Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 29

SÖNGUR 121 Sýnum sjálfsaga

Verum á verði gegn freistingum

Verum á verði gegn freistingum

„Vakið og biðjið stöðugt svo að þið látið ekki undan freistingum.“MATT. 26:41.

Í HNOTSKURN

Þessi námsgrein minnir okkur á þörfina á að berjast gegn syndinni og að við þurfum að vara okkur á því sem getur leitt til syndar.

1, 2. (a) Hvaða viðvörun gaf Jesús lærisveinum sínum? (b) Hvers vegna létu lærisveinarnir undan mannlegum veikleika? (Sjá einnig myndir.)

 „ANDINN er að vísu ákafur en holdið er veikt.“ a (Matt. 26:41b) Með þessum orðum sýndi Jesús að hann hafði skilning á ófullkomleika okkar. En í þeim er líka að finna viðvörun: Við megum ekki vera of örugg með okkur. Fyrr um kvöldin höfðu lærisveinarnir lýst því yfir að þeir myndu aldrei yfirgefa hann. (Matt. 26:35) Þeir vildu gera það sem er rétt. Þeir áttuðu sig samt ekki á því hversu skyndilega trú þeirra gat bilað þegar á reyndi. Þess vegna gaf Jesús þeim viðvörunina: „Vakið og biðjið stöðugt svo að þið látið ekki undan freistingum.“ – Matt. 26:41a.

2 Því miður voru lærisveinarnir ekki á verði. Stóðu þeir við hlið Jesú þegar hann var handtekinn eða urðu þeir hræddir og flúðu? Þetta kom þeim í opna skjöldu og þeir gerðu nákvæmlega það sem þeir sögðu að þeir myndu ekki gera – þeir yfirgáfu Jesú. – Matt. 26:56.

Jesús áminnir lærisveina sína um að vera vakandi og á verði gegn freistingum en þeir yfirgefa hann samt. (Sjá 1. og 2. grein.)


3. (a) Hvers vegna þurfum við að forðast að vera of örugg með okkur til að vera Jehóva trúföst? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

3 Við megum ekki við því að vera of örugg með okkur. Við erum að sjálfsögðu ákveðin í að gera ekkert sem spillir sambandinu við Jehóva. En við erum samt ófullkomin og viðkvæm fyrir freistingum. (Rómv. 5:12; 7:21–23) Við gætum skyndilega lent í aðstæðum þar sem röng breytni virðist í góðu lagi. Til að vera Jehóva og syni hans trú þurfum við að fylgja leiðsögn Jesú um að vera á verði gegn freistingu og synd. Þessi námsgrein hjálpar okkur að gera það. Fyrst skoðum við á hvaða sviðum við þurfum sérstaklega að vera á verði. Síðan ræðum við um hvernig við verjum okkur gegn freistingu. Að lokum athugum við hvernig við höldum áfram að vera á verði.

Á HVAÐA SVIÐUM ÞARFTU AÐ VERA Á VERÐI?

4, 5. Hvers vegna er mikilvægt að vera á verði gegn minni háttar syndum?

4 Syndir sem virðast jafnvel ekki svo alvarlegar geta veikt sambandið við Jehóva. Þær geta líka leitt til þess að við drýgjum alvarlegri syndir.

5 Öll verðum við fyrir freistingum til að syndga. En við höfum öll veikleika, eitthvað sem freistar okkar sérstaklega til að gera rangt. Einn berst til dæmis við þá freistingu að taka þátt í óleyfilegu kynlífi. Annar hneigist að öðru sem er óhreint, eins og sjálfsfróun eða klámi. Og enn annar getur átt erfitt með að hafa stjórn á reiði, stolti eða óttast stöðugt hvað öðrum finnst. Það er eins og Jakob sagði: ‚Girnd hvers og eins reynir hann með því að lokka hann og tæla.‘ – Jak. 1:14.

6. Hvað þurfum við að viðurkenna hreinskilnislega?

6 Veist þú á hvaða sviðum þú ert veikastur fyrir? Það er hættulegt að hunsa veikleika okkar og álíta okkur svo sterk að við munum ekki syndga. (1. Jóh. 1:8) Páll benti á að jafnvel þeir ‚sem eru þroskaðir í trúnni‘ geti látið undan freistingu ef þeir eru ekki á verði. (Gal. 6:1) Við þurfum að vera heiðarleg, líta í eigin barm og viðurkenna veikleika okkar. – 2. Kor. 13:5.

