Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 14

„Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir“

„Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir“

„Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ – JÓH. 13:35.

SÖNGUR 106 Ræktum með okkur kærleika

YFIRLIT a

Hvaða áhrif hefur það haft á marga sem eru ekki vottar að sjá kærleikann á meðal þjóna Jehóva? (Sjá 1. grein.)

1. Hverju taka margir áhugasamir eftir þegar þeir koma á samkomu hjá okkur? (Sjá einnig mynd.)

 ÍMYNDUM okkur hjón sem mæta á samkomu Votta Jehóva í fyrsta skipti. Þau eru snortin yfir hlýju móttökunum sem þau fá og kærleikanum í söfnuðinum. Á leiðinni heim af samkomunni segir konan við manninn sinn: „Það er eitthvað öðruvísi við votta Jehóva – á jákvæðan hátt.“

2. Hvers vegna hafa sumir hætt að þjóna Jehóva?

2 Kærleikurinn meðal þjóna Jehóva er alveg einstakur. En vottar Jehóva eru auðvitað ekki fullkomnir. (1. Jóh. 1:8) Því betur sem við kynnumst þeim sem eru í söfnuðinum því líklegra er að við verðum vör við galla þeirra. (Rómv. 3:23) Því miður hafa sumir leyft ófullkomleika annarra að verða til þess að þeir hætta að þjóna Jehóva.

3. Hvað einkennir sanna fylgjendur Jesú? (Jóhannes 13:34, 35)

3 Lítum aftur á titilvers þessarar námsgreinar. (Lestu Jóhannes 13:34, 35.) Hvað einkennir sanna fylgjendur Krists? Kærleikur, ekki fullkomleiki. Tökum eftir að Jesús sagði ekki: ,Þið munu vita að þið eruð lærisveinar mínir.‘ Hann sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir.“ Jesús gaf til kynna að ekki aðeins fylgjendur hans heldur líka þeir sem tilheyrðu ekki kristna söfnuðinum myndu þekkja sanna fylgjendur hans á óeigingjörnum kærleika þeirra hver til annars.

4. Hvaða spurningar hafa sumir varðandi sanna fylgjendur Krists?

4 Sumir sem eru ekki vottar Jehóva hugsa kannski: „Hvernig er kærleikur einkenni sem hjálpar mér að þekkja hverjir eru sannir fylgjendur Jesú? Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði postulana? Og hvernig er hægt að fylgja fordæmi Jesú nú á dögum?“ Það er líka gagnlegt fyrir votta að hugleiða svörin við þessum spurningum. Að gera það getur hjálpað okkur að sýna öðrum meiri kærleika, ekki síst þegar ófullkomleiki þeirra truflar okkur. – Ef. 5:2.

HVAÐ ER EINSTAKT VIÐ KÆRLEIKANN SEM EINKENNIR SANNA FYLGJENDUR JESÚ?

5. Útskýrðu hvað Jesús átti við í Jóhannesi 15:12, 13.

5 Jesús gaf skýrt til kynna að einstakur kærleikur myndi einkenna fylgjendur sína. (Lestu Jóhannes 15:12, 13.) Tökum eftir að Jesús sagði þeim: „Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur.“ Hvað átti hann við með því? Jesús útskýrði að þetta væri fórnfús kærleikur – kærleikur sem fær okkur jafnvel til að fórna lífinu fyrir trúsystkini ef þörf krefur. b

6. Hvernig leggur orð Guðs áherslu á mikilvægi kærleikans?

6 Orð Guðs leggur mikla áherslu á kærleika. Eftirfarandi biblíuvers eru í uppáhaldi hjá mörgum: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:8) „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:39) „Kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pét. 4:8) „Kærleikurinn bregst aldrei.“ (1. Kor. 13:8) Þessi vers og fleiri ættu að gera öllum ljóst hve mikilvægt það er að rækta með sér og sýna þennan fallega eiginleika.

7. Hvers vegna getur Satan aldrei kennt fólki að vera sameinað og elska hvert annað?

7 Margir spyrja sig: „Hvernig er hægt að þekkja hina sönnu trú? Öll trúarbrögð segjast kenna sannleikann, en hver trúarhópur er með sínar kenningar um Guð.“ Satan hefur tekist að rugla fólk í ríminu með því að búa til mörg falstrúarbrögð. En hann getur aldrei búið til alheimsbræðralag fólks sem elskar hvert annað. Enginn getur það nema Jehóva. Það er rökrétt vegna þess að sannur kærleikur kemur frá Jehóva. Sannur kærleikur getur aðeins ríkt á meðal þeirra sem hafa anda Jehóva og blessun. (1. Jóh. 4:7) Þess vegna sagði Jesús að aðeins fylgjendur hans myndu bera sannan kærleika hver til annars.

8, 9. Hvernig hefur kærleikurinn á meðal votta Jehóva haft áhrif á marga?

8 Rétt eins og Jesús sagði fyrir um hafa margir borið kennsl á sanna fylgjendur hans af kærleikanum sem þeir sýna hver öðrum. Til dæmis minnist bróðir að nafni Ian þess þegar hann sótti mót í fyrsta sinn. Það var haldið á íþróttaleikvangi í nágrenni hans. Ian hafði farið á íþróttaleik á þessum leikvangi nokkrum mánuðum áður. Hann segir: „Munurinn á þeim atburði og þessu móti var gríðarlegur. Vottarnir voru allir kurteisir og vel til fara og börnin voru til fyrirmyndar.“ Hann bætir við: „Þar að auki var eins og allt þetta fólk hefði frið og væri sátt við lífið, en það var nokkuð sem ég þráði. Ég man ekkert eftir ræðunum þennan dag en framkomu vottanna gleymi ég aldrei.“ c Sannur kærleikur sem við berum hvert til annars er að sjálfsögðu ástæðan fyrir slíkri framkomu. Við sýnum bræðrum okkar og systrum vinsemd og virðingu vegna þess að við elskum þau.

9 Bróðir sem heitir John hefur svipaða sögu að segja af því þegar hann byrjaði að sækja samkomur: „Ég átti ekki orð yfir það hve vingjarnlegir allir voru … Þeir virtust næstum heilagir. Einlægur kærleikur þeirra sannfærði mig um að ég hefði fundið hina sönnu trú.“ d Þessar frásögur, og margar aðrar, sýna að þjónar Jehóva eru sannkristnir.

10. Hvenær höfum við sérstakt tækifæri til að sýna kristilegan kærleika? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

10 Eins og nefnt var í upphafi greinarinnar er ekkert trúsystkina okkar fullkomið. Þau segja stundum eða gera eitthvað sem móðgar okkur. e (Jak. 3:2) Þá höfum við sérstakt tækifæri til að sýna kristilegan kærleika með því hvernig við bregðumst við. Hvað lærum við af fordæmi Jesú? – Jóh. 13:15.

HVERNIG SÝNDI JESÚS POSTULUNUM AÐ HANN ELSKAÐI ÞÁ?

Jesús kom fram við postula sína af kærleika þegar þeir sýndu óæskilega eiginleika. (Sjá 11.–13. grein.)

11. Hvaða slæmu eiginleika sýndu Jakob og Jóhannes? (Sjá einnig mynd.)

11 Jesús ætlaðist ekki til fullkomleika af fylgjendum sínum. Hann sýndi þeim öllu heldur kærleika með því að hjálpa þeim að vinna í veikleikum sínum og gera breytingar svo að þeir gætu þóknast Jehóva. Eitt sinn fengu tveir af postulunum, þeir Jakob og Jóhannes, mömmu sína til að biðja Jesú að gefa sér áhrifastöður í ríki Guðs. (Matt. 20:20, 21) Jakob og Jóhannes sýndu þannig stolt og framagirni. – Orðskv. 16:18.

