Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 20

Hvernig getum við bætt gæði bæna okkar?

Hvernig getum við bætt gæði bæna okkar?

„Úthellið hjörtum ykkar fyrir honum.“ – SÁLM. 62:8.

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

YFIRLIT a

Við getum nálgast Jehóva reglulega í bæn og leitað leiðsagnar hans á öllum sviðum lífsins. (Sjá 1. grein.)

1. Hvað býður Jehóva tilbiðjendum sínum að gera? (Sjá einnig mynd.)

 HVERT getum við snúið okkur til að fá hughreystingu og leiðsögn? Við vitum svarið við þeirri spurningu. Við getum leitað til Jehóva Guðs í bæn. Hann býður okkur að gera það. Hann vill að við biðjum oft – að við ‚biðjum stöðugt‘. (1. Þess. 5:17) Við getum óhikað leitað til hans í bæn og beðið hann um leiðsögn á öllum sviðum lífsins. (Orðskv. 3:5, 6) Jehóva er mjög örlátur Guð og setur engin takmörk um hversu oft við getum beðið til hans.

2. Hvað verður fjallað um í þessari námsgrein?

2 Bænin er okkur einstaklega dýrmæt. En þar sem við höfum í mörgu að snúast gæti okkur fundist erfitt að finna tíma til að biðja. Og ef til vill finnum við hjá okkur þörf til að bæta gæði bæna okkar. Sem betur fer er mikla hvatningu og leiðsögn varðandi þetta að finna í Biblíunni. Í þessari námsgrein skoðum við hvað við getum lært af Jesú um það að taka frá tíma til að biðja. Við skoðum líka fimm mikilvæga þætti sem geta hjálpað okkur að bæta gæði bæna okkar.

JESÚS TÓK FRÁ TÍMA TIL AÐ BIÐJA

3. Hvað vissi Jesús um bænina?

3 Jesús vissi að Jehóva metur mikils bænir okkar. Hann sá föður sinn svara bænum trúfastra karla og kvenna löngu áður en hann kom til jarðar. Hann var til dæmis við hlið föður síns þegar hann svaraði einlægum bænum Hönnu, Davíðs og Elía auk margra annarra trúfastra þjóna Guðs. (1. Sam. 1:10, 11, 20; 1. Kon. 19:4–6; Sálm. 32:5) Það er engin furða að Jesús skyldi kenna lærisveinum sínum að biðja oft og í trúartrausti. – Matt. 7:7–11.

4. Hvað lærum við af bænum Jesú?

4 Jesús setti lærisveinum sínum gott fordæmi með sínum eigin bænum. Hann bað til Jehóva oft meðan á þjónustu hans stóð. Hann þurfti að taka frá tíma til að biðja vegna þess að hann var oft önnum kafinn og umkringdur fjölda fólks. (Mark. 6:31, 45, 46) Hann fór snemma á fætur til að hafa tíma til að biðja í einrúmi. (Mark. 1:35) Að minnsta kosti við eitt tækifæri var hann á bæn alla nóttina áður en hann tók mikilvæga ákvörðun. (Lúk. 6:12, 13) Og kvöldið áður en hann dó bað hann aftur og aftur til Jehóva, enda stóð hann frammi fyrir erfiðasta hjallanum áður en hann lauk verkefni sínu á jörð. – Matt. 26:39, 42, 44.

5. Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar við biðjum til Jehóva?

5 Við lærum af bænum Jesú að sama hversu upptekin við erum þurfum við að taka frá tíma til að biðja. Við þurfum kannski að fara snemma á fætur á morgnana eða vaka aðeins lengur á kvöldin til að geta gert það. Þannig sýnum við Jehóva hversu þakklát við erum fyrir þessa sérstöku gjöf. Systir sem heitir Lynne rifjar upp hversu þakklát hún var þegar hún komst að því hversu dýrmæt bænin er. Hún segir: „Þegar ég fékk að vita að ég get talað við Jehóva hvenær sem er hjálpaði það mér að líta á hann sem náinn vin og ég vildi bæta bænir mínar.“ Við höfum vafalaust mörg sömu reynslu. Við skulum því skoða fimm mikilvæga þætti sem er gott að hafa í huga þegar við biðjum.

