NÁMSGREIN 12
SÖNGUR 77 Ljós í myrkum heimi
Forðumst myrkrið og höldum okkur í ljósinu
„Einu sinni voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós.“ – EF. 5:8.
Í HNOTSKURN
Það sem við getum lært af myndhvörfunum um myrkur og ljós í 5. kafla Efesusbréfsins.
1, 2. (a) Við hvaða aðstæður var bréfið til Efesusmanna skrifað? (b) Hvaða spurningar skoðum við?
PÁLL postuli vildi uppörva trúsystkini sín á meðan hann var í stofufangelsi í Róm. Hann gat ekki heimsótt þau augliti til auglitis þannig að hann skrifaði bréf. Eitt þeirra skrifaði hann um árið 60 eða 61til Efesusmanna. – Ef. 1:1; 4:1.
2 Næstum tíu árum fyrr hafði Páll dvalið talsverðan tíma í Efesus og boðað fagnaðarboðskapinn og kennt. (Post. 19:1, 8–10; 20:20, 21) Hann elskaði trúsystkini sín innilega og vildi hjálpa þeim að halda áfram að vera trúföst. En hvers vegna skrifaði hann andasmurðum þjónum Guðs um myrkur og ljós? Og hvað geta allir þjónar Guðs lært af því? Skoðum svörin við þessum spurningum.
ÚR MYRKRINU Í LJÓSIÐ
3. Hvaða myndmál notaði Páll í bréfinu til Efesusmanna?
3 Páll skrifaði kristnum mönnum í Efesus: „Einu sinni voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós.“ (Ef. 5:8) Páll notar hér myrkur og ljós sem myndmál til að útskýra algerar andstæður. Skoðum betur hvers vegna Páll gat sagt að Efesusmenn hefðu ‚einu sinni verið myrkur‘.
4. Í hvaða skilningi voru Efesusmenn í trúarlegu myrkri?
4 Trúarlegt myrkur. Áður en Efesusmenn, sem Páll skrifaði til, kynntust sannleikanum og gerðust kristnir voru þeir í þrælkun falskra trúarkenninga og hjátrúar. Í Efesus var hið fræga musteri Artemisar sem menn til forna álitu eitt af sjö undrum veraldar. Fólk sem stundaði tilbeiðslu þar var á kafi í skurðgoðadýrkun. Handverksmenn þénuðu vel á því að búa til og selja líkneski af musterinu og Artemis. (Post. 19:23–27) Þar að auki var Efesus fræg fyrir galdraiðkun. – Post. 19:19.
5. Í hvaða skilningi voru Efesusmenn í siðferðilegu myrkri?
5 Siðferðilegt myrkur. Íbúar Efesus voru frægir fyrir gróft siðleysi og þeir skömmuðust sín ekkert fyrir það. Klúrt tal var algengt í leikhúsum borgarinnar og jafnvel við trúarlegar hátíðir. (Ef. 5:3) Margir íbúanna höfðu „glatað allri siðferðiskennd“. Þetta orðalag merkir bókstaflega ‚hættur að finna fyrir sársauka‘. (Ef. 4:17–19) Áður en Efesusmenn lærðu hvað var í sannleika rétt og hvað var rangt truflaði samviskan þá ekkert þegar þeir gerðu illt. Fyrir vikið gat Páll lýst þeim eins og þeir væru ‚í myrkri og fjarlægir því lífi sem kemur frá Guði‘.
6. Hvers vegna gat Páll sagt Efesusmönnum að þeir væru ‚nú ljós‘?
6 En sumir Efesusmanna voru ekki áfram í myrkrinu. Páll skrifaði að þeir væru ‚nú ljós þar sem þeir tilheyrðu Drottni‘. (Ef. 5:8) Þeir höfðu tekið á móti ljósi sannleikans í orði Guðs. (Sálm. 119:105) Þessir Efesusmenn höfðu sagt skilið við falska trúariðkun og siðlausa hegðun. Þeir höfðu farið að ‚líkja eftir Guði‘ og gerðu sitt besta til að tilbiðja Jehóva og gleðja hann. – Ef. 5:1.
