst af leið eftir að við höfum tekið við sannleikanum og viðurkennt að við þurfum að fylgja leiðsögn safnaðar Guðs. (Lestu Jakobsbréfið 5:19.) Ekkert myndi gleðja Satan meira en að við hættum að treysta Biblíunni eða leiðsögninni sem við fáum fyrir milligöngu safnaðar Guðs. – Ef. 4:14.

3. Hvers vegna verðum við að halda fast í sannleikann? (Efesusbréfið 6:13, 14)

3 Lestu Efesusbréfið 6:13, 14. Fljótlega mun Djöfullinn beita öflugum áróðri og afvegaleiða þjóðirnar til að taka afstöðu gegn Jehóva. (Opinb. 16:13, 14) Við getum líka búist við því að Satan reyni að villa um fyrir þjónum Jehóva af enn meiri krafti. (Opinb. 12:9) Það er því mikilvægt að við þjálfum okkur í að sjá muninn á sannleika og lygi og séum hlýðin sannleikanum. (Rómv. 6:17; 1. Pét. 1:22) Björgun okkar í þrengingunni miklu veltur á því.

4. Hvað tökum við til athugunar í þessari námsgrein?

4 Í þessari námsgrein beinum við athyglinni að tveim eiginleikum sem eru nauðsynlegir til að við getum borið kennsl á sannleikann í Biblíunni og tekið við leiðsögninni sem söfnuður Guðs sér okkur fyrir. Síðan skoðum við þrjár tillögur sem hjálpa okkur að halda fast í sannleikann.

NAUÐSYNLEGIR EIGINLEIKAR TIL AÐ BERA KENNSL Á SANNLEIKANN

5. Hvernig hjálpar ótti við Jehóva okkur að bera kennsl á sannleikann?

5 Ótti við Jehóva. Þegar við höfum ræktað með okkur heilbrigðan ótta við Jehóva elskum við hann svo mikið að við myndum aldrei vilja gera neitt sem er honum á móti skapi. Það skiptir okkur öllu máli að læra muninn á réttu og röngu, sannleika og lygi, svo að við getum haft velþóknun Jehóva. (Orðskv. 2:3–6; Hebr. 5:14) Við megum aldrei leyfa ótta við menn að verða kærleikanum til Jehóva yfirsterkari. Ef við gerðum það værum við að þóknast mönnum en það sem þeim finnst í lagi er oft vanþóknanlegt í augum Jehóva.

6. Hvernig varð ótti við menn til þess að tíu höfðingjar Ísraels brengluðu sannleikann?

6 Ef við óttuðumst menn meira en Guð gætum við leiðst burt frá sannleikanum. Skoðum viðbrögð 12 höfðingja sem njósnuðu um landið sem Jehóva hafði lofað að gefa Ísraelsmönnum. Tíu njósnaranna óttuðust Kanverja meira en þeir elskuðu Jehóva. Þeir sögðu við Ísraelsmenn: „Við getum ekki farið og barist gegn þessu fólki því að það er öflugra en við.“ (4. Mós. 13:27–31) Frá sjónarhóli manna voru Kanverjar vissulega sterkari en Ísraelsmenn. En að segja að Ísraelsmenn gætu ekki sigrað óvini sína sýndi að þeir tóku ekki Jehóva með inn í myndina. Þessir tíu njósnarar hefðu átt að horfa á það sem Jehóva vildi að Ísraelsmenn gerðu. Þeir hefðu líka átt að leiða hugann að því hvað hann hafði gert fyrir þá stuttu áður. Þá hefðu þeir áttað sig á að styrkur Kanverja var enginn í samanburði við almætti Jehóva. Ólíkt njósnurunum sem skorti trú vildu Jósúa og Kaleb hafa velþóknun Jehóva. Þeir sögðu við fólkið: „Ef Jehóva er ánægður með okkur leiðir hann okkur inn í þetta land og gefur okkur það.“ – 4. Mós. 14:6–9.

7. Hvernig getum við styrkt guðsótta okkar? (Sjá einnig mynd.)

7 Þegar við tökum ákvarðanir þurfum við að velta fyrir okkur hvað gleður Jehóva. Þannig styrkjum við guðsótta okkar. (Sálm. 16:8) Spyrðu þig þegar þú lest frásögu í Biblíunni: Hvaða ákvörðun hefði ég tekið við þessar aðstæður? Ímyndaðu þér til dæmis að þú værir að hlusta á tíu höfðingja Ísraels þegar þeir sögðu að Ísraelsmenn gætu ekki lagt Kanaansland undir sig. Hefðirðu trúað þeim og látið undan ótta við menn eða hefði kærleikur þinn og löngun til að þóknast Jehóva verið óttanum yfirsterkari? Heil kynslóð Ísraelsmanna trúði ekki því sem Jósúa og Kaleb sögðu. Fyrir vikið missti hún tækifærið til að komast inn í fyrirheitna landið. – 4. Mós. 14:10, 22, 23.

