Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 10

Hvers vegna ættirðu að láta skírast?

Hvers vegna ættirðu að láta skírast?

„Látið öll skírast.“ – POST. 2:38.

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

YFIRLIT a

1, 2. Hvaða áhrif hefur það á okkur þegar fólk lætur skírast og hvað ættir þú að hugleiða?

 HEFURÐU einhvern tíma fylgst með hópi skírnþega? Þá hefurðu heyrt sannfæringuna í rödd þeirra þegar þeir svöruðu tveim spurningum áður en þeir létu skírast. Fjölskylda og vinir fylgdust brosandi með. Þegar skírnþegarnir komu upp úr skírnarlauginni var klappað og gleðin skein af hverju andliti. Að meðaltali láta þúsundir skírast í hverri viku og verða þannig vígðir og skírðir vottar Jehóva Guðs.

2 Hvað með þig? Ef þú ert að íhuga að láta skírast skerðu þig úr í þessum myrka heimi því að þú ert að ,leita Jehóva‘. (Sálm. 14:1, 2) Þessi námsgrein er ætluð þér hvort sem þú ert ungur eða gamall. Þau okkar sem eru þegar skírð vilja styrkja ásetning sinn að þjóna Jehóva að eilífu. Skoðum þrjár af mörgum ástæðum fyrir því að þjóna Jehóva.

ÞÚ ELSKAR SANNLEIKA OG RÉTTLÆTI

Satan hefur rægt Jehóva um þúsundir ára og er enn að því. (Sjá 3. og 4. grein.)

3. Hvers vegna elska þjónar Jehóva sannleika og réttlæti? (Sálmur 119:128, 163)

3 Jehóva sagði fólki sínu að elska sannleika. (Sak. 8:19) Og Jesús hvatti fylgjendur sína til að sækjast eftir réttlæti. (Matt. 5:6) Það felur í sér að hafa sterka löngun til að gera það sem er rétt, gott og hreint í augum Jehóva. Elskar þú sannleika og réttlæti? Það gerirðu örugglega. Þú hatar lygar og allt rangt og illt. (Lestu Sálm 119:128, 163.) Sá sem lýgur líkir eftir Satan, stjórnanda þessa heims. (Jóh. 8:44; 12:31) Eitt markmiða hans er að rægja heilagt nafn Jehóva Guðs. Satan hefur dreift lygum um Guð okkar frá því að uppreisnin átti sér stað í Eden. Hann dró upp mynd af Jehóva sem eigingjörnum og óheiðarlegum stjórnanda sem neitar fólki um það sem er gott. (1. Mós. 3:1, 4, 5) Lygar Satans um Jehóva hafa eitrað huga og hjarta fólks fram á þennan dag. Þegar fólk kýs að elska ekki sannleika getur Satan fengið það til að fremja alls kyns ranglát og ill verk. – Rómv. 1:25–31.

4. Hvernig hefur Jehóva reynst vera „Guð sannleikans“? (Sjá einnig mynd.)

4 Jehóva er „Guð sannleikans“ og í örlæti sínu kennir hann sannleika öllum sem elska hann. (Sálm. 31:5) Með því leysir hann þá úr fjötrum lyga Satans. Jehóva kennir líka þjónum sínum að vera heiðarlegir og réttlátir. Fyrir vikið öðlast þeir meiri sjálfsvirðingu og hugarró. (Orðskv. 13:5, 6) Gerði hann þetta fyrir þig eftir að þú fórst að rannsaka Biblíuna? Þú hefur komist að því að vegir Jehóva eru þeir bestu fyrir allt mannkynið og fyrir þig. (Sálm. 77:13) Þú vilt þess vegna taka afstöðu með réttlæti Jehóva. (Matt. 6:33) Þig langar að verja sannleikann og taka þátt í að afhjúpa lygar Satans um Jehóva. Hvernig geturðu gert það?

