Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

Höldum ferð okkar áfram á ‚Veginum heilaga‘

Höldum ferð okkar áfram á ‚Veginum heilaga‘

„Þar verður breiður vegur … Vegurinn heilagi.“ – JES. 35:8.

SÖNGUR 31 Göngum með Guði

YFIRLIT a

1, 2. Hvaða mikilvægu ákvörðun stóðu Gyðingar sem bjuggu í Babýlon frammi fyrir? (Esrabók 1:2–4)

 KONUNGURINN hafði gefið út tilskipun! Gyðingum sem hafði verið haldið föngnum í Babýlon í um 70 ár var gefið frelsi og þeir gátu snúið aftur til Ísraels heimalands síns. (Lestu Esrabók 1:2–4.) Aðeins Jehóva gat komið þessu í kring. Hvers vegna segjum við það? Babýloníumenn voru ekki þekktir fyrir að sleppa föngum sínum. (Jes. 14:4, 17) En Babýlon var fallin og nýr stjórnandi gaf Gyðingum leyfi til að yfirgefa landið. Sérhver Gyðingur, sérstaklega höfuð hverrar fjölskyldu, þurfti því að taka ákvörðun um að yfirgefa Babýlon eða vera þar áfram. Það er ekki víst að þetta hafi verið auðveld ákvörðun. Hvers vegna?

2 Margir hafa ef til vill verið orðnir of gamlir til að fara í þessa löngu ferð. Og flestir Gyðinganna höfðu fæðst í Babýlon og þekktu ekki annað heimili. Í þeirra huga var Ísrael land forfeðra þeirra. Sumir Gyðinganna urðu greinilega auðugir í Babýlon og þeim hefur kannski þótt erfitt að yfirgefa þægileg heimili og fyrirtæki til að setjast að í landi sem þeir þekktu ekki.

3. Hvaða blessun beið Gyðinganna sem sneru aftur til Ísraels?

3 Í huga trúfastra Gyðinga voru kostirnir við að snúa aftur til Ísraels miklu þyngri á metunum en fórnirnar sem þeir þyrftu að færa. Mikilvægasta umbunin snerti tilbeiðslu þeirra. Það voru fleiri en 50 heiðin musteri í Babýlon en þar var ekkert musteri helgað Jehóva. Þar var ekkert altari sem Ísraelsmenn gátu fært fórnir á eins og farið var fram á í Móselögunum og ekkert fyrirkomulag um að prestar bæru þær fram. Þar að auki var fólk Jehóva miklu færra en heiðið fólk sem skeytti ekkert um Jehóva og mælikvarða hans. Tugþúsundir Gyðinga sem elskuðu Jehóva hlökkuðu þess vegna til að snúa aftur til heimalandsins þar sem þeir gætu endurreist hreina tilbeiðslu.

4. Hvaða hjálp lofaði Jehóva að veita Gyðingum sem sneru aftur til Ísraels?

4 Ferðin frá Babýlon til Ísraels var erfið og gat tekið fjóra mánuði. En Jehóva lofaði því að sérhverri hindrun sem virtist geta komið í veg fyrir að Gyðingar kæmust til Ísraels yrði rutt úr vegi. Jesaja sagði: „Greiðið veg Jehóva! Ryðjið beina braut um eyðimörkina handa Guði okkar … Óslétt jörðin skal verða að flatlendi og grýtt jörðin að dalsléttu.“ (Jes. 40:3, 4) Sérðu þetta fyrir þér? Braut eftir dalsléttu í miðri eyðimörk. Hvílík blessun fyrir ferðalangana! Það yrði langtum auðveldara fyrir þá að ferðast á beinni braut en klífa fjöll eða krækja fyrir þau og fara um hæðir og dali. Það tæki líka skemmri tíma.

