Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 11

SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð

Þú getur haldið út þrátt fyrir vonbrigði

Þú getur haldið út þrátt fyrir vonbrigði

‚Þú hefur þolað margt vegna nafns míns.‘OPINB. 2:3.

Í HNOTSKURN

Við getum haldið út í þjónustu Jehóva þó að við verðum fyrir vonbrigðum.

1. Hvaða blessun fylgir því að tilheyra söfnuði Jehóva?

 ÞAÐ fylgir því mikil blessun að tilheyra söfnuði Jehóva á þessum erfiðu síðustu dögum. Heimurinn fer sífellt versnandi, en Jehóva gefur okkur andlega fjölskyldu þar sem eining ríkir. (Sálm. 133:1) Hann hjálpar okkur að eiga hamingjuríkt fjölskyldulíf. (Ef. 5:33–6:1) Og hann gefur okkur þá visku og skilning sem við þurfum til að njóta innri friðar.

2. Hvað þurfum við að gera og hvers vegna?

2 Við þurfum að leggja hart að okkur til að halda áfram að þjóna Jehóva af trúfesti. Hvers vegna? Vegna þess að stundum særa aðrir okkur með því sem þeir segja eða gera. Okkur getur líka fundist erfitt að sætta okkur við eigin ófullkomleika, sérstaklega ef okkur verður á að gera sömu mistökin aftur og aftur. Við þurfum að halda út í þjónustu Jehóva (1) þegar trúsystkini gerir eitthvað á hlut okkar, (2) þegar maki okkar veldur okkur vonbrigðum og (3) þegar við erum óánægð með okkur sjálf. Í þessari námsgrein skoðum við þessar mismunandi aðstæður. Við skoðum líka hvað við getum lært af trúföstu fólki í Biblíunni.

HALTU ÚT ÞEGAR TRÚSYSTKINI GERIR EITTHVAÐ Á HLUT ÞINN

3. Hvaða vanda standa þjónar Jehóva frammi fyrir?

3 Vandinn. Sum trúsystkini geta farið í taugarnar á okkur. Önnur valda okkur kannski vonbrigðum eða eru ónærgætin við okkur. Og þeir sem fara með forystuna geta gert mistök. Sumir gætu þá farið að efast um að þetta sé söfnuður Guðs. Í stað þess að halda áfram að þjóna Guði „hlið við hlið“ með trúsystkinum sínum gætu þeir hætt að umgangast þá sem gerðu á hlut þeirra eða jafnvel hætt að mæta á samkomur. (Sef. 3:9) Er það skynsamlegt? Skoðum hvað við getum lært af biblíupersónu sem stóð frammi fyrir þessu.

4. Hvaða erfiðleikum stóð Páll postuli frammi fyrir?

4 Dæmi úr Biblíunni. Páll postuli vissi vel að trúsystkini hans væru ófullkomin. Hann var til dæmis litinn hornauga stuttu eftir að hann kom inn í söfnuðinn. (Post. 9:26) Seinna baktöluðu sumir hann til að gera lítið úr honum. (2. Kor. 10:10) Páll sá bróður í ábyrgðarstöðu taka ranga ákvörðun sem getur hafa hneykslað aðra. (Gal. 2:11, 12) Og Markús, náinn samstarfsmaður Páls, olli honum miklum vonbrigðum. (Post. 15:37, 38) Hvert og eitt þessara tilfella hefði getað fengið Pál til að hætta að umgangast þá sem gerðu á hlut hans. En hann hélt áfram að líta bræður sína og systur jákvæðum augum og þjóna Jehóva trúfastlega. Hvað hjálpaði Páli að halda út?

5. Hvað hjálpaði Páli að gefast ekki upp á bræðrum sínum og systrum? (Kólossubréfið 3:13, 14) (Sjá einnig mynd.)

5 Páll elskaði trúsystkini sín. Það hjálpaði honum að einbeita sér að góðum eiginleikum þeirra en ekki ófullkomleika. Kærleikur hjálpaði Páli líka að fylgja eigin ráði í Kólossubréfinu 3:13, 14. (Lestu.) Páll fyrirgaf Markúsi. Markús yfirgaf Pál í fyrstu trúboðsferðinni, en Páll erfði það ekki við hann. Seinna, þegar Páll skrifaði hlýlegt bréf til safnaðarins í Kólossu, hrósaði hann Markúsi fyrir að vera mikils metinn samstarfsmaður og sagði að hann hefði verið sér til „mikillar hughreystingar“. (Kól. 4:10, 11) Þegar Páll var í fangelsi í Róm bað hann sérstaklega um að Markús kæmi til að hjálpa sér. (2. Tím. 4:11) Það er greinilegt að Páll gafst ekki upp á bræðrum sínum. Hvað lærum við af Páli?

