Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 21

Hvernig svarar Jehóva bænum okkar?

Hvernig svarar Jehóva bænum okkar?

‚Við vitum að við fáum það sem við höfum beðið hann um.‘ – 1. JÓH. 5:15.

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

YFIRLIT a

1, 2. Hverju gætum við velt fyrir okkur varðandi bænir okkar?

 HEFURÐU einhvern tíma velt fyrir þér hvort Jehóva svari bænum þínum? Þú ert þá ekki einn um það. Margir bræður og systur hafa tjáð sig um slíkar áhyggjur, ekki síst þegar þau hafa gengið í gegnum erfitt tímabil. Þegar við þjáumst gæti okkur fundist erfiðara að koma auga á hvernig Jehóva svarar bænum okkar.

2 Skoðum hvers vegna við getum verið viss um að Jehóva svarar bænum tilbiðjenda sinna. (1. Jóh. 5:15) Við skoðum líka eftirfarandi spurningar: Hvers vegna getur stundum litið út fyrir að Jehóva svari ekki bænum okkar? Hvernig svarar Jehóva bænum nú á dögum?

JEHÓVA SVARAR OKKUR KANNSKI EKKI Á ÞANN HÁTT SEM VIÐ BÚUMST VIÐ

3. Hvers vegna vill Jehóva að við leitum til hans í bæn?

3 Biblían fullvissar okkur um að Jehóva elski okkur heitt og að við séum dýrmæt í augum hans. (Hag. 2:7; 1. Jóh. 4:10) Það er ástæðan fyrir því að hann býður okkur að leita til sín í bæn til að fá hjálp. (1. Pét. 5:6, 7) Hann vill hjálpa okkur að viðhalda nánu sambandi við sig og takast á við erfiðleika okkar með góðum árangri.

Jehóva svaraði bænum Davíðs með því að bjarga honum frá óvinum hans. (Sjá 4. grein.)

4. Hvernig vitum við að Jehóva svarar bænum tilbiðjenda sinna? (Sjá einnig mynd.)

4 Í Biblíunni er oft sagt frá því þegar Jehóva svaraði bænum tilbiðjenda sinna. Dettur þér í hug dæmi? Ræðum aðeins um Davíð. Hann stóð andspænis mörgum hættulegum óvinum um ævina og leitaði oft hjálpar Jehóva í bæn. Einu sinni sárbað hann Jehóva: „Jehóva, heyrðu bæn mína, hlustaðu þegar ég hrópa á hjálp. Svaraðu mér því að þú ert trúfastur og réttlátur.“ (Sálm. 143:1) Jehóva svaraði bæn Davíðs um björgun. (1. Sam. 19:10, 18–20; 2. Sam. 5:17–25) Davíð gat sagt af sannfæringu: „Jehóva er nálægur öllum sem ákalla hann.“ Við getum haft sömu fullvissu. – Sálm. 145:18.

Jehóva svaraði bænum Páls með því að gefa honum kraft til að halda út. (Sjá 5. grein.)

5. Fengu tilbiðjendur Guðs áður fyrr alltaf bænheyrslu á þann hátt sem þeir bjuggust við? Nefndu dæmi. (Sjá einnig mynd.)

5 Jehóva svarar kannski bænum okkar á annan hátt en við búumst við. Páll postuli upplifði það. Hann bað Guð að losa sig við ‚þyrni í holdinu‘. Hann nefndi þetta erfiða vandamál í bæn þrisvar. Svaraði Jehóva bænum hans? Já, en ekki á þann hátt sem Páll vonaðist til. Í stað þess að fjarlægja vandann gaf Jehóva honum þann kraft sem hann þurfti til að halda áfram að þjóna honum trúfastlega. – 2. Kor. 12:7–10.

6. Hvers vegna gæti stundum litið út fyrir að Jehóva svari ekki bænum okkar?

6 Við getum líka stundum fengið annað svar en við búumst við. Við megum vera viss um að Jehóva veit nákvæmlega hvernig er best að hjálpa okkur. Hann getur jafnvel „gert langt umfram allt sem við biðjum um eða getum ímyndað okkur“. (Ef. 3:20) Svar hans við bænum okkar gæti komið á öðrum tíma eða á annan hátt en við bjuggumst við.