5. Hvaða nafn fékk táknræna brautin milli Babýlonar og Ísraels?

5 Nú á dögum fá götur og vegir gjarnan númer eða nöfn. Táknræna brautin sem Jesaja skrifaði um hafði líka nafn. Við lesum: „Þar verður breiður vegur sem kallast Vegurinn heilagi. Enginn óhreinn mun ferðast þar um.“ (Jes. 35:8) Hvaða þýðingu hafði þetta loforð fyrir Ísraelsmenn í þá daga? Og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur?

„VEGURINN HEILAGI“ FYRR OG NÚ

6. Hvers vegna var þessi vegur nefndur heilagur?

6 „Vegurinn heilagi.“ Enn fallegt nafn á vegi! Hvers vegna var hann nefndur heilagur? Það yrði ekkert pláss hjá endurreistri Ísraelsþjóðinni fyrir neinn óhreinan, engan Gyðing sem var ákveðinn í að stunda siðleysi, skurðgoðadýrkun eða aðrar grófar syndir. Gyðingar sem sneru aftur yrðu Guði sínum „heilög þjóð“. (5. Mós. 7:6) Það þýddi samt ekki að þeir sem yfirgáfu Babýlon þyrftu ekki að gera neinar breytingar til að þóknast Jehóva.

7. Hvaða breytingar þurftu sumir Gyðingar að gera? Nefndu dæmi.

7 Eins og áður hefur verið minnst á fæddust flestir Gyðinganna í Babýlon og sumir höfðu greinilega vanist viðhorfum og gildum Babýloníumanna að einhverju leyti. Áratugum eftir að fyrstu Gyðingarnir sneru aftur til Ísraels komst Esra að því að sumir Gyðingar höfðu kvænst heiðnum konum. (2. Mós. 34:15, 16; Esra. 9:1, 2) Og síðar var Nehemía landstjóri furðu lostinn þegar hann komst að því að börn sem fæddust í Ísrael höfðu ekki einu sinni lært tungumál Gyðinga. (5. Mós. 6:6, 7; Neh. 13:23, 24) Hvernig áttu þessi börn að geta lært að elska og tilbiðja Jehóva ef þau skildu ekki hebresku, megintungumálið sem orð Guðs var skrifað á? (Esra. 10:3, 44) Gyðingarnir þurftu því að gera umtalsverðar breytingar, en það var auðveldara að gera þær í Ísrael þar sem hrein tilbeiðsla var smám saman endurreist. – Neh. 8:8, 9.

Síðan árið 1919 hafa milljónir karla, kvenna og barna yfirgefið Babýlon hina miklu og hafið ferð sína á ‚Veginum heilaga‘. (Sjá 8. grein)

8. Hvers vegna ættu atburðir sem áttu sér stað fyrir svo löngu að vekja áhuga okkar? (Sjá forsíðumynd.)

8 „Þetta er nú athyglisvert,“ gæti einhver sagt, „en hefur það sem gerðist hjá Gyðingum fyrir svo löngu einhverja þýðingu fyrir okkur?“ Svo sannarlega, því að á vissan hátt ferðumst við á ‚Veginum heilaga‘. Hvort sem við erum andasmurð eða af ‚öðrum sauðum‘ verðum við að halda okkur á ‚Veginum heilaga‘ sem leiðir okkur um andlega paradís að blessun Guðs í framtíðinni. b (Jóh. 10:16) Síðan 1919 hafa milljónir karla, kvenna og barna yfirgefið Babýlon hina miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og hafið ferð sína á þessum táknræna vegi. Þú ert trúlega meðal þeirra. Vegurinn var opnaður fyrir um 100 árum en undirbúningsvinnan hófst öldum áður.

VEGURINN UNDIRBÚINN

9. Í hvaða skilningi var unnin undirbúningsvinna á ‚Veginum heilaga‘ samkvæmt Jesaja 57:14?

