NÁMSGREIN 25
SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar
Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
„Jehóva lifir!“ – SÁLM. 18:46.
Í HNOTSKURN
Það er okkur til blessunar að muna að sá Guð sem við tilbiðjum er lifandi Guð.
1. Hvað hjálpar fólki Guðs að halda áfram að þjóna honum þrátt fyrir erfiðleika?
BIBLÍAN segir að við lifum á mjög erfiðum tímum. (2. Tím. 3:1) Þjónar Jehóva þurfa að takast á við andstöðu og ofsóknir auk þess að glíma við erfiðleika sem fylgja lífinu í þessum heimi. Hvað hjálpar okkur að halda áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir þetta? Það vegur þungt að við höfum komist að raun um að Jehóva er „lifandi Guð“. – Jer. 10:10; 2. Tím. 1:12.
2. Á hvaða vegu er Jehóva hinn lifandi Guð?
2 Jehóva er raunveruleg persóna og hann heldur okkur uppi í erfiðleikum og er alltaf vakandi fyrir tækifærum til að styðja okkur. (2. Kron. 16:9; Sálm. 23:4) Að sjá hann sem lifandi Guð getur hjálpað okkur að komast í gegnum hvaða prófraun sem verður á vegi okkar. Skoðum hvernig sú var raunin hjá Davíð konungi.
3. Hvað átti Davíð við þegar hann sagði: „Jehóva lifir“?
3 Davíð þekkti Jehóva og treysti honum. Þegar óvinir sóttust eftir lífi hans, þar á meðal Sál konungur, bað hann til Jehóva um hjálp. (Sálm. 18:6) Eftir að Guð svaraði bænum hans og bjargaði honum sagði hann: „Jehóva lifir!“ (Sálm. 18:46) Davíð var ekki bara að viðurkenna að Guð væri til. Samkvæmt biblíuskýringariti lýsa þessi orð Davíðs trausti hans á Jehóva, „hinum lifandi Guði sem hjálpar alltaf þjónum sínum“. Davíð vissi af eigin reynslu að Guð hans væri lifandi og sú fullvissa hvatti hann til að halda áfram að þjóna og lofa Jehóva. – Sálm. 18:28, 29, 49.
4. Hvernig er það okkur til góðs að líta á Jehóva sem lifandi Guð?
4 Við þjónum Jehóva af kappi þegar við erum sannfærð um að hann sé lifandi Guð. Sú fullvissa gefur okkur styrk til að halda út í prófraunum og gera okkar besta í þjónustu hans. Það hjálpar okkur líka að halda okkur nálægt Jehóva.
HINN LIFANDI GUÐ STYRKIR ÞIG
5. Hvað getur gefið okkur hugrekki þegar við göngum í gegnum prófraunir? (Filippíbréfið 4:13)
5 Við getum tekist á við hvaða prófraun sem er, hvort sem hún er mikil eða lítil, ef við munum að Jehóva er lifandi og alltaf tilbúinn til að styðja við bakið á okkur. Þegar allt kemur til alls er hann almáttugur og ekkert vandamál er til sem hann ræður ekki við. Hann getur gefið okkur kraft til að halda út. (Lestu Filippíbréfið 4:13.) Við höfum sannarlega ástæðu til að vera hugrökk þegar prófraunir verða á vegi okkar. Þegar við finnum að Jehóva styður okkur í minni háttar prófraunum getum við verið viss um að hann hjálpi okkur að takast á við erfiðari prófraunir.
6. Hvað gerðist þegar Davíð var ungur sem jók traust hans á Jehóva?
6 Skoðum tvennt sem gerðist í lífi Davíðs sem jók traust hans á Jehóva. Þegar Davíð var ungur fjárhirðir hremmdi bæði bjarndýr og ljón sauð úr hjörð föður hans. Við bæði tækifærin sýndi Davíð hugrekki, elti villidýrin og bjargaði sauðunum. Hann eignaði sér þó ekki sigurinn. Hann vissi að þetta var Guði að þakka. (1. Sam. 17:34–37) Davíð gleymdi þessu aldrei. Hann hugleiddi þessa reynslu og var sannfærður um að hinn lifandi Guð myndi styrkja hann áfram.
7. Á hvað horfði Davíð og hvernig hjálpaði það honum að mæta Golíat?
7 Síðar, líklega þegar Davíð var enn unglingur, kom hann við í herbúðum Ísraelsmanna. Hann komst að raun um að hermennirnir voru dauðskelkaðir við filistearisann Golíat sem hæddist að hersveit Ísraels. (1. Sam. 17:10, 11) Ótti þeirra stafaði af því að þeir einblíndu á risann og það sem hann sagði. (1. Sam. 17:24, 25) En Davíð sá málin frá öðrum sjónarhóli. Hann skildi að háðsglósur Golíats beindust ekki aðeins gegn hersveit Ísraels heldur „hersveit hins lifandi Guðs“. (1. Sam. 17:26) Jehóva var efst í huga Davíðs. Hann treysti því að Guð sem hafði hjálpað honum þegar hann var fjárhirðir myndi líka hjálpa honum núna. Davíð var sannfærður um stuðning Guðs og barðist við Golíat og sigraði hann. – 1. Sam. 17:45–51.
