NÁMSGREIN 23
Höldum ‚loga Jah‘ lifandi
„Logar [ástarinnar] eru brennandi bál, logi Jah.“ – LJÓÐALJ. 8:6.
SÖNGUR 131 „Það sem Guð hefur tengt saman“
YFIRLIT a
1. Hvernig lýsir Biblían sannri ást?
LOGAR ástarinnar „eru brennandi bál, logi Jah. Fossandi vatn fær ekki slökkt ástina né fljót skolað henni burt.“ b (Ljóðalj. 8:6, 7) Þetta er falleg lýsing á sannri ást og uppörvandi að vita fyrir þá sem eru í hjónabandi. Þið getið borið óbrigðula ást hvort til annars.
2. Hvað þurfa hjón að gera til að tryggja að ástin dofni ekki?
2 Það krefst viðleitni af hálfu hjóna að elska hvort annað eins lengi og þau lifa. Tökum dæmi. Varðeldur getur brunnið endalaust, en aðeins þegar eldivið er stöðugt bætt á hann. Annars slokknar hann á endanum. Á svipaðan hátt getur ástin milli hjóna verið varanleg og sterk, en bara ef þau rækta sambandið. Stundum gæti hjónum fundist ástin dofna, sérstaklega ef þau eru undir álagi vegna fjárhagserfiðleika, heilsuvandamála eða barnauppeldis. Hvernig getur þú haldið ‚loga Jah‘ lifandi í hjónabandi þínu? Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem þú getur gert til þess að hjónaband þitt sé sterkt og hamingjuríkt. c
HALTU ÁFRAM AÐ STYRKJA SAMBAND ÞITT VIÐ JEHÓVA
3. Hvernig getur sterkt samband við Jehóva hjálpað hjónum að halda ástinni lifandi? (Prédikarinn 4:12) (Sjá einnig mynd.)
3 Til að halda ‚loga Jah‘ lifandi þurfa bæði eiginmaður og eiginkona að vinna að því að eiga náið samband við Jehóva. Hvernig gagnast það í hjónabandinu? Þegar hjón meta mikils vináttu sína við föður sinn á himnum fylgja þau fúslega ráðum hans. Það hjálpar þeim að forðast vandamál sem gætu annars valdið því að ást þeirra kólni eða þá sigrast á slíkum vandamálum. (Lestu Prédikarann 4:12.) Andlega sinnað fólk leitast líka við að líkja eftir Jehóva og rækta með sér eiginleika sem hann býr yfir, eins og góðvild, þolinmæði og fúsleika til að fyrirgefa. (Ef. 4:32–5:1) Ástin dafnar betur þegar hjón sýna af sér slíka eiginleika. Systir sem heitir Lena og hefur verið gift í meira en 25 ár segir: „Það er auðvelt að elska og virða andlega manneskju.“
4. Hvers vegna kaus Jehóva Jósef og Maríu til að vera foreldrar verðandi Messíasar?
4 Skoðum dæmi í Biblíunni. Þegar Jehóva þurfti að velja hjón til að vera foreldrar verðandi Messíasar kaus hann Jósef og Maríu úr hópi margra afkomenda Davíðs. Hvers vegna? Þau áttu bæði gott samband við Jehóva og hann vissi að þau myndu bæði byggja hjónaband sitt á kærleika sínum til hans. Hvað getið þið sem eruð gift lært af Jósef og Maríu?
5. Hvað geta eiginmenn lært af Jósef?
5 Jósef fylgdi fúslega leiðbeiningum Jehóva og það gerði hann að betri eiginmanni. Hann fékk að minnsta kosti þrisvar leiðbeiningar frá Guði varðandi fjölskyldu sína. Hann hlýddi tafarlaust í hvert skipti, jafnvel þegar það kostaði hann erfiðleika. (Matt. 1:20, 24; 2:13–15, 19–21) Með því að fara eftir leiðbeiningum Guðs verndaði Jósef Maríu, studdi hana og sá fyrir henni. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það sem Jósef gerði hlýtur að hafa dýpkað ást Maríu til hans og virðingu fyrir honum. Þið eiginmenn getið líkt eftir Jósef með því að leita ráða Biblíunnar þegar þið annist fjölskyldu ykkar. d Þegar þið fylgið þessum ráðum, jafnvel þótt það hafi breytingar í för með sér, sýnið þið að þið elskið eiginkonur ykkar og það styrkir hjónabandið. Systir í Vanúatú sem hefur verið gift í meira en 20 ár segir: „Þegar eigimaður minn leitar leiðsagnar Jehóva og fer eftir henni ber ég enn meiri virðingu fyrir honum. Ég finn til öryggis og treysti því að ákvarðanir hans séu góðar.“
