Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 46

Hvernig hjálpar Jehóva okkur að halda út með gleði?

Hvernig hjálpar Jehóva okkur að halda út með gleði?

„Jehóva bíður þess þolinmóður að fá að sýna ykkur velvild og hann gengur fram til að sýna ykkur miskunn.“ – JES. 30:18.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT a

1, 2. (a) Hvaða spurningar skoðum við? (b) Hvað sýnir að Jehóva hefur sterka löngun til að hjálpa okkur?

 JEHÓVA getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika lífsins og finna gleði í heilagri þjónustu okkar. Hvernig gerir hann það? Og hvernig getum við nýtt okkur hjálp Jehóva sem best? Þessum spurningum er svarað í námsgreininni. En beinum athyglinni fyrst að annarri tengdri spurningu: Hefur Jehóva löngun til að hjálpa okkur?

2 Orð sem Páll postuli notaði í bréfi sínu til Hebrea getur hjálpað okkur að svara þessari spurningu. Páll skrifaði: „Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt. Hvað geta mennirnir gert mér?“ (Hebr. 13:6) Í biblíuheimildariti kemur fram að orðið sem er þýtt „hjálpar“ í þessu versi vísar til einhvers sem hleypur til að koma einhverjum til hjálpar sem kallar á hana. Sjáðu Jehóva fyrir þér flýta sér til að bjarga einhverjum í neyð. Þú ert örugglega sammála því að þessi lýsing undirstrikar fúsleika Jehóva, eða ákafa, til að hjálpa okkur. Með Jehóva okkur við hlið getum við haldið út í erfiðleikum okkar með gleði.

3. Með hvaða þrennum hætti hjálpar Jehóva okkur að halda út í erfiðleikum með gleði?

3 Á hvaða mismunandi vegu hjálpar Jehóva okkur að halda út í erfiðleikum okkar með gleði? Við fáum svar við því í bók Jesaja. Margir af spádómunum sem Jesaja var innblásið að skrifa eiga við um þjóna Guðs nú á dögum. Auk þess lýsir Jesaja Jehóva oft með orðalagi sem er auðvelt að skilja. Tökum 30. kafla Jesajabókar sem dæmi. Þar dregur Jesaja upp lifandi myndir sem lýsa því hvernig Jehóva hjálpar okkur sem þjónum honum með því að (1) hlusta af athygli á bænir okkar og bregðast við þeim, (2) veita okkur leiðsögn og (3) blessa okkur núna og í framtíðinni. Skoðum betur hvernig Jehóva hjálpar okkur með þessum hætti.

JEHÓVA HLUSTAR Á OKKUR

4. (a) Hvernig lýsti Jehóva Gyðingum á dögum Jesaja og hvað leyfði hann að lokum? (b) Hvaða von gaf Jehóva þeim sem voru trúfastir? (Jesaja 30:18, 19)

4 Í byrjun 30. kaflans í Jesajabók lýsir Jehóva Gyðingum sem „þrjóskum sonum“ sem ,bæta synd á synd ofan‘. Hann heldur áfram og segir: ,Þeir eru uppreisnargjörn þjóð sem vill ekki hlusta á lög Jehóva.‘ (Jes. 30:1, 9) Fólkið neitaði að hlusta og þess vegna sagði Jesaja að Jehóva myndi leyfa að það yrði fyrir ógæfu. (Jes. 30:5, 17; Jer. 25:8–11) Og það gerðist einmitt þegar það var tekið til fanga til Babýlonar. En það voru sumir trúfastir á meðal Gyðinga og Jesaja var með vonarboðskap handa þeim. Hann sagði þeim að dag einn myndi Jehóva sýna þeim velvild. (Lestu Jesaja 30:18, 19.) Og það er einmitt það sem gerðist. Jehóva leysti þá úr ánauðinni. En frelsun þeirra kæmi ekki strax. Orðalagið „Jehóva bíður þess þolinmóður að fá að sýna ykkur velvild“ gefur til kynna að þó nokkur tími myndi líða áður en trúfastir menn yrðu frelsaðir. Ísraelsmenn voru í 70 ár í útlegð í Babýlon áður en sumir þeirra fengu að snúa aftur til Jerúsalem. (Jes. 10:21; Jer. 29:10) Þegar þeir sneru aftur til heimalands síns breyttust sorgartárin sem höfðu fallið í útlegðinni í gleðitár.

5. Hvað fullvissar Jesaja 30:19 okkur um?

5 Við fáum eftirfarandi hughreystingu hjá Jesaja: „Hann sýnir þér góðvild þegar þú hrópar á hjálp.“ (Jes. 30:19) Jesaja fullvissar okkur um að Jehóva hlusti af athygli þegar við hrópum til hans og að hann bregðist fljótt við bænum okkar. Jesaja bætir við: „Hann svarar bænum þínum um leið og hann heyrir til þín.“ Þessi hughreystandi orð minna okkur á að faðir okkar er fús, eða ákafur, að koma okkur til hjálpar þegar við leitum til hans. Að vita það hjálpar okkur að halda út með gleði.

6. Hvernig gefur það sem Jesaja segir til kynna að Jehóva hlusti á bænir hvers og eins þjóna sinna?

6 Hvað fleira fullvissar þetta vers okkur um varðandi bænina? Jehóva hlustar vel á bænir hvers og eins okkar. Hvers vegna segjum við það? Í byrjun 30. kafla í Jesaja notar hann orðið „þeir“ þegar hann ávarpar þjóna sína sem heild en í 19. versi segir hann „þú“ vegna þess að hann beinir athyglinni til einstaklinga. Jesaja skrifar: ,Þú skalt ekki gráta lengur. Hann sýnir þér góðvild. Hann svarar bænum þínum.‘ Jehóva er kærleiksríkur faðir og segir ekki við niðurdreginn son eða dóttur: „Þú ættir að sýna sama styrk og bróðir þinn eða systir.“ Nei, hann lítur á okkur sem einstaklinga og veitir okkur athygli þegar hann hlustar persónulega á bænir hvers og eins okkar. – Sálm. 116:1; Jes. 57:15.

Hvað átti Jesaja við þegar hann sagði: „Veitið [Jehóva] enga hvíld“? (Sjá 7. grein.)

7. Hvernig benda Jesaja og Jesús á mikilvægi þess að halda áfram að biðja?

7 Þegar við nálgumst Jehóva með áhyggjuefni okkar getur hann brugðist við bæninni með því að gefa okkur styrk til að takast á við aðstæðurnar. Og ef erfiðleikarnir taka ekki enda eins fljótt og við vonuðum þurfum við kannski að biðja Jehóva oft um styrk til að halda út. Hann býður okkur að gera það. Jesaja segir: „Veitið [Jehóva] enga hvíld.“ (Jes. 62:7) Hvað þýðir þetta? Við ættum að biðja stöðugt til Jehóva eins og við gæfum honum enga hvíld. Það sem Jesaja segir minnir okkur á dæmisögur Jesú um bænina sem er að finna í Lúkasi 11:8–10, 13. Jesús hvetur okkur þar til að biðja ,með ágengni‘ og ,halda áfram að biðja‘ um heilagan anda. Við getum líka beðið Jehóva að sjá okkur fyrir leiðsögn sem við þurfum til að taka góðar ákvarðanir.

JEHÓVA LEIÐBEINIR OKKUR

8. Hvernig rættist það sem segir í Jesaja 30:20, 21 til forna?

8 Lestu Jesaja 30:20, 21. Þegar her Babýloníumanna sat um Jerúsalem í eitt og hálft ár voru þjáningar íbúa hennar daglegt brauð. En samkvæmt versi 20 og 21 lofaði Jehóva Gyðingum að hann kæmi þeim til bjargar ef þeir iðruðust og breyttu hegðun sinni. Jesaja talaði um Jehóva sem hinn ,mikla kennara‘ og lofaði fólkinu að Jehóva myndi kenna því hvernig það ætti að tilbiðja hann á réttan hátt. Þetta gerðist þegar Gyðingar voru leystir úr ánauð. Jehóva reyndist vera hinn mikli kennari og undir leiðsögn hans endurreisti fólk hans sanna tilbeiðslu. Við njótum þeirrar blessunar að Jehóva er okkar mikli kennari.

9. Með hvaða hætti fáum við leiðsögn frá Jehóva?

9 Jesaja heldur áfram með myndmálið og lýsir okkur sem nemendum sem fá kennslu frá Jehóva með tvenns konar hætti. Fyrst segir Jesaja: „Þú sérð þinn mikla kennara með eigin augum.“ Þarna er kennaranum lýst eins og hann standi fyrir framan nemendur sína. Það er heiður fyrir okkur að fá kennslu frá Jehóva. Hvernig kennir hann okkur? Hann gerir það í söfnuði sínum. Við erum innilega þakklát fyrir leiðsögnina sem við fáum þar. Kennslan sem við fáum á samkomum okkar og mótum og auk þess úr ritum okkar, sjónvarpi og með öðrum hætti hjálpar okkur að halda út með gleði á erfiðum tímum.