Hverjum hefðir þú trúað? (Sjá 7. grein.)


8. Hvaða eiginleika þurfum við að kappkosta að rækta og hvers vegna?

8 Auðmýkt. Jehóva opinberar auðmjúkum sannleikann. (Matt. 11:25) Við sýndum auðmýkt þegar við þáðum hjálp til að læra sannleikann. (Post. 8:30, 31) En við verðum samt að gæta þess að verða ekki stolt. Annars gætum við farið að álíta eigin skoðanir jafn gildar og meginreglur Biblíunnar og leiðbeiningarnar frá söfnuði Jehóva.

9. Hvernig getum við varðveitt auðmýkt?

9 Til að vera auðmjúk þurfum við að muna hversu smá við erum í samanburði við mikilleika Jehóva. (Sálm. 8:3, 4) Við getum líka beðið Jehóva að hjálpa okkur að vera auðmjúk og móttækilegri fyrir kennslu hans sem hann kemur á framfæri fyrir atbeina orðs síns og safnaðar. Hann hjálpar okkur þá að meta hugsanir sínar meira en okkar eigin. Vertu vakandi fyrir vísbendingum í Biblíunni sem sýna hversu mikið Jehóva metur auðmýkt en hatar stolt, hroka og dramb. Og reyndu sérstaklega að vera auðmjúkur ef þú færð verkefni þar sem athyglin beinist að þér.

HVERNIG HÖLDUM VIÐ FAST Í SANNLEIKANN?

10. Hverjum hefur Jehóva falið að gefa þjónum sínum leiðbeiningar og fyrirmæli?

10 Haltu áfram að treysta leiðbeiningunum frá söfnuði Jehóva. Í Ísrael til forna notaði Jehóva Móse og síðan Jósúa til að gefa þjónum sínum fyrirmæli. (Jós. 1:16, 17) Ísraelsmenn nutu blessunar þegar þeir litu á þessa menn sem fulltrúa Jehóva Guðs. Öldum síðar gáfu 12 postular nýstofnuðum söfnuði þjóna Guðs leiðbeiningar. (Post. 8:14, 15) Síðar gegndu líka aðrir öldungar í Jerúsalem þessu hlutverki. „Söfnuðirnir héldu … áfram að styrkjast í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi“ þegar þeir fylgdu leiðsögn þessara trúföstu manna. (Post. 16:4, 5) Nú á dögum er það okkur líka til góðs þegar við fylgjum leiðbeiningunum sem Jehóva veitir fyrir milligöngu safnaðar síns. En hvað ætli Jehóva fyndist um það ef við virtum ekki forystu þeirra sem hann hefur útnefnt? Við fáum svar við því þegar við skoðum hvað gerðist þegar Ísraelsmenn fóru inn í fyrirheitna landið.

11. Hvernig fór fyrir Ísraelsmönnum sem efuðust um þá ákvörðun Guðs að Móse færi með forystuna? (Sjá einnig mynd.)

11 Á ferð Ísraelsmanna til fyrirheitna landsins véfengdu mikilsmetnir menn rétt Móse til að gegna því hlutverki sem Jehóva fól honum. Þeir sögðu: „Allur söfnuðurinn [ekki einungis Móse] er heilagur, allur saman, og Jehóva er mitt á meðal fólksins.“ (4. Mós. 16:1–3) Í augum Guðs var „allur söfnuðurinn“ vissulega heilagur. En hann hafði valið Móse til að fara með forystu meðal fólks síns. (4. Mós. 16:28) Þeir sem gerðu uppreisn með því að gagnrýna Móse voru í raun að setja út á Jehóva. Í stað þess að hugsa um það sem Jehóva vildi einblíndu þeir á það sem þeir sjálfir vildu – meiri völd og upphefð. Guð tók leiðtoga uppreisnarinnar af lífi ásamt þúsundum annarra sem fylgdu þeim. (4. Mós. 16:30–35, 41, 49) Það leikur enginn vafi á að það er Jehóva mjög á móti skapi þegar þjónar hans tala niður leiðbeiningar safnaðar hans.

Hvern hefðir þú stutt? (Sjá 11. grein.)


12. Hvers vegna getum við treyst söfnuði Jehóva?

12 Við getum treyst söfnuði Jehóva. Þeir sem fara með forystuna hika ekki við að gera nauðsynlegar breytingar þegar ljóst er að leiðrétta þarf skilning á ákveðnum biblíusannindum eða gera breytingar á starfsemi safnaðarins. (Orðskv. 4:18) Þeir gera það vegna þess að þeir vilja umfram allt þóknast Jehóva. Þeir gera líka sitt besta til að byggja ákvarðanir sínar á orði Guðs, mælikvarðanum sem allir þjónar Jehóva taka mið af.