7. Að hvaða leyti eru aðstæður okkar líkar aðstæðum margra þjóna Guðs í Efesus?
7 Á líkan hátt vorum við í trúarlegu og siðferðilegu myrkri áður en við kynntumst sannleikanum. Sum okkar héldu hátíðir falstrúarbragðanna og önnur stunduðu siðlausan lífsstíl. En þegar við kynntumst mælikvarða Jehóva um rétt og rangt gerðum við breytingar. Við fórum að breyta lífi okkar í samræmi við réttlátar kröfur hans. Árangurinn er sá að við njótum góðs af því á marga vegu. (Jes. 48:17) Við mætum samt áfram áskorunum. Við þurfum að halda okkur frá myrkrinu sem við yfirgáfum og ‚hegða okkur áfram sem börn ljóssins‘. Hvernig getum við gert það?
FORÐUMST MYRKRIÐ
8. Hvað þurftu Efesusmenn að forðast samkvæmt Efesusbréfinu 5:3–5?
8 Lestu Efesusbréfið 5:3–5. Til að halda sig langt frá siðferðilegu myrkri þurftu kristnir menn í Efesus að halda áfram að hafna því sem er Jehóva vanþóknanlegt. Það fól ekki einungis í sér að hafna kynferðislegu siðleysi heldur líka klúru tali. Páll minnti Efesusmenn á að þeir þyrftu að forðast slíkt ef þeir ættu að geta fengið „nokkurn arf í ríki Krists og Guðs“.
9. Hvers vegna ættum við að forðast að gera okkur berskjölduð gagnvart siðleysi?
9 Við þurfum líka að halda áfram að berjast gegn því að flækjast í „verkum myrkursins sem eru einskis virði“. (Ef. 5:11) Reynslan hefur ítrekað sýnt að því meir sem maður horfir á, hlustar á eða talar um það sem er óhreint og siðlaust þeim mun líklegra er að maður geri eitthvað rangt. (1. Mós. 3:6; Jak. 1:14, 15) Í einu landi fór stór hópur bræðra og systra að spjalla saman á samfélagsmiðli. Í fyrstu snerust umræður margra um Jehóva og sannleikann. Með tímanum fóru þeir samt að tala meir og meir um það sem er Jehóva vanþókanlegt. Umræður þeirra fóru að mestu að snúast um kynlíf. Mörg þessara trúsystkina viðurkenndu síðar að þetta óhreina tal leiddi til þess að þau frömdu kynferðislegt siðleysi.
10. Hvernig reynir Satan að blekkja okkur? (Efesusbréfið 5:6)
10 Heimur Satans reynir að blekkja okkur og telja okkur trú um að það sem Jehóva kallar siðlaust og óhreint sé alls ekkert rangt. (2. Pét. 2:19) Þetta er engin tilviljun. Eitt af þeim brögðum sem Djöfullinn hefur hvað lengst beitt er að rugla fólk í ríminu svo að það geti ekki séð muninn á réttu og röngu. (Jes. 5:20; 2. Kor. 4:4) Það er engin furða að margar kvikmyndir, sjónvarpsþættir og vefsíður skuli halda á lofti hugmyndum sem ganga þvert á mælikvarða Jehóva. Satan reynir að blekkja okkur til að hugsa sem svo að óhreinar venjur séu ekki aðeins ásættanlegur lífstíll heldur líka skaðlaus og ánægjulegur. – Lestu Efesusbréfið 5:6.
11. Hvernig undirstrikar reynsla Angelu þörfina á að fara eftir leiðbeiningunum í Efesusbréfinu 5:7? (Sjá einnig mynd.)
11 Satan vill að við umgöngumst fólk sem gerir okkur erfiðara fyrir að hlýða mælikvarða Jehóva. Þess vegna hvatti Páll Efesusmenn: „Eigið ekkert saman við þá að sælda“, það er að segja þá sem ástunda það sem er rangt í augum Guðs. (Ef. 5:7) Við megum ekki gleyma að þeir sem við höfum félagsskap við eru ekki bara þeir sem við hittum augliti til auglitis. Það á líka við um þá sem við eigum samskipti við á netinu, en það er hætta sem Efesusmenn til forna voru ekki berskjaldaðir fyrir. Angela a býr í Asíu. Hún komst að raun um hve hættulegir samfélagsmiðlar geta verið og viðurkennir: „Þeir geta reynst gildra. Hugsun manns breytist smátt og smátt. Að lokum truflaði það mig ekki þótt ég ætti ‚vini‘ sem virtu ekki meginreglur Biblíunnar. Ég hugsaði sem svo að lífstíll sem er Jehóva vanþóknanlegur væri í góðu lagi.“ Sem betur fer hjálpuðu kærleiksríkir öldungar Angelu að gera nauðsynlegar breytingar. Hún segir: „Núna beini ég athyglinni að Jehóva og andlegu málunum í staðinn fyrir samfélagsmiðlum.“
12. Hvað hjálpar okkur að halda okkur við mælikvarða Jehóva um rétt og rangt?
12 Við þurfum að berjast gegn þeirri hugsun heimsins að siðlaus hegðun sé í lagi. Við vitum betur. (Ef. 4:19, 20) Það er gott að spyrja sig: Geri ég það sem í mínu valdi stendur til að forðast allan óþarfa félagsskap við vinnufélaga, bekkjarfélaga og aðra sem virða ekki réttlátan mælikvarða Jehóva? Held ég mælikvarða Jehóva hugrakkur á lofti jafnvel þótt sumir segi að ég sýni ekki umburðarlyndi með því? Við gætum líka þurft að vera á varðbergi þegar við veljum okkur nána vini innan kristna safnaðarins eins og kemur fram í 2. Tímóteusarbréfi 2:20–22. Við þurfum að hafa í huga að sumir hjálpa okkur kannski ekki að halda áfram að vera trúföst í þjónustu Jehóva.
HEGÐUM OKKUR SEM „BÖRN LJÓSSINS“
13. Hvað merkir það að ‚hegða okkur sem börn ljóssins‘? (Efesusbréfið 5:7–9)
13 Páll hvatti kristna menn í Efesus ekki bara til að halda áfram að hafna myrkrinu heldur til að ‚hegða sér áfram sem börn ljóssins‘. (Lestu Efesusbréfið 5:7–9.) Hvað merkir það? Einfaldlega að haga okkur eins og sannkristnir einstaklingar öllum stundum. Til að gera það þurfum við að lesa og rannsaka Biblíuna vandlega ásamt biblíutengdu efni. Það er mjög mikilvægt að gefa sérstakan gaum að fordæmi og kennslu Jesú, hans sem er „ljós heimsins“. – Jóh. 8:12; Orðskv. 6:23.
14. Hvernig getur heilagur andi hjálpað okkur?
14 Við þurfum einnig á hjálp heilags anda Guðs að halda til þess að haga okkur eins og „börn ljóssins“. Hvers vegna? Það er meira en að segja það að vera hreinn í þessum siðlausa heimi. (1. Þess. 4:3–5, 7, 8) Heilagur andi getur hjálpað okkur að berjast gegn hugsun heimsins, þar á meðal heimspekihugmyndum og viðhorfum sem stríða gegn hugsun Guðs. Heilagur andi getur líka hjálpað okkur að þroska með okkur ‚hvers kyns góðvild og réttlæti‘. – Ef. 5:9.