6. Hvað geta eiginkonur lært af Maríu?
6 Trú Maríu var ekki háð því sem Jósef gerði. Hún átti sitt eigið samband við Jehóva og þekkti ritningarnar vel. Hún tók sér líka tíma til að hugleiða það sem hún lærði. e (Lúk. 2:19, 51) Það er enginn vafi á því að vinátta Maríu við Jehóva gerði hana að frábærri eiginkonu. Nú á dögum leggja margar eiginkonur hart að sér til að líkja eftir Maríu. Systir sem heitir Emiko segir: „Þegar ég var einhleyp hafði ég mína eigin andlegu dagskrá. En eftir að ég gifti mig fór maðurinn minn með bæn fyrir okkur og tók forystuna í tilbeiðslunni. Ég áttaði mig á að ég var farin að reiða mig á að hann sæi bara um þetta fyrir mig. Ég sá að ég þurfti sjálf að halda sambandinu við Jehóva sterku. Núna tek ég mér tíma til að vera ein með Guði – til að biðja, lesa í Biblíunni og ígrunda hugsanir hans.“ (Gal. 6:5) Eiginkonur, þegar þið haldið áfram að styrkja samband ykkar við Jehóva munu eiginmenn ykkar hafa enn ríkari ástæðu til að elska ykkur og hrósa. – Orðskv. 31:30.
7. Hvað geta hjón lært af Jósef og Maríu um það að tilbiðja Jehóva saman?
7 Jósef og María unnu líka saman til að halda sterku sambandi við Jehóva. Þau skildu mikilvægi þess að tilbiðja Jehóva saman sem fjölskylda. (Lúk. 2:22–24, 41; 4:16) Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, sérstaklega þegar börnunum fjölgaði, en þeim tókst það. Þau eru hjónum nú á dögum frábært fordæmi. Ef þið eigið börn, eins og Jósef og María, gæti ykkur þótt krefjandi að sækja samkomur og taka frá tíma fyrir fjölskyldunám. Og það gæti verið enn meiri áskorun að hafa tíma til að lesa Biblíuna saman og biðja sem hjón. En munið að þegar þið tilbiðjið Jehóva saman nálgist þið bæði hann og hvort annað meira. Látið því tilbeiðsluna hafa forgang.
8. Hvað geta hjón sem glíma við vandamál gert til að hafa meira gagn af fjölskyldunámi?
8 En hvað getið þið gert ef það eru vandamál í hjónabandinu? Ykkur finnst kannski ekki skemmtileg tilhugsun að hafa fjölskyldunám. Ef sú er raunin gæti verið gott að byrja á því að skoða eitthvað saman sem tekur ekki langan tíma og er ánægjulegt, eitthvað sem þið eruð sammála um að geta rætt. Það getur stuðlað að sterkara sambandi ykkar á milli og aukið löngunina til að styrkja sambandið við Jehóva sem hjón.
VERJIÐ TÍMA SAMAN
9. Hvers vegna verða eiginmaður og eiginkona að verja tíma saman?
9 Þið hjón getið líka haldið ástinni lifandi með því að verja tíma saman. Þegar þið gerið það minnkar það líkurnar á því að þið farið hvort í sína áttina og gefið ekki lengur gaum að tilfinningum og hugsunum hvort annars. (1. Mós. 2:24) Takið eftir hvað Lilia og Ruslan uppgötvuðu stuttu eftir að þau giftu sig fyrir meira en 15 árum. Hún segir: „Við áttuðum okkur á því að við myndum ekki hafa eins mikinn tíma saman og við héldum. Við vorum mjög upptekin af vinnu, húsverkum og seinna meir uppeldi barnanna. Við sáum að ef við tækjum ekki frá tíma fyrir okkur sem hjón myndum við fjarlægjast hvort annað.“
10. Hvernig geta hjón farið eftir meginreglunni í Efesusbréfinu 5:15, 16?
10 Hvað geta hjón gert til að tryggja að þau verji tíma saman? Þið gætuð þurft að ákveða tíma fyrir hvort annað. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Bróðir í Nígeríu sem heitir Uzondu segir: „Þegar ég skipulegg það sem ég þarf að gera tek ég frá tíma fyrir okkur hjónin og set það í forgang.“ (Fil. 1:10) Taktu eftir því hvernig Anastasia, sem er eiginkona farandhirðis í Moldóvu, skipuleggur tímann sinn sem best. Hún segir: „Ég reyni að sinna mínum verkefnum þegar maðurinn minn er upptekinn við að sinna sinni ábyrgð. Þannig getum við átt tíma saman síðar.“ En hvað ef dagskrá ykkar gerir ykkur erfitt fyrir að finna tíma til að verja saman?