13. Hvert er „inntak heilnæmu orðanna“ og hvað erum við hvött til að gera?

13 ‚Haltu þig við inntak heilnæmu orðanna.‘ (2. Tím. 1:13) „Inntak heilnæmu orðanna“ vísar til kenninga kristinnar trúar sem er að finna í Biblíunni. (Jóh. 17:17) Þessar kenningar eru grunnurinn að öllu sem við trúum. Í söfnuði Jehóva erum við hvött til að fullvissa okkur um að trú okkar sé byggð á þeim. Við njótum blessunar Guðs eins lengi og við gerum það.

14. Af hverju hættu sumir þjónar Guðs að fylgja ‚inntaki heilnæmu orðanna‘?

14 Hvað gæti gerst ef við vikjum frá ‚inntaki heilnæmu orðanna‘? Skoðum dæmi. Á fyrstu öld gekk sú saga meðal sumra þjóna Jehóva að dagur hans væri þegar runninn upp. Þetta gæti hafa komið fram í bréfi sem Páll postuli átti að hafa skrifað. Sumir þjónar Guðs í Þessaloníku trúðu þessum orðrómi án þess að skoða málið nánar og létu söguna jafnvel ganga áfram. Þeir hefðu ekki látið blekkjast ef þeir hefðu munað það sem Páll hafði kennt þeim þegar hann var enn hjá þeim. (2. Þess. 2:1–5) Páll kenndi trúsystkinum sínum að trúa ekki öllu sem þau heyrðu. Og til að hjálpa þeim enn frekar lauk Páll síðara bréfi sínu til Þessaloníkumanna með orðunum: „Ég, Páll, skrifa þessa kveðju með eigin hendi og þannig merki ég öll bréf mín. Þannig skrifa ég.“ – 2. Þess. 3:17.

15. Hvernig getum við verndað okkur fyrir lygum sem virðast sannleikur? Nefndu dæmi. (Sjá einnig myndir.)

15 Hvað getum við lært af því sem Páll skrifaði til Þessaloníkumanna? Við þurfum að beita dómgreind þegar við heyrum eitthvað sem samrýmist ekki því sem við höfum lært í Biblíunni eða eitthvað sem hneykslar okkur. Í fyrrverandi Sovétríkjunum dreifðu óvinir okkar bréfi á meðal bræðranna sem var sagt vera frá aðalstöðvunum. Það varð til þess að sumir bræður aðgreindu sig og stofnuðu sjálfstæðan söfnuð. Bréfið leit út fyrir að vera ósvikið. En trúfastir bræður létu ekki blekkjast. Þeir áttuðu sig á því að boðskapur bréfsins var ekki í samræmi við það sem þeim hafði verið kennt. Nú á dögum nota óvinir sannleikans stundum nútímatækni til að rugla okkur í ríminu og sundra okkur. Frekar en að vera „fljót að komast úr jafnvægi“ getum við verndað okkur með því að hugsa vandlega hvort það sem við heyrum eða lesum sé í samræmi við sannleikann sem við höfum lært. – 2. Þess. 2:2; 1. Jóh. 4:1.

Láttu ekki blekkjast af ósannindum sem líta út fyrir að vera sannleikur. (Sjá 15. grein.) a


16. Hvað ættum við að gera ef einhver heldur sig ekki fast við sannleikann samkvæmt Rómverjabréfinu 16:17, 18?

16 Vertu sameinaður þeim sem eru trúfastir Jehóva. Guð vill að við séum sameinuð í tilbeiðslu okkar. Við erum það svo framarlega sem við höldum fast í sannleikann. Allir sem breiða út villandi upplýsingar sem brjóta í bága við sannleikann valda sundrung í söfnuðinum og Guð hvetur okkur því til að ‚forðast þá‘. Annars gætum við sjálf farið að trúa því sem er ekki rétt og orðið ótrú Jehóva. – Lestu Rómverjabréfið 16:17, 18.

17. Hvaða gagn höfum við af því að bera kennsl á sannleikann og halda fast í hann?

17 Þegar við berum kennsl á sannleikann og höldum fast í hann varðveitum við náið samband við Jehóva og sterka trú. (Ef. 4:15, 16) Við látum ekki blekkjast af áróðri og lygum Satans. Og Jehóva verndar okkur í þrengingunni miklu. Höldum fast í sannleikann og ‚þá verður Guð friðarins með okkur‘. – Fil. 4:8, 9.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

a MYND: Sviðsett mynd af því þegar bræður í fyrrverandi Sovétríkjunum fengu fyrir mörgum áratugum bréf sem virtist vera frá aðalstöðvunum en var í raun frá óvinum okkar. Nú á tímum nota óvinir okkar kannski netið til að dreifa einhverju villandi um söfnuð Jehóva.