9 Þegar Gyðingar yfirgáfu Babýlon sá Jehóva til þess að hindrunum væri rutt úr vegi. (Lestu Jesaja 57:14.) Hvað með ‚Veginn heilaga‘ á síðari tímum? Hundruðum ára fyrir 1919 byrjaði Jehóva að greiða veginn út úr Babýlon hinni miklu fyrir atbeina manna sem báru djúpa virðingu fyrir honum. (Samanber Jesaja 40:3.) Þeir unnu að nauðsynlegum undirbúningi – andlegri vegavinnu. Hún gerði einlægu fólki síðar meir kleift að yfirgefa Babýlon hina miklu og koma í andlega paradís þar sem hrein tilbeiðsla á Jehóva hafði verið endurreist. Hvað fól þessi „vegavinna“ í sér? Skoðum aðeins þessa undirbúningsvinnu.

Í margar aldir fram að 1919 hjálpuðu menn sem báru djúpa virðingu fyrir Guði til við að ryðja veginn úr Babýlon hinni miklu. (Sjá 10. og 11. grein.)

10, 11. Hvernig hefur prentun og þýðing á Biblíunni stuðlað að aukinni biblíuþekkingu? (Sjá einnig mynd.)

10 Prentun. Allt þar til á miðri 15. öld var Biblían afrituð með því að menn handskrifuðu hana. Þetta var mjög seinlegt og afrit af Biblíunni voru fágæt og mjög dýr. En þegar prentvél var fundin upp þar sem lausaletur var notað var auðveldara að fjölfalda Biblíuna og dreifa henni.

11 Þýðingarvinna. Öldum saman var Biblían aðallega til á latínu sem aðeins hámenntað fólk gat skilið. Þegar prentun varð hins vegar almennari fóru einstaklingar sem elskuðu Guð að leggja harðar að sér við að þýða Biblíuna á tungumál sem almenningur talaði. Þá gátu lesendur Biblíunnar borið saman það sem prestarnir kenndu og það sem Biblían kennir í raun og veru.

Menn sem báru djúpa virðingu fyrir Guði hjálpuðu til við að ryðja veginn úr Babýlon hinni miklu. (Sjá 12.–14. grein.) c

12, 13. Nefndu dæmi um það hvernig einlægir biblíunemendur á 19. öld byrjuðu að afhjúpa falskar trúarkenningar.

12 Biblíunámsgögn. Þeir sem rannsökuðu Biblíuna vandlega lærðu mikið af því sem þeir lásu í orði Guðs. Og það skapraunaði mörgum prestum mjög þegar þessir biblíunemendur sögðu öðrum frá því sem þeir lærðu. Á 19. öld fóru til dæmis nokkrir einlægir menn að gefa út smárit sem afhjúpuðu falskenningar kirknanna.

13 Árið 1835 gaf guðhræddur maður, Henry Grew, út smárit sem fjallaði um eðli dauðans. Þar sýndi hann með hjálp Biblíunnar fram á að ódauðleiki væri gjöf frá Guði en ekki eiginleiki sem allir fæddust með, eins og flestar kirkjur kenndu. Árið 1837 fann prestur sem hét George Storrs eintak af smáritinu þegar hann ferðaðist með lest. Hann las það og var sannfærður um að hann hefði uppgötvað mikilvæg sannindi. Hann ákvað að segja öðrum frá því sem hann hafði komist að. Árið 1842 flutti hann röð fyrirlestra með áhugaverðu stefi: „Til rannsóknar – eru hinir illu ódauðlegir?“ Skrif Georges Storrs höfðu mikil áhrif á ungan mann, Charles Taze Russell.

14. Hvernig nýttist andleg vegavinna sem hafði verið unnin bróður Russell og félögum hans? (Sjá einnig mynd.)

14 Hvaða hag höfðu bróðir Russell og félagar af andlegri vegavinnu sem hafði verið unnin? Við rannsóknir sínar gátu þeir flett upp í orðabókum, orðstöðulyklum og biblíuþýðingum sem var búið að gefa út þegar þeir hófu sína vinnu. Rannsóknir manna eins og Henrys Grews, Georges Storrs og annarra komu þeim líka að gagni. Bróðir Russell og félagar lögðu sjálfir sitt að mörkum til andlegu vegavinnunnar með því að gefa út fjöldann allan af bókum og smáritum sem fjölluðu um málefni Biblíunnar.

