Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 27

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

Verum hugrökk eins og Sadók

Verum hugrökk eins og Sadók

‚Sadók var hugrakkur ungur kappi.‘1. KRON. 12:28.

Í HNOTSKURN

Fordæmi Sadóks getur hjálpað okkur að vera hugrökk.

1, 2. Hver var Sadók? (1. Kroníkubók 12:22, 26-28)

 SJÁÐU eftirfarandi aðstæður fyrir þér: Yfir 340.000 manns höfðu safnast saman til að krýna Davíð sem konung yfir öllum Ísrael. Í þrjá daga höfðu glaðlegar samræður, söngvar og hlátrasköll bergmálað í hlíðum Hebron. (1. Kron. 12:39) Það er ólíklegt að ungur maður, Sadók að nafni, hafi skorið sig úr fjöldanum. En Jehóva sá til þess að við fengjum að vita að Sadók var á staðnum. (Lestu 1. Kroníkubók 12:22, 26–28.) Hver var Sadók?

2 Sadók var prestur sem vann náið með Abjatar æðstapresti. Hann var einnig sjáandi sem fékk að vita vilja Guðs og var veitt einstakt innsæi. (2. Sam. 15:27) Fólk leitaði til Sadóks til að fá viturleg ráð. Hann var líka hugrakkur maður. Í þessari námsgrein beinum við einmitt athyglinni að þessum eiginleika hans.

3. (a) Af hverju þurfa þjónar Jehóva að vera hugrakkir? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

3 Nú á þessum síðustu tímum reynir Satan meira en nokkru sinni fyrr að ráðast á þjóna Guðs. (1. Pét. 5:8) Við þurfum að vera hugrökk á meðan við bíðum eftir að Jehóva bindi enda á þetta vonda heimskerfi og taki Satan úr umferð. (Sálm. 31:24) Skoðum þrennt varðandi hugrekki Sadóks sem við getum líkt eftir.

STYÐJUM GUÐSRÍKI

4. Hvers vegna þurfa þjónar Jehóva að vera hugrakkir til að styðja Guðsríki? (Sjá einnig mynd.)

4 Við sem erum þjónar Jehóva styðjum Guðsríki af öllu hjarta en við þurfum oft á hugrekki að halda til að gera það. (Matt. 6:33) Í þessum illa heimi þurfum við til dæmis að vera hugrökk til að lifa í samræmi við mælikvarða Jehóva og boða fagnaðarboðskapinn. (1. Þess. 2:2) Og það krefst oft hugrekkis að vera hlutlaus í pólitískum deilumálum þessa heims sem verður stöðugt sundraðri. (Jóh. 18:36) Margir þjónar Jehóva hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni eða hafa þurft að sæta ofbeldi eða fangavist fyrir að neita að taka þátt í stjórnmálum eða hernaði.

Hvað ætlar þú að gera þegar aðrir taka pólitíska afstöðu? (Sjá 4. grein.)


5. Hvers vegna þurfti Sadók að vera hugrakkur til að styðja Davíð?

5 Sadók fór ekki bara til Hebron til að vera við krýningu Davíðs heldur fór hann þangað vopnaður og tilbúinn til bardaga. (1. Kron. 12:38) Hann var tilbúinn til að fylgja Davíð í orrustu og verja Ísrael. Það sem Sadók skorti hugsanlega á sviði hernaðar bætti hann upp með hugrekki.

6. Hvernig var Davíð góð fyrirmynd fyrir Sadók í að sýna hugrekki? (Sálmur 138:3)

6 Hvar lærði prestur eins og Sadók að sýna slíkt hugrekki? Allt í kringum hann voru sterkir og hugrakkir menn. Hann hefur vafalaust notið góðs af því. Fordæmi Davíðs í að sýna hugrekki og ‚fara fyrir Ísrael í hernaði‘ var til dæmis hvatning fyrir alla í Ísrael til að styðja hann heils hugar. (1. Kron. 11:1, 2) Davíð reiddi sig alltaf á Jehóva til að fá stuðning gegn óvinum sínum. (Sálm. 28:7; lestu Sálm 138:3.) Sadók hafði einnig aðrar hvetjandi fyrirmyndir sér við hlið – menn eins og Jójada og son hans Benaja sem var stríðskappi, auk 22 ættarforingja sem studdu Davíð. (1. Kron. 11:22–25; 12:26–28) Allir þessir menn voru staðráðnir að styðja Davíð sem konung.