12. Voru Jakob og Jóhannes þeir einu sem sýndu óæskilega eiginleika? Skýrðu svarið.

12 Jakob og Jóhannes voru ekki þeir einu sem sýndu óæskilega eiginleika. Tökum eftir viðbrögðum hinna postulanna: „Þegar hinir tíu heyrðu af þessu gramdist þeim við bræðurna tvo.“ (Matt. 20:24) Við getum ímyndað okkur að Jakob og Jóhannes og hinir postularnir hafi hnakkrifist. Hinir postularnir sögðu kannski eitthvað eins og: „Hverjir haldið þið að þið séuð, að biðja um áhrifastöður í ríkinu! Það hafa fleiri unnið vel með Jesú en þið. Við erum alveg jafn hæfir og þið til að fá sérstakar stöður.“ Hvað sem þeir hugsuðu eða sögðu gleymdu þeir um stund að þeir áttu alltaf að sýna hver öðrum vinsemd og kærleika.

13. Hvernig brást Jesús við ófullkomleika postula sinna? (Matteus 20:25–28)

13 Hvernig tók Jesús á þessu máli? Hann varð ekki gramur. Hann sagðist ekki ætla að leita sér að betri postulum, mönnum sem væru auðmjúkari og sýndu hver öðrum alltaf kærleika. Hann sýndi þessum einlægu mönnum öllu heldur þolinmæði og rökræddi við þá. (Lestu Matteus 20:25–28.) Hann hélt áfram að koma fram við þá af kærleika þó að þetta væri hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem þeir rifust um hver þeirra væri mestur. – Mark. 9:34; Lúk. 22:24.

14. Úr hvers konar umhverfi komu postular Jesú?

14 Jesús tók án efa tillit til bakgrunns postulanna. (Jóh. 2:24, 25) Þeir ólust upp við það að trúarleiðtogar lögðu ríka áherslu á stöðu og frama. (Matt. 23:6; samanber greinina „Samkundan – þar sem Jesús og lærisveinar hans prédikuðu“ í Varðturninum 1. apríl 2010.) Trúarleiðtogar Gyðinga töldu sjálfa sig betri en aðra. f (Lúk. 18:9–12) Jesús gerði sér grein fyrir að þetta umhverfi gæti haft áhrif á álit postulanna á sjálfum sér og öðrum. (Orðskv. 19:11) Hann hafði raunhæfar væntingar til postulanna og brást ekki of harkalega við þegar þeim mistókst. Hann vissi að þeir höfðu gott hjartalag og hjálpaði þeim því þolinmóður að sýna kærleika í stað stolts og framagirni.

HVERNIG GETUM VIÐ FYLGT FORDÆMI JESÚ?

15. Hvað getum við lært af atvikinu með Jakobi og Jóhannesi?

15 Við getum lært margt af atvikinu með Jakobi og Jóhannesi. Það var rangt af þeim að biðja um áhrifastöðu í ríki Guðs. En það var líka rangt af hinum postulunum að leyfa aðstæðunum að spilla einingu þeirra. En Jesús sýndi öllum 12 postulunum vinsemd og kærleika. Hvað lærum við af því? Það skiptir ekki aðeins máli hvað aðrir gera heldur líka hvernig við bregðumst við mistökum þeirra og ófullkomleika. Hvað getur hjálpað okkur? Ef við móðgumst við einhvern í söfnuðinum getum við spurt okkur: „Af hverju truflar það mig svo mikið sem hann gerði? Leiðir það í ljós veikleika hjá mér? Getur verið að sá sem móðgaði mig sé að kljást við einhverja erfiðleika? Get ég sýnt óeigingjarnan kærleika með því að líta fram hjá þessu þó að mér finnist réttlætanlegt að móðgast?“ Því betur sem okkur tekst að koma fram við aðra af kærleika því skýrara verður að við erum sannir fylgjendur Jesú.

16. Hvað fleira getum við lært af fordæmi Jesú?

16 Fordæmi Jesú kennir okkur líka að leggja okkur fram um að skilja trúsystkini okkar. (Orðskv. 20:5) Jesús sá að vísu hvað bjó í hjarta fólks. Við getum það ekki. En við getum tekið tillit til þess að bræður okkar og systur eru ófullkomin. (Ef. 4:1, 2; 1. Pét. 3:8) Það er auðveldara að gera það þegar við kynnumst þeim betur. Skoðum dæmi.

17. Hvernig hafði farandhirðir gagn af því að kynnast bróður betur?

17 Farandhirðir sem þjónar í Austur-Afríku minnist á bróður sem honum fannst vera ruddalegur. Hvernig brást farandhirðirinn við? Hann segir: „Í stað þess að forðast hann ákvað ég að kynnast honum betur.“ Þegar farandhirðirinn varði tíma með bróðurnum lærði hann ýmislegt um bakgrunn hans sem hafði mótað persónuleika hans. Farandhirðirinn heldur áfram: „Ég dáðist að honum þegar ég komst að því hvað hann hafði lagt mikið á sig til að vinna í persónuleika sínum og hversu miklu honum hafði tekist að breyta. Við urðum perluvinir.“ Þegar við reynum að kynnast bræðrum okkar og systrum betur er oft auðveldara fyrir okkur að sýna þeim kærleika.

18. Hvers gætum við spurt okkur ef trúsystkini gerir eitthvað á hlut okkar? (Orðskviðirnir 26:20)

18 Stundum finnst okkur kannski við þurfa að tala við trúsystkini sem hefur móðgað okkur. Það væri samt gott að við spyrðum okkur fyrst: Þekki ég alla málavexti? (Orðskv. 18:13) Getur verið að hann hafi gert þetta óvart? (Préd. 7:20) Hef ég gert svipuð mistök? (Préd. 7:21, 22) Bý ég til stærra vandamál en ég er að reyna að leysa ef ég tala við hann? (Lestu Orðskviðina 26:20.) Ef við tökum okkur tíma til að spyrja okkur slíkra spurninga komumst við kannski að því að kærleikurinn til trúsystkinis okkar getur fengið okkur til að líta fram hjá þessu.

19. Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

19 Vottar Jehóva sýna sem söfnuður að þeir eru sannir lærisveinar Jesú. Við sem einstaklingar sýnum að við erum sannir fylgjendur Jesú þegar við sýnum trúsystkinum okkar óeigingjarnan kærleika þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Þegar við gerum það getum við hjálpað öðrum að þekkja sanna trú og byrja að þjóna Jehóva Guði kærleikans með okkur. Verum staðráðin í að halda áfram að sýna þann kærleika sem einkennir sanna fylgjendur Krists.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

a Margir laðast að sannleikanum vegna þess að þeir sjá sannan kærleika hjá okkur. En við erum ekki fullkomin og okkur gæti þess vegna stundum fundist erfitt að koma fram hvert við annað á kærleiksríkan hátt. Skoðum hvers vegna kærleikurinn er svona mikilvægur og hvernig við getum líkt eftir fordæmi Jesú þegar aðrir gera mistök.

c Sjá grein úr Varðturninum,Loksins hef ég fundið tilgang í lífinu.

d Sjá grein úr Varðturninum,Líf mitt virtist gott.

e Í þessari grein er ekki verið að ræða um alvarlegar syndir sem öldungarnir ættu að taka á, eins og þær sem taldar eru upp í 1. Korintubréfi 6:9, 10.

f Löngu seinna var haft eftir gyðingapresti: „Í heiminum eru ekki færri en þrjátíu menn sem eru jafn réttlátir og Abraham. Ef þeir eru þrjátíu erum við sonur minn tveir þeirra. Ef þeir eru tíu erum við sonur minn tveir þeirra. Ef þeir eru fimm erum við sonur minn tveir þeirra. Ef þeir eru tveir þá erum það við sonur minn. Ef hann er ekki nema einn þá er það ég.“