7. Hverju ættum við að gefa sérstakan gaum? Lýstu með dæmi.

7 Hvað ættum við að gera þegar við höfum komið auga á hvar við erum veikust fyrir? Við þurfum að styrkja varnir okkar. Tökum dæmi. Á biblíutímanum voru borgarhliðin veikustu hlutar borgarmúranna. Þess vegna var mesta gæslan við borgarhliðin. Við þurfum á svipaðan hátt að beina athyglinni sérstaklega að því hvar við erum veikust fyrir. – 1. Kor. 9:27.

HVERNIG GETURÐU VERIÐ Á VARÐBERGI?

8, 9. Hvernig hefði ungi maðurinn sem er fjallað um í Orðskviðunum 7. kafla getað forðast að drýgja alvarlega synd? (Orðskviðirnir 7:8, 9, 13, 14, 21)

8 Hvernig getum við verið á verði? Skoðum hvað við getum lært af frásögunni um unga manninn í Orðskviðunum 7. kafla. Hann drýgði synd með siðlausri konu. Það segir í 22. versi að ungi maðurinn hafi farið „skyndilega“ á eftir henni. En þegar við skoðum versin á undan sjáum við að hann hafði tekið nokkrar óskynsamlegar ákvarðanir sem stig af stigi leiddu til syndar.

9 Hvað varð til að hann syndgaði? Þegar komið var kvöld ‚gekk hann nálægt götuhorninu þar sem [siðlausa konan] bjó‘. Síðan fór hann að húsinu hennar. (Lestu Orðskviðina 7:8, 9.) Þegar hann svo sá konuna hætti hann ekki við. Hann leyfði henni að kyssa sig og hlustaði þegar hún sagði honum frá samneytisfórnunum sem hún hafði fært, ef til vill til að gefa í skyn að hún væri ekki vond manneskja. (Lestu Orðskviðina 7:13, 14, 21.) Ef ungi maðurinn hefði ekki tekið svona óskynsamar ákvarðanir hefði hann átt auðveldara með að forðast freistinguna og syndina.

10. Hvernig gæti einstaklingur nú á dögum gert sömu mistök og ungi maðurinn?

10 Frásaga Salómons sýnir hvað getur hent hvern sem er af þjónum Jehóva. Hann gæti drýgt alvarlega synd og seinna fundist allt hafa gerst svo „skyndilega“. Eða hann gæti sagt: Þetta gerðist bara. En ef hann hugsar út í hvað gerðist í raun og veru uppgötvar hann líklega að hann hafi tekið óskynsamlegar ákvarðanir sem leiddu til þess að hann syndgaði. Þessar ákvarðanir gætu hafa tengst röngum félagskap, óheilnæmu afþreyingarefni eða þá að hann hefur farið á vafasama staði í eigin persónu eða á netinu. Kannski var hann líka hættur að biðja, lesa í Biblíunni, sækja samkomur eða taka þátt í boðuninni. Rétt eins og hjá unga manninum sem er rætt um í Orðskviðunum hefur hann kannski ekki syndgað svo „skyndilega“.

11. Hvað þurfum við að forðast til að við drýgjum ekki synd?

11 Hvað lærum við? Við þurfum ekki bara að forðast syndina sjálfa heldur þær ákvarðanir sem gætu leitt til syndar. Það er einmitt þetta sem Salómon bendir á eftir að hafa sagt frá unga manninum og siðlausu konunni. Hann segir: „Villstu ekki inn á leiðir hennar.“ (Orðskv. 7:25) Hann segir líka um spilltu konuna: „Haltu þig langt frá henni, komdu ekki nálægt húsdyrum hennar.“ (Orðskv. 5:3, 8) Við forðumst syndina með því að halda okkur frá því sem getur leitt til syndar. b Þetta merkir að þótt eitthvað sé í sjálfu sér ekki rangt fyrir þjóna Guðs gætum við þurft að forðast það vegna þess að það gæti freistað okkar til að gera eitthvað rangt. – Matt. 5:29, 30.

