Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 11

Hvernig er hægt að búa sig undir skírn?

Hvernig er hægt að búa sig undir skírn?

„Hvað aftrar mér frá því að skírast?“ – POST. 8:36.

SÖNGUR 50 Vígslubæn mín

YFIRLIT a

Um allan heim taka ungir sem aldnir framförum og láta skírast. (Sjá grein 1 og 2.)

12. Hvers vegna ættirðu ekki að láta það draga úr þér kjark ef þú ert ekki tilbúinn til að láta skírast? (Sjá forsíðumynd.)

 EF ÞIG langar til að láta skírast hefurðu sett þér frábært markmið. Ertu tilbúinn að stíga það skref? Ef þér finnst þú vera tilbúinn og öldungarnir eru þér sammála skaltu ekki hika við að skírast við næsta tækifæri. Þín bíður innihaldsríkt líf í þjónustu Jehóva.

2 Þér gæti líka hafa verið sagt að þú þurfir að taka meiri framförum áður en þú lætur skírast. Eða þá að þú gerir þér sjálfur grein fyrir því. Ekki láta það draga úr þér kjark. Þú getur tekið framförum og náð þessu markmiði hvort sem þú ert ungur eða gamall.

„HVAÐ AFTRAR MÉR?“

3. Að hverju spurði eþíópíski hirðmaðurinn Filippus, og hvaða spurning vaknar? (Postulasagan 8:36, 38)

3 Lestu Postulasöguna 8:36, 38. Hirðmaður frá Eþíópíu spurði Filippus trúboða: „Hvað aftrar mér frá því að skírast?“ Eþíópíski maðurinn þráði að láta skírast. En var hann í rauninni tilbúinn að stíga þetta stóra skref?

Eþíópíski hirðmaðurinn var ákveðinn í að halda áfram að afla sér þekkingar á Jehóva. (Sjá 4. grein.)

4. Hvernig sýndi eþíópíski maðurinn að hann var staðráðinn í að halda áfram að læra?

4 Eþíópíski maðurinn „hafði farið til Jerúsalem til að tilbiðja Guð“. (Post. 8:27) Hann hlýtur því að hafa verið trúskiptingur sem hafði tekið gyðingatrú. Hann hefur vafalaust lært um Jehóva af helgum ritum Hebresku ritninganna. En hann var samt spenntur að læra meira. Og hvað var hirðmaðurinn einmitt að gera þegar Filippus hitti hann á veginum? Hann var niðursokkinn í að lesa bókrollu Jesaja spámanns. (Post. 8:28) Þetta voru djúp andleg sannindi. Hirðmaðurinn lét sér ekki nægja að vita aðeins fáein grundvallaratriði, hann vildi sækja fram.

5. Hvernig brást eþíópíski hirðmaðurinn við því sem hann lærði?

5 Maðurinn var háttsettur við hirð „Kandake drottningar Eþíópíumanna og var yfir allri fjárhirslu hennar“. (Post. 8:27) Hann hlýtur því að hafa verið önnum kafinn maður með mikla ábyrgð. Hann tók sér samt tíma til að tilbiðja Jehóva. Hann lét sér ekki nægja að læra sannleikann heldur breytti samkvæmt því sem hann lærði. Hann ferðaðist alla leið frá Eþíópíu til að tilbiðja Jehóva í musterinu í Jerúsalem. Þessi ferð hefur krafist mikils tíma og fjármuna en hann sparaði engu til þegar kom að tilbeiðslunni á Jehóva.

6, 7. Hvað varð til þess að kærleikur eþíópíska mannsins hélt áfram að styrkjast?

6 Eþíópíski maðurinn lærði mikilvæg ný sannindi hjá Filippusi, þar með talið að Jesús væri Messías. (Post. 8:34, 35) Það snerti hirðmanninn mjög djúpt þegar hann komst að því hvað Jesús hafði gert fyrir hann. Hvernig brást hann við? Hann var virtur maður sem hafði tekið gyðingatrú og hefði getað látið þar við sitja. En kærleikur hans til Jehóva og sonar hans óx. Hann fann sig knúinn til að taka þá mikilvægu ákvörðun að skírast sem fylgjandi Jesú Krists. Filippus sá að maðurinn var tilbúinn til þess svo að hann skírði hann.