Það kom upp ágreiningur á milli Páls, Barnabasar og Markúsar. En Páll dvaldi ekki við það heldur naut þess síðar að vinna með Markúsi. (Sjá 5. grein.)


6, 7. Hvernig getum við haldið áfram að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika þrátt fyrir ófullkomleika þeirra? (1. Jóhannesarbréf 4:7)

6 Lærdómurinn. Jehóva vill að við höldum áfram að sýna trúsystkinum okkar kærleika. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:7.) Ef einhver kemur illa fram við okkur getum við gert ráð fyrir að hann vilji fylgja meginreglum Biblíunnar en hafi gert þetta í hugsunarleysi. (Orðskv. 12:18) Guð elskar trúa þjóna sína þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Hann gefst ekki upp á okkur þegar við gerum mistök eða heldur áfram að vera reiður. (Sálm. 103:9) Það er mjög mikilvægt að við líkjum eftir föður okkar sem er fús til að fyrirgefa. – Ef. 4:32–5:1.

7 Höfum líka í huga að endirinn er nálægur og við þurfum að viðhalda nánu sambandi við bræður okkar og systur. Við megum reikna með auknum ofsóknum. Við gætum jafnvel lent í fangelsi vegna trúar okkar. Þá þurfum við meira en nokkru sinni fyrr á bræðrum okkar og systrum að halda. (Orðskv. 17:17) Tökum sem dæmi öldung á Spáni sem heitir Josep. a Hann og aðrir bræður voru fangelsaðir vegna hlutleysis síns. Hann segir: „Í fangelsi var mikil hætta á að við færum í taugarnar hver á öðrum vegna þess að við höfðum ekkert næði. Við þurftum að umbera hver annan og fyrirgefa hver öðrum fúslega. Það hjálpaði okkur að vera sameinaðir og vernda hver annan. Við vorum innan um aðra fanga sem þjónuðu ekki Jehóva. Eitt sinn slasaðist ég og handleggurinn var í gifsi svo að ég gat ekki gert allt sjálfur. En einn bræðranna þvoði fötin mín og hjálpaði mér með fleira sem ég þurfti. Ég fann fyrir einlægum kærleika þegar ég þurfti mest á því að halda.“ Við höfum sannarlega góða ástæðu til að leysa ágreining núna.

HALTU ÚT ÞEGAR MAKI ÞINN VELDUR ÞÉR VONBRIGÐUM

8. Hvaða vanda standa hjón frammi fyrir?

8 Vandinn. Öll hjón þurfa að glíma við erfiðleika. Í Biblíunni segir berum orðum: „Þeir sem giftast verða fyrir erfiðleikum í lífinu.“ (1. Kor. 7:28) Hvers vegna? Vegna þess að hjónaband er samband tveggja ófullkominna einstaklinga sem hafa ólíka eiginleika og ólíkan smekk. Hjón koma stundum úr ólíku umhverfi og menningu. Og þau gætu með tímanum sýnt eiginleika sem makinn tók ekki eftir áður en þau giftu sig. Þetta getur valdið ágreiningi. Þau kenna kannski hvort öðru um vandann þó að þau eigi bæði sinn þátt í honum og ættu að vinna saman að því að leysa hann. Þeim gæti jafnvel fundist lausnin vera að slíta samvistum eða skilja. En er lausnin að gefast upp á hjónabandinu? b Lærum af biblíupersónu sem hélt út í gríðarlega erfiðu hjónabandi.

9. Hvaða vanda stóð Abígail frammi fyrir?

9 Dæmi úr Biblíunni. Abígail var gift Nabal, en Biblían segir að hann hafi verið harður og illskeyttur. (1. Sam. 25:3) Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir hana að búa með honum. Hafði Abígail tækifæri til að losna úr hjónabandinu? Já, hún fékk tækifæri til þess þegar Davíð, tilvonandi konungur Ísraels, ætlaði að drepa eiginmann hennar fyrir að móðga hann og menn hans. (1. Sam. 25:9–13) Abígail hefði getað flúið og látið Davíð gera það sem hann ætlaði sér. En hún skarst í leikinn og sannfærði Davíð um að þyrma lífi Nabals. (1. Sam. 25:23–27) Hvað fékk hana til þess?