8. Hvernig getum við haft Jehóva efst í huga þegar við lendum í prófraunum? (Sjá einnig mynd.)
8 Við getum líka tekist á við prófraunir með góðum árangri ef við munum að hinn lifandi Guð er tilbúinn að hjálpa okkur. (Sálm. 118:6) Við eigum auðveldara með að treysta því ef við hugleiðum það sem hann hefur gert fyrir fólk sitt áður fyrr. Lestu frásögur í Biblíunni til að rifja upp hvernig Jehóva hefur bjargað þjónum sínum. (Jes. 37:17, 33–37) Kynntu þér líka frásögur á vefsíðunni jw.org sem sýna skýrt hvernig Jehóva hefur stutt bræður og systur nú á dögum. Rifjaðu upp hvernig Jehóva hefur komið þér til hjálpar í gegnum tíðina. Það þarf ekki að vera neitt stórkostlegt eins og að berjast við björn eða ljón. Staðreyndin er sú að Jehóva hefur skipað stórt hlutverk í lífi þínu. Hann hefur dregið þig til sín og orðið vinur þinn. (Jóh. 6:44) Þú værir ekki í sannleikanum nema með hans hjálp. Af hverju ekki að biðja hann að hjálpa þér að muna eftir tilfellum þegar hann svaraði bænum þínum, studdi þig á hárréttum tíma og kom þér í gegnum erfiðar aðstæður? Að rifja upp slík atvik styrkir traust þitt á að Jehóva haldi áfram að koma þér til hjálpar.
9. Hvernig getum við séð prófraunir í réttu ljósi? (Orðskviðirnir 27:11)
9 Að muna að Jehóva er lifandi hjálpar okkur að sjá prófraunir okkar í réttu ljósi. Þá förum við að sjá þær sem hluta af stærra máli sem snýr að Jehóva og Satan. Djöfullinn heldur því fram að við yfirgefum Jehóva þegar erfiðleika ber að garði. (Job. 1:10, 11; lestu Orðskviðina 27:11.) En þegar við erum trúföst sama hvað á gengur sýnum við kærleika okkar til Jehóva og líka að Djöfullinn fer með lygi. Upplifir þú andstöðu stjórnvalda, fjárhagserfiðleika, neikvæð viðbrögð í boðuninni eða einhverja aðra erfiðleika? Ef sú er raunin skaltu muna að aðstæður þínar gefa þér tækifæri til að gleðja Jehóva. En mundu jafnframt að Jehóva mun aldrei leyfa að þú verðir reyndur umfram það sem þú þolir. (1. Kor. 10:13) Hann gefur þér styrk til að halda út.
HINN LIFANDI GUÐ MUN LAUNA ÞÉR
10. Hvað gerir hinn lifandi Guð fyrir þá sem tilbiðja hann?
10 Jehóva launar alltaf þeim sem tilbiðja hann. (Hebr. 11:6) Hann gefur okkur frið og gleði núna og eilíft líf í framtíðinni. Við getum algerlega treyst því að Jehóva hafi bæði löngun og mátt til að launa okkur. Fyrir vikið erum við upptekin í þjónustunni, rétt eins og trúir þjónar Guðs til forna. Það átti við um Tímóteus á fyrstu öldinni. – Hebr. 6:10–12.
11. Af hverju lagði Tímóteus hart að sér í söfnuðinum? (1. Tímóteusarbréf 4:10)
11 Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:10. Tímóteus setti von sína á hinn lifandi Guð. Þess vegna lagði hann hart að sér. Á hvaða vegu? Páll postuli hvatti hann til að taka framförum sem kennari og ræðumaður. Hann hvatti hann líka til að vera fyrirmynd trúsystkina sinna, bæði hinna ungu og hinna öldnu. Og honum voru einnig falin erfið verkefni eins og til dæmis að veita þeim sem þurftu á því að halda leiðbeiningar af festu og kærleika. (1. Tím. 4:11–16; 2. Tím. 4:1–5) Tímóteus gat verið viss um að Jehóva myndi launa honum þótt aðrir sæju ekki allt sem hann gerði eða kynnu ekki að meta það. – Rómv. 2:6, 7.
12. Hvað hvetur öldunga til að leggja hart að sér í söfnuðinum? (Sjá einnig mynd.)
12 Öldungar nú á dögum geta líka verið vissir um að Jehóva sjái og kunni að meta störf þeirra. Auk þess að sjá um hirðastarfið, kennsluna og boðunina taka margir öldungar þátt í byggingaverkefnum og neyðaraðstoð. Aðrir eru í spítalasamskiptanefndum eða hópum sem sinna sjúklingum. Öldungar sem bjóða sig fram til slíkra starfa muna að söfnuðurinn tilheyrir Jehóva en ekki mönnum. Fyrir vikið sinna þeir verkefnum sínum af heilum hug í fullu trausti þess að Guð launi þeim. – Kól. 3:23, 24.
