NÁMSGREIN 18
SÖNGUR 1 Eiginleikar Jehóva
Treystum á ‚dómara allrar jarðarinnar‘
„Gerir ekki dómari allrar jarðarinnar það sem er rétt?“– 1. MÓS. 18:25.
Í HNOTSKURN
Dýpkum skilning okkar á miskunn Jehóva og réttlæti í sambandi við upprisu hinna ranglátu.
1. Hvað kenndi Jehóva Abraham sem er mjög uppörvandi að vita?
ABRAHAM gleymdi aldrei þessu samtali. Guð sagði Abraham fyrir milligöngu engils að hann myndi eyða borgunum Sódómu og Gómorru. Þessum trúfasta manni varð órótt. Hann sagði: „Ætlarðu að eyða hinum réttlátu með hinum vondu? … Gerir ekki dómari allrar jarðarinnar það sem er rétt?“ Jehóva sýndi þessum kæra vini sínum þolinmæði og kenndi honum nokkuð sem nýtist okkur og er hughreystandi: Guð eyðir aldrei réttlátu fólki. – 1. Mós. 18:23–33.
2. Hvers vegna er öruggt að Jehóva dæmir alltaf af réttlæti og miskunn?
2 Hvernig getum við verið viss um að Jehóva dæmi alltaf af réttlæti og miskunn? Vegna þess að við vitum að Jehóva sér hvað býr í hjörtum fólks. (1. Sam. 16:7) Reyndar „gerþekkir [hann] hjörtu allra manna“. (1. Kon. 8:39; 1. Kron. 28:9) Það er alveg magnað. Viska Jehóva er svo óendanlega meiri visku okkar að við gætum aldrei skilið til fulls ákvarðanir hans. Páli postula var innblásið að segja um Jehóva Guð: „Dómar hans eru ofar okkar skilningi.“ – Rómv. 11:33.
3, 4. Hverju gætum við stundum velt fyrir okkur og hvað skoðum við í þessari námsgrein? (Jóhannes 5:28, 29)
3 Við gætum samt stundum velt fyrir okkur spurningum álíka þeim sem Abraham spurði. Við gætum líka velt fyrir okkur hvort fólk sem fékk dóm í Sódómu og Gómorru eigi sér framtíðarvon. Er möguleiki að þetta fólk komi í upprisu ranglátra? – Post. 24:15.
4 Rifjum upp það sem við vitum um upprisuna. Nýlega var varpað skýrara ljósi á upprisu til lífs og upprisu til dóms. a (Lestu Jóhannes 5:28, 29.) Í þessari námsgrein og þeirri næstu skoðum við hvernig þetta hefur aukið skilning okkar enn frekar. Við skoðum fyrst hvað við vitum ekki varðandi réttláta dóma Jehóva og síðan hvað við vitum.
ÞAÐ SEM VIÐ VITUM EKKI
5. Hvað hefur áður komið fram í ritum okkar í sambandi við þá sem var eytt í Sódómu og Gómorru?
5 Í ritum okkar hefur áður verið fjallað um hver afdrif þeirra verða sem Jehóva dæmir rangláta. Þar hefur komið fram að einstaklingar eins og þeir sem voru í Sódómu og Gómorru eigi enga von um upprisu í framtíðinni. En eftir að hafa rannsakað þetta vandlega í bænarhug hefur spurningin vaknað: Getum við fullyrt þetta?
6. Hvaða dæmi höfum við um dóma Jehóva yfir ranglátu fólki en hvað vitum við samt ekki?
6 Skoðum nokkur dæmi í Biblíunni sem tengjast þessu máli. Nokkrar frásögur hennar segja frá dómum Jehóva yfir ranglátu fólki, eins og þeim óþekkta fjölda sem fórst í flóðinu, þeim sjö þjóðum í fyrirheitna landinu sem Jehóva fyrirskipaði að ætti að útrýma og þeim 185.000 hermönnum Assýringa sem engill Jehóva drap á einni nóttu. (1. Mós. 7:23; 5. Mós. 7:1–3; Jes. 37:36, 37) Getum við ályktað út frá þeim upplýsingum sem er að finna í Biblíunni um þessa atburði að Jehóva hafi dæmt alla þessa einstaklinga til eilífrar tortímingar og þeir hafi enga von um upprisu? Nei, við getum það ekki. Hvers vegna segjum við það?
