Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 13

Notum sköpunarverkið til að fræða börnin okkar um Jehóva

Notum sköpunarverkið til að fræða börnin okkar um Jehóva

„Hver hefur skapað allt þetta?“ – JES. 40:26.

SÖNGUR 11 Sköpunin lofar Guð

YFIRLIT a

1. Hvað þrá foreldrar fyrir börnin sín?

 FORELDRAR, við vitum að þið viljið hjálpa börnunum ykkar að kynnast og elska Jehóva. En Guð er ósýnilegur. Hvernig getið þið hjálpað börnunum ykkar að sjá hann sem raunverulega persónu og nálgast hann? – Jak. 4:8.

2. Hvernig geta foreldrar frætt börnin sín um eiginleika Jehóva?

2 Mikilvæg leið til að hjálpa börnum að nálgast Jehóva er að rannsaka Biblíuna með þeim. (2. Tím. 3:14–17) En Biblían bendir líka á aðra leið fyrir hina ungu til að læra um Jehóva. Í Orðskviðunum minnir faðir greinilega son sinn á að missa aldrei sjónar á því hvernig sköpunarverkið endurspeglar eiginleika Jehóva. (Orðskv. 3:19–21) Skoðum hvernig foreldrar geta notað sköpunarverkið til að fræða börnin sín um persónuleika Jehóva.

HVERNIG ER HÆGT AÐ NOTA SKÖPUNARVERKIÐ TIL AÐ KENNA BÖRNUNUM?

3. Hvað ættu foreldrar að hjálpa börnunum sínum að gera?

3 Biblían segir að eðli Guðs ,hafi verið auðséð allt frá sköpun heimsins því að það megi skynja af verkum hans‘. (Rómv. 1:20) Foreldrar, þið njótið þess trúlega að vera úti í náttúrunni með krökkunum ykkar. Notið þessi tækifæri með þeim til að hjálpa þeim að sjá tengslin milli verka Jehóva og dásamlegra eiginleika hans. Skoðum hvað foreldrar geta lært af fordæmi Jesú.

4. Hvernig notaði Jesús sköpunarverkið þegar hann kenndi lærisveinum sínum? (Lúkas 12:24, 27–30)

4 Tökum eftir því hvernig Jesús notaði sköpunarverkið í kennslu sinni. Eitt sinn hvatti hann lærisveina sína til að fylgjast með hröfnunum og liljunum. (Lestu Lúkas 12:24, 27–30.) Jesús hefði getað nefnt hvaða dýr eða plöntu sem er en hann kaus að benda á fugl og blóm sem lærisveinarnir þekktu vel. Þeir sáu kannski hrafna á flugi eða blómstrandi blóm á engi. Geturðu séð Jesú fyrir þér benda á þetta þegar hann talaði við þá? Og hvað gerði hann eftir það? Hann kenndi lærisveinunum á áhrifaríkan hátt hve örlátur og góður Jehóva er. Hann fæðir og klæðir trúfasta þjóna sína rétt eins og hann sér um hrafnana og blómin á enginu.

5. Hvernig geta foreldrar notað sköpunarverkið til að fræða barnið sitt um Jehóva?

5 Hvernig geturðu sem foreldri líkt eftir Jesú þegar þú kennir börnunum þínum? Þú gætir bent barninu þínu á eitthvað í sköpunarverkinu sem þú ert sérstaklega hrifinn af, eins og uppáhaldsdýrið eða -plöntuna þína. Þegar þú gerir það skaltu útskýra hvað það sem þú bendir á kennir okkur um Jehóva. Þú gætir síðan spurt barnið hvaða dýr eða planta sé í uppáhaldi hjá því. Ef þú getur bent barninu á eitthvað í sköpunarverkinu sem það hefur sérstakan áhuga á nærðu trúlega enn betur til þess þegar þú talar við það um eiginleika Jehóva.

6.  Hvað getum við lært af móður Christophers?

6 Þurfa foreldrar að nota mikinn tíma til að rannsaka tiltekið dýr eða plöntu áður en þeir ræða hvað sköpunarverkið kennir um Jehóva? Ekki endilega. Jesús útskýrði ekki í löngu máli fæðuvenjur hrafna eða hvernig liljur vaxa. Þótt barnið þitt geti haft ánægju af að ræða um smáatriði í náttúrunni dugar stundum einföld athugasemd eða spurning til að hitta í mark. Tökum eftir hvað bróðir sem heitir Christopher segir um barnæsku sína: „Mamma nefndi einfaldlega eitthvað einfalt til að hjálpa okkur að kunna að meta sköpunarverkið í kringum okkur. Þegar við vorum til dæmis nálægt fjöllum sagði hún kannski: ,Sjáið hvað þessi fjöll eru stór og falleg. Er Jehóva ekki magnaður?‘ Eða þegar við vorum við sjóinn sagði hún kannski: ,Sjáið hvað þessar öldur eru kraftmiklar.‘ Er Guð ekki kraftmikill?“ Christopher segir: „Þessar einföldu athugasemdir fengu okkur til að hugsa og höfðu mikil áhrif á okkur.“

7. Hvernig geturðu þjálfað börnin þín í að velta sköpunarverkinu fyrir sér?

7 Eftir því sem börnin þín vaxa og þroskast geturðu hjálpað þeim að hugsa meira um sköpunarverkið og læra meira um Jehóva. Þú getur bent á eitthvað eitt í sköpunarverki Guðs og spurt börnin þín: „Hvað segir þetta ykkur um Jehóva?“ Svör barnanna þinna gætu komið þér skemmtilega á óvart. – Matt. 21:16.

HVERNIG GETURÐU NOTAÐ SKÖPUNARVERKIÐ TIL AÐ KENNA BÖRNUNUM ÞÍNUM?

8. Hvaða tækifæri fengu foreldrar í Ísrael þegar þeir gengu eftir vegum landsins ásamt börnum sínum?

8 Foreldrar í Ísrael voru hvattir til að kenna börnunum sínum boðorð Guðs þegar þeir væru „á gangi“ með þeim. (5. Mós. 11:19) Vegir lágu um sveitir Ísraels. Þar mátti sjá dýr, fugla og blóm. Þegar fjölskyldur í Ísrael ferðuðust um vegina höfðu foreldrar tækifæri til að kveikja áhuga barnanna á sköpunarverki Jehóva. Þið foreldrar hafið trúlega svipuð tækifæri til að nota sköpunarverkið til að kenna börnunum ykkar. Skoðum hvernig sumir foreldrar hafa gert það.

9. Hvað getum við lært af reynslu Punithu og Katyu?

9 Móðir að nafni Punitha sem býr í stórri borg á Indlandi segir: „Þegar við heimsækjum fjölskylduna uppi í sveit grípum við tækifærið til að hjálpa börnunum okkar að læra um stórkostlegt sköpunarverk Jehóva. Mér finnst börnin mín skilja sköpunarverkið betur þegar þau eru fjarri fjölförnum götum borgarinnar.“ Foreldrar, börnin ykkar munu líklega aldrei gleyma þeim tíma sem þau eru með ykkur í fallegu umhverfi. Katya er systir frá Moldóvu. Hún segir: „Það sem ég man best eftir frá því að ég var krakki er þegar ég var með foreldrum mínum uppi í sveit. Ég er þakklát þeim fyrir að kenna mér alveg frá því að ég var lítil að staldra við og taka eftir því sem Jehóva hefur búið til og að sjá hann í sköpunarverkinu.“

Jafnvel í borg geturðu fundið eitthvað í sköpunarverkinu sem þú getur notað til að fræða börnin þín um Jehóva. (Sjá 10. grein.)

10. Hvað geta foreldar gert ef þeir hafa lítil tök á að fara út fyrir borgina? (Sjá rammann „ Ráð handa foreldrum“.)

10 En hvað ef þú hefur ekki tök á því að komast út í sveit? Amol býr einnig á Indlandi. Hún segir: „Þar sem ég bý verða foreldrar að vinna langa daga og ferð út í sveit getur verið dýr. En lítill almenningsgarður eða þaksvalir eru staðir þar sem hægt er að skoða sköpunarverkið og tala um eiginleika Jehóva.“ Ef þú lítur vel í kringum þig uppgötvar þú líklega margt í sköpunarverkinu sem þú getur sýnt börnunum þínum. (Sálm. 104:24) Þú getur líklega séð fugla, skordýr, plöntur og fleira. Karina frá Þýskalandi segir: „Mamma elskar blóm. Þegar ég var lítil stelpa benti hún mér á falleg blóm þegar við vorum í göngutúr.“ Foreldrar, þið getið líka notað fjölda myndbanda og rita um sköpunarverkið sem söfnuðurinn hefur gefið út til að kenna börnunum ykkar. Þið getið hjálpað þeim að skoða það sem Guð hefur skapað óháð aðstæðum þar sem þið eigið heima. Skoðum nú suma eiginleika Jehóva sem þið getið bent börnunum ykkar á.

ÓSÝNILEGT EÐLI JEHÓVA ER AUÐSÉÐ

11. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að skynja kærleika Jehóva?

11 Til að hjálpa börnunum þínum að skynja kærleika Jehóva geturðu bent á hvernig mörg dýr annast ungviði sitt blíðlega. (Matt. 23:37) Þú gætir líka bent á stórkostlega fjölbreytni í sköpunarverkinu sem við höfum tækifæri til að njóta. Karina, sem vitnað er í áður, segir: „Þegar við mamma vorum í göngutúr hvatti hún mig til að staldra við og taka eftir hvernig hvert blóm er einstakt og hvernig fegurð þess endurspeglar kærleika Jehóva. Það eru mörg ár síðan þetta var en ég er enn að skoða blómin vandlega. Ég skoða fjölbreytni þeirra, hönnun og liti. Þau minna mig enn á hve innilega Jehóva elskar okkur.“

Þú getur bent á stórkostlega hönnun líkamans til að fræða börnin þín um visku Guðs. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum sínum að átta sig á visku Guðs? (Sálmur 139:14) (Sjá einnig mynd.)

12 Hjálpaðu börnunum þínum að koma auga á visku Jehóva. Jehóva er langtum vitrari en við. (Rómv. 11:33) Þú gætir til dæmis bent á hvernig vatn myndar ský sem færa vatnið leikandi milli staða. (Job. 38:36, 37) Þú gætir líka bent á stórkostlega hönnun mannslíkamans. (Lestu Sálm 139:14.) Hugleiddu hvernig faðir sem heitir Vladimir gerði það. Hann segir: „Dag einn datt sonur okkar af hjólinu og meiddi sig. Nokkrum dögum seinna var sárið gróið. Við konan mín útskýrðum hvernig Jehóva skapaði frumurnar með hæfileikann til að gera við sig sjálfar. Við bentum á að svona væri það ekki með það sem menn gera. Til dæmis gerir bíll ekki við sig sjálfur eftir árekstur. Þetta hjálpaði syni okkar að skilja visku Jehóva.“

13. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum sínum að skilja mátt Guðs? (Jesaja 40:26)

13 Jehóva býður okkur að horfa upp til himins og hugleiða hvernig gríðarlegur máttur hans heldur alheiminum á sínum stað. (Lestu Jesaja 40:26.) Þú getur hvatt börnin þín til að líta til himins og hugleiða það sem þau sjá. Tingting er systir frá Taívan. Hún segir um minningu frá bernsku: „Við mamma fórum einu sinni í útilegu. Við gátum horft á himininn þar sem var engin ljósmengun frá borginni. Á þeim tíma hafði ég áhyggjur af hópþrýstingi og ég velti fyrir mér hvort ég gæti haldið áfram að þjóna Jehóva trúföst. Mamma hvatti mig til að hugleiða máttinn sem Jehóva notaði til að skapa allar þessar stjörnur og muna að hann getur notað sama mátt til að hjálpa mér að mæta öllum prófraunum. Eftir að hafa skoðað sköpunarverkið í þessari ferð langaði mig að kynnast Jehóva betur og ég varð enn ákveðnari í að þjóna honum.“

14. Hvernig geta foreldrar notað sköpunarverkið til að hjálpa börnunum sínum að skilja að Jehóva er hamingjusamur Guð?

14 Sköpunarverk Jehóva sýnir líka að hann er glaður og hefur skopskyn. Vísindamenn hafa tekið eftir því að flest dýr leika sér, þar á meðal fuglar og fiskar. (Job. 40:20) Hafa börnin þín einhvern tíma hlegið þegar þau horfðu á dýr að leik? Þau hafa kannski séð kettling elta hnykil eða hvolpa takast á. Hvers vegna ekki að minna börnin þín á að við þjónum hamingjusömum Guði næst þegar þau horfa hlæjandi á gáskafullt dýr. – 1. Tím. 1:11.