11. Hvað gerðu Akvílas og Priskilla saman?
11 Hjón geta lært af fordæmi Akvílasar og Priskillu, hjónum sem margir þjónar Guðs á fyrstu öld báru virðingu fyrir. (Rómv. 16:3, 4) Biblían segir ekki margt um hjónaband þeirra en hún greinir frá því að þau hafi unnið, boðað trúna og hjálpað öðrum saman. (Post. 18:2, 3, 24–26) Alltaf þegar Biblían minnist á Akvílas og Priskillu er reyndar minnst á þau bæði í einu.
12. Hvað geta eiginmaður og eiginkona gert til að verja meiri tíma saman? (Sjá einnig mynd.)
12 Hvernig geta hjón líkt eftir Akvílasi og Priskillu? Hugsaðu þér allt sem þú og maki þinn þurfið að gera. Gætuð þið gert eitthvað af því saman í stað þess að gera það sitt í hvoru lagi? Akvílas og Priskilla boðuðu til dæmis trúna saman. Gerið þið það líka reglulega? Akvílas og Priskilla unnu líka saman. Þið hjónin vinnið kannski ekki sömu vinnuna en gætuð þið hjálpast að við heimilisstörfin? (Préd. 4:9) Þegar þið hjálpist að eruð þið meira eins og teymi og hafið tækifæri til að tala saman. Robert og Linda hafa verið gift í meira en 50 ár. Hann segir: „Í sannleika sagt höfum við ekki mikinn tíma fyrir afþreyingu saman. En þegar ég vaska upp og konan mín þurrkar eða þegar ég er að vinna í garðinum og hún kemur og vinnur með mér þá líður mér vel. Það styrkir sambandið að vinna saman. Ástin dafnar meir og meir.“
13. Hvað ættu hjón að gera til að vera í góðum tengslum hvort við annað?
13 En mundu að það að vera saman þýðir ekki alltaf að eiginmaður og eiginkona séu náin. Eiginkona í Brasilíu segir: „Ég hef tekið eftir að manni gæti fundist maður verja tíma saman með því að búa undir sama þaki. En ég hef séð að það þarf meira til en bara að vera saman. Það þarf líka að veita makanum þá athygli sem hann þarfnast.“ Bruno og Tays eiginkona hans vilja vera viss um að þau veiti hvort öðru athygli. Hann segir: „Í frítíma okkar leggjum við símana til hliðar til að njóta samverunnar.“
14. Hvað geta hjón gert ef þau njóta þess ekki að vera saman?
14 En hvað ef þið hjónin njótið þess ekki að vera saman? Þið hafið kannski ólík áhugamál eða farið í taugarnar hvort á öðru. Hvað er til ráða? Veltum aftur fyrir okkur varðeldinum sem áður er minnst á. Eldurinn er ekki mikill í byrjun. Það þarf smám saman að bæta á hann stærri viðarkubbum. Á líkan hátt gætuð þið byrjað að verja smá tíma saman á hverjum degi. Gerið eitthvað sem þið bæði hafið gaman af en ekki eitthvað sem veldur núningi. (Jak. 3:18) Með því að byrja smátt getið þið endurvakið ástina.
KOMIÐ FRAM HVORT VIÐ ANNAÐ AF VIRÐINGU
15. Hvers vegna er virðing ómissandi til að halda ást milli hjóna lifandi?
15 Virðing er nauðsynleg í hjónabandi. Hún er eins og súrefni sem gerir varðeldinum kleift að brenna glatt. Ef eldurinn fær ekkert súrefni slokknar hann fljótt. Á líkan hátt getur ástin milli hjóna kólnað fljótt ef þau sýna ekki hvort öðru virðingu. En ef hjón leitast við að sýna hvort öðru virðingu stuðla þau að því að ástin dafni. En mundu að þetta snýst ekki um það hvort þér finnist þú sýna virðingu heldur hvort maka þínum finnst honum sýnd virðing. Penny og Aret hafa verið gift í meira en 25 ár. Hún segir: „Við berum virðingu hvort fyrir öðru og það stuðlar að hlýlegu andrúmslofti á heimilinu. Við tjáum okkur frjálslega því að við vitum að við virðum skoðanir hvort annars.“ Hvað geturðu gert til að maka þínum finnist þú virða hann? Skoðum fordæmi Abrahams og Söru.