7. Hvað vitum við ekki um fólkið sem var eytt í flóðinu eða þegar Ísraelsmenn unnu fyrirheitna landið? (Sjá mynd.)
7 Við vitum ekki hvernig Jehóva dæmdi hvern og einn einstakling. Og við vitum ekki heldur hvort þeir sem dóu höfðu tækifæri til að læra um Jehóva og iðrast. Biblían segir um þann tíma sem flóðið átti sér stað að Nói hafi verið ‚boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5) En hún segir ekki að meðan hann var að byggja risastóra örk hafi hann á sama tíma verið að reyna að ná til allra á jörðinni sem áttu yfir höfði sér eyðingu. Og við vitum ekki heldur hvort illa fólkið í Kanaanslandi hafi haft tækifæri til að læra um Jehóva og breyta hegðun sinni.
8. Hvað vitum við um íbúa Sódómu og Gómorru?
8 Hvað með fólkið sem dó þegar Jehóva eyddi Sódómu og Gómorru? Lot var réttlátur maður og bjó mitt á meðal þessa fólks. Vitum við hvort hann hafi flutt öllum boðskap Guðs? Nei. Þetta var sannarlega illt fólk en vissi hver og einn hvað var rétt og rangt? Múgur manna í borginni reyndi að nauðga gestum Lots. Biblían bendir á að múgurinn samanstóð af ‚ungum sem gömlum‘. (1. Mós. 19:4; 2. Pét. 2:7) Vitum við með vissu að Jehóva Guð hafi dæmt hvern og einn til dauða með enga von um upprisu? Jehóva er miskunnsamur og fullvissaði Abraham um að það hafi ekki einu sinni verið tíu réttlátir menn í borginni. (1. Mós. 18:32) Þetta var því ranglátt fólk og Jehóva gerði það ábyrgt fyrir verkum sínum. Getum við þá slegið því föstu að enginn þeirra fái upprisu þegar ranglátir verða reistir upp? Nei, það getum við ekki.
9. Hvað vitum við ekki um Salómon?
9 Í Biblíunni lesum við líka um réttlátt fólk sem varð með tímanum ranglátt. Salómon konungur er dæmi um það. Hann fékk nákvæma fræðslu frá Guði og naut ríkulegrar blessunar hans. Samt fór hann síðar að tilbiðja falsguði. Þetta vakti reiði Jehóva og Ísraelsþjóðin fékk að súpa seyðið af syndum hans í margar aldir. Biblían segir reyndar að Salómon hafi verið „lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum“ og hún segir það einnig um trúfasta menn eins og Davíð konung. (1. Kon. 11:5–9, 43; 2. Kon. 23:13) En er þetta orðalag trygging fyrir því að Salómon fái upprisu? Biblían segir ekkert um það. Sumir hafa samt dregið þá ályktun af orðunum: „Sá sem er dáinn er sýknaður af synd sinni.“ (Rómv. 6:7) Það er vissulega rétt en merkir ekki að allir sem hafa dáið fái upprisu, rétt eins og þeir hafi áunnið sér það. Upprisa er gjöf frá kærleiksríkum Guði. Hann gefur hana þeim sem hann vill gefa tækifæri til að þjóna sér að eilífu. (Job. 14:13, 14; Jóh. 6:44) Mun Salómon fá þessa gjöf? Jehóva veit svarið, við vitum það ekki. En það sem við vitum er að Jehóva gerir það sem er rétt.
ÞAÐ SEM VIÐ VITUM
10. Hvað finnst Jehóva um að eyða fólki? (Esekíel 33:11) (Sjá einnig mynd.)
10 Lestu Esekíel 33:11. Jehóva segir okkur hvað honum finnst um að fella dóm yfir fólki. Pétur postuli endurómaði það sem Esekíel spámaður skrifaði þegar hann sagði: „Jehóva … vill ekki að neinn farist.“ (2. Pét. 3:9) Það er hughreystandi að vita. Við vitum að Jehóva myndi aldrei eyða einhverjum fyrir fullt og allt nema hann hefði góða ástæðu til þess. Hann er ótrúlega miskunnsamur og sýnir miskunn hvenær sem það er mögulegt.
11. Hver fær ekki upprisu og hvernig vitum við það?
11 Við vitum nú þegar um nokkra einstaklinga sem fá ekki upprisu. Biblían nefnir fáein dæmi. b Jesús gaf í skyn að Júdas Ískaríot fengi ekki upprisu. (Mark. 14:21; sjá einnig skýringu við Jóhannes 17:12 í NW á ensku.) Júdas vann af ásettu ráði gegn Jehóva Guði og syni hans. (Sjá skýringu við Markús 3:29 í NW á ensku.) Jesús sagði líka að sumir af trúarleiðtogunum sem unnu gegn honum myndu deyja án vonar um upprisu. (Matt. 23:33; sjá einnig skýringu við Jóhannes 19:11 í NW á ensku.) Og Páll postuli benti á að iðrunarlausir fráhvarfsmenn fengju ekki upprisu. – Hebr. 6:4–8; 10:29.
