Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 30

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

Frásögur Biblíunnar af konungum Ísraels eru lærdómsríkar

Frásögur Biblíunnar af konungum Ísraels eru lærdómsríkar

„Þá sjáið þið aftur muninn á réttlátum manni og vondum, á þeim sem þjónar Guði og þeim sem þjónar honum ekki.“MAL. 3:18.

Í HNOTSKURN

Við lærum hvað hafði áhrif á mat Jehóva á konungum Ísraels. Þannig getum skilið betur hvers hann væntir af þjónum sínum nú á dögum.

1, 2. Hvað fáum við að vita í Biblíunni um suma af konungum Ísraels?

 BIBLÍAN greinir frá meira en 40 Ísraelskonungum. a Hún segir heiðarlega frá því sem sumir þeirra gerðu. Jafnvel góðir konungar gerðu ýmislegt slæmt. Tökum sem dæmi Davíð, en hann var góður konungur. Jehóva sagði um hann: „Þjónn minn, Davíð … fylgdi mér af öllu hjarta og gerði það eitt sem var rétt í mínum augum.“ (1. Kon. 14:8) En samt framdi hann kynferðislegt siðleysi með giftri konu og lagði á ráðin um að maðurinn hennar félli í orrustu. – 2. Sam. 11:4, 14, 15.

2 En Biblían talar líka um marga ótrúa konunga sem gerðu ýmislegt gott, eins og til dæmis Rehabeam. „Hann gerði það sem var illt“ í augum Jehóva. (2. Kron. 12:14) En Rehabeam hlýddi Guði þegar hann sagði honum að berjast ekki gegn tíuættkvíslaríkinu heldur leyfa þegnum þess að velja sér nýjan konung. Hann víggirti líka margar borgir til að styrkja stöðu þjóðar Guðs. – 1. Kon. 12:21–24; 2. Kron. 11:5–12.

3. Hvaða mikilvæga spurning vaknar og hvað ræðum við í þessari námsgrein?

3 Þá vaknar mikilvæg spurning: Hvernig lagði Jehóva mat á það hvort konungur væri trúfastur fyrst Ísraelskonungarnir gerðu bæði það sem var gott og slæmt? Svarið við þeirri spurningu leiðir í ljós hvað við þurfum að gera til að vera þóknanleg Jehóva. Við lítum á þrennt sem Jehóva tók augljóslega með í reikninginn þegar hann lagði mat á konunga Ísraels: hjartalag þeirra, iðrun og hollustu við sanna tilbeiðslu.

HJARTA ÞEIRRA VAR HEILT GAGNVART JEHÓVA

4. Hvað greindi á milli trúfastra og ótrúfastra konunga?

4 Konungarnir sem voru Jehóva þóknanlegir tilbáðu hann af heilu hjarta. b Góði konungurinn Jósafat „leitaði Jehóva af öllu hjarta“. (2. Kron. 22:9) Biblían segir um Jósía: „Enginn konungur á undan honum hafði verið eins og hann og snúið aftur til Jehóva af öllu hjarta.“ (2. Kon. 23:25) En hvað um Salómon sem gerði það sem var rangt síðar á ævinni? „Hjarta hans var ekki heilt.“ (1. Kon. 11:4) Og Biblían segir um Abíam, annan ótrúan konung: „Hjarta hans var ekki heilt gagnvart Jehóva.“ – 1. Kon. 15:3.

5. Útskýrðu hvað það merkir að þjóna Jehóva af heilu hjarta.

5 Hvað merkir það að þjóna Jehóva af heilu hjarta? Sá sem þjónar Jehóva af heilu hjarta gerir það ekki aðeins af því að hann veit að hann ætti að gera það. Hann þjónar Jehóva vegna þess að hann elskar hann og virðir, og ekki aðeins tímabundið heldur út lífið.

6. Hvernig getum við varðveitt heilt hjarta? (Orðskviðirnir 4:23; Matteus 5:29, 30)

6 Hvernig getum við líkt eftir trúföstu konungunum og varðveitt heilt hjarta? Við þurfum að vera á verði gegn slæmum áhrifum. Til dæmis getur óheilnæm afþreying, slæmur félagsskapur og löngun í efnislega hluti haft slæm áhrif á hjarta okkar. Ef við uppgötvum að kærleikur okkar til Jehóva hefur minnkað skulum við strax gera eitthvað í málinu. – Lestu Orðskviðina 4:23; Matteus 5:29, 30.

