Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

Hugsum skýrt þegar reynir á trúfesti okkar

Hugsum skýrt þegar reynir á trúfesti okkar

„Þú skalt … hugsa skýrt í öllu.“ – 2. TÍM. 4:5.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

YFIRLIT a

1. Hvað felur það í sér að hugsa skýrt? (2. Tímóteusarbréf 4:5)

 ÞAÐ getur reynt á trúfesti okkar við Jehóva og söfnuð hans þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum. Hvernig getum við sigrast á þeim? Við þurfum að hugsa skýrt og halda vöku okkar svo að við getum staðið „stöðug í trúnni“. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:5.) Við getum hugsað skýrt með því að halda ró okkar og leitast við að sjá hlutina frá sjónarhóli Jehóva. Þá leyfum við tilfinningum okkar ekki að stjórna hugsun okkar.

2. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

2 Í síðustu námsgrein ræddum við um þrenns konar erfiðleika sem eiga sér upptök utan safnaðarins. Í þessari grein skoðum við þrennt sem getur gerst innan safnaðarins og reynt á trúfesti okkar. Það er (1) þegar okkur finnst trúsystkini hafa komið illa fram við okkur, (2) þegar við fáum aga og (3) þegar við eigum erfitt með að aðlagast breytingum í söfnuði Jehóva. Hvernig getum við hugsað skýrt og verið trúföst Jehóva og söfnuði hans í slíkum aðstæðum?

ÞEGAR OKKUR FINNST TRÚSYSTKINI HAFA KOMIÐ ILLA FRAM VIÐ OKKUR

3. Hvernig gætum við brugðist við ef okkur finnst bróðir eða systir hafa komið illa fram við okkur?

3 Hefur þér einhvern tíma fundist trúsystkini koma illa fram við þig, jafnvel einhver í ábyrgðarstöðu í söfnuðinum? Hann hefur líklega ekki ætlað að særa þig. (Rómv. 3:23; Jak. 3:2) Samt má vera að það sem hann gerði hafi komið þér í uppnám. Kannski hefurðu legið andvaka um nætur og hugsað um þetta. Þú gætir jafnvel hafa velt því fyrir þér hvort þetta gæti verið söfnuður Guðs fyrst hann gat hagað sér svona. Það er nákvæmlega þannig sem Satan vill að við hugsum. (2. Kor. 2:11) Neikvæðar hugsanir eins og þessar gætu fengið okkur til að hætta að þjóna Jehóva og yfirgefa söfnuð hans. Hvernig getum við hugsað skýrt og forðast að hugsa eins og Satan vill ef okkur finnst að trúsystkini hafi komið illa fram við okkur?

4. Hvað sýnir að Jósef hugsaði skýrt þegar komið var illa fram við hann og hvað getum við lært af honum? (1. Mósebók 50:19–21)

4 Vertu ekki bitur. Bræður Jósefs komu illa fram við hann þegar hann var á táningsaldri. Þeir hötuðu hann og sumir þeirra vildu jafnvel drepa hann. (1. Mós. 37:4, 18–22) Þeir seldu hann að lokum í þrældóm. Jósef gekk í gegnum miklar prófraunir næstu 13 árin. Hann hefði getað efast um að Jehóva elskaði hann og velt því fyrir sér hvort hann hefði yfirgefið hann á neyðartíma. En Jósef varð ekki bitur. Hann hélt ró sinni og hugsaði skýrt. Þegar hann hafði tækifæri til að hefna sín á bræðrum sínum gerði hann það ekki heldur sýndi þeim kærleika og fyrirgaf þeim. (1. Mós. 45:4, 5) Jósef kom þannig fram vegna þess að hann hugsaði skýrt. Í stað þess að einblína á vandamál sín sá hann heildarmyndina – fyrirætlun Jehóva. (Lestu 1. Mósebók 50:19–21.) Hver er lærdómurinn? Ef einhver hefur komið illa fram við þig skaltu ekki vera bitur út í Jehóva eða hugsa sem svo að hann hafi yfirgefið þig. Hugleiddu í staðinn hvernig hann hjálpar þér að takast á við prófraunina. Og reyndu að láta kærleikann breiða yfir ófullkomleika þeirra sem hafa komið illa fram við þig. – 1. Pét. 4:8.

5. Hvað sýnir að Miqueas hugsaði skýrt þegar honum fannst illa komið fram við sig?

5 Hugleiðum reynslu öldungs frá Suður-Ameríku sem heitir Miqueas. b Hann segir frá því þegar honum fannst bræður í ábyrgðarstöðum koma illa fram við sig: „Ég hafði aldrei upplifað aðra eins streitu. Ég var hræddur. Ég gat ekki sofið og grét af vonleysi.“ En Miqueas lagði hart að sér að hugsa skýrt og hafa stjórn á tilfinningum sínum. Hann bað oft til Jehóva um að gefa sér heilagan anda og styrk til að halda út. Hann fann líka efni í ritum okkar sem gat gagnast honum. Hvað lærum við? Reyndu að halda ró þinni og hafa stjórn á neikvæðum hugsunum ef þér finnst trúsystkini hafa komið illa fram við þig. Þú veist kannski ekki hvað varð til þess að trúsystkini þitt talaði eða breytti þannig. Talaðu þess vegna við Jehóva í bæn og biddu hann að hjálpa þér að sjá hlutina frá sjónarhóli trúsystkini þíns. Það getur hjálpað þér að líta fram hjá því sem gerðist og láta bróður þinn eða systur njóta vafans. (Orðskv. 19:11) Mundu að Jehóva þekkir aðstæður þínar og gefur þér þann styrk sem þú þarft til að halda út. – 2. Kron. 16:9; Préd. 5:8.

ÞEGAR VIÐ FÁUM AGA

6. Hvers vegna er mikilvægt að líta á aga Jehóva sem merki um kærleika hans? (Hebreabréfið 12:5, 6, 11)

6 Það getur verið sársaukafullt að fá aga. En ef við einblínum á líðan okkar gætum við farið að líta á agann sem ósanngjarnan eða að hugsa að hann eigi ekki við okkur. Fyrir vikið gætum við farið á mis við mikilvægan hlut – að skilja að Jehóva agar okkur vegna þess að hann elskar okkur. (Lestu Hebreabréfið 12:5, 6, 11.) Og ef við leyfum tilfinningum okkar að taka völdin gefum við Satan færi á okkur. Hann vill að við höfnum aga, eða það sem verra er, að við fjarlægjumst Jehóva smátt og smátt og yfirgefum söfnuð hans. Hvernig geturðu hugsað skýrt ef þú hefur fengið aga?

Pétur þáði auðmjúkur leiðréttingu og kom fyrir vikið að meira gagni fyrir Jehóva. (Sjá 7. grein.)

7. (a) Hvaða verkefni var Pétri falið eftir að hann hafði þegið aga eins og sjá má á myndinni? (b) Hvað lærir þú af Pétri?

7 Þiggðu aga og gerðu nauðsynlegar breytingar. Jesús leiðrétti Pétur oftar en einu sinni fyrir framan hina postulana. (Mark. 8:33; Lúk. 22:31–34) Það hefur verið vandræðalegt! En Pétur var Jesú samt trúfastur. Hann þáði aga og lærði af mistökum sínum. Jehóva umbunaði Pétri trúfestina og fól honum mikla ábyrgð í söfnuðinum. (Jóh. 21:15–17; Post. 10:24–33; 1. Pét. 1:1) Hvað getum við lært af Pétri? Það er gagnlegt fyrir okkur sjálf og aðra að við einblínum ekki á eigin tilfinningar heldur þiggjum aga og gerum nauðsynlegar breytingar. Þá komum við Jehóva og trúsystkinum okkar að meira gagni.

8, 9. Hvernig leið Bernardo þegar hann fékk aga en hvað hjálpaði honum að breyta um viðhorf?

8 Skoðum reynslu bróður sem heitir Bernardo og býr í Mósambík. Hann var tekinn af skrá sem öldungur. Hvernig leið honum til að byrja með? Hann segir: „Ég var gramur vegna þess að ég var ekki sáttur við agann.“ Hann var upptekinn af því hvernig aðrir í söfnuðinum litu á hann. Hann viðurkennir: „Það tók mig nokkra mánuði að geta litið agann réttum augum og treysta aftur Jehóva og söfnuði hans.“ Hvað hjálpaði Bernardo?

9 Bernardo leiðrétti hugsun sína. Hann segir: „Sem öldungur notaði ég Hebreabréfið 12:7 til að hjálpa öðrum að hafa rétt viðhorf til aga frá Jehóva. Nú spurði ég sjálfan mig: ,Hverjir þurfa að fara eftir því sem segir í versinu?‘ Allir þjónar Jehóva þurfa þess, ég líka.“ Bernardo gerði fleira til að endurheimta traust sitt til Jehóva og safnaðar hans. Hann fór að lesa oftar í Biblíunni og notaði meiri tíma í að hugleiða efni hennar. Þótt hann hefði enn áhyggjur af því hvernig trúsystkini sín litu á sig fór hann með þeim í boðunina og tók þátt í samkomunum. Með tímanum var hann aftur útnefndur öldungur. Þú hefur kannski fengið aga eins og Bernardo. Reyndu þá að einblína ekki á það hversu vandræðalegt þetta er fyrir þig. Þiggðu agann og gerðu nauðsynlegar breytingar. c (Orðskv. 8:33; 22:4) Þú mátt vera viss um að Jehóva umbunar þér trúfestina við sig og söfnuð sinn.

ÞEGAR VIÐ EIGUM ERFITT MEÐ AÐ AÐLAGAST SKIPULAGSBREYTINGUM

10. Hvaða skipulagsbreyting hefur hugsanlega reynt á trúfesti sumra Ísraelsmanna?

10 Breytingar í söfnuði Jehóva geta reynt á trúfesti okkar. Ef við vörum okkur ekki gætum við leyft þeim að gera okkur viðskila við Jehóva. Tökum sem dæmi breytingu undir Móselögunum og áhrifin sem hún hafði hugsanlega á suma Ísraelsmenn. Áður en Jehóva gaf þeim lögin gegndi höfuð fjölskyldunnar hlutverki prests í fjölskyldu sinni. Hann byggði ölturu og færði Jehóva fórnir fyrir hönd fjölskyldunnar. (1. Mós. 8:20, 21; 12:7; 26:25; 35:1, 6, 7; Job. 1:5) En þegar Móselögin tóku gildi hafði höfuð fjölskyldunnar ekki lengur þetta hlutverk. Jehóva valdi presta af ætt Arons til að færa fórnir. Eftir þessa breytingu gat maður sem var höfuð fjölskyldu en ekki afkomandi Arons verið tekinn af lífi ef hann tæki sér stöðu prests. d (3. Mós. 17:3–6, 8, 9) Getur verið að þetta hafi verið ein ástæða þess að Kóra, Datan, Abíram og 250 höfðingjar véfengdu stöðu Móse og Arons? (4. Mós. 16:1–3) Við getum ekki sagt það með vissu. En við vitum að Kóra og félagar hans reyndust ótrúir Jehóva. Hvað geturðu gert ef breytingar í söfnuðinum reyna á trúfesti þína?

Þegar Kahatítar misstu verkefni sitt voru þeir fúsir að þjóna sem söngvarar, hliðverðir eða umsjónarmenn birgðageymslna. (Sjá 11. grein.)

11. Hvað getum við lært af sumum Levítum af ætt Kahats?

11 Vertu samvinnufús þegar gerðar eru skipulagsbreytingar. Á eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna höfðu Kahatítar sérstakt verkefni. Sumir þeirra báru sáttmálsörkina á undan þjóðinni í hvert skipti sem hún færði sig milli staða. (4. Mós. 3:29, 31; 10:33; Jós. 3:2–4) Það var mikill heiður! En það breyttist þegar Ísraelsmenn settust að í fyrirheitna landinu. Nú þurfti ekki lengur að færa örkina reglulega milli staða. Þegar Salómon ríkti sem konungur fengu sumir Kahatítar það verkefni að vera söngvarar, aðrir voru hliðverðir og enn aðrir höfðu umsjón með birgðageymslum. (1. Kron. 6:31–33; 26:1, 24) Það kemur hvergi fram að Kahatítar hafi kvartað eða farið fram á mikilvægara hlutverk vegna þess að þeir gegndu sérstöku hlutverki áður. Hvað getum við lært af því? Að styðja söfnuð Jehóva þegar hann gerir breytingar, líka þegar þær snerta verkefni sem við höfum. Sinntu verkefnum þínum með gleði óháð því hver þau eru. Mundu að það eru ekki verkefni þín sem gera þig dýrmætan í augum Jehóva. Hann metur hlýðni langtum meira en nokkurt verkefni. – 1. Sam. 15:22.

12. Hvernig leið Zainu þegar hún þurfti að hætta á Betel?

12 Zaina býr í Mið-Austurlöndum. Hún fékk nýtt verkefni en missti um leið annað sem hún mat mikils þegar hún hætti á Betel eftir að hafa þjónað þar í meira en 23 ár. Hún segir: „Þessi breyting var mikið áfall. Mér fannst ég gagnslaus og ég spurði sjálfa mig aftur og aftur: ,Hvað gerði ég vitlaust?‘“ Því miður bættu sum trúsystkini gráu ofan á svart og sögðu við hana: „Þú hefðir fengið að vera áfram á Betel ef þú hefðir staðið þig vel.“ Um tíma var Zaina döpur og grét sig í svefn á kvöldin. En hún segir: „Ég leyfði mér aldrei að hafa efasemdir um söfnuð Jehóva eða kærleika hans.“ Hvað hjálpaði henni að hugsa skýrt?

13. Hvað gerði Zaina til að sigrast á neikvæðum tilfinningum?

13 Zaina sigraðist á neikvæðum tilfinningum. Hvernig? Hún las greinar í ritum okkar sem fjalla um það sem hún gekk í gegnum. Það hjálpaði henni mikið að lesa greinina „You Can Cope With Discouragement!“ í Varðturninum á ensku 1. febrúar 2001. Í greininni er útskýrt hvernig biblíuritarinn Markús barðist ef til vill við svipaðar tilfinningar þegar verkefni hans breyttist. Zaina segir: „Að lesa um reynslu Markúsar var einmitt það sem ég þurfti til að sigrast á depurðinni.“ Zaina ræktaði líka sambandið við vini sína. Hún hvorki einangraði sig né sökkti sér niður í sjálfsvorkunn. Hún gerði sér grein fyrir að Jehóva notar anda sinn til að leiðbeina söfnuði sínum og að bræðrunum í ábyrgðarstöðu væri annt um hana. Hún skildi líka að söfnuður Jehóva þarf að gera það sem er best til að vinna verk Jehóva.

14. Hvaða skipulagsbreytingu átti Vlado erfitt með að aðlagast en hvað hjálpaði honum?

14 Vlado er 73 ára og þjónar sem öldungur í Slóveníu. Honum fannst erfitt þegar söfnuður hans sameinaðist öðrum söfnuði og ríkissalnum sem hann sótti samkomur í var lokað. Hann segir: „Ég skildi ekki af hverju þurfti að loka svona fallegum ríkissal. Ég var sár vegna þess að við vorum nýbúin að gera hann upp. Ég er trésmiður og hafði smíðað nokkra innanstokksmuni fyrir salinn. Sameiningin krafðist auk þess aðlögunar sem við eldri boðberarnir áttum ekki auðvelt með.“ Hvað hjálpaði Vlado að styðja þessa ákvörðun? Hann segir: „Það fylgir því alltaf blessun að laga sig að breytingum í söfnuði Jehóva. Það býr okkur undir enn meiri breytingar í framtíðinni.“ Ertu að takast á við breytingar vegna sameiningar safnaða eða vegna þess að þú hefur fengið nýtt verkefni? Þú mátt vera viss um Jehóva skilur hvernig þér líður. Hann blessar þig þegar þú styður breytingarnar og ert trúfastur honum og söfnuðinum sem hann notar. – Sálm. 18:25.

HUGSUM SKÝRT Í ÖLLU

15. Hvernig getum við hugsað skýrt þegar við stöndum andspænis erfiðum aðstæðum í söfnuðinum?

15 Við getum búist við að erfiðar aðstæður komi upp innan safnaðarins eftir því sem nær dregur endi þessa heims. Þær geta reynt á trúfesti okkar. Við þurfum því að hugsa skýrt. Vertu ekki bitur ef þér finnst trúsystkini hafa komið illa fram við þig. Ef þú hefur fengið aga skaltu ekki einblína á hvað það er vandræðalegt heldur þiggja agann og gera nauðsynlegar breytingar. Og vertu sáttur við skipulagsbreytingar sem eru gerðar í söfnuði Jehóva og fylgdu leiðbeiningum.

16. Hvernig geturðu varðveitt traust þitt til Jehóva og safnaðar hans?

16 Þú getur varðveitt traust þitt til Jehóva og safnaðar hans þegar reynir á trúfesti þína. En til þess þarftu að hugsa skýrt, halda ró þinni og sjá hlutina frá sjónarhóli Jehóva. Skoðaðu og hugleiddu fordæmi biblíupersóna sem tókust á við svipaðar aðstæður og þú. Biddu Jehóva um hjálp. Og gættu þess að einangra þig ekki frá söfnuðinum. Þá tekst Satan ekki að gera þig viðskila við Jehóva eða söfnuð hans, sama hvað á dynur. – Jak. 4:7.

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

a Það getur reynt á trúfesti okkar, sérstaklega þegar við stöndum andspænis erfiðum aðstæðum í söfnuðinum. Í þessari námsgrein ræðum við um þrenns konar aðstæður sem geta reynt á okkur og hvernig við getum varðveitt trúfesti okkar við Jehóva og söfnuð hans.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Þú getur fundið fleiri gagnleg ráð í greininni „Hafðir þú ábyrgðarstöðu? Geturðu tekið á þig ábyrgð á ný?“ í Varðturninum 15. ágúst 2009, bls. 30.

d Í Móselögunum var kveðið á um að höfuð fjölskyldu sem vildi slátra skepnu til fæðu ætti að taka dýrið með til helgidómsins. Undanþága var gefin ef staðurinn var of langt í burtu frá heimilinu. – 5. Mós. 12:21.