7. (a) Hvaða fyrirmyndir höfum við nú á dögum um hugrekki? (b) Hvað lærum við af bróður Nsilu eins og kemur fram í myndbandinu?

7 Við öðlumst styrk og hugrekki þegar við skoðum fordæmi þeirra sem hafa stutt stjórn Jehóva af hugrekki. Jesús Kristur konungur okkar var ákveðinn í að láta ekki flækja sig í stjórnmálakerfi Satans. (Matt. 4:8–11; Jóh. 6:14, 15) Hann reiddi sig alltaf á styrk Jehóva. Við höfum líka ótalmörg fordæmi ungra manna sem hafa neitað að gegna herþjónustu af samviskuástæðum eða að taka þátt í stjórnmálum. Við getum lesið um þá á jw.org. a

HJÁLPUM TRÚSYSTKINUM OKKAR

8. Hvenær gætu öldungar þurft á hugrekki að halda til að veita trúsystkinum sínum hjálp?

8 Þjónar Jehóva hafa yndi af því að hjálpa hver öðrum. (2. Kor. 8:4) En það kostar stundum hugrekki. Þegar til dæmis stríð brýst út gera öldungarnir sér ljóst að bræður og systur þurfa uppörvun, stuðning og jafnvel andlega og efnislega hjálp. Kærleikur til sauðanna knýr öldunga til þess að stofna eigin öryggi í hættu og veita nauðsynlega hjálp. (Jóh. 15:12, 13) Þannig líkja þeir eftir hugrekki Sadóks.

9. Hvað sagði Davíð Sadók að gera eins og kemur fram í 2. Samúelsbók 15:27–29? (Sjá einnig mynd.)

9 Davíð var í lífshættu. Absalon sonur hans var ákveðinn í að ræna hann völdum. (2. Sam. 15:12, 13) Davíð þurfti að yfirgefa Jerúsalem í flýti! Hann hrópaði til þjóna sinna: „Komið, við verðum að flýja því að annars kemst enginn okkar undan Absalon.“ (2. Sam. 15:14) Þegar þeir héldu af stað áttaði Davíð sig á því að einhver þyrfti að vera eftir til þess að fylgjast með ráðabruggi Absalons. Hann sendi því Sadók og aðra presta til baka til borgarinnar til að vera uppljóstrarar fyrir hann. (Lestu 2. Samúelsbók 15:27–29.) Þeir þurftu að fara varlega. Það sem Davíð sagði þessum prestum að gera var áhættusamt og jafnvel lífshættulegt. Ímyndaðu þér hvað Absalon, sem var sjálfselskur, hefnigjarn og sviksamur maður, hefði gert við Sadók og prestana ef hann hefði komist að því að þeir væru að njósna um hann til að vernda Davíð!

Davíð fól Sadók hættulegt verkefni. (Sjá 9. grein.)


10. Hvernig vernduðu Sadók og þeir sem voru með honum Davíð?

10 Davíð lagði á ráðin og fékk Sadók og annan vin sinn, Húsaí, í lið með sér. (2. Sam. 15:32–37) Húsaí vann traust Absalons og mælti með herbragði sem myndi gefa Davíð ráðrúm til að búa sig undir árás. Því næst upplýsti Húsaí Sadók og Abjatar um það sem þeir höfðu ákveðið. (2. Sam. 17:8–16) Í framhaldinu gátu þeir komið upplýsingum til Davíðs um málið. (2. Sam. 17:17) Með hjálp Jehóva gegndu Sadók og hinir prestarnir stóru hlutverki í að vernda líf Davíðs. – 2. Sam. 17:21, 22.