FIMM MIKILVÆGIR ÞÆTTIR Í BÆNUM OKKAR

6. Hvað á Jehóva skilið samkvæmt Opinberunarbókinni 4:10, 11?

6 Að lofa Jehóva. Í stórkostlegri sýn sá Jóhannes postuli 24 öldunga á himnum tilbiðja Jehóva. Þeir lofuðu Guð og sögðu að hann væri þess verður að fá „dýrðina, heiðurinn og máttinn“. (Lestu Opinberunarbókina 4:10, 11.) Trúfastir englar hafa líka fjölmargar ástæður til að lofa Jehóva og heiðra hann. Þeir eru með honum á himnum og hafa kynnst honum vel. Þeir sjá eiginleika hans endurspeglast í því sem hann gerir. Þegar þeir fylgjast með Jehóva að störfum finna þeir sig knúna til að lofa hann. – Job. 38:4–7.

7. Fyrir hvað getum við lofað Jehóva?

7 Við viljum líka lofa Jehóva í bænum okkar með því að segja honum hvað við kunnum að meta í fari hans og hvers vegna við dáum hann. Þegar þú lest og rannsakar Biblíuna skaltu reyna að koma auga á eiginleika Jehóva sem höfða sérstaklega til þín. (Job. 37:23; Rómv. 11:33) Segðu honum síðan hvað þér finnst um þessa eiginleika. Við getum líka lofað Jehóva fyrir að hjálpa okkur og öllum bræðrum okkar og systrum. Hann annast okkur og verndar öllum stundum. – 1. Sam. 1:27; 2:1, 2.

8. Hvaða ástæður höfum við til að þakka Jehóva? (1. Þessaloníkubréf 5:18)

8 Að þakka Jehóva. Við höfum margar ástæður til að þakka Jehóva í bæn. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:18.) Við getum þakkað honum allt það góða sem við höfum. Þegar allt kemur til alls kemur sérhver góð og fullkomin gjöf frá honum. (Jak. 1:17) Við getum til dæmis þakkað honum fegurð jarðarinnar og stórkostlegt sköpunarverk hans. Við getum líka sagt honum hversu þakklát við erum fyrir lífið, fjölskyldu okkar og vini, og von okkar. Og við viljum þakka Jehóva fyrir að leyfa okkur að eiga dýrmætt vináttusamband við sig.

9. Hvers vegna gætum við þurft að rækta með okkur þakklæti til Jehóva?

9 Við gætum þurft að leggja okkur sérstaklega fram um að koma auga á það sem við getum verið Jehóva þakklát fyrir. Við búum í vanþakklátum heimi. Fólk hugsar gjarnan um það sem það langar í frekar en hvernig það getur sýnt þakklæti fyrir það sem það hefur. Ef við smitumst af þessu viðhorfi gætu bænir okkar orðið eins og óskalisti. Til að koma í veg fyrir það verðum við að halda áfram að rækta með okkur og tjá þakklæti fyrir allt sem Jehóva gerir fyrir okkur. – Lúk. 6:45.

Að tjá Jehóva þakklæti okkar getur hjálpað okkur að halda út. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig hjálpaði þakklæti systur einni að halda út? (Sjá einnig mynd.)

10 Þakklæti getur hjálpað okkur að halda út í erfiðleikum. Skoðum reynslu Kyung-sook sem er greint frá í Varðturninum 15. janúar 2015. Hún greindist með langt gengið lungnakrabbamein. „Þessi veikindi voru mikið áfall fyrir mig,“ viðurkennir hún. „Mér fannst ég hafa misst allt og var dauðskelfd.“ Hvað hjálpaði henni að halda út? Hún sagðist hafa farið út á þaksvalirnar heima á hverju kvöldi áður en hún fór í háttinn og beðið upphátt. Hún nefndi fimm atriði sem hún var sérstaklega þakklát fyrir þann daginn. Þetta róaði hana og knúði hana til að segja Jehóva hversu vænt henni þætti um hann. Hún áttaði sig á að Jehóva hjálpar trúföstum þjónum sínum í erfiðleikum og að það góða í lífinu er miklu þyngra á metunum en prófraunirnar. Við höfum eins og Kyung-sook margar ástæður til að vera þakklát, jafnvel þótt við séum að ganga í gegnum erfiðleika. Að tjá honum þakklæti okkar í bæn getur hjálpað okkur að halda út og vera í tilfinningalegu jafnvægi.