10. Á hvaða hátt heyrum við orð töluð ,að baki okkur‘?

10 Jesaja nefnir á hvaða annan hátt Jehóva kennir okkur. Hann segir: ,Þú heyrir með eigin eyrum talað að baki þér.‘ Jesaja lýsir Jehóva hérna sem umhyggjusömum kennara sem gengur á eftir nemendum sínum og vísar þeim veginn fram undan. Nú á dögum heyrum við rödd Guðs að baki okkur. Hvernig? Innblásin orð Guðs voru rituð í Biblíuna fyrir löngu, löngu fyrir okkar tíma. Þegar við lesum Biblíuna er rétt eins og við heyrum rödd Guðs að baki okkur. – Jes. 51:4.

11. Hvað þurfum við að gera til að halda út með gleði og hvers vegna?

11 Hvernig getum við nýtt okkur til fulls þá leiðsögn sem Jehóva sér okkur fyrir í söfnuði sínum og orði? Tökum eftir að Jesaja nefndi tvennt. Í fyrsta lagi: „Þetta er vegurinn.“ Og í öðru lagi: „Farið hann.“ (Jes. 30:21) Það er ekki nóg að þekkja veginn, við þurfum líka að fara hann. Við lærum hvers Jehóva krefst af okkur í orði hans og það er útskýrt í söfnuðinum. Okkur er líka kennt að fara eftir því sem við lærum. Við þurfum að gera þetta tvennt til að halda út með gleði í þjónustu Jehóva. Það er nauðsynlegt til að njóta blessunar hans.

JEHÓVA BLESSAR OKKUR

12. Hvernig myndi Jehóva blessa þjóna sína samkvæmt Jesaja 30:23–26?

12 Lestu Jesaja 30:23–26. Hvernig rættist þessi spádómur fyrir Gyðinga þegar þeir sneru aftur til Ísraels eftir útlegðina í Babýlon? Þeir hlutu ríkulega blessun, bæði efnislega og andlega. Jehóva blessaði fólk sitt með nóg af líkamlegri fæðu. En það sem meira máli skipti var að hann gaf þeim meira en nóg af andlegri fæðu þar sem sönn tilbeiðsla var smám saman endurreist. Þeir höfðu aldrei upplifað aðra eins andlega blessun frá Guði. Eins og kemur fram í versi 26 margfaldaði Jehóva andlega ljósið. (Jes. 60:2) Blessun Jehóva hjálpaði þjónum hans að þjóna honum „af glöðu hjarta“ og veitti þeim þannig gleði og styrk. – Jes. 65:14.

13. Hvernig hefur spádómurinn um endurreisn ræst á okkar dögum?

13 Á spádómurinn um sanna tilbeiðslu við nú á dögum? Svo sannarlega! Hvernig þá? Frá 1919 hafa milljónir manna losnað úr ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Þeim hefur verið vísað á miklu betri stað en fyrirheitna land Ísraels til forna. Þeim hefur verið boðið í andlega paradís. (Jes. 51:3; 66:8) Hver er þessi andlega paradís?

14. Hver er andlega paradísin og hverjir búa þar? (Sjá orðaskýringu.)

14 Frá árinu 1919 hafa andasmurðir notið þess að búa í andlegri paradís. b Með tímanum hafa þeir sem hafa jarðneska von, ,aðrir sauðir‘, einnig komið sér fyrir í þessu andlega landi og njóta ríkulegrar blessunar Jehóva. – Jóh. 10:16; Jes. 25:6; 65:13.

15. Hvar er andlega paradísin staðsett?

15 Hvar er andlega paradísin staðsett? Tilbiðjendur Jehóva búa um allan heim. Andlega paradísin sem þeir eru í er því um allan heim. Við getum þess vegna verið í andlegri paradís hvar sem við búum í heiminum svo framarlega sem við styðjum sanna tilbeiðslu í verki.

Hvernig getum við hvert og eitt fegrað andlegu paradísina? (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvernig getum við haldið áfram að sjá fegurðina í andlegu paradísinni?

16 Til að halda okkur í andlegu paradísinni verðum við meðal annars að halda áfram að vera þakklát fyrir alþjóðlegan söfnuð okkar. Hvernig gerum við það? Með því að horfa á fegurð en ekki ófullkomleika þeirra sem búa þar. (Jóh. 17:20, 21) Hvers vegna er það svona mikilvægt? Lýsum því með dæmi. Við væntum þess að sjá mismunandi tré í fallegum garði. Á svipaðan hátt prýða mismunandi einstaklingar, sem við getum líkt við tré, andlegu paradísina sem ríkir í söfnuðinum. (Jes. 44:4; 61:3) Við þurfum að einbeita okkur að fegurð „skógarins“ en ekki að göllum einstakra „trjáa“ næst okkur. Við megum ekki láta eigin ófullkomleika eða annarra í söfnuðinum skyggja á fegurðina sem býr í sameinuðum söfnuði Jehóva um allan heim.

17. Hvað getum við öll lagt að mörkum til að styrkja eininguna í söfnuðinum?

17 Hvað getum við hvert og eitt lagt að mörkum til að styrkja eininguna? Við getum stuðlað að friði. (Matt. 5:9; Rómv. 12:18) Í hvert skipti sem við stuðlum að friði í samskiptum við aðra í söfnuðinum fegrum við andlegu paradísina. Við höfum í huga að Jehóva hefur dregið hvern og einn í andlegu paradísinni til sannrar tilbeiðslu. (Jóh. 6:44) Það hlýtur að gleðja Jehóva mjög mikið þegar hann sér hvað við leggjum hart að okkur til að stuðla að friði og einingu meðal þeirra sem eru dýrmætir í hans augum – þjóna hans. – Jes. 26:3; Hag. 2:7.

18. Hvað ættum við að hugleiða oft og hvers vegna?

18 Jehóva blessar þjóna sína ríkulega. Hvernig getum við haft sem mest gagn af blessun hans? Við getum hugleitt vandlega það sem við lesum í orði Guðs og biblíutengdum ritum. Það hjálpar okkur að rækta kristna eiginleika sem fá okkur til að sýna hvert öðru í söfnuðinum „bróðurkærleika og ástúð“. (Rómv. 12:10) Þegar við hugleiðum þá blessun sem við njótum styrkjum við sambandið við Jehóva. Og þegar við hugleiðum þá blessun sem Jehóva lofar okkur í framtíðinni heldur það voninni um að þjóna honum að eilífu lifandi. Allt þetta stuðlar að því að við þjónum Jehóva með gleði núna.

ÁKVEÐIN AÐ HALDA ÚT

19. (a) Um hvað getum við verið viss samkvæmt Jesaja 30:18? (b) Hvað hjálpar okkur að halda út með gleði?

19 Jehóva „gengur fram“ í okkar þágu þegar hann bindur enda á þennan illa heim. (Jes. 30:18) Við erum fullviss um að Jehóva, sem er „réttlátur Guð“, lætur ekki heim Satans standa degi lengur en réttlætið krefst. (Jes. 25:9) Við bíðum þolinmóð með Jehóva eftir deginum þegar hann frelsar okkur. Þangað til erum við ákveðin í að meta mikils bænina, rannsaka og fara eftir orði Guðs og hugleiða blessunina sem við njótum. Þá hjálpar Jehóva okkur að halda út með gleði í tilbeiðslunni á honum.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

a Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem Jehóva gerir til að hjálpa tilbiðjendum sínum að halda út í erfiðleikum lífsins með gleði. Við tökum Jesaja kafla 30 til athugunar til að skoða það betur. Þegar við gerum það erum við minnt á mikilvægi þess að biðja til Jehóva, rannsaka orð hans og hugleiða blessun okkar núna og í framtíðinni.

b ORÐASKÝRING: Með hugtakinu „andleg paradís“ er átt við það örugga umhverfi þar sem við tilbiðjum Jehóva saman í einingu. Þar höfum við nóg af andlegri fæðu sem er laus við lygi trúarbragðanna og höfum það gefandi starf að flytja fagnaðarboðskap Guðsríkis. Við eigum náið samband við Jehóva og njótum friðar með bræðrum okkar og systrum sem hjálpa okkur að halda út í erfiðleikum lífsins með gleði. Við göngum inn í þessa andlegu paradís þegar við byrjum að tilbiðja Jehóva á réttan hátt og þegar við gerum okkar besta til að líkja eftir honum.