7. Hvers vegna er mikilvægt að forðast það sem veikir samband okkar við Jehóva?

7 Við þurfum að passa að hjarta okkar verði ekki tvískipt. Við gætum auðveldlega farið að hugsa sem svo að það að vera upptekin í þjónustu Jehóva geri okkur ónæm fyrir vondum áhrifum. Ímyndaðu þér að þú sért úti í nístingskulda og vindi. Þegar þú kemur heim hækkarðu hitann í húsinu. En hvaða gagn væri að því ef þú lokaðir ekki útidyrahurðinni? Það yrði fljótt kalt í húsinu. Það er ekki nóg að nærast andlega til að halda okkur nálægt Jehóva. Við þurfum líka að loka á óheilnæm áhrif svo að kuldi þessa heims, eða óguðleg viðhorf, spilli ekki hjarta okkar og sambandi við Jehóva. – Ef. 2:2.

ÞEIR IÐRUÐUST SYNDA SINNA

8, 9. Hvernig brugðust konungarnir Davíð og Hiskía við aga? (Sjá mynd.)

8 Eins og áður er minnst á syndgaði Davíð konungur alvarlega. En þegar Natan spámaður benti honum á synd hans brást hann auðmjúkur við og iðraðist. (2. Sam. 12:13) Það sem Davíð segir í Sálmi 51 bendir til þess að hann hafi iðrast í einlægni. Davíð þóttist ekki bara sjá eftir þessu til að blekkja Natan eða sleppa við refsingu. – Sálm. 51:3, 4, 17, yfirskrift.

9 Hiskía konungur syndgaði líka gegn Jehóva. Biblían segir: „Hjarta hans var orðið hrokafullt. Þess vegna kom reiði Guðs yfir hann, Júda og Jerúsalem.“ (2. Kron. 32:25) Hvers vegna varð Hiskía hrokafullur? Honum fannst kannski mikið til sín koma vegna auðæfa sinna, sigra yfir Assýringum eða af því að hann læknaðist af sjúkdómi fyrir kraftaverk. Kannski var það hroki sem varð til þess að hann montaði sig af ríkidæmi sínu frammi fyrir Babýloníumönnum. Fyrir vikið ávítaði Jesaja spámaður hann. (2. Kon. 20:12–18) En Hiskía iðraðist auðmjúklega, rétt eins og Davíð. (2. Kron. 32:26) Þegar uppi var staðið leit Jehóva á hann sem trúfastan konung sem „gerði það sem var rétt“. – 2. Kon. 18:3.

Konungarnir Davíð og Hiskía iðruðust einlæglega eftir að þeim var bent á syndir sínar. (Sjá 8. og 9. grein.)


10. Hvernig brást Amasía konungur við aga?

10 Ólíkt Davíð og Hiskía gerði Amasía Júdakonungur það sem var rétt en „þó ekki af heilu hjarta“. (2. Kron. 25:2) Hvað fór úrskeiðis? Amasía fór að tilbiðja guði Edómíta eftir að hann sigraði þá með hjálp Jehóva. c Síðan þegar spámaður Jehóva talaði um það við hann sýndi hann hroka og vísaði honum brott. – 2. Kron. 25:14–16.

11. Hvað þurfum við að gera til að fá fyrirgefningu samkvæmt 2. Korintubréfi 7:9, 11? (Sjá einnig myndir.)

11 Hvað lærum við af þessum frásögum? Við þurfum að iðrast synda okkar og gera allt sem við getum til að endurtaka þær ekki. Hvað ef við fáum leiðréttingu frá safnaðaröldungunum í máli sem virðist ekki svo mikilvægt? Það merkir ekki að Jehóva elski okkur ekki eða að öldungarnir hafi eitthvað á móti okkur. Góðu konungarnir í Ísrael voru ekki einu sinni yfir það hafnir að fá leiðréttingu og aga. (Hebr. 12:6) Þegar við fáum leiðréttingu ættum við að (1) sýna auðmýkt, (2) gera nauðsynlegar breytingar og (3) halda áfram að þjóna Jehóva af heilu hjarta. Jehóva fyrirgefur okkur ef við iðrumst synda okkar. – Lestu 2. Korintubréf 7:9, 11.

