Spurningar frá lesendum
Vísa orðin „þú gætir þeirra“ í Sálmi 12:7 til ‚hinna hrjáðu‘ (vers 5) eða til ‚orða Jehóva‘ (vers 6)?
Samhengið gefur til kynna að versið fjalli um fólk.
Í Sálmi 12:1–4 kemur fram að ‚hinir trúu séu horfnir úr hópi mannanna‘. Síðan segir í Sálmi 12:5–7:
„‚Hinir hrjáðu eru kúgaðir,
hinir fátæku andvarpa.
Þess vegna rís ég upp og læt til mín taka,‘ segir Jehóva.
‚Ég bjarga þeim frá öllum sem smána þá.‘
Orð Jehóva eru hrein,
eins og skírt silfur úr leirofni, hreinsað sjö sinnum.
Þú gætir þeirra, Jehóva,
skýlir þeim að eilífu fyrir þessari kynslóð.“
Vers 5 bendir á hvað Guð mun gera fyrir hina hrjáðu. Hann mun bjarga þeim.
Vers 6 bætir við að ‚orð Jehóva séu hrein eins og skírt silfur‘. Trúir þjónar Jehóva eru þessu innilega sammála. – Sálm. 18:30; 119:140.
Skoðum nú Sálm 12:7. Þar segir: „Þú gætir þeirra, Jehóva, skýlir þeim að eilífu fyrir þessari kynslóð.“ Um hvað er verið að tala?
Þar sem vers 6 talar um „orð Jehóva“ gætu sumir dregið þá ályktun að „þeirra“ og „þeim“ í versi 7 vísi til orða hans. Og við vitum að Guð hefur verndað Biblíuna þrátt fyrir margar tilraunir andstæðinga hans til að banna hana og útrýma henni. – Jes. 40:8; 1. Pét. 1:25.
En það er líka staðreynd að Jehóva verndar fólk eins og kemur fram í versi 5. Jehóva hefur hjálpað og mun hjálpa og bjarga ‚hinum hrjáðu‘ og kúguðu. – Job. 36:15; Sálm. 6:4; 31:1, 2; 54:7; 145:20.
Um hvað er þá verið að tala í versi 7?
Það sem segir annars staðar í sálminum bendir til þess að átt sé við fólk.
Sálmur 12 hefst á því að Davíð talar um að fólk var orðið óheiðarlegt og hræsnisfullt og að það hafi haft miklar þjáningar í för með sér. Síðan kemur fram að Jehóva muni grípa til aðgerða gegn þeim sem hafa notað tunguna á skaðlegan hátt. Sálmurinn fullvissar okkur um að Guð skerist í leikinn í þágu þjóna sinna vegna þess að orð hans eru hrein.
Í versi 7 segir því að Jehóva gæti og skýli „þeim“, það er að segja þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á hinum illu.
Þessi skilningur kemur heim og saman við hebreska masoretatextann. Gríska Sjötíumannaþýðingin notar orðið „við“ tvisvar í versi 7, sem vísar til baka til hinna tryggu sem eru hrjáðir og kúgaðir. Að lokum segir í versi 7 að „þeim“ verði skýlt frá „þessari kynslóð“, mönnum sem upphefja hið illa. (Sálm. 12:7, 8) Í arameískri þýðingu á Hebresku ritningunum segir í fyrri hluta vers 7: „Þú, DROTTINN, verndar hina réttlátu, þú gætir þeirra frá þessari illu kynslóð að eilífu.“ Þetta rennir enn frekar stoðum undir það að Sálmur 12:7 sé ekki að tala um orð Guðs.
Niðurstaðan er því sú að þetta vers gefi trygglyndum von um að Guð mun láta til sín taka.