15. Hvernig getum við öðlast heilagan anda? (Efesusbréfið 5:19, 20)
15 Ein leið til að fá heilagan anda er að biðja Guð um hann í bæn. Jesús sagði að Jehóva ‚gæfi þeim heilagan anda sem bæðu hann‘. (Lúk. 11:13) Og þegar við lofum Jehóva saman á samkomum fáum við líka heilagan anda. (Lestu Efesusbréfið 5:19, 20.) Heilnæm áhrif heilags anda Guðs hjálpa okkur að lifa lífinu þannig að við gleðjum Guð.
16. Hvað gerir okkur kleift að taka skynsamlegar ákvarðanir? (Efesusbréfið 5:10, 17)
16 Þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir verðum við að ganga úr skugga um „hver sé vilji Jehóva“ og breyta síðan í samræmi við hann. (Lestu Efesusbréfið 5:10, 17.) Við erum í raun að leita eftir skoðun Guðs á málunum með því að finna meginreglu í Biblíunni sem á við okkar aðstæður. Við erum líklegri til að taka góðar ákvarðanir þegar við förum eftir meginreglum hans.
17. Hvað felst í því að nota tíma okkar skynsamlega? (Efesusbréfið 5:15, 16) (Sjá einnig mynd.)
17 Páll ráðlagði þjónum Guðs í Efesus líka að nota tímann skynsamlega. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) ‚Hinn vondi‘, óvinur okkar Satan, vill gjarnan gera okkur svo upptekin af málefnum heimsins að við höfum engan tíma fyrir þjónustuna við Guð. (1. Jóh. 5:19) Kristinn einstaklingur gæti fyrr en varir farið að beina athygli sinni að peningum, menntun og vinnu í staðinn fyrir ýmsu sem hann gæti gert í þjónustu Jehóva. Ef hann gerði það sýndi hann að hann væri farinn að hugsa eins og fólk í heiminum sem þjónar ekki Jehóva. Þetta eru að sjálfsögðu ekki rangir hlutir í sjálfu sér en þeir ættu aldrei að skipa fyrsta sætið í lífi okkar. Til að hegða okkur eins og „börn ljóssins“ þurfum við að ‚nota tíma okkar sem best‘ og einbeita okkur að því sem er í sannleika mikilvægt.
18. Hvað gerði Donald til að nota tíma sinn betur?
18 Leitaðu leiða til að þjóna Jehóva enn betur. Donald sem býr í Suður-Afríku gerði þetta. Hann segir: „Ég velti aðstæðum mínum fyrir mér og bað Jehóva innilega um að hjálpa mér að gera betur í boðuninni. Ég bað hann að hjálpa mér að fá vinnu sem gæfi mér meiri tíma í boðuninni. Með hjálp Jehóva fann ég hentuga vinnu. Við hjónin hófum þá vegferð okkar að þjóna Jehóva í fullu starfi.“
19. Hvernig getum við haldið áfram að hegða okkur eins og „börn ljóssins“?
19 Bréf Páls til Efesusmanna hlýtur að hafa hjálpað þeim að vera Jehóva trúfastir. Þessar leiðbeiningar frá Jehóva geta líka hjálpað okkur. Eins og við höfum komist að raun um geta þær leiðbeint okkur að velja afþreyingu og félagsskap af skynsemi. Þær geta hvatt okkur til að halda áfram að rannsaka Biblíuna reglulega þannig að ljós sannleikans lýsi okkur í öllu sem við gerum. Og þær undirstrika mikilvægi heilags anda sem getur kallað fram góða eiginleika í fari okkar. Þegar við förum eftir því sem Páll skrifaði auðveldar það okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í samræmi við vilja Jehóva. Með því að gera þetta getum við forðast myrkur þessa heims og verið áfram í ljósinu.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
-
Til hvers vísar „myrkur“ og „ljós“ sem minnst er á í Efesusbréfinu 5:8?
-
Hvernig getum við forðast „myrkur“?
-
Hvernig getum við haldið áfram að hegða okkur eins og „börn ljóssins“?
SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.
b MYND: Fornt afrit af bréfi Páls til Efesusmanna.