10. Hvað fékk Abígail líklega til að halda út í erfiðu hjónabandi?

10 Abígail elskaði Jehóva og virti lög hans um hjónabandið. Hún vissi eflaust hvað Guð sagði við Adam og Evu þegar hann gaf þau saman. (1. Mós. 2:24) Abígail vissi að hjónabandið er heilagt í augum Jehóva. Hún vildi þóknast Guði og það hefur knúið hana til að gera allt sem hún gat til að bjarga heimilisfólki sínu, þar á meðal eiginmanninum. Hún brást fljótt við til að koma í veg fyrir að Davíð myrti Nabal. Hún var líka fús til að biðjast afsökunar á því sem var ekki henni að kenna. Það er greinilegt að Jehóva elskaði þessa hugrökku og óeigingjörnu konu. Hvað geta eiginkonur og eiginmenn lært af fordæmi Abígail?

11. (a) Til hvers ætlast Jehóva af hjónum? (Efesusbréfið 5:33) (b) Hvað lærðir þú af því hvernig Carmen lagði sig fram um að bjarga hjónabandi sínu? (Sjá einnig mynd.)

11 Lærdómurinn. Jehóva vill að hjón virði hjónabandið, jafnvel þó að sambúðin sé erfið. Það hlýtur að gleðja Guð að sjá hjón leggja sig fram um að leysa vandamál og sýna hvort öðru óeigingjarnan kærleika og virðingu. (Lestu Efesusbréfið 5:33.) Tökum reynslu Carmen sem dæmi. Um sex árum eftir að hún gifti sig fór hún að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva og lét síðan skírast. „Eiginmaður minn tók því illa,“ segir Carmen. „Hann varð afbrýðisamur út í Jehóva. Hann gerði lítið úr mér og hótaði að fara frá mér.“ En Carmen hélt samt út í hjónabandinu. Í 50 ár lagði hún sig fram um að elska og virða eiginmann sinn. „Með árunum varð ég næmari á hvernig honum leið og lærði að sýna honum nærgætni. Ég vissi að hjónabandið er heilagt í augum Jehóva og gerði þess vegna allt sem ég gat til að vernda það. Ég gafst aldrei upp á hjónabandi mínu vegna þess að ég elska Jehóva.“ c Ef það koma upp erfiðleikar í hjónabandi þínu máttu treysta því að Jehóva styðji þig og hjálpi þér að halda út.

Hvað lærir þú af því hve fús Abígail var að gera það sem hún gat til að bjarga heimilisfólki sínu? (Sjá 11. grein.)


HALTU ÚT ÞEGAR ÞÚ ERT ÓÁNÆGÐUR MEÐ SJÁLFAN ÞIG

12. Hvaða vanda gætum við staðið frammi fyrir ef við drýgjum alvarlega synd?

12 Vandinn. Ef okkur verður á að drýgja alvarlega synd getur okkur langað til að gefast upp. Biblían viðurkennir að þegar við syndgum gæti okkur fundist við ‚brotin og kramin‘. (Sálm. 51:17) Bróðir sem heitir Robert hafði lagt hart að sér í mörg ár til að verða safnaðarþjónn. En hann drýgði alvarlega synd og gerði sér grein fyrir að hann hefði svikið Jehóva. „Samviskubitið var alveg að gera út af við mig,“ segir hann. „Mér leið hræðilega. Ég grét og bað til Jehóva. Ég man að ég hugsaði að Guð myndi aldrei vilja hlusta á mig aftur. Hvers vegna ætti hann að gera það? Ég var búinn að svíkja hann.“ Ef okkur verður á að syndga gæti okkur langað til að gefast upp vegna þess að hjarta okkar er kramið og við trúum því að Jehóva hafi nú þegar gefist upp á okkur. (Sálm. 38:4) Ef þér hefur liðið þannig skaltu hugleiða reynslu biblíupersónu sem hélt út í þjónustunni við Jehóva þrátt fyrir að hafa drýgt alvarlega synd.

13. Hvaða alvarlegu synd drýgði Pétur og hver var aðdragandi þess?

13 Dæmi úr Biblíunni. Nóttina áður en Jesús var tekinn af lífi gerði Pétur nokkur mistök sem leiddu til þess að hann drýgði mjög alvarlega synd. Til að byrja með var Pétur mjög góður með sig og stærði sig af því að hann yrði trúr jafnvel þó að hinir postularnir yfirgæfu Jesú. (Mark. 14:27–29) Seinna, í Getsemanegarðinum, mistókst honum aftur og aftur að halda sér vakandi. (Mark. 14:32, 37–41) Síðan yfirgaf Pétur Jesú þegar hópur með sverð og barefli kom til að handtaka hann. (Mark. 14:50) Að lokum neitaði Pétur þrisvar að hann þekkti Jesú og sór þess jafnvel eið. (Mark. 14:66–71) Hvernig brást Pétur við þegar hann gerði sér grein fyrir hversu alvarlega hann hafði syndgað? Hann var eflaust fullur sektarkenndar því að hann brotnaði saman og grét beisklega. (Mark. 14:72) Við getum rétt ímyndað okkur angist Péturs þegar Jesús vinur hans var tekinn af lífi nokkrum klukkustundum seinna. Honum hlýtur að hafa fundist hann einskis virði.

