Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 9

SÖNGUR 75 „Hér er ég. Send þú mig.“

Ert þú tilbúinn að vígja Jehóva líf þitt?

Ert þú tilbúinn að vígja Jehóva líf þitt?

„Hvernig á ég að endurgjalda Jehóva allt það góða sem hann hefur gert fyrir mig?“SÁLM. 116:12.

Í HNOTSKURN

Þessi grein getur hjálpað þér að rækta náið samband við Jehóva þannig að þig langi til að vígja honum líf þitt og láta skírast.

1, 2. Hvað þarf maður að gera áður en maður lætur skírast?

 SÍÐASTLIÐIN fimm ár hefur meira en milljón manns látið skírast sem vottar Jehóva. Margir þeirra hafa lært sannleika Biblíunnar frá „blautu barnsbeini“ líkt og lærisveinninn Tímóteus á fyrstu öld. (2. Tím. 3:14, 15) Aðrir kynntust Jehóva eftir að þeir urðu fullorðnir og sumir á efri árum. Fyrir nokkru síðan kynnti kona sér Biblíuna með vottum Jehóva og lét skírast þegar hún var 97 ára.

2 Ef þú ert biblíunemandi eða alinn upp af foreldrum sem eru vottar er mjög gott markmið að láta skírast. En áður en þar að kemur þarf maður að vera búinn að vígja líf sitt Jehóva. Þessi námsgrein fjallar um hvað það merkir að vígja líf sitt Guði. Auk þess auðveldar hún okkur að sjá hvers vegna við ættum ekki að hika við að vígja Guði líf okkar og láta skírast þegar við erum tilbúin til þess.

HVAÐ ER VÍGSLA?

3. Nefndu dæmi um fólk sem Biblían greinir frá sem var helgað Jehóva.

3 Þegar Biblían talar um að einhver hafi verið vígður Jehóva merkir það að hann hafi verið aðgreindur í helgum tilgangi. Ísraelsþjóðin var vígð Jehóva. En sumir Ísraelsmenn voru vígðir Jehóva á sérstakan hátt. Aron var til dæmis með sérstakt „vígslutákn“, skínandi gullplötu framan á vefjarhettinum sem hann bar. Gullplatan gaf til kynna að hann væri aðgreindur til að þjóna Jehóva á sérstakan hátt sem æðsti prestur Ísraelsþjóðarinnar. (3. Mós. 8:9) Nasírearnir voru líka vígðir Jehóva á sérstakan hátt. Orðið „Nasírei“ er dregið af hebreska orðinu nazir, en það merkir „aðgreindur“ eða „helgaður“. Nasírear þurftu að hlýða sérstökum fyrirmælum sem var að finna í Móselögunum. – 4. Mós. 6:2–8.

4. (a) Á hvaða hátt eru þeir sem eru vígðir Jehóva aðgreindir í helgum tilgangi? (b) Hvað merkir að ‚afneita sjálfum sér‘? (Sjá einnig mynd.)

4 Þegar þú vígir líf þitt Jehóva velurðu að verða lærisveinn Jesú Krists og gera vilja Guðs að því mikilvægasta í lífi þínu. Hvað felur það í sér? Jesús sagði: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér.“ (Matt. 16:24) Gríska orðasambandið sem er þýtt „afneita sjálfum sér“ getur líka þýtt „hann verður að segja nei við sjálfan sig“. Sem vígður þjónn Jehóva þarftu að segja nei við öllu sem stangast á við vilja hans. (2. Kor. 5:14, 15) Það felur meðal annars í sér að segja nei við ‚verkum holdsins‘ eins og kynferðislegu siðleysi. (Gal. 5:19–21; 1. Kor. 6:18) Eru slíkar hömlur erfiðar? Ekki ef þú elskar Jehóva og ert viss um að lög hans séu þér fyrir bestu. (Sálm. 119:97; Jes. 48:17, 18) Bróðir sem heitir Nicolas orðar það þannig: „Þú getur annaðhvort horft á mælikvarða Jehóva sem fangelsisrimla sem koma í veg fyrir að þú getir gert það sem þig langar eða rimla á ljónabúri sem vernda þig fyrir hættu.“

Sérðu mælikvarða Jehóva sem fangelsisrimla sem hindra þig í að gera það sem þig langar eða rimla á ljónabúri sem vernda þig gegn hættu? (Sjá 4. grein.)