Þegar við fáum leiðréttingu ættum við að (1) sýna auðmýkt, (2) gera nauðsynlegar breytingar og (3) halda áfram að þjóna Jehóva af heilu hjarta. (Sjá 11. grein.) f


ÞEIR HVIKUÐU EKKI FRÁ SANNRI TILBEIÐSLU

12. Hvernig skáru trúföstu konungarnir sig úr?

12 Konungarnir sem Jehóva áleit trúfasta hvikuðu ekki frá sannri tilbeiðslu. Og þeir hvöttu þegna sína til að gera slíkt hið sama. Þeir voru að sjálfsögðu ekki gallalausir eins og við höfum komist að raun um. En þeir tilbáðu einungis Jehóva og háðu harða baráttu til að útrýma skurðgoðadýrkun úr landinu. d

13. Hvers vegna var Akab konungur ótrúr í augum Jehóva?

13 Hvað um þá konunga sem voru ótrúir í augum Jehóva? Þeir voru ekki alvondir. Akab konungur sýndi jafnvel auðmýkt og iðrun að vissu marki vegna aðildar sinnar að morðinu á Nabót. (1. Kon. 21:27–29) Hann byggði líka borgir og vann sigra fyrir Ísrael. (1. Kon. 20:21, 29; 22:39) En Akabs er minnst fyrir að stuðla að falskri tilbeiðslu að undirlagi eiginkonu sinnar og hann iðraðist þess aldrei. – 1. Kon. 21:25, 26.

14. (a) Hvers vegna var Rehabeam konungur ótrúr í augum Jehóva? (b) Hvað áttu flestir ótrúir konungar sameiginlegt?

14 Skoðum nánar sögu hins ótrúa konungs, Rehabeams. Eins og áður hefur komið fram gerði hann ýmislegt gott í stjórnartíð sinni. En þegar hann var orðinn fastur í sessi yfirgaf hann lög Jehóva og fór að tilbiðja falsguði. (2. Kron. 12:1) Þaðan í frá sveiflaðist hann á milli sannrar og falskrar tilbeiðslu. (1. Kon. 14:21–24) En Rehabeam og Akab voru ekki einu konungarnir sem viku frá sannri tilbeiðslu. Flestir hinna ótrúu konunga gerðust sekir um að styðja falsguðadýrkun á einn eða annan hátt. Í augum Jehóva voru góðir konungar greinilega þeir sem héldu sig fast við sanna tilbeiðslu.

15. Hvers vegna er sönn tilbeiðsla mikilvæg í augum Jehóva?

15 Hvers vegna skipti það Jehóva máli hvernig konungarnir tilbáðu hann? Ein ástæðan er sú að þeir báru ábyrgð á því gagnvart Guði að kenna fólki að tilbiðja hann á réttan hátt. Auk þess fer fólk að drýgja alvarlegar syndir og koma illa fram við aðra ef það tilbiður falsguði. (Hós. 4:1, 2) Konungarnir og þegnar þeirra voru þar að auki vígðir Jehóva. Þess vegna líkir Biblían falstrúariðkun við hjúskaparbrot. (Jer. 3:8, 9) Sá sem fremur hjúskaparbrot brýtur gegn maka sínum, þeim sem hann ætti síst að brjóta gegn, og særir hann djúpt. Vígðir þjónar Jehóva sem fara út í falstrú valda honum sömuleiðis mjög mikilli hryggð. e5. Mós. 4:23, 24.

16. Hvað greinir réttlátan mann frá vondum í augum Jehóva?

16 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Við þurfum að vera ákveðin í að forðast allt sem tengist falstrú. En við þurfum líka að halda okkur fast við sanna tilbeiðslu og vera virk í trúnni. Malakí spámaður benti á muninn á góðum manni og vondum í augum Jehóva. Hann skrifaði: „Þá sjáið þið aftur muninn á réttlátum manni og vondum, á þeim sem þjónar Guði og þeim sem þjónar honum ekki.“ (Mal. 3:18) Við megum ekki leyfa neinu – ekki heldur ófullkomleika okkar og mistökum – að draga úr okkur kjarkinn svo að við hættum jafnvel að þjóna Jehóva. Það væri í sjálfu sér alvarleg synd ef við gerðum það.

17. Hvernig gæti reynt á hollustu okkar við Jehóva þegar við veljum okkur maka?

17 Gæti það sem Malakí sagði um að þjóna Jehóva hjálpað þér að velja þér réttan maka? Sá sem þú hefur augastað á gæti búið yfir ýmsum góðum eiginleikum en ef hann þjónar ekki hinum sanna Guði er þá hægt að segja að hann sé réttlátur í augum Jehóva? (2. Kor. 6:14) Myndi hann hafa jákvæð áhrif á samband þitt við Jehóva? Hugleiddu þetta: Heiðnu eiginkonurnar sem Salómon konungur átti hafa örugglega haft einhverja góða eiginleika. En þær tilbáðu ekki Jehóva og lokkuðu Salómon með tímanum til að tilbiðja falsguði. – 1. Kon. 11:1, 4.

18. Hvað ættu foreldrar að kenna börnunum sínum?

18 Foreldar, þið getið notað frásögur Biblíunnar af konungunum til að kenna börnum ykkar að þjóna Jehóva af brennandi áhuga. Útskýrið fyrir þeim að það sem réði að miklu leyti hvort Jehóva liti á konung sem góðan eða vondan var hvaða sæti sönn tilbeiðsla skipaði í lífi hans. Kennið börnum ykkar með orðum og fordæmi að andleg mál, eins og nám í Biblíunni, samkomusókn og þátttaka í boðuninni, ættu að vera það mikilvægasta í lífinu. (Matt. 6:33) Annars gætu þau farið að halda að það sé rétt að þjóna Jehóva bara af því að foreldrarnir gera það. Það gæti orðið til þess að þau setji tilbeiðsluna í annað sætið eða hætti jafnvel að þjóna Jehóva.

19. Er öll von úti fyrir þá sem hafa hætt að þjóna Jehóva? (Sjá einnig rammagreinina „ Þú getur snúið aftur til Jehóva“)

19 Er öll von úti fyrir þann sem hefur hætt að þjóna Jehóva? Nei. Hann getur iðrast og snúið aftur til sannrar tilbeiðslu. Hann gæti þurft að kyngja stolti sínu og þiggja hjálp frá öldungunum. (Jak. 5:14) Það er erfiðisins virði að endurheimta vináttu Jehóva.

20. Hvernig lítur Jehóva á okkur ef við líkjum eftir trúföstu konungunum?

20 Hvað höfum við lært af frásögum Biblíunnar af konungum Ísraels? Við getum verið eins og trúföstu konungarnir ef hjarta okkar er heilt gagnvart Jehóva. Lærum af mistökum okkar, iðrumst og leiðréttum stefnu okkar ef þess er þörf. Og munum að það er mikilvægt að halda sig fast við tilbeiðsluna á hinum eina sanna Guði. Ef þú ert trúfastur Jehóva þá ertu réttlátur í augum hans.

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

a Í þessari námsgrein eiga „Ísraelskonungar“ við um alla konunga sem ríktu yfir þjóð Jehóva, hvort sem þeir voru yfir tveggjaættkvíslaríkinu Júda, tíuættkvíslaríkinu Ísrael eða yfir öllum 12 ættkvíslunum.

b ORÐASKÝRING: Biblían notar oft orðið „hjarta“ til að lýsa hinum innri manni sem felur í sér langanir, hugsanir, afstöðu, viðhorf, hæfni, hvatir og markmið.

c Það var augljóslega siður heiðinna konunga að tilbiðja guði þjóðar sem þeir sigruðu.

d Asa konungur drýgði alvarlegar syndir. (2. Kron. 16:7, 10) En Biblían talar samt vel um hann. Þegar spámaður Jehóva áminnti hann brást hann illa við í fyrstu en mögulega iðraðist hann síðar. Góðir eiginleikar hans höfðu meira vægi en mistökin sem hann gerði. Asa tilbað Jehóva einan og var mikið í mun að útrýma skurðgoðadýrkun úr ríkinu. – 1. Kon. 15:11–13; 2. Kron. 14:2–5.

e Tvö fyrstu boðorð Móselaganna bönnuðu tilbeiðslu á nokkrum eða nokkru öðru en Jehóva. – 2. Mós. 20:1–6.

f MYND: Ungur öldungur kemur að máli við annan bróður varðandi áfengisneyslu hans. Bróðirinn sýnir auðmýkt og tekur við leiðbeiningunum, gerir nauðsynlegar breytingar og þjónar Jehóva áfram trúfastlega.