14. Hvað hjálpaði Pétri að halda út í þjónustu Jehóva? (Sjá mynd.)

14 Það eru nokkrar ástæður fyrir því að Pétur gat haldið út í þjónustu Jehóva. Hann einangraði sig ekki heldur fór til trúbræðra sinna og þeir hughreystu hann án efa. (Lúk. 24:33) Og eftir að Jesús var reistur upp birtist hann Pétri, sennilega til að hvetja hann. (Lúk. 24:34; 1. Kor. 15:5) Jesús ávítaði Pétur ekki fyrir mistökin heldur sagði honum seinna að honum yrði falin meiri ábyrgð. (Jóh. 21:15–17) Pétur vissi að hann hafði syndgað alvarlega, en hann gafst ekki upp á að reyna að gera það sem er rétt. Hvers vegna? Vegna þess að hann var viss um að Jesús, meistari hans, hefði ekki gefist upp á honum. Og trúbræður Péturs héldu áfram að styðja hann. Hvað getum við lært af reynslu Péturs?

Jóhannes 21:15–17 sýnir að Jesús gafst ekki upp á Pétri og það hvatti Pétur til að halda út. (Sjá 14. grein.)


15. Um hvað vill Jehóva að við séum fullviss? (Sálmur 86:5; Rómverjabréfið 8:38, 39) (Sjá einnig mynd.)

15 Lærdómurinn. Jehóva vill að við séum fullviss um að hann elski okkur og sé fús til að fyrirgefa okkur. (Lestu Sálm 86:5; Rómverjabréfið 8:38, 39.) Við fáum samviskubit þegar við syndgum. Það er eðlilegt og viðeigandi. En við megum ekki hugsa að Jehóva elski okkur ekki eða geti ekki fyrirgefið okkur. Við ættum frekar að leita okkur hjálpar strax. Robert, sem minnst er á áður, segir: „Mér varð á að syndga vegna þess að ég treysti á eigin styrk til að standast freistingu.“ Hann vissi að hann þurfti að tala við öldungana. Hann segir: „Þegar ég talaði við öldungana hjálpuðu þeir mér að skilja að Jehóva elskar mig. Þeir gáfust ekki upp á mér. Þeir hjálpuðu mér að treysta að Jehóva hefði ekki yfirgefið mig.“ Við megum líka vera viss um að Jehóva elski okkur heitt og sé fús til að fyrirgefa okkur ef við iðrumst synda okkar, leitum okkur aðstoðar og reynum í einlægni að endurtaka ekki mistökin. (1. Jóh. 1:8, 9) Þessi fullvissa kemur í veg fyrir að við gefumst upp á sjálfum okkur þegar við gerum mistök.

Hvaða fullvissu veitir það þér að sjá öldunga leggja hart að sér til að hjálpa? (Sjá 15. grein.)


16. Hvers vegna ertu staðráðinn í að halda út í þjónustunni við Jehóva?

16 Jehóva kann virkilega að meta það sem við leggjum á okkur til að þjóna honum á þessum erfiðu síðustu dögum. Með hjálp hans getum við haldið út þrátt fyrir vonbrigði. Við getum ræktað með okkur kærleika til bræðra og systra og fyrirgefið þeim þegar þau gera eitthvað á hlut okkar. Við getum sýnt virðingu okkar fyrir hjónabandinu og hve heitt við elskum Guð með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að leysa vandamál sem koma upp í hjónabandinu. Og ef við syndgum getum við leitað hjálpar Jehóva, þegið kærleika hans og fyrirgefningu, og haldið áfram að þjóna honum. Við megum vera viss um að við hljótum ríkulega blessun ef við „gefumst ekki upp á að gera það sem er gott“. – Gal. 6:9.

HVERNIG GETUM VIÐ HALDIÐ ÚT Í ÞJÓNUSTUNNI VIÐ JEHÓVA ÞEGAR …

  • trúsystkini gerir eitthvað á hlut okkar?

  • maki okkar veldur okkur vonbrigðum?

  • við erum óánægð með okkur sjálf?

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b Orð Guðs hvetur hjón til að slíta ekki samvistum og segir skýrt að það gæfi hvorugu hjónanna leyfi til að gifta sig aftur. En sumir þjónar Jehóva hafa við alvarlegar aðstæður íhugað að slíta samvistum við maka sinn. Sjá aftanmálsgrein 4 „Samvistaslit hjóna“ í bókinni Von um bjarta framtíð.