7. Hvers vegna gætum við þurft að breyta því hvernig við biðjum? Nefndu dæmi.

7 Við gætum þurft að breyta því hvernig við biðjum þegar við skiljum betur hver vilji Jehóva er. Skoðum reynslu Martins Poetzingers. Stuttu eftir að hann kvæntist var hann tekinn til fanga og settur í fangabúðir nasista. Til að byrja með bað hann Jehóva að frelsa sig úr fangabúðunum til að hann gæti annast konuna sína og boðað trúna aftur. En eftir tvær vikur sá hann engar vísbendingar um að Jehóva ætlaði að verða við bón hans. Hann fór því að biðja: „Jehóva, viltu sýna mér hvað þú vilt að ég geri.“ Hann fór að hugsa um hvað aðrir bræður í fangabúðunum máttu þola. Margir þeirra höfðu áhyggjur af eiginkonum sínum og börnum. Bróðir Poetzinger bað þá: „Jehóva, takk fyrir nýja verkefnið mitt. Hjálpaðu mér að styrkja og uppörva bræður mína.“ Og það gerði hann næstu níu árin meðan hann var í fangabúðunum!

8. Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar við biðjum?

8 Við megum ekki gleyma að Jehóva hefur fyrirætlun og hann lætur hana fram ganga á þeim tíma sem hann hefur ákveðið. Þessi fyrirætlun felur meðal annars í sér að binda algerlega og endanlega enda á öll vandamál sem valda svo miklum þjáningum núna – vandamál eins og náttúruhamfarir, veikindi og dauða. Jehóva uppfyllir fyrirætlun sína fyrir tilstilli ríkis síns. (Dan. 2:44; Opinb. 21:3, 4) En þangað til leyfir hann að Satan stjórni heiminum. b (Jóh. 12:31; Opinb. 12:9) Ef Jehóva færi að leysa vandamál mannkyns núna gæti litið út fyrir að stjórn Satans væri vel heppnuð að einhverju leyti. Við þurfum því að bíða eftir að Jehóva uppfylli sum loforð, en það þýðir ekki að við fáum enga hjálp þangað til. Skoðum sumt sem Jehóva gerir til að hjálpa okkur.

HVERNIG SVARAR JEHÓVA BÆNUM NÚ Á DÖGUM?

9. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur þegar við þurfum að taka ákvörðun? Lýstu með dæmi.

9 Hann veitir okkur visku. Jehóva lofar að gefa okkur þá visku sem við þurfum til að taka góðar ákvarðanir. Við þurfum sérstaklega á visku frá honum að halda þegar við tökum ákvarðanir sem hafa áhrif á okkur alla ævi, eins og til dæmis þegar við ákveðum hvort við viljum ganga í hjónaband eða vera áfram einhleyp. (Jak. 1:5) Skoðum reynslu systur okkar sem heitir Maria. c Hún naut þess að þjóna sem brautryðjandi þegar hún fór að kynnast bróður. Hún segir: „Tilfinningarnar sem við bárum hvort til annars urðu sterkari eftir því sem vináttan varð nánari. Ég vissi að ég þurfti að taka ákvörðun. Ég bað mikið til Jehóva. Mig vantaði leiðsögn hans en ég vissi að hann myndi ekki taka ákvörðun fyrir mig.“ Henni finnst Jehóva hafa svarað bænum sínum um visku. Hvernig? Þegar hún leitaði í ritum okkar gat hún fundið ákveðnar greinar sem hjálpuðu henni að finna svör við spurningum sínum. Hún tók líka til sín ráð frá trúfastri móður sinni. Það hjálpaði Mariu að rannsaka tilfinningar sínar. Hún gat að lokum tekið viturlega ákvörðun.

Hvernig gefur Jehóva okkur kraft til að halda út? (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig hjálpar Jehóva tilbiðjendum sínum samkvæmt Filippíbréfinu 4:13? Nefndu dæmi. (Sjá einnig mynd.)