5. (a) Hvernig vígir þú Jehóva líf þitt? (b) Hver er munurinn á vígslu og skírn? (Sjá einnig mynd.)

5 Hvernig vígirðu Jehóva líf þitt? Þú lofar honum í bæn að þú munir aðeins tilbiðja hann og að þú setjir vilja hans í fyrsta sæti í lífi þínu. Þú lofar Jehóva að elska hann „af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum“. (Mark. 12:30) Þú vígir líf þitt Jehóva í einrúmi, þetta er milli þín og hans. Skírnin er á hinn bóginn opinber, hún sýnir öðrum að þú hafir vígt Jehóva líf þitt. Vígslan er heilagt loforð. Markmið þitt ætti að vera að standa við loforðið og Jehóva væntir þess, rétt eins og þú sjálfur. – Préd. 5:4, 5

Að vígja líf sitt Jehóva felur meðal annars í sér að lofa í einrúmi að þjóna honum einum og láta vilja hans hafa forgang í lífi sínu. (Sjá 5. grein.)


HVERS VEGNA ÆTTIRÐU AÐ VÍGJA JEHÓVA LÍF ÞITT?

6. Hvað fær mann til að vígja Jehóva líf sitt?

6 Meginástæðan fyrir því að þú vígir Jehóva líf þitt er að þú elskar hann. Kærleikur þinn til Jehóva byggist ekki bara á tilfinningum. Hann byggist á ‚nákvæmri þekkingu‘ og „skilningi sem andinn gefur“. (Kól. 1:9) Með því að rannsaka Biblíuna hefurðu fengið fullvissu um (1) að Jehóva sé raunverulegur, (2) að Biblían sé innblásið orð hans og (3) að hann noti söfnuð sinn til að framkvæma vilja sinn.

7. Hvað ættum við að gera áður en við vígjum Jehóva líf okkar?

7 Þeir sem vígja Jehóva líf sitt ættu að þekkja grundvallarkenningar orðs Guðs og lifa í samræmi við mælikvarðann sem þar er að finna. Þeir segja öðrum frá trú sinni í þeim mæli sem aðstæður þeirra leyfa. (Matt. 28:19, 20) Kærleikur þeirra til Jehóva hefur vaxið og þá langar innilega að þjóna honum einum. Á það við um þig? Ef þú elskar Jehóva af öllu hjarta er vígsla þín og skírn ekki bara til að þóknast biblíukennara þínum eða foreldrum eða til að gera bara eins og vinir þínir gera.

8. Hvaða hlutverki gegnir þakklæti í ákvörðuninni um að vígja líf sitt Jehóva? (Sálmur 116:12–14)

8 Þegar þú hugsar um allt sem Jehóva hefur gert fyrir þig fyllistu örugglega þakklæti og vilt vígja líf þitt honum. (Lestu Sálm 116:12–14.) Biblían kallar Jehóva með réttu þann sem gefur ‚sérhverja góða og fullkomna gjöf‘. (Jak. 1:17) Stærsta gjöfin er lausnarfórn sonar hans Jesú. Hugsa sér hversu stórkostleg þessi gjöf er. Lausnargjaldið gerir þér kleift að eiga náið samband við Jehóva. Og hann býður þér tækifæri til að lifa að eilífu. (1. Jóh. 4:9, 10, 19) Að vígja Jehóva líf þitt er leið til að sýna Jehóva hversu þakklátur þú sért fyrir mesta kærleiksverk sem um getur og allt annað sem hann hefur gert fyrir þig. (5. Mós. 16:17; 2. Kor. 5:15) Þetta er undirstrikað í bókinni Von um bjarta framtíð, kafla 46 lið 4, þar sem er líka að finna þriggja mínútna myndband sem ber heitið Færðu Guði gjafir þínar.