16. Hvað geta eiginmenn lært af Abraham? (1. Pétursbréf 3:7) (Sjá einnig mynd.)
16 Abraham kom fram við Söru af virðingu. Hann tók tillit til skoðana hennar og tilfinninga. Eitt sinn var Sara miður sín og sagði Abraham frá því og ásakaði hann jafnvel fyrir það. Brást Abraham reiður við? Nei. Hann vissi að Sara var undirgefin eiginkona sem studdi hann. Hann hlustaði á hana og reyndi að finna lausn á málinu. (1. Mós. 16:5, 6) Hvað lærum við? Eiginmenn, þið hafið vald til að taka ákvarðanir fyrir fjölskylduna. (1. Kor. 11:3) En það er kærleiksríkt að taka tillit til skoðunar eiginkonunnar áður en þið takið ákvörðun, sérstaklega ef hún hefur áhrif á hana. (1. Kor. 13:4, 5) Stundum gætu eiginkonur ykkar verið undir álagi og þurft að fá að segja hvernig þeim líður. Takið þið tillit til tilfinninga þeirra og hlustið af athygli? (Lestu 1. Pétursbréf 3:7.) Angela og Dmítríj hafa verið gift í næstum 30 ár. Hún segir hvernig eiginmaður hennar sýnir henni virðingu: „Dmítríj er alltaf tilbúinn að hlusta á mig þegar ég kemst í uppnám eða þegar ég þarf bara að tala. Hann er þolinmóður við mig jafnvel þegar ég missi stjórn á tilfinningunum.“
17. Hvað geta eiginkonur lært af Söru? (1. Pétursbréf 3:5, 6)
17 Sara sýndi Abraham virðingu með því að styðja ákvarðanir hans. (1. Mós. 12:5) Við eitt tækifæri ákvað Abraham að taka vel á móti óvæntum gestum. Hann bað Söru að hætta því sem hún var að gera og baka stóran skammt af brauði. (1. Mós. 18:6) Hún brást skjótt við og studdi ákvörðun Abrahams. Eiginkonur, þið getið líkt eftir Söru með því að styðja ákvarðanir eiginmanns ykkar. Þannig styrkið þið hjónaband ykkar. (Lestu 1. Pétursbréf 3:5, 6.) Dmítríj, sem áður er minnst á, útskýrir hvernig eiginkona hans sýnir honum virðingu. Hann segir: „Ég kann að meta hvernig Angela leggur sig fram við styðja ákvarðanir mínar, jafnvel þegar hún er á annarri skoðun. Hún gagnrýnir mig ekki þegar útkoman er ekki sú besta.“ Það er auðvelt að elska þann sem virðir mann.
18. Hvaða gagn hafa hjón af því að vinna að því að halda ástinni lifandi í hjónabandinu?
18 Satan vill slökkva ástina milli hjóna sem þjóna Jehóva. Hann veit að ef hjón hætta að elska hvort annað geta þau fjarlægst Jehóva. En það er ekki hægt að slökkva sanna ást. Megi ástin í þínu hjónabandi vera eins og ástin sem Ljóðaljóðin tala um. Verið ákveðin í að láta Jehóva vera númer eitt í hjónabandi ykkar. Takið tíma hvort fyrir annað og virðið tilfinningar og þarfir hvort annars. Þá mun hjónaband ykkar heiðra Jehóva, uppsprettu sannrar ástar, og vera eins og eldur sem er haldið lifandi og logar að eilífu.
SÖNGUR 132 Nú erum við eitt
a Hjónabandið er gjöf Jehóva til manna. Þar fá eiginmaður og eiginkona tækifæri til að sýna hvort öðru innilega ást. En stundum dofnar ástin. Ef þú ert í hjónabandi getur þessi grein hjálpað þér að halda ástinni lifandi og njóta hamingju í sambandi ykkar.
b Sönn ást er óbreytanleg og varanleg og kölluð „logi Jah“ vegna þess að Jehóva er uppspretta slíkrar ástar.
c Jafnvel þótt maki þinn sé ekki vottur Jehóva geta þessar ráðleggingar hjálpað þér að styrkja hjónaband þitt. – 1. Kor. 7:12–14; 1. Pét. 3:1, 2.
d Skoðaðu til dæmis gagnleg ráð í greinaröðinni „Góð ráð handa fjölskyldunni“ á jw.org og JW Library®.