12. Hvað vitum við um miskunn Jehóva? Nefndu dæmi.
12 Hvað vitum við um miskunn Jehóva? Hvernig hefur hann sýnt að hann vill ekki að neinn farist? Skoðum dæmi um miskunn hans gagnvart þeim sem hafa drýgt alvarlegar syndir. Davíð konungur gerðist sekur um alvarlegar syndir eins og hjúskaparbrot og morð. En hann iðraðist þannig að Jehóva sýndi honum miskunn og fyrirgaf honum. (2. Sam. 12:1–13) Manasse konungur gerði hræðilega hluti stóran hluta ævi sinnar. En þótt hann hafi farið út fyrir öll mörk sá Jehóva ástæðu til að fyrirgefa honum vegna þess að hann iðraðist. (2. Kron. 33:9–16) Þessi dæmi minna okkur á að Jehóva sýnir miskunn hvenær sem hann sér grundvöll til þess. Hann mun reisa slíka einstaklinga upp til lífs vegna þess að þeir viðurkenndu að þeir drýgðu hræðilegar syndir og iðruðust.
13. (a) Hvers vegna sýndi Jehóva Nínívebúum miskunn? (b) Hvað sagði Jesús síðar um Nínívebúa?
13 Við vitum líka að Jehóva sýndi Nínívebúum miskunn. Guð sagði við Jónas: „Ég hef tekið eftir illsku íbúanna.“ En þegar þeir iðruðust synda sinna sýndi Jehóva þeim góðvild og fyrirgaf þeim. Hann var langtum miskunnsamari en Jónas. Jónas var reiður og Guð þurfti að minna hann á að íbúar Níníve ‚þekktu ekki muninn á réttu og röngu‘. (Jónas 1:1, 2; 3:10; 4:9–11) Síðar notaði Jesús þetta dæmi til að kenna fólki hvernig Jehóva sýnir réttlæti og miskunn. Jesús sagði að Nínívebúar sem iðruðust myndu „rísa upp í dóminum“. – Matt. 12:41.
14. Hvað mun upprisa „til dóms“ þýða fyrir Nínívebúa?
14 Í hvaða dómi myndu Nínívebúar rísa upp? Jesús sagði að í framtíðinni yrði upprisa „til dóms“. (Jóh. 5:29) Hann var að vísa til þúsundáraríkisins þegar bæði ‚réttlátir og ranglátir‘ fá upprisu. (Post. 24:15) Fyrir hina ranglátu er þetta upprisa „til dóms“. Það merkir að Jehóva og Jesús fylgjast með og meta hegðun þeirra og hvernig þeir bregðast við því sem þeir læra. Ef Nínívebúar sem fá upprisu neita að taka þátt í hreinni tilbeiðslu mun Jehóva ekki leyfa þeim að lifa áfram. (Jes. 65:20) En dómurinn verður þeim öllum í vil sem kjósa að tilbiðja Jehóva af trúfesti. Þeir fá tækifæri til að lifa að eilífu. – Dan. 12:2.
15. (a) Hvers vegna ættum við ekki að fullyrða að enginn þeirra sem var eytt í Sódómu og Gómorru fái upprisu? (b) Hvernig ber að skilja það sem segir í Júdasarbréfi versi 7? (Sjá rammagreinina „ Hvað átti Júdas við?“)
15 Þegar Jesús talaði um íbúa Sódómu og Gómorru sagði hann að ‚bærilegra yrði fyrir‘ þá á dómsdegi en fólkið sem hafnaði honum og kennslu hans. (Matt. 10:14, 15; 11:23, 24; Lúk. 10:12) Hvað átti hann við? Notaði hann ofhvörf við þetta tækifæri? Svo virðist ekki vera, ekki frekar en þegar hann talaði um Nínívebúa. c Hérna virðist Jesús meina bókstaflega það sem hann segir. Dómsdagur hér er hinn sami og hann talar um í tengslum við Nínívebúa. Íbúar Sódómu og Gómorru höguðu sér illa eins og Nínívebúar. En Nínívebúar fengu tækifæri til að iðrast. Og gleymum ekki því sem Jesús sagði um upprisu „til dóms“. „Þeir sem ástunduðu hið illa“ fá slíka upprisu. (Jóh. 5:29) Það lítur því út fyrir að það sé von fyrir íbúa Sódómu og Gómorru. Það er mögulegt að í það minnsta sumir þeirra fái tækifæri til að læra um Jehóva og Jesú Krist.