7 Þú getur búið þig undir að láta skírast ef þú fylgir fordæmi eþíópíska mannsins. Þú munt líka geta sagt með sannfæringu: „Hvað aftrar mér frá því að skírast?“ Skoðum hvað þú getur gert til þess að gera það sama og eþíópíski maðurinn. Hann hélt áfram að læra, breytti í samræmi við það sem hann lærði og hélt áfram að styrkja kærleikann til Guðs.

HALTU ÁRAM AÐ LÆRA

8. Hvað þarft þú að gera samkvæmt Jóhannesi 17:3?

8 Lestu Jóhannes 17:3. Hjálpaði það sem Jesús sagði hérna þér að ákveða að kynna þér Biblíuna? Það á við um mörg okkar. En þurfum við að halda áfram að læra? Já. Við hættum aldrei að „kynnast … hinum eina sanna Guði“. (Préd. 3:11) Við höldum áfram að læra um alla eilífð. Því meira sem við lærum þeim mun nánari verðum við Jehóva. – Sálm. 73:28.

9. Hvað þurfum við að gera eftir að hafa fengið grundvallarþekkingu á sannleikanum?

9 Að kynnast Jehóva hefst skiljanlega á því að læra undirstöðuatriðin. Í bréfi sínu til Hebrea talaði Páll postuli um þessa undirstöðu sem „grundvallaratriði“. Hann var ekki að gera lítið úr „byrjendafræðslunni“. Hann bar hana saman við mjólk sem nærir ungbörn. (Hebr. 5:12; 6:1) En hann hvatti alla kristna menn til að sækja fram og læra um dýpri sannindi orðs Guðs. Hefur þú þroskað með þér sterka löngun til að læra dýpri sannindi Biblíunnar? Ertu fús til að halda áfram að vaxa og halda áfram að læra um Jehóva og tilgang hans?

10. Hvers vegna eiga sumir erfitt með nám?

10 Mörg okkar eiga samt í erfiðleikum með nám. Hvað með þig? Náðirðu tökum á að lesa og læra í skóla? Fannst þér gaman að læra og sástu árangurinn af því? Eða dróstu þá ályktun að þú ættir erfitt með nám? Ef svo er þá ert þú ekki einn um það. En Jehóva getur hjálpað þér. Hann er fullkominn og besti kennari sem hugsast getur.

11. Hvernig hefur Jehóva reynst hinn mikli kennari?

11 Jehóva kallar sjálfan sig „þinn mikla kennara“. (Jes. 30:20, 21) Hann er þolinmóður, góðviljaður og skilningsríkur kennari. Hann leitar að hinu góða í fari nemenda sinna. (Sálm. 130:3) Og hann ætlast aldrei til of mikils af okkur. Mundu að það er hann sem hannaði heila þinn, þá snilldargjöf. (Sálm. 139:14) Okkur er ásköpuð löngun til að læra. Skapari okkar vill að við höldum áfram að læra að eilífu og hann vill að við njótum þess. Það er því viturlegt að glæða með okkur „löngun“ í sannindi Biblíunnar. (1. Pét. 2:2) Settu þér því markmið sem þú getur náð og haltu þér við biblíulestrar- og námsáætlun þína. (Jós. 1:8) Með blessun Jehóva færðu sífellt meiri ánægju af því að lesa og læra um hann.

12. Hvers vegna ættum við að beina athygli okkar að Jesú í sjálfsnámi okkar?

12 Taktu þér reglulega tíma til að hugleiða líf Jesú og þjónustu. Það er nauðsynlegt að líkja náið eftir honum ef við viljum þjóna Jehóva, sérstaklega á þessum erfiðu tímum. (1. Pét. 2:21) Jesús talaði hreint út þegar hann sagði að fylgjendur sínir þyrftu að takast á við vandamál. (Lúk. 14:27, 28) En hann var sannfærður um að sannir lærisveinar hans gætu verið trúfastir Guði rétt eins og hann var. (Jóh. 16:33) Skoðaðu líf Jesú vandlega og settu þér markmið sem hjálpa þér að líkja eftir honum í daglegu lífi þínu.

13. Hvað ættum við stöðuglega að biðja Jehóva um og hvers vegna?

13 Þekking ein og sér nægir ekki. Gildi hennar felst fyrst og fremst í því að hjálpa okkur að læra meira um Jehóva og þroska með okkur eiginleika eins og kærleika til hans og trú á honum. (1. Kor. 8:1–3) Biddu Jehóva stöðuglega að hjálpa þér að styrkja trú þína eftir því sem þú bætir við þig þekkingu. (Lúk. 17:5) Hann er örlátur þegar hann svarar slíkum bænum. Einlæg trú byggð á nákvæmri þekkingu á Guði okkar mun hjálpa þér að stíga næsta skref. – Jak. 2:26.

HALTU ÁFRAM AÐ BREYTA Í SAMRÆMI VIÐ ÞAÐ SEM ÞÚ HEFUR LÆRT

Fyrir flóðið breyttu Nói og fjölskylda hans trúföst í samræmi við það sem þau lærðu. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig undirstrikaði Pétur postuli mikilvægi þess að breyta í samræmi við það sem við lærum? (Sjá einnig mynd.)

14 Pétur postuli undirstrikaði mikilvægi þess að fylgjendur Krists héldu áfram að breyta í samræmi við það sem þeir lærðu. Hann vitnaði í frásögu Biblíunnar um Nóa. Jehóva sagði Nóa að hann myndi eyða í flóði þeim vondu sem voru uppi á þeim tíma. Til að Nói gæti bjargað sér og fjölskyldu sinni nægði honum ekki að vita að það væri að koma flóð. Tökum eftir að Pétur talaði um tímann fyrir flóðið ,þegar örkin var í smíðum‘. (1. Pét. 3:20) Nói og fjölskylda hans breyttu í samræmi við það sem Guð sagði þeim með því að byggja örk, risastóra fleytu. (Hebr. 11:7) Síðan líkti Pétur því sem Nói gerði við skírnina og sagði: „Skírnin samsvarar þessu og hún bjargar einnig ykkur núna.“ (1. Pét. 3:21) Við getum á vissan hátt líkt því sem þú gerir núna til að undirbúa þig fyrir skírnina við þá vinnu sem Nói og fjölskylda hans gerðu árum saman þegar þau byggðu örkina. Að hverju þarft þú að vinna til að vera tilbúinn til skírnar?

15. Hvað felur einlæg iðrun í sér?

15 Eitt það fyrsta sem við þurfum að gera er að iðrast synda okkar einlæglega. (Post. 2:37, 38) Þegar við gerum það erum við tilbúin að gera varanlegar breytingar. Hefur þú lagt af hegðun sem er Jehóva vanþóknanleg, eins og siðlaust líf, tóbaksnotkun eða óhreint eða móðgandi tal? (1. Kor. 6:9, 10; 2. Kor. 7:1; Ef. 4:29) Ef ekki skaltu halda áfram að reyna að gera breytingar. Talaðu við biblíukennarann þinn eða biddu safnaðaröldungana um hjálp og leiðsögn. Ef þú ert ungur og býrð hjá foreldrum þínum skaltu biðja þá um hjálp til að losa þig við vondar venjur sem gætu komið í veg fyrir að þú gætir látið skírast.

16. Hvað er góð andleg dagskrá?

16 Það er líka mikilvægt að hafa góða andlega dagskrá. Það felur meðal annars í sér að mæta á safnaðarsamkomur og taka þátt í þeim. (Hebr. 10:24, 25) Og þegar þú ert orðinn hæfur til að taka þátt í boðuninni skaltu líka hafa hana á dagskrá þinni. Ánægja þín verður meiri eftir því sem þú tekur meiri þátt í þessu björgunarstarfi. (2. Tím. 4:5) Ef þú ert ungur og býrð hjá foreldrum þínum skaltu spyrja þig: Þurfa foreldrar mínir að minna mig á að sækja samkomur og taka þátt í boðuninni? Eða sé ég sjálfur um það? Með því að gera það sýnirðu trú þína og þakklæti til Jehóva Guðs. Þá sýnirðu ,guðrækni‘ og gefur Jehóva gjöf. (2. Pét. 3:11; Hebr. 13:15) Allar gjafir sem við gefum af fúsu geði án þess að gengið sé á eftir þeim gleðja Guð okkar. (Samanber 2. Korintubréf 9:7.) Við gerum þetta vegna þess að við njótum þess að gefa Jehóva okkar besta.

HALTU ÁFRAM AÐ STYRKJA KÆRLEIKANN TIL JEHÓVA

17, 18. Hvaða mikilvægi eiginleiki hjálpar þér að sækja fram til skírnar og hvers vegna? (Orðskviðirnir 3:3–6)

17 Á þroskaferlinu til skírnar muntu mæta vandamálum. Sumir gætu hæðst að trú þinni eða jafnvel staðið gegn þér. (2. Tím. 3:12) Það getur komið afturkippur þegar þú vinnur að því að losa þig við vonda venju. Eða þá að þú ert óþolinmóður eða vonsvikinn vegna þess að þér finnst þú eiga svo langt í land. Hvað getur hjálpað þér að halda út? Mikilvægur eiginleiki – kærleikur til Jehóva.

18 Kærleikur þinn til Jehóva er fallegur eiginleiki, allra besti eiginleiki þinn. (Lestu Orðskviðina 3:3–6.) Sterkur kærleikur til Guðs getur hjálpað þér til að takast á við erfiðleika með góðum árangri. Í Biblíunni er oft minnst á tryggan kærleika Jehóva til þjóna sinna. Þetta eru sterk bönd sem slitna aldrei. (Sálm. 100:5) Þú ert skapaður í Guðs mynd. (1. Mós. 1:26) Hvernig geturðu endurspeglað slíkan kærleika?

Þú getur tjáð Jehóva þakklæti þitt daglega. (Sjá 19. grein.) b

19. Hvernig geturðu aukið þakklæti þitt fyrir allt sem Jehóva hefur gert fyrir þig? (Galatabréfið 2:20)

19 Byrjaðu á því að sýna þakklæti. (1. Þess. 5:18) Spyrðu þig á hverjum degi: Hvernig hefur Jehóva sýnt mér kærleika? Mundu síðan að þakka Jehóva í bænum þínum og minnstu á eitthvað ákveðið sem hann hefur gert fyrir þig. Sjáðu það sem merki um kærleika hans til þín. Það var það sem Páll gerði. (Lestu Galatabréfið 2:20.) Spyrðu sjálfan þig: Langar mig til að endurgjalda kærleika hans? Kærleikur þinn til Jehóva hjálpar þér að standast freistingar og takast á við erfiðleika með góðum árangri. Og þegar þú elskar föður þinn finnurðu þig knúinn til að láta það í ljós daglega með því að halda þig við andlega dagskrá þína.

20. Hvað felst í því að vígjast Jehóva og hversu mikilvæg er þessi ákvörðun?

20 Það kemur að því að kærleikur þinn til Jehóva fær þig til að fara með sérstaka bæn. Þú vígist Guði. Það sem þú átt í vændum þegar þú hefur gert það er stórkostlegt. Þú getur tilheyrt honum um alla eilífð. Þegar þú vígir Jehóva líf þitt lofarðu honum að þjóna honum í blíðu og stríðu. Vígsluheitið þarfnast aldrei endurnýjunar. Við erum að sjálfsögðu að taka alvarlega ákvörðun þegar við vígjum Jehóva líf okkar. En þótt þú eigir eftir að taka margar ákvarðanir í lífinu, og sumar mjög góðar, muntu aldrei taka betri ákvörðun en þá að vígja líf þitt Jehóva. (Sálm. 50:14) Satan mun reyna að veikja kærleika þinn til föður þíns í von um að þú látir af ráðvendni þinni. Leyfðu honum það ekki! (Job 27:5) Sterkur kærleikur þinn til Jehóva mun hjálpa þér að lifa í samræmi við vígsluheit þitt og þú verður honum stöðugt nánari.

21. Hvers vegna getum við sagt að skírnin sé ekki endir heldur upphaf?

21 Eftir að þú hefur vígt Jehóva líf þitt skaltu tala við öldungana í söfnuðinum þínum um næsta mikilvæga skref. Mundu samt að skírnin er ekki endir heldur upphaf. Hún er upphaf eilífs lífs í þjónustu Jehóva. Þess vegna skaltu styrkja kærleika þinn til föður þíns. Settu þér markmið svo að kærleikur þinn styrkist og vaxi dag frá degi. Þetta hjálpar þér í átt til skírnar. Það verður frábært þegar sá dagur rennur upp. En skírnin er bara byrjunin. Megi kærleikur þinn til Jehóva og sonar hans halda áfram að vaxa að eilífu.

SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn“

a Til að taka framförum svo að við getum látið skírast verðum við að hafa réttar hvatir. Við verðum líka að gera það sem er rétt. Við skulum athuga það sem eþíópískur hirðmaður gerði til að skilja hvað biblíunemandi þarf að gera til að vera hæfur til að láta skírast.

b MYND: Ung systir segir Jehóva í bæn hversu þakklát hún er fyrir það sem hann hefur gert fyrir hana.