ERTU TILBÚINN AÐ VÍGJAST JEHÓVA OG LÁTA SKÍRAST?

9. Hvers vegna ætti ekki að þrýsta á neinn til að vígja Jehóva líf sitt?

9 Þér finnst þú kannski ekki tilbúinn fyrir vígslu og skírn. Þá átt ef til vill eftir að gera breytingar í lífi þínu til að fylgja mælikvarða Jehóva, eða þér finnst þú þurfa meiri tíma til að styrkja trú þína. (Kól. 2:6, 7) Það tekur nemendur mislangan tíma að styrkja sambandið við Jehóva og það er ekki á neinum ákveðnum aldri sem unga fólkið er tilbúið að láta skírast. Reyndu að meta hvaða andlegum framförum þú getur tekið miðað við eigin getu en ekki í samanburði við aðra. – Gal. 6:4, 5.

10. Hvað geturðu gert ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þú sért ekki tilbúinn fyrir vígslu og skírn? (Sjá einnig rammann „ Fyrir þá sem eru aldir upp í sannleikanum“.)

10 Haltu áfram að hafa það sem markmið að vígja líf þitt Jehóva þótt þú áttir þig á því að þú sért ekki tilbúinn enn þá. Biddu Jehóva að blessa viðleitni þína til að gera allar þær breytingar sem eru nauðsynlegar. (Fil. 2:13; 3:16) Þú getur verið viss um að hann heyri bænir þínar og bregðist við þeim. – 1. Jóh. 5:14.

HVERS VEGNA HIKA SUMIR?

11. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að vera trúföst?

11 Sumir sem eru tilbúnir til að vígja líf sitt Jehóva og skírast halda samt aftur af sér. Þeir óttast kannski að drýgja alvarlega synd og vera vikið úr söfnuðinum eftir að þeir hafa látið skírast. Ef það á við um þig geturðu verið viss um að hann geri allt fyrir þig til að þú getir ‚lifað eins og honum er samboðið og þóknast honum í einu og öllu‘. (Kól. 1:10) Hann mun líka gefa þér þann styrk sem þú þarft til að gera það sem er rétt. Hann hefur sýnt fram á að hann gerir það með því að hjálpa mörgum öðrum. (1. Kor. 10:13) Það er ástæðan fyrir því að tiltölulega fáum er vikið úr kristna söfnuðinum. Jehóva hjálpar þjónum sínum að vera trúfastir.

12. Hvernig getum við forðast að drýgja alvarlega synd?

12 Við erum öll ófullkomin og verðum fyrir freistingum til að gera það sem er rangt. (Jak. 1:14) En við höfum val um það hvort við látum freistast. Þegar allt kemur til alls ert það þú sem ákveður hvernig þú vilt lífa lífi þínu. Þú getur lært að hafa stjórn á hvötum þínum þótt sumir haldi öðru fram. Þú getur valið að fylgja ekki röngum hvötum þótt þær skjóti upp kollinum. Það er ýmislegt sem getur hjálpað þér að syndga ekki eins og til dæmis að biðja til Jehóva á hverjum degi. Gerðu þér að venju að rannsaka orð Guðs reglulega. Sæktu samkomur. Segðu öðrum frá trú þinni. Ef þú temur þér allt þetta öðlastu styrk til að vera trúfastur. Og mundu að Jehóva hjálpar þér til þess. – Gal. 5:16.

13. Hvaða fordæmi gaf Jósef okkur?

13 Það er auðveldara að vera Jehóva trúfastur ef þú áveður fyrirfram hvað þú gerir ef þú verður fyrir freistingu. Biblían greinir frá mörgum sem gerðu þetta þrátt fyrir að vera ófullkomnir. Eiginkona Pótífars reyndi aftur og aftur að tæla Jósef. En hann var alveg ákveðinn í afstöðu sinni. Biblían segir að hann hafi ‚ekki látið undan‘. Hann sagði: „Hvernig gæti ég þá brotið svo gróflega af mér og syndgað gegn Guði?“ (1. Mós. 39:8–10) Jósef vissi greinilega hvernig hann myndi bregðast við, jafnvel áður en hún reyndi að freista hans. Það gerði honum auðveldara að bregðast rétt við þegar hann varð fyrir freistingunni.