11. Hvers vegna þurftu lærisveinar Jesú á hugrekki að halda eftir að hann sneri aftur til himna?

11 Að biðja Jehóva um hugrekki í boðuninni. Rétt áður en Jesús sneri aftur til himna minnti hann lærisveina sína á verkefni þeirra að vera vottar hans „í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar“. (Post. 1:8; Lúk. 24:46–48) Stuttu síðar handtóku leiðtogar Gyðinga postulana Pétur og Jóhannes og leiddu þá fyrir Æðstaráðið. Þeir skipuðu þessum trúföstu mönnum að hætta að boða trúna og hótuðu þeim jafnvel. (Post. 4:18, 21) Hvernig brugðust Pétur og Jóhannes við?

12. Hvað gerðu lærisveinarnir samkvæmt Postulasögunni 4:29, 31?

12 Pétur og Jóhannes svöruðu hótunum trúarleiðtoga Gyðinga og sögðu: „Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlusta á ykkur frekar en Guð. En við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ (Post. 4:19, 20) Þegar Pétri og Jóhannesi var sleppt báðu þeir til Jehóva. Bæn þeirra snerist um að gera vilja hans. Þeir báðu: „Veittu þjónum þínum kjark til að halda áfram að tala orð þitt óttalaust.“ Jehóva svaraði einlægri bæn þeirra. – Lestu Postulasöguna 4:29, 31.

13. Hvað getum við lært af Jin-hyuk?

13 Við getum gert eins og lærisveinarnir með því að halda áfram að boða trúna, jafnvel þegar veraldleg yfirvöld krefjast þess að við hættum að gera það. Jin-hyuk er bróðir sem var fangelsaður vegna hlutleysis síns. Í fangelsinu fékk hann það verkefni að annast þarfir fanga sem voru í einangrun en hann mátti einungis tala við þá um það sem sneri að verkefninu. Hann mátti ekki tala við þá um Biblíuna. Hann bað Jehóva um hugrekki og háttvísi til að tala um sannleikann við hvert tækifæri. (Post. 5:29) Hann segir: „Jehóva svaraði bænum mínum með því að gefa mér hugrekki og visku til að hefja mörg fimm mínútna biblíunámskeið við dyr fangaklefanna. Á kvöldin skrifaði ég síðan bréf sem ég lét fangana fá næsta dag.“ Við getum líka verið sannfærð um að hann hjálpi okkur í þjónustu okkar. Líkt og Jin-hyuk getum við beðið Jehóva um hugrekki og visku.

14. Hvað getur hjálpað okkur þegar við eigum við vandamál að glíma? (Sálmur 37:3, 5)

14 Að biðja Jehóva um hjálp til að takast á við vandamál. Mörg okkar glíma við veikindi eða tilfinningalega erfiðleika, ástvinamissi, erfiðar fjölskylduaðstæður, ofsóknir eða önnur vandamál. Og aðstæður eins og faraldrar og stríð hafa gert mörg af þessum vandamálum jafnvel enn meira íþyngjandi. Úthelltu hjarta þínu fyrir Jehóva. Segðu honum hverjar aðstæður þínar eru eins og þú myndir segja nánum vini frá þeim. Treystu því að Jehóva ‚muni hjálpa þér‘. – Lestu Sálm 37:3, 5.

15. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að ‚vera þolgóð í erfiðleikum‘? Nefndu dæmi.