16. Hvernig ákveður Jehóva hverjir fá upprisu? (Jeremía 17:10)
16 Lestu Jeremía 17:10. Þetta vers dregur saman það sem við vitum nú þegar: Jehóva hefur alltaf „rannsakað hjartað og kannað innstu hugsanir mannsins“. Þegar kemur að upprisunni í framtíðinni mun hann eins og alltaf „launa hverjum og einum eftir breytni hans“. Jehóva er alltaf trúr réttlátum mælikvarða sínum en sýnir miskunn hvenær sem það er mögulegt. Við ættum því ekki að draga þá ályktun að einhver fái ekki upprisu nema við vitum fyrir víst að svo sé.
‚DÓMARI ALLRAR JARÐARINNAR GERIR ÞAÐ SEM ER RÉTT‘
17. Hvaða framtíð bíður þeirra sem hafa dáið?
17 Milljarðar manna hafa dáið síðan Adam og Eva slógust í lið með Satan og gerðu uppreisn gegn Jehóva Guði. Gríðarlega margir hafa fallið fyrir þessum grimma óvini, dauðanum. (1. Kor. 15:26) Hvað bíður alls þessa fólks? Takmarkaður fjöldi trúfastra kristinna fylgjenda Jesú, 144.000 einstaklingar, fær upprisu til himna sem ódauðlegar andaverur. (Opinb. 14:1) Mikill fjöldi karla og kvenna sem elskaði Jehóva verður í hópi þeirra réttlátu sem rísa upp. Þetta fólk fær að lifa að eilífu á jörðinni ef það heldur áfram að iðka réttlæti í þúsundáraríki Krists og stenst lokaprófið. (Dan. 12:13; Hebr. 12:1) Í þúsundáraríkinu munu hinir ranglátu líka fá tækifæri til að breyta sér og verða trúfastir þjónar Jehóva. Þar á meðal eru þeir sem þjónuðu ekki Jehóva og jafnvel þeir sem „ástunduðu hið illa“. (Lúk. 23:42, 43) En sumir voru svo illir, svo ákveðnir að standa á móti Jehóva og fyrirætlun hans, að hann hefur ákveðið að þeir fái ekki upprisu. – Lúk. 12:4, 5.
18, 19. (a) Hvers vegna getum við treyst dómum Jehóva gagnvart þeim sem hafa dáið? (Jesaja 55:8, 9) (b) Hvað skoðum við í næstu námsgrein?
18 Getum við verið alveg viss um að dómar Jehóva séu alltaf réttir? Já, Jehóva er fullkominn, alvitur og miskunnsamur „dómari allrar jarðarinnar“ eins og Abraham skildi svo vel. Jehóva hefur kennt syni sínum og gefið honum þá ábyrgð að dæma alla. (Jóh. 5:22) Bæði faðirinn og sonurinn geta séð hvað býr í hjarta hverrar manneskju. (Matt. 9:4) Við getum treyst því að þeir geri rétt þegar þeir dæma hvern og einn.
19 Við getum treyst því að allar ákvarðanir Jehóva séu réttar. Það er augljóst að við erum ekki hæf til að dæma en hann er það svo sannarlega. (Lestu Jesaja 55:8, 9.) Við treystum því Jehóva og syni hans til að dæma. Við vitum líka að Jesús konungur okkar líkir fullkomlega eftir réttlæti og miskunn föður síns. (Jes. 11:3, 4) En hvað er hægt að segja um það þegar Jehóva og Jesús dæma fólk í þrengingunni miklu? Hvað vitum við ekki og hvað vitum við? Við fjöllum um þessar spurningar í næstu námsgrein.
SÖNGUR 57 Vitnum fyrir alls konar fólki
b Sjá Varðturninn 1. janúar 2013, bls. 12, neðanmáls þar sem er fjallað um Adam, Evu og Kain.
c Ofhvörf er áherslustílbragð þar sem notaðar eru ýkjur eða sterkari orð en efni standa til. En athugasemd Jesú um íbúa Sódómu og Gómorru gæti vel verið bókstafleg og þá væri ekki um ofhvörf að ræða.