10 Hann gefur okkur kraft til að halda út. Rétt eins og í tilfelli Páls postula gefur Jehóva okkur kraft til að halda út í erfiðleikum. (Lestu Filippíbréfið 4:13.) Hugleiðum hvernig Jehóva hjálpaði bróður að nafni Benjamin til að halda út í erfiðum aðstæðum. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í flóttamannabúðum í Afríku nánast öll æskuárin. Benjamin segir: „Ég bað Jehóva stanslaust að gefa mér kraft til að gera það sem honum þóknast. Hann svaraði bænum mínum með því að gefa mér hugarró, hugrekki til að halda áfram að boða trúna og rit sem hjálpuðu mér að varðveita náið samband við hann.“ Hann bætir við: „Að lesa um reynslu annarra votta og sjá hvernig Jehóva hjálpaði þeim að halda út styrkti ásetning minn að vera trúfastur.“

Hefur þú fundið fyrir hjálp Jehóva þegar trúsystkini hafa komið þér til hjálpar? (Sjá 11. og 12. grein.) d

11, 12. Hvernig gæti Jehóva svarað bænum okkar með hjálp trúsystkina okkar? (Sjá einnig mynd.)

11 Hann notar andlega fjölskyldu okkar. Nóttina áður en Jesús fórnaði lífi sínu bað hann innilega til Jehóva. Hann sárbað hann að hlífa sér við þeirri smán að vera dæmdur fyrir guðlast. En í stað þess að gera það hjálpaði Jehóva honum með því að senda bróður hans frá andaheiminum til að styrkja hann. (Lúk. 22:42, 43) Jehóva getur líka hjálpað okkur með símtali eða heimsókn frá bróður eða systur sem uppörvar okkur. Við getum öll verið vakandi fyrir tækifærum til að styrkja trúsystkini með ‚uppbyggjandi orðum‘. – Orðskv. 12:25.

12 Skoðum reynslu systur sem heitir Miriam. Fáeinum vikum eftir að maðurinn hennar dó var hún ein heima, kjarklítil og niðurdregin. Hún gat ekki hætt að gráta og vantaði einhvern til að tala við. Hún segir: „Ég hafði engan kraft til að hringja í neinn svo að ég bað til Jehóva. Meðan ég var enn að biðja grátandi hringdi síminn. Það var öldungur og kær vinur.“ Öldungurinn og konan hans hughreystu Miriam. Hún er sannfærð um að Jehóva hafi knúið bróðurinn til að hringja.

Hvernig gæti Jehóva knúið aðra til að koma okkur til hjálpar? (Sjá 13. og 14. grein.)

13. Nefndu dæmi sem sýnir hvernig Jehóva getur svarað bænum okkar fyrir tilstilli fólks sem þjónar honum ekki.

13 Hann getur notað fólk sem þjónar honum ekki. (Orðskv. 21:1) Jehóva svarar stundum bænum þjóna sinna með því að knýja fólk sem er ekki í trúnni til að beita sér í þágu þeirra. Hann fékk til dæmis Artaxerxes konung til að verða við beiðni Nehemía um að fara til Jerúsalem og aðstoða við að endurbyggja borgina. (Neh. 2:3–6) Nú á dögum getur Jehóva líka knúið fólk sem þjónar honum ekki til að veita okkur hjálp þegar þörf er á.

14. Hvað finnst þér hvetjandi við reynslu Soo Hing? (Sjá einnig mynd.)

14 Systur sem heitir Soo Hing fannst Jehóva hjálpa sér fyrir tilstilli læknis hennar. Sonur hennar þjáist af margvíslegum geðrænum vandamálum. Eftir að hann hafði lent í alvarlegu slysi hættu hún og eiginmaður hennar að vinna til að annast hann. Í kjölfarið lentu þau í fjárhagsvanda. Soo Hing sagði að sér liði eins og strekktri teygju sem væri komin að því að slitna. Hún úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva í bæn og bað hann að hjálpa sér. Læknirinn ákvað að finna leið til að hjálpa henni og fjölskyldu hennar. Fyrir vikið fengu þau aðstoð frá yfirvöldum og húsnæði sem þau höfðu efni á. Soo Hing sagði eftir á: „Við sáum hönd Jehóva. Hann heyrir sannarlega bænir.“ – Sálm. 65:2.