15. Hvaða mikilvæga framvinda átti sér stað árið 1919?

15 Árið 1919 missti Babýlon hin mikla hald sitt á þjónum Guðs. Þá kom „hinn trúi og skynsami þjónn“ fram á sjónarsviðið, á hárréttum tíma til að bjóða einlægt fólk velkomið á ‚Veginn heilaga‘ sem var þá nýlega opnaður. (Matt. 24:45–47) Það er að hluta til trúföstum „vegavinnumönnum“ fortíðar að þakka að fólk sem fór að ferðast á veginum byrjaði að læra um Jehóva og fyrirætlun hans. (Orðskv. 4:18) Það gat líka fært líf sitt til samræmis við kröfur Jehóva. Jehóva ætlaðist ekki til að fólk hans gerði nauðsynlegar breytingar allar undireins. Hann hefur fágað fólk sitt smám saman. (Sjá rammann „ Jehóva fágar fólk sitt smám saman“.) Það á eftir að veita okkur ótrúlega mikla gleði að geta glatt Jehóva með öllu sem við gerum! – Kól. 1:10.

„VEGURINN HEILAGI“ ER ENN OPINN

16. Hvaða viðhaldsvinna hefur farið fram á ‚Veginum heilaga‘ síðan 1919? (Jesaja 48:17; 60:17)

16 Allir vegir þurfa reglulegt viðhald. Frá árinu 1919 hefur vegavinna á ‚Veginum heilaga‘ haldið áfram til að gera þeim sem vilja kleift að yfirgefa Babýlon hina miklu. Nýlega útnefndur trúr og skynsamur þjónn hófst þá handa og árið 1921 gaf hann út biblíunámsgagn sem var hugsað til að hjálpa byrjendum að læra sannleika Biblíunnar. Þessi bók, Harpa Guðs, hafði að lokum verið gefin út í næstum sex milljónum eintaka á 36 tungumálum og margir kynntust sannleikanum með hjálp hennar. Nýlega fengum við nýja bók til að aðstoða fólk við biblíunám, Von um bjarta framtíð. Á hinum síðustu dögum hefur Jehóva notað söfnuð sinn til að sjá stöðuglega fyrir andlegri fæðu sem hjálpar okkur öllum að halda ferð okkar áfram á ‚Veginum heilaga‘. – Lestu Jesaja 48:17; 60:17.

17, 18. Hvert liggur „Vegurinn heilagi“?

17 Segja má að í hvert sinn sem einhver þiggur biblíunámskeið fái hann tækifæri til að hefja ferð sína á ‚Veginum heilaga‘. Sumir eru þar aðeins stutta stund og yfirgefa hann síðan. Aðrir eru ákveðnir í að halda ferð sinni áfram þangað til þeir komast á áfangastað. Hver er hann?

18 Fyrir þá sem hafa himneska von liggur „Vegurinn heilagi“ til ‚paradísar Guðs‘ á himnum. (Opinb. 2:7) Fyrir þá sem hafa jarðneska von liggur hann til fullkomleika við enda 1.000 áranna. Ef þú ert á ferð á veginum skaltu ekki líta um öxl. Ekki yfirgefa hann áður en þú hefur lokið ferð þinni inn í nýjan heim. Við óskum þér góðrar ferðar.

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

a Jehóva kallaði táknræna breiða veginn frá Babýlon til Ísraels ‚Veginn heilaga‘. Hefur Jehóva rutt veg fyrir fólk sitt á síðari tímum? Já! Síðan 1919 hafa milljónir manna yfirgefið Babýlon hina miklu og hafið ferð sína á ‚Veginum heilaga‘. Við verðum öll að halda okkur á þeim vegi þar til við komumst á áfangastaðinn.

c MYNDIR: Bróðir Russell og félagar nýttu sér biblíunámsgögn sem höfðu verið gerð fyrir þeirra tíma.