NJÓTIÐ SKÖPUNARVERKS JEHÓVA SEM FJÖLSKYLDA

Börnin þín eru ef til vill afslappaðri og fús til að tala um tilfinningar sínar þegar þau eru úti í náttúrunni með þér. (Sjá 15. grein.)

15. Hvað getur hjálpað foreldrum að draga fram það sem börnin þeirra eru að hugsa? (Orðskviðirnir 20:5) (Sjá einnig mynd.)

15 Foreldrar gætu átt erfitt með að fá börnin til að tala um vandamál sín. Ef það á við um þig gætirðu þurft að draga fram hugsanir barnanna þinna. (Lestu Orðskviðina 20:5.) Sumum foreldrum finnst auðveldara að gera það þegar þeir eru úti í náttúrunni með börnum sínum. Hvers vegna? Ein ástæða er að þar er ekki svo margt sem truflar. Faðir sem heitir Masahiko og á heima í Taívan nefnir aðra ástæðu: „Þegar við erum með börnunum okkar utandyra, í fjallgöngu eða á göngu meðfram ströndinni, eru þau venjulega afslappaðri en ella. Þess vegna er auðveldara að draga fram það sem þau eru að hugsa.“ Katya, sem er minnst á áður, segir: „Mamma fór oft með mig í fallegan almenningsgarð eftir skóla. Í þannig umhverfi fannst mér auðveldara að segja henni frá því sem hafði gerst í skólanum og frá áhyggjum mínum.“

16. Hvernig geta fjölskyldur slakað á og átt skemmtilegar stundir í náttúrunni sem Jehóva hefur gefið okkur?

16 Í náttúrunni sem Jehóva hefur gefið okkur hafa fjölskyldur tækifæri til að slaka á og gera sér eitthvað til gamans. Það styrkir fjölskylduböndin. Biblían segir að það ,að hlæja hafi sinn tíma‘ og ,að hlaupa um hafi sinn tíma‘. (Préd. 3:1, 4, neðanmáls.) Jehóva hefur gefið okkur frábært tækifæri til að njóta uppbyggilegrar afþreyingar í náttúrunni. Margar fjölskyldur kunna að meta að fara upp í sveit, til fjalla eða á ströndina. Sum börn hafa gaman af því að hlaupa um og leika sér í almenningsgarði, horfa á dýr eða synda í á, stöðuvatni eða sjó. Tækifærin eru mörg til að njóta þess sem Jehóva hefur skapað!

17. Hvers vegna ættu foreldrar að hjálpa börnunum sínum að njóta sköpunarverksins?

17 Í nýjum heimi Guðs fá foreldrar og börn tækifæri til að njóta sköpunarverks Jehóva sem aldrei fyrr. Þá þurfum við ekki að óttast dýrin og þau óttast okkur ekki heldur. (Jes. 11:6–9) Við höfum endalausan tíma til að njóta þess sem Jehóva hefur gert. (Sálm. 22:26) En þið foreldrar, bíðið ekki þangað til með að hjálpa börnunum ykkar að njóta sköpunarverksins. Þegar þið notið sköpunarverkið til að fræða börnin ykkar um Jehóva munu þau líklega taka undir með Davíð konungi sem sagði: „Jehóva … engin verk eru eins og þín.“ – Sálm. 86:8.

SÖNGUR 134 Ykkur er trúað fyrir börnunum

a Margir bræður og systur eiga góðar minningar frá því að njóta sköpunarverksins með kristnum foreldrum sínum. Þau gleyma ekki hvernig foreldrar þeirra notuðu þessi tækifæri til að fræða þau um persónuleika Jehóva. Ef þú átt börn, hvernig geturðu þá notað sköpunarverkið til að hjálpa þeim að kynnast eiginleikum Guðs? Þessi námsgrein svarar þeirri spurningu.