11. Hvernig getum við verið hugrökk eins og Sadók þegar við hjálpum trúsystkinum okkar?

11 Hvernig geturðu sýnt hugrekki eins og Sadók ef þú ert beðinn um að hjálpa trúsystkinum sem eru í hættu? (1) Fylgdu fyrirmælum. Við slíkar kringumstæður er sérstaklega mikilvægt að við séum sameinuð. Vertu samstarfsfús þegar þú færð fyrirmæli frá deildarskrifstofunni. (Hebr. 13:17) Öldungar ættu reglulega að endurskoða viðbragðsáætlanir á svæðinu og leiðbeiningar safnaðar Guðs varðandi yfirvofandi hamfarir. (1. Kor. 14:33, 40) (2) Vertu hugrakkur en varkár. (Orðskv. 22:3) Hugsaðu áður en þú framkvæmir. Ekki taka óþarfa áhættu. (3) Treystu á Jehóva. Mundu að Jehóva er mjög umhugað um velferð þína og trúsystkina þinna. Hann getur hjálpað þér að koma trúsystkinum þínum til hjálpar.

12, 13. Hvað getum við lært af reynslu Viktors og Vítalíȷ́? (Sjá einnig mynd.)

12 Skoðum reynslu öldunganna Viktors og Vítalíȷ́, en þeir fengu það verkefni að koma mat og vatni til trúsystkina sinna í Úkraínu. „Við leituðum alls staðar að mat,“ segir Viktor. „Við lentum oft í miðjum skotárásum. Einn bróðir gaf matvæli sem hann hafði geymt í kjallara. Þessi gjöf gerði mörgum boðberum kleift að komast af um tíma. Eitt sinn þegar við vorum að hlaða vörubíl lenti sprengja í um 20 metra fjarlægð frá okkur. Allan daginn sárbændi ég Jehóva að veita mér það hugrekki sem ég þurfti til að hjálpa boðberunum.“

13 „Þetta útheimti mikið hugrekki,“ segir Vítalíȷ́. „Fyrsta ferðin tók 12 klukkustundir. Ég bað til Jehóva alla leiðina.“ Vítalíȷ́ var hugrakkur en hann var líka varkár. Hann bætir við: „Ég bað Jehóva stöðugt um visku og hógværð. Ég keyrði aðeins þar sem yfirvöld höfðu gefið leyfi til þess. Það var trústyrkjandi að sjá með eigin augum hvernig bræður og systur unnu saman. Þau hreinsuðu vegi og komu með mat, föt og aðrar nauðsynjar í flutningarbílinn og sáu okkur Viktori fyrir fæði og húsaskjóli á leiðinni.“

Vertu hugrakkur en varkár þegar þú hjálpar trúsystkinum þínum á hættustund. (Sjá 12. og 13. grein.)


VERUM JEHÓVA TRÚFÖST

14. Hvaða áhrif gæti það haft á okkur ef einhver nákominn okkur yfirgefur Jehóva?

14 Eitt af því erfiðasta sem við getum upplifað er það ef einhver í fjölskyldunni eða vinur okkar yfirgefur Jehóva. (Sálm. 78:40; Orðskv. 24:10) Því nánari tengsl sem við höfum við hann því erfiðara er að sætta sig við það. Ef þú hefur upplifað svo sársaukafulla reynslu getur hollusta Sadóks verið þér hvatning.