5. Hvernig geturðu tekið afstöðu með sannleika og réttlæti?

5 Þú getur lýst yfir með lífsstefnu þinni: „Ég hafna lygum Satans og held sannleikanum á lofti. Ég kýs Jehóva sem æðsta vald og vil gera það sem hann segir að sé rétt.“ Hvernig tekurðu slíka afstöðu? Þú nálgast Jehóva í bæn og vígir líf þitt honum. Síðan gerirðu vígslu þína opinbera með því að láta skírast. Að elska það sem er satt og rétt er sterk hvöt til að skírast.

ÞÚ ELSKAR JESÚ KRIST

6. Hvaða ástæður fyrir því að elska Jesú Krist er að finna í Sálmi 45:4?

6 Hvers vegna elskar þú Jesú Krist? Í Sálmi 45:4 er að finna góðar ástæður fyrir því. (Lestu.) Jesús elskar sannleika, auðmýkt og réttlæti. Ef þú elskar sannleika og réttlæti er skiljanlegt að þú elskir Jesú Krist. Jesús stóð sannarlega hugrakkur vörð um það sem er satt og rétt. (Jóh. 18:37) En hvernig hvatti Jesús fólk til að sýna auðmýkt?

7. Hvað finnst þér aðlaðandi við auðmýkt Jesú?

7 Jesús kenndi auðmýkt með fordæmi sínu. Hann beinir til dæmis alltaf athyglinni að föður sínum en aldrei að sjálfum sér. (Mark. 10:17, 18; Jóh. 5:19) Hvað finnst þér um slíka auðmýkt? Hvetur hún þig ekki til að elska son Guðs og fylgja honum? Örugglega. Hvers vegna er Jesús auðmjúkur? Vegna þess að hann elskar föður sinn, sem er auðmjúkur, og líkir eftir honum. (Sálm. 18:35; Hebr. 1:3) Dregstu ekki að Jesú sem endurspeglar eiginleika Jehóva svona fullkomlega?

8. Hvers vegna elskum við Jesú sem konung okkar?

8 Við elskum Jesú konung okkar vegna þess að hann er besti stjórnandinn. Jehóva sjálfur þjálfaði son sinn og útnefndi hann til að stjórna. (Jes. 50:4, 5) Hugsaðu þér líka þann fórnfúsa kærleika sem Jesús hefur sýnt. (Jóh. 13:1) Konungur okkar, Jesús, á sannarlega skilið kærleika þinn. Hann sagðist kalla þá sem elskuðu hann í raun vini sína og sagði að þeir sýndu kærleika sinn með því að hlýða sér. (Jóh. 14:15; 15:14, 15) Hvílíkur heiður að vera vinur sonar Jehóva!

9. Hvað er líkt með skírn kristinna manna og skírn Krists?

9 Jesús gaf þau fyrirmæli að fylgjendur hans ættu að láta skírast. (Matt. 28:19, 20) Hann setti okkur fordæmi. Að sumu leyti er skírn hans ólík skírn fylgjenda hans. (Sjá rammann „ Hver er munurinn á skírn Jesú og skírn fylgjenda hans?“) En það er líka ýmislegt líkt með skírn þeirra. Þegar Jesús lét skírast bauð hann sjálfan sig fram til að gera vilja föður síns. (Hebr. 10:7) Skírn fylgjenda Jesú er opinbert tákn um að þeir hafi vígt Jehóva Guði líf sitt. En rétt eins og í tilfelli Jesú segir skírn þeirra líka að líf þeirra snúist núna um að gera vilja Guðs, ekki þeirra eigin. Þeir fylgja þannig fordæmi meistara síns.

10. Hvers vegna ætti kærleikur þinn til Jesú að hvetja þig til að láta skírast?

10 Þú viðurkennir Jesú sem einkason Jehóva og konunginn sem hann hefur útnefnt til að ríkja yfir okkur. Þú veist að Jesús er auðmjúkur og að hann líkir fullkomlega eftir föður sínum. Þú hefur lært að hann gaf hungruðum að borða, huggaði niðurdregna og læknaði jafnvel sjúka. (Matt. 14:14–21) Þú hefur séð hvernig hann leiðir söfnuð sinn nú á dögum. (Matt. 23:10) Og þú veist að hann á eftir að gera miklu meira í framtíðinni sem konungur Guðsríkis. Hvernig geturðu sýnt að þú elskir hann? Með því að fylgja fordæmi hans. (Jóh. 14:21) Þú gerir það meðal annars með því að vígjast Jehóva og láta skírast.