12. Hvaða ákvörðun tók Job og hvernig hjálpaði hún honum að standa á móti freistingum? (Jobsbók 31:1)

12 Við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um að forðast aðstæður sem geta leitt til syndar. Það var einmitt það sem Job gerði. Hann ‚gerði sáttmála við augu sín‘ um að horfa aldrei á aðrar konur á ástríðufullan hátt. (Lestu Jobsbók 31:1.) Að fylgja þeirri ákvörðun myndi hjálpa honum að halda sig fjarri því að fremja hjúskaparbrot. Við getum líka verið ákveðin í að forðast hvaðeina sem gæti leitt okkur út í freistingu.

13. Hvers vegna þurfum við að hafa gát á hugsunum okkar? (Sjá einnig myndir.)

13 Við þurfum líka að hafa gát á hugsunum okkar. (2. Mós. 20:17) Sumir halda að það sé ekkert rangt að láta sig dreyma um eitthvað siðlaust svo framarlega sem maður framkvæmir það ekki. En slík hugsun er röng. Sá sem leyfir huganum að dvelja við rangar langanir espir þær upp. Hann býr í rauninni til freistingu sem hann þarf síðan að standast. Rangar hugsanir koma að sjálfsögðu stundum upp í huga okkar. Þá er mikilvægt að hafna þeim samstundis og hugsa um eitthvað gott í staðinn. Þegar við gerum það komum við í veg fyrir að rangar hugsanir verði að sterkum löngunum sem er erfitt að hemja og gætu leitt til þess að við drýgðum alvarlega synd. – Fil. 4:8; Kól. 3:2; Jak. 1:13–15.

Við þurfum að forðast allt sem gæti leitt okkur í freistingu. (Sjá 13. grein.)


14. Hvað fleira getur hjálpað okkur að standa á móti freistingum?

14 Hvað fleira getur hjálpað okkur að standast freistingar? Við þurfum að vera algerlega sannfærð um að það sé okkur alltaf fyrir bestu að hlýða lögum Jehóva. Það getur stundum verið barátta að samræma hugsanir og langanir okkar vilja Guðs en hugarfriðurinn sem það færir okkur er fyrirhafnarinnar virði.

15. Hvers vegna er sterk löngun til að gera rétt hjálp til að varast freistingar?

15 Við þurfum að tileinka okkur réttar langanir. Ef við lærum að ‚hata hið illa og elska hið góða‘ styrkjum við ásetning okkar um að gera það sem er rétt og forðumst aðstæður sem leiða til syndar. (Amos 5:15) Réttar langanir styrkja okkur líka til að vera ákveðin ef við mætum freistingu sem við sáum ekki fyrir eða gátum ekki komið í veg fyrir.

16. Hvernig getur andleg dagskrá hjálpað okkur að vera á verði? (Sjá einnig myndir.)

16 Hvernig getum við ræktað með okkur réttar langanir? Við ættum að vera eins upptekin af því og mögulegt er að gera það sem styrkir kærleika okkar til Jehóva. Þegar við erum á samkomum eða í boðuninni styrkjum við löngunina til að gleðja Jehóva og það er ekki eins auðvelt að freista okkar til að gera eitthvað rangt. (Matt. 28:19, 20; Hebr. 10:24, 25) Kærleikur okkar til hins góða og hatur okkar á hinu illa eykst þegar við lesum og rannsökum orð Guðs og hugleiðum það. (Jós. 1:8; Sálm. 1:2, 3; 119:97, 101) Munum eftir því sem Jesús sagði við lærisveinana: „Biðjið stöðugt svo að þið látið ekki undan freistingum.“ (Matt. 26:41) Þegar við eigum samverustundir með föður okkar á himnum nýtum við okkur hjálp hans og styrkjum ásetning okkar að gleðja hann. – Jak. 4:8.

Góð andleg dagskrá styrkir okkur til að standa á móti freistingum. (Sjá 16. grein.) c


VERTU ÁFRAM Á VERÐI

17. Hvaða veikleiki kom oftar en einu sinni í ljós hjá Pétri?

17 Við getum trúlega sigrast algerlega á sumum veikleikum. En við gætum átt í erfiðleikum með að losa okkur við aðra. Tökum Pétur postula sem dæmi. Hann lét undan ótta við menn þegar hann afneitaði Jesú þrisvar. (Matt. 26:69–75) Pétur virtist hafa sigrast á þessum ótta þegar hann bar hugrakkur vitni fyrir Æðstaráðinu. (Post. 5:27–29) En nokkrum árum síðar hætti hann um tíma að sitja til borðs með þjónum Jehóva af þjóðunum „af ótta við þá sem aðhylltust umskurð“. (Gal. 2:11, 12) Veikleiki Péturs kom aftur upp á yfirborðið. Honum hafði kannski aldrei tekist að sigrast alveg á honum.

18. Hvað getur gerst varðandi sumar rangar tilhneigingar?

18 Við gætum upplifað eitthvað svipað. Hvernig þá? Tilhneiging sem við héldum að við hefðum sigrast á gæti aftur gert okkur lífið leitt. Bróðir viðurkennir: „Ég horfði ekki á klám í tíu ár og var viss um að ég hefði sigrast á vandanum. En fíknin lá í dvala og beið eftir tækifæri til að skjóta aftur upp kollinum.“ Hann gafst ekki upp. Hann áttaði sig á því að hann myndi þurfa að gera eitthvað daglega til að berjast gegn þessum veikleika og þyrfti trúlega að gera það allt til enda þessa vonda heimskerfis. Hann lagði sig því enn meira fram til að varast klám og hefur notið stuðnings eiginkonu sinnar og öldunganna.

19. Hvernig getum við barist við þrálátan veikleika?

19 Hvernig getum við barist við þrálátan veikleika svo að það endi ekki með því að við gerum eitthvað rangt? Með því að fylgja ráði Jesú varðandi freistingu: „Vakið.“ Forðastu áfram aðstæður sem geta leitt til freistingar, jafnvel þegar þér finnst þú vera sterkur. (1. Kor. 10:12) Haltu áfram að nota þær aðferðir sem hafa reynst þér vel í baráttunni við veikleikann. Orðskviðirnir 28:14 segja: „Sá sem er stöðugt á varðbergi er hamingjusamur.“ – 2. Pét. 3:14.

UMBUNIN SEM ÞÚ FÆRÐ ÞEGAR ÞÚ ERT Á VERÐI

20, 21. (a) Hvaða umbun hljótum við ef við erum stöðugt á verði gagnvart freistingum? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir okkur ef við leggjum okkur fram við að standast freistingu? (2. Korintubréf 4:7)

20 Við megum vera viss um að það er þess virði að vera á verði gagnvart freistingum. Við gætum notið unaðar af syndinni um skamman tíma en að lifa eftir mælikvarða Jehóva tryggir okkur ósvikna hamingju. (Hebr. 11:25; Sálm. 19:8) Við erum nefnilega hönnuð til að lifa í samræmi við vilja hans. (1. Mós. 1:27) Þá höfum við góða samvisku og von um eilíft líf. – 1. Tím. 6:12; 2. Tím. 1:3; Júd. 20, 21.

21 Að vísu er ‚holdið veikt‘. En það þýðir ekki að staða okkar sé vonlaus. Jehóva er fús til að gefa okkur þann kraft sem við þurfum. (Lestu 2. Korintubréf 4:7.) En tökum eftir að það er krafturinn sem er ofar mannlegum mætti sem Guð sér okkur fyrir. Mannlegi mátturinn – það sem við gerum frá degi til dags til að standa gegn freistingum – er það sem við þurfum að vera tilbúin að leggja fram. Ef við öxlum okkar ábyrgð getum við verið viss um að Jehóva svari bænum okkar og bæti upp það sem á vantar. (1. Kor. 10:13) Við getum verið á verði gegn freistingum með hjálp Jehóva.

SÖNGUR 47 Dag hvern til Jehóva bið

a ORÐASKÝRINGAR: „Andinn“ sem er minnst á í Matteusi 26:41 er aflið sem knýr okkur til verka eða hefur áhrif á það hvernig okkur líður. „Holdið“ er ófullkomleiki okkar. Þótt við gerum okkar besta gætum við látið undan freistingu til að gera það sem Biblían segir að sé rangt ef við gætum okkar ekki.

b Sá sem hefur drýgt alvarlega synd getur fundið hjálp í bókinni Von um bjarta framtíð, kafla 57, lið 1–3 og í greininni „Horfðu fram á við“ í Varðturninum nóvember 2020, bls. 27–29, grein 12–17.

c MYNDIR: Bróðir les dagstextann að morgni dags, les í Biblíunni í hádegishléinu og sækir samkomu um kvöldið.