14. Hvernig getum við lært að segja nei þegar við verðum fyrir freistingu?

14 Hvernig geturðu líkt eftir Jósef og staðist freistingar? Þú getur áveðið núna hvað þú ætlar að gera þegar þær verða á vegi þínum. Temdu þér að hafna samstundis því sem Jehóva hatar og láttu hugann jafnvel ekki dvelja við það. Þannig geturðu forðast að syndga þegar þú verður fyrir freistingu. (Sálm. 97:10; 119:165) Þú veist hvernig þú munt bregðast við. Þú hefur fyrir fram tekið stefnuna.

15. Hvernig getur maður sýnt að maður ‚leiti Jehóva í einlægni‘? (Hebreabréfið 11:6)

15 Þú veist ef til vill að þú hefur fundið sannleikann og þú vilt þjóna Jehóva af öllu hjarta, en það er samt eitthvað sem heldur aftur af þér að vígja líf þitt Jehóva og láta skírast. Þá geturðu gert eins og Davíð konungur. Þú getur beðið Jehóva: „Rannsakaðu mig, Guð, og kynnstu hjarta mínu. Skoðaðu mig og lestu kvíðafullar hugsanir mínar. Sjáðu hvort ég er kominn út á ranga braut og leiddu mig um veg eilífðarinnar.“ (Sálm. 139:23, 24) Jehóva blessar þá sem „leita hans í einlægni“. Þegar þú vinnur að því markmiði að vígja Jehóva líf þitt og skírast sýnirðu að þú er einmitt að gera það. – Lestu Hebreabréfið 11:6.

HALTU ÁFRAM AÐ NÁLÆGJA ÞIG JEHÓVA

16, 17. Hvernig dregur Jehóva þá til sín sem eru aldir upp í sannleikanum? (Jóhannes 6:44)

16 Jesús sagði að Jehóva drægi lærisveina sína til sín. (Lestu Jóhannes 6:44.) Hugsaðu þér hversu stórkostlegt það er og hvað það merkir fyrir þig. Jehóva sér eitthvað gott við hvern þann sem hann dregur til sín. Hann lítur á hann sem „sérstaka“ eða „dýrmæta“ eign sína. (5. Mós. 7:6, neðanmáls) Það á líka við um þig.

17 Þú ert ef til vill ung manneskja sem ert alinn upp í sannleikanum. Þér finnst þú kannski bara fylgja með eða vera dreginn með. Biblían segir samt sem áður: „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8; 1. Kron. 28:9) Þegar þú tekur frumkvæðið að nálgast Jehóva bregst hann við með því að nálgast þig. Jehóva lítur ekki á þig sem einungis hluta af hópi. Hann dregur hvern og einn til sín, þar á meðal sérhvern sem er alinn upp í sannleikanum. Þegar einstaklingur tekur frumkvæðið að nálgast Jehóva bregst hann við eins og kemur fram í Jakobsbréfinu 4:8. – Samanber 2. Þessaloníkubréf 2:13.

18. Hvað ræðum við um í næstu námsgrein? (Sálmur 40:8)

18 Þegar þú vígir Jehóva líf þitt og lætur skírast endurspeglarðu viðhorf Jesú. Hann bauð sig fúslega fram til að gera hvað sem Jehóva bæði hann um. (Lestu Sálm 40:8; Hebr. 10:7) Í næstu námsgrein skoðum við hvað getur hjálpað þér að þjóna Jehóva af trúfesti eftir skírnina.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað merkir að vera vígður Jehóva?

  • Hvernig tengist þakklæti því að vígja sig Jehóva?

  • Hvað mun hjálpa þér að forðast alvarlega synd?

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig