Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 47

Látum ekkert gera okkur viðskila við Jehóva

Látum ekkert gera okkur viðskila við Jehóva

„Ég treysti þér, Jehóva.“ – SÁLM. 31:14.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

YFIRLIT a

1. Hvernig vitum við að Jehóva vill vera náinn okkur?

 JEHÓVA býður okkur að nálgast sig. (Jak. 4:8) Hann vill vera Guð okkar, faðir og vinur. Hann svarar bænum okkar og hjálpar okkur á erfiðum tímum. Og í söfnuði hans fáum við kennslu og vernd. En hvað þurfum við að gera til að nálgast hann?

2. Hvernig getum við nálgast Jehóva?

2 Við getum nálgast Jehóva með því að biðja til hans og lesa og hugleiða orð hans. Það fyllir okkur kærleika og þakkæti til hans. Það leiðir til þess að okkur langar að hlýða honum og lofa hann eins og hann á svo sannarlega skilið. (Opinb. 4:11) Því betur sem við kynnumst Jehóva því meira traust berum við til hans og safnaðarins sem hann hefur séð fyrir til að hjálpa okkur.

3. (a) Hvernig reynir Djöfullinn að gera okkur viðskila við Jehóva? (b) Hvað hjálpar okkur að yfirgefa hvorki Guð okkar né söfnuð hans? (Sálmur 31:13, 14)

3 En Djöfullinn reynir að gera okkur viðskila við Jehóva, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum. Hvaða aðferð beitir hann? Hann reynir að grafa smám saman undan trausti okkar á Jehóva og söfnuði hans. En við getum staðið á móti honum. Við yfirgefum hvorki Jehóva né söfnuð hans þegar trú okkar er sterk og traust okkar á Jehóva er óhagganlegt. – Lestu Sálm 31:13, 14.

4. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

4 Í þessari námsgrein skoðum við þrenns konar prófraunir sem eiga sér upptök utan safnaðarins og geta grafið undan trausti okkar á Jehóva og söfnuði hans. Hvernig geta þessar prófraunir gert okkur viðskila við Jehóva? Og hvernig getum við brugðist við tilraunum Satans?

ÞEGAR VIÐ GLÍMUM VIÐ ERFIÐLEIKA

5. Hvernig geta erfiðleikar grafið undan trausti okkar á Jehóva og söfnuði hans?

5 Við glímum stundum við erfiðleika. Við gætum misst vinnuna eða orðið fyrir andstöðu frá fjölskyldunni. Hvernig gætu slíkir erfiðleikar grafið undan trausti okkar á söfnuði Jehóva og gert okkur viðskila við föður okkar á himni? Þegar við glímum við erfiðleika í langan tíma gætum við fundið fyrir vonleysi og orðið niðurdregin. Satan grípur tækifærið og reynir að fá okkur til að efast um kærleika Jehóva til okkar. Djöfullinn vill fá okkur til að draga þá ályktun að Jehóva eða söfnuður hans beri ábyrgð á þjáningum okkar. Eitthvað svipað gerðist hjá sumum Ísraelsmönnum í Egyptalandi. Í fyrstu trúðu þeir að Jehóva hefði valið Móse og Aron til að frelsa þá úr ánauð. (2. Mós. 4:29–31) En seinna þegar faraó gerði þeim lífið enn erfiðara kenndu þeir Móse og Aroni um vandamál sín og sögðu: „Það er ykkur að kenna að faraó og þjónar hans fyrirlíta okkur og þið hafið lagt sverð í hendur þeirra til að drepa okkur.“ (2. Mós. 5:19–21) Þeir skelltu skuldinni á trúfasta þjóna Guðs. En sorglegt! Hvernig getur þú haldið áfram að treysta Jehóva og söfnuði hans ef þú hefur þolað erfiðleika um langan tíma?