15. Hvers vegna þurfti Sadók að vera hugrakkur til að vera trúfastur Jehóva? (1. Konungabók 1:5–8)

15 Sadók hélt áfram að vera trúfastur Jehóva þegar náin vinur hans, Abjatar, kaus að vera honum ótrúr. Þetta gerðist við lok stjórnartíðar Davíðs. Þegar Davíð lá fyrir dauðanum reyndi Adónía sonur hans að ræna konungdæminu sem Jehóva hafði lofað Salómon. (1. Kron. 22:9, 10) Abjatar kaus að styðja Adónía. (Lestu 1. Konungabók 1:5–8.) Með því var Abjatar ekki bara ótrúr Davíð heldur líka Jehóva. Geturðu ímyndað þér hvað Sadók hefur verið vonsvikinn og dapur? Hann og Abjatar höfðu unnið náið saman sem prestar í um fjóra áratugi. (2. Sam. 8:17) Þeir höfðu annast „örk hins sanna Guðs“ saman. (2. Sam. 15:29) Upphaflega höfðu þeir báðir stutt konungdóm Davíðs og gert margt fleira saman í þjónustu Jehóva. – 2. Sam. 19:11–14.

16. Hvað gæti hafa hjálpað Sadók að vera trúfastur?

16 Sadók varðveitti ráðvendni sína við Jehóva þrátt fyrir ákvörðun Abjatars. Davíð efaðist aldrei um trúfesti Sadóks. Þegar ráðabrugg Adónía var afhjúpað fól Davíð Sadók, Natan og Benaja að smyrja Salómon sem konung. (1. Kon. 1:32–34) Það hlýtur að hafa styrkt og uppörvað Sadók að umgangast trúfasta tilbiðjendur Jehóva, eins og Natan og aðra sem studdu Davíð konung. (1. Kon. 1:38, 39) Þegar Salómon varð konungur ‚lét hann Sadók prest taka við embætti Abjatars‘. – 1. Kon. 2:35.

17. Hvernig geturðu líkt eftir Sadók ef einhver nákominn þér yfirgefur Jehóva?

17 Hvernig geturðu líkt eftir Sadók? Ef einhver sem er þér nákominn ákveður að yfirgefa Jehóva skaltu láta skýrt í ljós hvaða ákvörðun þú hefur tekið. (Jós. 24:15) Jehóva mun veita þér þann styrk og hugrekki sem þú þarft. Treystu á hann með því að biðja og með því að vera í nánum tengslum við trúfasta vini þína. Jehóva metur trúfesti þína mikils og umbunar þér fyrir hana. – 2. Sam. 22:26.

18. Hvað lærum við af Marco og Sidse?

18 Skoðum það sem henti hjónin Marco og Sidse, en báðar uppkomnar dætur þeirra yfirgáfu sannleikann. „Frá þeim degi sem börnin okkar fæðast elskum við þau svo innilega,“ segir Marco. „Við gerum hvað sem er til að vernda þau. Við erum því harmi slegin ef þau kjósa að yfirgefa Jehóva.“ Hann heldur áfram: „En Jehóva hefur styrkt okkur. Hann hefur séð til þess að þegar ég er vanmáttugur er konan mín sterk og þegar hún er kjarklítil þá er ég sterkur.“ Sidse bætir við: „Við hefðum ekki komist í gegnum þetta ef Jehóva hefði ekki gefið okkur þann styrk sem við þurftum. Ég glímdi við þá tilfinningu að þetta væri mér að kenna og sagði Jehóva hvernig mér leið. Stuttu seinna kom til mín systir sem ég hafði ekki séð í mörg ár. Hún lagði hendur á axlir mér, horfði í augu mér og sagði: ‚Mundu Sidse, þetta er ekki þér að kenna!‘ Með hjálp Jehóva hefur mér tekist að halda gleðinni í þjónustu hans.“

19. Hvernig geturðu sótt styrk í fordæmi Sadóks?

19 Jehóva vill að allir þjónar sínir séu hugrakkir eins og Sadók. (2. Tím. 1:7) Hann vill samt ekki að við reiðum okkur á eigin styrk heldur á sig. Snúðu þér því til Jehóva þegar þú lendir í aðstæðum þar sem þú þarft á hugrekki að halda. Þú mátt treysta því að hann getur gert þig eins hugrakkan og Sadók! – 1. Pét. 5:10.

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

a Sjá myndbandið Hvers vegna þurfa sannkristnir menn að vera hugrakkir? – Til að varðveita hlutleysi sitt á jw.org.