15 Að halda áfram að biðja gerir okkur kleift að ‚vera þolgóð í erfiðleikum‘. (Rómv. 12:12) Jehóva veit hvað tilbiðjendur hans eru að ganga í gegnum – „hann heyrir þá hrópa á hjálp“. (Sálm. 145:18, 19) Kristie sem er 29 ára brautryðjandi sannfærðist um það. Skyndilega veiktist hún alvarlega. Í kjölfarið varð hún mjög þunglynd. Seinna greindist mamma hennar með lífshættulegan sjúkdóm. Kristie segir: „Ég bað Jehóva af ákafa að gefa mér styrk til að komast í gegnum hvern dag. Ég reyndi að hafa góða andlega dagskrá með því að sækja samkomur og sinna sjálfsnámi.“ Hún bætir við: „Bænin hjálpaði mér að halda út á erfiðum tímum. Ég vissi að Jehóva var alltaf til staðar og sú hugsun veitti mér einstaklega mikla huggun. Þótt ég fengi ekki lækningu á veikindum mínum strax svaraði Jehóva bænum mínum með því að gefa mér innri frið og ró.“ Við megum aldrei gleyma að „Jehóva veit hvernig hann á að bjarga hinum guðræknu úr prófraunum“. – 2. Pét. 2:9.

Til að standast freistingar skaltu (1) biðja Jehóva um hjálp, (2) breyta í samræmi við bænir þínar og (3) styrkja samband þitt við hann. (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvers vegna þurfum við á hjálp Jehóva að halda til að standast freistingar?

16 Að biðja Jehóva um hjálp til að standast freistingar. Vegna ófullkomleikans þurfum við stöðugt að berjast gegn freistingunni til að gera það sem er rangt. Satan gerir allt sem í hans valdi stendur til að gera þá baráttu eins erfiða og mögulegt er. Ein leið sem hann notar til að spilla huga okkar er siðlaus afþreying. Hún getur fyllt huga okkar með óhreinum hugsunum sem spilla okkar innri manni og geta leitt til alvarlegrar syndar. – Mark. 7:21–23; Jak. 1:14, 15.

17. Hvernig getum við breytt í samræmi við bæn okkar um að forðast freistingar? (Sjá einnig mynd.)

17 Við þurfum á hjálp Jehóva að halda til að standast freistingar til að gera rangt. Í faðirvorinu nefndi Jesús eftirfarandi beiðni: „Leiddu okkur ekki í freistingu heldur frelsaðu okkur frá hinum vonda.“ (Matt. 6:13) Jehóva vill hjálpa okkur en við þurfum að biðja um hjálpina. Við þurfum líka að breyta í samræmi við bænir okkar. Við getum gert ýmislegt til að vera ekki berskjölduð fyrir röngum og vinsælum hugmyndum í heimi Satans. (Sálm. 97:10) Við fyllum huga okkar heilnæmum hugsunum þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna. Að sækja samkomur og taka þátt í boðuninni hjálpar okkur líka að varðveita huga okkar. Og Jehóva lofar að hann muni ekki láta freista okkar umfram það sem við ráðum við. – 1. Kor. 10:12, 13.

18. Hvað þurfum við öll að gera í sambandi við bænir?

18 Hvert og eitt okkar þarf að biðja meira til Jehóva en nokkru sinni fyrr til að vera honum trúföst á þessum erfiðu síðustu dögum. Taktu frá tíma á hverjum degi til að biðja innilega til Jehóva. Jehóva vill að við ‚úthellum hjörtum okkar fyrir honum‘ í bæn. (Sálm. 62:8) Lofaðu hann og þakkaðu honum fyrir allt sem hann gerir. Biddu hann um hjálp til að vera hugrakkur í boðuninni. Biddu hann að hjálpa þér að takast á við hvert það vandamál sem verður á vegi þínum og standast hverja freistingu sem þú mætir. Láttu ekkert og engan hindra þig í að tala reglulega við hann í bæn. En hvernig svarar Jehóva bænum okkar? Við skoðum þá mikilvægu spurningu í næstu námsgrein.

SÖNGUR 42 Bæn þjóns Guðs

a Við viljum að bænir okkar séu eins og bréf til vinar sem er okkur kær. En það er ekki alltaf auðvelt að finna tíma til að biðja. Og það getur verið erfitt að vita hvað við eigum að tala um í bænum okkar. Í þessari námsgrein ræðum við báða þessa mikilvægu þætti.