13. Hvað finnst Jehóva um það sem við gerum í þjónustu hans?
13 Það geta ekki allir verið öldungar en við höfum öll eitthvað fram að færa. Jehóva kann að meta að við gerum okkar besta í þjónustu hans. Hann tekur eftir fjárframlögum okkar til alþjóðastarfsins, jafnvel þótt við gefum engar stórupphæðir. Hann er ánægður þegar við reynum að sigrast á feimni og svara á samkomum og hann gleðst þegar við fyrirgefum þeim sem gera á hlut okkar. Þótt þér finnist takmarkað það sem þú hefur fram að færa geturðu treyst því að Jehóva kunni að meta það sem þú getur gert. Hann elskar þig fyrir það og mun launa þér. – Lúk. 21:1–4.
HALTU ÞIG NÁLÆGT HINUM LIFANDI GUÐI
14. Hvernig getur náin vinátta við Jehóva hjálpað okkur að vera trúföst? (Sjá einnig mynd.)
14 Ef Jehóva er náinn vinur okkar er auðveldara fyrir okkur að vera honum trúföst. Jósef átti þannig samband við Guð. Hann var ákveðinn í að halda sig frá siðleysi, Jehóva var honum raunverulegur og hann vildi ekki gera neitt sem særði hann. (1. Mós. 39:9) Við verðum að taka okkur tíma til að biðja til Jehóva og rannsaka orð hans til að hann sé okkur raunverulegur. Þannig styrkjum við vináttuna við hann. Þegar við höfum náið samband við Jehóva eins og Jósef forðumst við að gera hvaðeina sem honum mislíkar. – Jak. 4:8.
15. Hvernig eru Ísraelsmenn í óbyggðunum okkur víti til varnaðar? (Hebreabréfið 3:12)
15 Þeir sem gleyma að Jehóva er hinn lifandi Guð geta auðveldlega fjarlægst hann. Skoðum hvað gerðist þegar Ísraelsmenn voru í óbyggðunum. Þeir viðurkenndu að Jehóva væri til en fóru að efast um að hann annaðist þarfir þeirra og spurðu jafnvel: „Er Jehóva á meðal okkar eða ekki?“ (2. Mós. 17:2, 7) Á endanum gerðu þeir uppreisn gegn Guði. Þeir eru okkur víti til varnaðar. Við viljum alls ekki falla í sömu gryfju og þeir. – Lestu Hebreabréfið 3:12.
16. Hvað gæti reynt á trú okkar?
16 Það reynir á í þessum erfiða heimi að halda sig nálægt Jehóva. Margir trúa ekki einu sinni að Guð sé til. Oft á tíðum virðast þeir sem hunsa kröfur Guðs blómstra í lífinu. Þegar við horfum upp á slíkt getur það reynt á trú okkar. Þótt við trúum því að Guð sé til gætum við farið að efast um að hann hjálpi okkur þegar við þurfum á því að halda. Ritari Sálms 73 hugsaði þannig um tíma. Hann horfði upp á fólk í kringum sig hunsa lög Guðs en njóta samt lífsins. Það varð til þess að hann fór að efast um að það væri þess virði að þjóna Guði. – Sálm. 73:11–13.
17. Hvað hjálpar okkur að halda okkur nálægt Jehóva?
17 Hvernig gat sálmaskáldið leiðrétt hugsunarhátt sinn? Hann hugleiddi hvernig færi fyrir þeim sem yfirgæfu Jehóva. (Sálm. 73:18, 19, 27) Hann leiddi einnig hugann að því hvernig það var honum til góðs að þjóna Guði. (Sálm. 73:24) Við getum líka hugleitt allt sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Ímyndum okkur hvernig lífið væri ef við þjónuðum ekki Jehóva. Það getur hjálpað okkur að vera trúföst og komast að sömu niðurstöðu og sálmaskáldið sem sagði: „Það gerir mér gott að vera nálægt Guði.“ – Sálm. 73:28.
18. Hvers vegna þurfum við ekki að óttast framtíðina?
18 Við getum tekist á við hvaða prófraunir sem verða á vegi okkar á þessum síðustu dögum af því að við ‚þjónum lifandi og sönnum Guði‘. (1. Þess. 1:9) Guð er raunverulegur og hann beitir sér í þágu þeirra sem tilbiðja hann. Hann var með þjónum sínum til forna og hann er líka með okkur. Brátt göngum við í gegnum mestu þrengingatíma í sögu mannkyns. En við þurfum ekki að gera það ein. (Jes. 41:10) Við getum því verið „hugrökk og sagt: ‚Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt.‘“ – Hebr. 13:5, 6.
SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust