Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva hlustaði á bænir mínar

Jehóva hlustaði á bænir mínar

KVÖLD eitt þegar ég var tíu ára strákur horfði ég dáleiddur á sindrandi stjörnuhimininn. Ég fann mig knúinn til að krjúpa á hné og biðja til Guðs. Ég hafði nýlega heyrt um Jehóva en tjáði honum þarna innstu hugsanir mínar og tilfinningar. Þessi bæn var upphafið af náinni vináttu við Jehóva Guð, hann sem „heyrir bænir“. (Sálm. 65:2) Mig langar að segja ykkur frá því hvers vegna ég bað til Guðs sem ég hafði nýlega fengið að kynnast.

HEIMSÓKN SEM BREYTTI LÍFI MÍNU

Ég fæddist 22. desember 1929 í Noville, afskekktri þyrpingu sveitabæja nálægt Bastogne Ardennes í Belgíu. Ég á góðar minningar frá því ég var barn á sveitabænum með fjölskyldunni. Við Raymond bróðir minn handmjólkuðum kýrnar á hverjum degi og hjálpuðum til við uppskeruna. Í þorpinu okkar hjálpuðust allir að.

Með fjölskyldunni við vinnu á sveitabænum.

Foreldar mínir, Emile og Alice, voru einlægir kaþólikkar. Þau sóttu messu á hverjum sunnudegi. En árið 1939 komu brautryðjendur frá Englandi í þorpið og buðu pabba áskrift af tímaritinu Consolation (nú Vaknið!). Faðir minn áttaði sig fljótt á því að það sem hann las var sannleikur og hann fór að kynna sér Biblíuna. Þegar hann hætti að sækja messur urðu nágrannar okkar sem höfðu verið vingjarnlegir mjög fjandsamlegir við hann. Þeir reyndu að þvinga hann til að vera áfram kaþólikki og umræðurnar urðu oft heitar.

Ég fann mjög mikið til með föður mínum að vera í þessari aðstöðu. Það varð til þess að ég bað Guð að hjálpa honum eins og ég greini frá í upphafi frásögunnar. Ég var yfir mig glaður þegar andstaða nágrannanna fjaraði út. Þetta sannfærði mig um að Jehóva væri sá sem „heyrir bænir“.

LÍFIÐ Í SÍÐARI HEIMSTYRJÖLDINNI

Þýskaland undir stjórn nasista hertók Belgíu 10. maí 1940 sem kom af stað flótta fjölda borgara. Fjölskyldan okkar flúði til suðurhluta Frakklands. Á leiðinni þangað lentum við í hættulegum aðstæðum þar sem grimmilegir bardagar geisuðu milli Þjóðverja og Frakka.

Þegar við komum aftur á bóndabæinn okkar komumst við að því að flestum eigum okkar hafði verið stolið. Hundurinn okkar, hann Bobbie, tók einn á móti okkur. Þetta allt vakti spurninguna: Hvers vegna eru stríð og hörmungar í heiminum?

Á unglingsárunum ræktaði ég nánara samband við Jehóva.

Um þetta leyti fengum við mikla uppörvun af heimsóknum bróður Emile Schrantz, a trúfasts öldungs og brautryðjanda. Hann útskýrði vel út frá Biblíunni hvers vegna það eru þjáningar í heiminum og svaraði öðrum spurningum mínum um lífið. Ég ræktaði nánara samband við Jehóva og sannfærðist um að hann er Guð kærleikans.

Jafnvel áður en stríðinu lauk fengum við fjölskyldan aukin tækifæri til að hafa félagsskap við trúsystkini. Í ágúst 1943 kom bróðir José-Nicolas Minet í heimsókn til okkar og flutti ræðu. Hann spurði: „Hver er tilbúinn að láta skírast?“ Pabbi og ég réttum upp hönd. Við vorum skírðir í lítilli á nálægt bænum okkar.

Þýski herinn hóf síðustu stóru árásina á vesturvígstöðvunum í desember 1944 – þekkt sem orrustan við Bulge. Við bjuggum nálægt þessum slóðum og vorum innilokuð í kjallaranum í um það bil mánuð. Dag einn þegar ég fór út til að gefa dýunum lenti sprengja á bænum og þakið á hlöðunni sprakk í loft upp. Bandarískur hermaður sem var í hlöðunni hrópaði: „Leggstu niður!“ Ég hljóp og lagðist niður nálægt honum og hann setti hjálminn sinn á höfuðið á mér til að skýla mér.

ÉG ÞROSKAST Í TRÚNNI

Á brúðkaupsdaginn okkar.

Eftir stríðið vorum við í sambandi við söfnuð í Liège, 90 kílómetrum fyrir norðan okkur. Með tímanum gátum við sett á fót biblíunámshóp í Bastogne. Ég fór að vinna hjá skattayfirvöldum og fékk tækifæri til að læra lögfræði. Síðar fékk ég vinnu á vegum ríkistjórnarinnar. Árið 1951 var haldið lítið svæðismót í Bastogne. Um hundrað manns voru viðstaddir, þar á meðal mjög dugleg brautryðjandasystir, Elly Reuter. Hún hjólaði 50 kílómetra leið til að sækja mótið. Við urðum fljótlega ástfangin og trúlofuðum okkur. Elly var búin að fá boð um að sækja Gíleaðskólann í Bandaríkjunum. Hún skrifaði bréf til Aðalstöðvanna til að útskýra hvers vegna hún þurfti að afþakka boðið. Bróðir Knorr sem þá var í forystu þjóna Jehóva svaraði henni hlýlega að hún gæti kannski sótt skólann með manni sínum síðar. Við giftum okkur í febrúar 1953.

Elly með Serge son okkar.

Sama ár fórum við Elly á mót á Yankee Stadium í New York. Þar hitti ég bróður sem bauð mér góða vinnu og hvatti mig til að flytja til Bandaríkjanna. Eftir að hafa hugleitt málin í bænarhug ákváðum við Elly að afþakka boðið og fara aftur til Belgíu og styðja 10 boðbera hópinn í Bastogne. Árið eftir urðum við þeirrar gleði aðnjótandi að eignast drenginn okkar, Serge. En aðeins sjö mánuðum síðar urðum við fyrir því áfalli að hann veiktist og dó. Við töluðum við Jehóva í bæn um sorg okkar og fengum huggun og styrk í upprisuvoninni.

ÞJÓNUSTA Í FULLU STARFI

Í október 1961 fann ég hlutastarf sem gerði mér kleift að vera brautryðjandi. Sama dag hringdi deildarþjónn deildarskrifstofunnar í Belgíu í mig. Hann spurði hvort ég gæti tekið að mér að vera farandhirðir. Ég spurði hvort við gætum fyrst starfað sem brautryðjendur áður en við tækjum þetta verkefni að okkur. Við fengum það. Eftir að hafa starfað sem brautryðjendur í átta mánuði byrjuðum við í farandstarfinu í september 1962.

Eftir að hafa verið tvö ár í farandstarfinu var okkur boðið að starfa á Betel í Brussel og við hófum þjónustu okkar þar í október 1964. Þetta nýja verkefni reyndist mikil blessun. Stuttu eftir að bróðir Knorr heimsótti Betel árið 1965 var ég hissa að vera útnefndur sem deildarþjónn. Síðar var okkur Elly boðið að sækja 41. bekk Gíleaðskólans. Það sem bróðir Knorr sagði 13 árum áður varð nú að veruleika. Eftir útskriftina snerum við aftur á Betel í Belgíu.

BARÁTTAN FYRIR LAGALEGUM RÉTTINDUM OKKAR

Í gegnum árin hefur lögfræðiþekking mín nýst til að verja rétt okkar að tilbiðja Jehóva, bæði í Evrópu og annars staðar. (Fil. 1:7) Ég hef komist í samband við yfirvöld meira en 55 landa þar sem eru hömlur á starfsemi okkar eða hún bönnuð. Ég kynni mig sem þjón Guðs frekar en lögfræðing. Ég legg alltaf málin fyrir Jehóva í bæn, meðvitaður um að „hjarta konungs [eða dómara] er eins og vatnslækir í hendi Jehóva, hann beinir því hvert sem hann vill“. – Orðskv. 21:1.

Ég gleymi ekki samtali sem ég átti við þingmann á Evrópuþinginu. Ég hafði ítrekað beðið um viðtal við hann og að lokum samþykkti hann að hitta mig. Hann sagði: „Þú færð fimm mínútur og ekki mínútu lengur.“ Ég laut höfði og fór með bæn. Þingmaðurinn spurði órólegur hvað ég væri að gera. Ég rétti úr mér og sagði: „Ég var að þakka Guði vegna þess að þú ert í þjónustu hans.“ „Hvað meinarðu?“ spurði hann. Ég sýndi honum þá Rómverjabréfið 13:4. Hann var mótmælendatrúar og versið vakti því athygli hans. Það varð úr að hann tók sér 30 mínútur og fundurinn reyndist mjög gagnlegur. Hann sagði jafnvel að hann bæri virðingu fyrir starfi okkar.

Í gegnum árin hafa þjónar Jehóva oft varið rétt sinn fyrir dómstólum í Evrópu í sambandi við kristið hlutleysi, forræði barna, skattamál og fleira. Ég hef fengið að taka þátt í þessari vinnu og séð með eigin augum hvernig Jehóva hefur staðið með okkur og veitt okkur sigur. Vottar Jehóva hafa unnið meira en 140 mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

KÚBA OPNAR

Á tíunda áratug síðustu aldar vann ég með bróður Philip Brumley frá aðalstöðvunum og bróður Valter Farneti frá Ítalíu að því að bræður og systur á Kúbu fengju meira trúfrelsi, en þar voru hömlur á starfi okkar. Ég skrifaði bréf til sendiráðs Kúbu í Belgíu og hitti embættismann sem átti að afgreiða beiðni okkar. Það þokaðist lítið á fyrstu fundunum í að greiða úr misskilningi sem hafði leitt til þess að hömlur voru settar á starf okkar.

Með Philip Brumley og Valter Farneti þegar við heimsóttum Kúbu á tíunda áratug síðustu aldar.

Eftir að hafa beðið Jehóva um leiðsögn í bæn báðum við um leyfi til að senda 5.000 biblíur til Kúbu. Þær komust á leiðarenda og í hendur bræðra og systra þannig að við álitum að Jehóva væri að blessa viðleitni okkar. Þá báðum við um leyfi til að senda 27.500 biblíur til viðbótar. Leyfi var veitt. Ég var innilega glaður að geta hjálpað kærum bræðrum og systrum á Kúbu að fá sitt eigið eintak af Biblíunni.

Ég hef heimsótt Kúbu við mismunandi tækifæri til að hjálpa við lagaleg mál tengd starfi okkar. Það gerði mér kleift að byggja gott samband við marga ráðamenn.

TRÚSYSTKINUM Í RÚANDA KOMIÐ TIL AÐSTOÐAR

Árið 1994 voru meira en 1.000.000 manns myrt í þjóðarmorði á Tútsum í Rúanda. Sumir bræðra okkar og systra misstu lífið. Fljótlega var hópur bræðra beðinn að veita neyðaraðstoð og koma á fót hjálparstarfi í landinu.

Þegar hópurinn kom til höfuðborgarinnar Kígalí sáum við að þýðingastofan og birgðastöðin voru sundurskotnar. Við heyrðum margar hræðilegar sögur af bræðrum og systrum sem höfðu verið myrt með sveðjum. En við heyrðum líka frásögur af kærleika í verki. Við hittum til dæmis bróður af tútsaætt sem hafði falið sig í holu neðanjarðar í 28 daga. Fjölskylda af hútúaætt verndaði hann. Við lögðum okkur fram við að hvetja og hugga meira en 900 bræður og systur á samkomu í Kígalí.

Til vinstri: Sundurskotin bók á þýðingastofunni.

Til hægri: Vinna í tengslum við neyðaraðstoð.

Því næst fórum við yfir landamærin til Saír (Nú Alþýðulýðveldið Kongó) til að leita að fjölda votta frá Rúanda sem höfðu flúið í flóttamannabúðir nálægt borginni Góma. Við fundum þá ekki og leituðum til Jehóva í bæn og báðum hann að hjálpa okkur að finna þá. Þá gekk maður til okkar og við spurðum hann hvort hann þekkti nokkurn vott Jehóva. „Já, ég er vottur,“ svaraði hann. „Ég skal fylgja ykkur til neyðarhjálparnefndarinnar.“ Eftir hvetjandi fund með nefndinni hittum við um 1.600 flóttamenn og veittum þeim huggun og hvatningu. Við lásum líka fyrir þá bréf frá hinu stjórnandi ráði. Bræður og systur voru innilega glöð að heyra: „Þið eruð stöðugt í bænum okkar. Við vitum að Jehóva yfirgefur ykkur ekki.“ Þetta reyndist rétt. Nú eru meira en 30.000 vottar Jehóva í Rúanda.

ÁKVEÐINN Í AÐ VERA TRÚFASTUR

Ég missti elsku Elly mína árið 2011 eftir næstum 58 ára hjónaband. Jehóva huggaði mig þegar ég sagði honum í bæn hversu niðurbrotinn ég var. Boðun fagnaðarboðskaparins veitt mér líka huggun.

Þótt ég sé á tíræðisaldri tek ég þátt í boðuninni í hverri viku. Það veitir mér líka ánægju að aðstoða í lagadeildinni á deildaskrifstofunni í Belgíu, segja öðrum frá reynslu minni og uppörva yngra fólkið í Betelfjölskyldunni.

Fyrir um 84 árum síðan bað ég fyrst til Jehóva. Það var upphaf yndislegrar vegferðar sem hefur jafnt og þétt styrkt sambandið við hann. Ég er svo þakklátur fyrir að Jehóva hefur hlustað á bænir mínar um dagana. – Sálm. 66:19. b

a Ævisaga bróður Emile Schrants birtist í Varðturninum 15. september 1973 á ensku bls. 570–574.

b Bróðir Marcel Gillet lést 4. febrúar 2023 á meðan þessi grein beið útgáfu.