ÞÚ ELSKAR JEHÓVA GUÐ

11. Hver myndir þú segja að væri mikilvægasta ástæðan til að láta skírast?

11 Hver er mikilvægasta ástæða þess að láta skírast? Jesús benti á æðsta boðorð Guðs þegar hann sagði: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Mark. 12:30) Lýsa þessi orð kærleika þínum til Guðs?

Jehóva er uppspretta alls þess góða sem þú hefur notið og átt eftir að njóta. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. Hvers vegna elskar þú Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

12 Það eru svo margar ástæður til að elska Jehóva. Þú hefur til dæmis komist að því að hann er „uppspretta lífsins“ og að „sérhver góð og fullkomin gjöf“ kemur frá honum. (Sálm. 36:9; Jak. 1:17) Allt gott sem við fáum að njóta kemur frá örlátum og kærleiksríkum Guði okkar.

13. Hvað gerir lausnargjaldið að svona yndislegri gjöf?

13 Lausnargjaldið er yndisleg gjöf sem Jehóva hefur gefið okkur. Hvers vegna segjum við það? Hugleiddu samband Jehóva og sonar hans. Jesús sagði: „Faðirinn elskar mig.“ Hann sagði líka: „Ég elska föðurinn.“ (Jóh. 10:17; 14:31) Þeir voru saman um milljarða ára og samband þeirra varð fyrir vikið mjög náið. (Orðskv. 8:22, 23, 30) Hugsaðu þér hvað það hefur valdið Guði miklum sársauka að sjá son sinn þjást og deyja. Jehóva elskar mannkynið það mikið, þar á meðal þig, að hann var fús til að gefa elskaðan son sinn sem lausnarfórn til að þú og aðrir gætu lifað að eilífu. (Jóh. 3:16; Gal. 2:20) Það er ekki til þýðingarmeiri ástæða til að elska Guð.

14. Hvert er besta markmiðið í lífi þínu sem þú getur nokkru sinni valið þér?

14 Kærleikur þinn til Jehóva hefur vaxið eftir því sem þú hefur lært meira um hann. Þú vilt áreiðanlega nálgast hann núna og um alla framtíð. Og þú getur það. Hann hvetur þig hlýlega til að gleðja hjarta sitt. (Orðskv. 23:15, 16) Þú gerir það ekki bara í orði heldur líka í verki. Þú getur sýnt að þú elskar Jehóva í einlægni með því hvernig þú lifir lífinu. (1. Jóh. 5:3) Það er besta markmiðið í lífinu sem þú getur valið þér.

15. Hvernig geturðu látið í ljós kærleika þinn til Jehóva?

15 Hvernig geturðu látið í ljós kærleika þinn til Jehóva? Fyrst leitarðu til hans í bæn og segir honum að þú vígist honum sem hinum eina sanna Guði. (Sálm. 40:8) Síðan gerirðu vígslu þína opinbera með því að láta skírast. Eins og við ræddum fyrr í þessari námsgrein er það sérstakur og gleðilegur áfangi í lífi þínu. Þú byrjar nýtt líf sem þú lifir fyrir Jehóva en ekki sjálfan þig. (Rómv. 14:8; 1. Pét. 4:1, 2) Það er vissulega stór ákvörðun. En hún opnar líka dyr að besta lífi sem nokkur getur átt. Hvernig?

