Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna sagði maðurinn sem var ávarpaður „þú þarna“ að það myndi „spilla“ arfi hans ef hann kvæntist Rut? (Rut. 4:1, 6)

Þegar kvæntur maður á biblíutímanum dó barnlaus þurfti að skoða ákveðin mál: Hvað yrði um landareign hans? Myndi ættarnafn hans tapast fyrir fullt og allt? Móselögin svöruðu þessum spurningum.

Ef maður dó gekk landið í arf til bróður hans eða nákomins ættingja. Ef maður varð fátækur og seldi landið gat bróðir hans eða nákominn ættingi keypt það aftur þannig að það yrði áfram í fjölskyldunni. – 3. Mós. 25:23–28; 4. Mós. 27:8–11.

Hvernig varðveittist ættarnafn hins dána? Með mágskylduhjónabandi, eins og gerðist í tilfelli Rutar. Maður kvæntist ekkju bróður síns til að eignast erfingja sem myndi taka nafn hins dána og erfa eignir hans. Með þessu kærleiksríka fyrirkomulagi var líka séð um þarfir ekkjunnar. – 5. Mós. 25:5–7; Matt. 22:23–28.

Tökum mál Naomí sem dæmi. Hún var gift manni sem hét Elímelek. Þegar hann og synir þeirra tveir dóu var enginn karlmaður eftir í fjölskyldunni sem gat annast Naomí. (Rut. 1:1–5) Eftir að hún hafði snúið aftur heim til Júda ásamt Rut tengdadóttur sinni bað hún hana að biðja Bóas um að kaupa til baka landareign fjölskyldunnar. Hann var nákominn ættingi Elímeleks. (Rut. 2:1, 19, 20; 3:1–4) En Bóas vissi að annar ættingi, sá sem í Biblíunni er ávarpaður „þú þarna“, var nákomnari en hann. Hann fékk þess vegna fyrst tækifæri til að kaupa eignir hins dána. – Rut. 3:9, 12, 13.

Til að byrja með var „þú þarna“ tilbúinn að hjálpa. (Rut. 4:1–4) Hann gerði sér grein fyrir að þótt það myndi kosta hann eitthvað gæti Naomí ekki eignast barn sem myndi erfa landareign Elímeleks. Eigninni yrði þess vegna bætt við erfðaland „þú þarna“ og þar af leiðandi gat þetta virst góð fjárfesting.

En „þú þarna“ snerist hugur þegar hann skildi að hann yrði að kvænast Rut. Hann sagði: „Ég get ekki keypt hann [akurinn] því að það gæti spillt arfinum mínum.“ (Rut. 4:5, 6) Hvers vegna skipti hann um skoðun?

Ef „þú þarna“ eða einhver annar kvæntist Rut og hún eignaðist son myndi hann erfa land Elímeleks. Hvernig myndi það ,spilla arfi‘ „þú þarna“? Biblían segir ekkert um það en það eru nokkrir möguleikar.

  • Í fyrsta lagi: Hann myndi tapa fénu sem hann borgaði fyrir land Elímeleks því að landið yrði þegar upp væri staðið ekki hans. Sonur Rutar myndi eignast það.

  • Í öðru lagi: Hann myndi hafa þá ábyrgð að sjá bæði Naomí og Rut farborða og annast þær.

  • Í þriðja lagi: Ef Rut myndi eignast fleiri börn með „þú þarna“ myndi arfurinn skiptast milli þeirra og barna hans.

  • Í fjórða lagi: Ef „þú þarna“ ætti ekki önnur börn myndi sonur Rutar erfa bæði land Elímeleks og „þú þarna“. Hann léti þannig landið í hendur barns sem myndi bera nafn Elímeleks en ekki hans. „Þú þarna“ var ekki fús til að hætta erfðalandi sínu til að hjálpa Naomí. Hann kaus að láta næsta lausnarmann í röðinni, Bóas, taka á sig þá ábyrgð. Bóas samþykkti það ,til að erfðaland hins látna héldist í ætt hans‘. – Rut. 4:10.

„Þú þarna“ var greinilega meira umhugað um að varðveita sitt eigið nafn og erfðaland. Hann var eigingjarn. En nafn „þú þarna“ varðveittist ekki, það er óþekkt. Hann fór líka á mis við heiðurinn sem Bóas hlaut en nafn hans er að finna í ættartölu Messíasar, Jesú Krists. Að vera eigingjarn og neita að hjálpa þeim sem voru hjálparþurfi hafði sorglegar afleiðingar í för með sér fyrir „þú þarna“. – Matt. 1:5; Lúk. 3:23, 32.