ÞAÐ ÚTHEIMTIR TRÚ AÐ SJÁ BÆNASVAR JEHÓVA OG VERA SÁTTUR VIÐ ÞAÐ

15. Hvað hjálpaði systur að átta sig á að Jehóva svaraði bænum hennar?

15 Bænum okkar er venjulega ekki svarað með tilkomumiklum hætti. En svörin eru nákvæmlega það sem við þurfum til að vera trúföst föður okkar á himnum. Vertu þess vegna vakandi fyrir því hvernig Jehóva svarar bænum þínum. Systur að nafni Yoko fannst eins og Jehóva svaraði ekki bænum hennar. Hún byrjaði að skrifa í minnisbók það sem hún bað Jehóva um og eftir nokkurn tíma rifjaði hún það upp. Þá gerði hún sér grein fyrir að Jehóva hafði svarað flestum bænum hennar, jafnvel sumum sem hún var búin að gleyma. Við þurfum að staldra við af og til og hugleiða hvernig Jehóva svarar bænum okkar. – Sálm. 66:19, 20.

16. Hvernig getum við sýnt trú varðandi bænir okkar? (Hebreabréfið 11:6)

16 Við sýnum trú ekki aðeins með því að biðja til Jehóva heldur líka með því að vera sátt við svörin, óháð því hver þau eru. (Lestu Hebreabréfið 11:6.) Tökum sem dæmi reynslu Mike og Chrissy eiginkonu hans. Þau höfðu sem markmið að þjóna á Betel. „Við sóttum mörgum sinnum um og báðum aftur og aftur til Jehóva í tengslum við markmið okkar,“ segir Mike, „en okkur var aldrei boðið á Betel.“ Mike og Chrissy treystu að Jehóva vissi best hvernig hann myndi nýta krafta þeirra í þjónustunni. Þau héldu áfram að gera það sem þau gátu. Þau þjónuðu sem brautryðjendur þar sem þörfin var meiri og tóku þátt í byggingarverkefnum á vegum safnaðarins. Nú eru þau í farandstarfinu. Mike segir: „Jehóva hefur ekki alltaf svarað bænum okkar eins og við bjuggumst við en hann hefur svarað þeim og jafnvel betur en við hefðum getað ímyndað okkur.“

17, 18. Hvað getum við verið sannfærð um samkvæmt Sálmi 86:6, 7?

17 Lestu Sálm 86:6, 7. Sálmaskáldið Davíð var sannfærður um að Jehóva heyrði bænir hans og svaraði þeim. Þú getur haft sömu sannfæringu. Dæmin sem við höfum skoðað í þessari námsgrein sýna að Jehóva getur gefið okkur þá visku og kraft sem við þurfum til að halda út. Hann getur notað trúsystkini okkar og jafnvel fólk sem þjónar honum ekki eins og er, og komið okkur þannig til hjálpar.

18 Þótt Jehóva svari ekki alltaf bænum okkar eins og við búumst við vitum við að hann svarar þeim. Hann gefur okkar nákvæmlega það sem við þurfum þegar við þurfum á því að halda. Haltu þess vegna áfram að biðja til Jehóva í trausti þess að hann heyri bænir þínar og að hann muni annast þig núna og ‚uppfylla langanir alls sem lifir‘ í nýja heiminum. – Sálm. 145:16.

SÖNGUR 46 Við þökkum þér, Jehóva

a Jehóva fullvissar okkur um að hann svari bænum okkar ef þær eru í samræmi við vilja hans. Þegar við göngum í gegnum prófraunir megum við vera viss um að hann veiti okkur þá hjálp sem við þurfum til að vera honum trúföst. Við skulum skoða hvernig Jehóva svarar bænum.

b Í greininni „Misstu ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir“ í Varðturninum júní 2017 er fjallað um hvers vegna Jehóva hefur leyft Satan að stjórna heiminum.

c Sumum nöfnum hefur verið breytt.

d MYND: Móðir og dóttir koma sem flóttamenn til lands. Trúsystkini taka hlýlega á móti þeim og veita þeim aðstoð.