16. Hvernig umbunar Jehóva þeim sem nota líf sitt til að þjóna honum, samanber Sálm 41:12?

16 Enginn er jafn örlátur og Jehóva. Hann gefur þér alltaf miklu meira til baka en þú gefur honum. (Mark. 10:29, 30) Hann hjálpar þér að lifa eins gefandi og ánægjulegu lífi og mögulegt er, jafnvel núna í þessum deyjandi og illa heimi. Og það er bara byrjunin. Ferðalag þitt sem hefst með skírninni þarf aldrei að taka enda. Þú getur þjónað föður þínum á himni, sem þú elskar svo heitt, um alla framtíð. Kærleikurinn milli þín og föður þíns mun halda áfram að vaxa og þú færð að lifa jafn lengi og hann, það er að segja að eilífu. – Lestu Sálm 41:12.

17. Hvað geturðu gefið Jehóva sem hann á ekki nú þegar?

17 Þegar þú vígir líf þitt Jehóva og lætur skírast færðu þann heiður að gefa Jehóva ákaflega dýrmætan hlut í hans augum. Hann hefur gefið þér allt gott, allar góðar stundir, sem þú hefur notið frá upphafi. Þú getur hins vegar gefið eiganda himins og jarðar það sem hann á ekki víst – trúa og trygga þjónustu þína. (Job. 1:8; 41:11; Orðskv. 27:11) Er hægt að nota lífið á betri hátt? Kærleikur þinn til Jehóva er tvímælalaust besta ástæðan til að láta skírast.

HVERS VEGNA AÐ BÍÐA?

18. Hvaða spurninga gætirðu spurt þig?

18 Ætlar þú að láta skírast? Þú einn getur svarað því. En það getur hjálpað þér að spyrja þig: Hvers vegna ætti ég að bíða? (Post. 8:36) Mundu ástæðurnar þrjár til að láta skírast sem við höfum rætt. Í fyrsta lagi elskarðu sannleika og réttlæti. Spyrðu þig: Þrái ég að upplifa þann tíma þegar allir tala sannleika og gera það sem er rétt? Í öðru lagi elskarðu Jesú. Spyrðu þig: Vil ég son Guðs sem konung og langar mig að fylgja fordæmi hans? Í þriðja lagi, og mikilvægast af öllu, þá elskarðu Jehóva. Spyrðu þig: Langar mig að gleðja hjarta Jehóva með því að þjóna honum? Ef þú svarar þessum spurningum játandi, hvers vegna ættirðu þá ekki að láta skírast? Hvers vegna að bíða? – Post. 16:33.

19. Hvers vegna ættirðu ekki að hika við að láta skírast? Lýstu með dæmi. (Jóhannes 4:34)

19 Ef þú hikar við að láta skírast geturðu hugleitt líkingu sem Jesús notaði. (Lestu Jóhannes 4:34.) Hann líkti því að gera vilja Guðs við mat. Hvers vegna? Matur gerir okkur gott. Jesús vissi að allt sem Jehóva biður okkur um að gera er gott fyrir okkur. Hann vill ekki að við gerum neitt sem myndi skaða okkur. Vill Jehóva að þú látir skírast? Já. (Post. 2:38) Þú getur þess vegna treyst því að það er gagnlegt fyrir þig að hlýða fyrirmælum hans um að láta skírast. Ef þú myndir ekki hika við að borða dýrindis kræsingar, því ættirðu þá að hika við að láta skírast?

20. Hvað skoðum við í næstu námsgrein?

20 Hvers vegna að bíða? Sumir gætu hugsað: „Ég er ekki tilbúinn.“ Sú ákvörðun að vígja líf þitt Jehóva og láta skírast er mikilvægasta ákvörðunin sem þú getur nokkurn tíma tekið. Þú þarft þess vegna að hugleiða hana vandlega. Það kostar tíma og stöðuga viðleitni að verða hæfur til skírnar. En hvað geturðu gert ef þig langar einlæglega að stíga þetta skref? Við skoðum svarið við þeirri spurningu í næstu námsgrein.

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

a Skírnin er mikilvægur áfangi í lífi biblíunemanda. Hvað getur knúið hann til að stíga þetta skref? Kærleikur. En að hverju og að hverjum beinist kærleikurinn? Í þessari námsgrein skoðum við svörin við þessum spurningum og ræðum hvers konar líf bíður þeirra sem láta skírast.