6. Hvað getum við lært af spámanninum Habakkuk um að halda út í erfiðleikum? (Habakkuk 3:17–19)

6 Úthelltu hjarta þínu í bæn til Jehóva og leitaðu stuðnings hjá honum. Spámaðurinn Habakkuk þurfti að glíma við marga erfiðleika. Um tíma virðist hann hafa efast um að Jehóva væri annt um hann. Hann úthellti því hjarta sínu frammi fyrir Jehóva í bæn. Hann sagði: „Hve lengi, Jehóva, þarf ég að hrópa á hjálp en þú heyrir ekki? … Af hverju læturðu kúgun viðgangast?“ (Hab. 1:2, 3) Jehóva svaraði innilegri bæn trúfasts þjóns síns. (Hab. 2:2, 3) Habakkuk tók gleði sína á ný eftir að hafa hugsað vandlega um það hvernig Jehóva hafði bjargað fólki sínu áður. Hann fékk fullvissu um að Jehóva væri annt um hann og myndi hjálpa honum gegnum hvaða erfiðleika sem yrðu á vegi hans. (Lestu Habakkuk 3:17–19.) Hvað lærum við? Þegar þú glímir við erfiðleika skaltu biðja til Jehóva og segja honum hvernig þér líður. Biddu hann síðan um að styðja þig. Þá geturðu verið fullviss um að Jehóva gefur þér þann styrk sem þú þarft til að halda út. Og þegar þú finnur fyrir stuðningi hans styrkist trú þín.

7. Hvað reyndi ættingi Shirley að telja henni trú um en hvað kom í veg fyrir að hún missti trú á Jehóva?

7 Sinntu andlegri dagskrá. Skoðum hvernig það hjálpaði Shirley, systur í Papúa Nýju-Gíneu, þegar hún glímdi við erfiðleika. b Fjölskylda hennar var fátæk og barðist stundum í bökkum við að hafa nóg að borða. Ættingi reyndi að grafa undan trausti hennar á Jehóva. Hann sagði: „Þú segir að heilagur andi Guðs hjálpi ykkur en hvar er hjálpin? Fjölskyldan er enn fátæk. Þú sóar tímanum í að boða trúna.“ Shirley viðurkennir: „Ég velti fyrir mér hvort Guði væri annt um okkur. Ég leitaði strax til Jehóva í bæn og sagði honum frá öllu sem hvíldi á mér. Ég hélt áfram að lesa í Biblíunni og ritum okkar, boða trúna og sækja samkomur.“ Hún áttaði sig fljótlega á því að Jehóva sá um fjölskyldu hennar. Fjölskyldan leið ekki skort og var ánægð. Shirley segir: „Ég fann að Jehóva svaraði bænum mínum.“ (1. Tím. 6:6–8) Ef þú heldur þig við andlega dagskrá þína leyfir þú ekki heldur erfiðleikum eða efasemdum að gera þig viðskila við Jehóva.

ÞEGAR FARIÐ ER ILLA MEÐ BRÆÐUR Í ÁBYRGÐARSTÖÐUM

8. Hverju geta bræður í ábyrgðarstöðum í söfnuði Jehóva orðið fyrir?

8 Óvinir okkar nota frétta- eða samfélagsmiðla til að dreifa lygum eða röngum upplýsingum um bræður í ábyrgðarstöðum í söfnuði Jehóva. (Sálm. 31:13) Sumir bræður hafa verið handteknir og ákærðir sem glæpamenn. Þjónar Guðs á fyrstu öld upplifðu eitthvað svipað þegar Páll postuli var ranglega ákærður og handtekinn. Hver voru viðbrögð þeirra?

9. Hvernig brugðust sumir þjónar Guðs við þegar Páll postuli var settur í fangelsi?

9 Sumir þjónar Guðs á fyrstu öld hættu að styðja Pál postula þegar hann var í fangelsi í Róm. (2. Tím. 1:8, 15) Hvers vegna? Skömmuðust þeir sín fyrir Pál vegna þess að fólk áleit hann glæpamann? (2. Tím. 2:8, 9) Eða voru þeir hræddir vegna þess að þeir héldu að þeir yrðu líka ofsóttir? Hver sem ástæðan var, ímyndaðu þér hvernig Páli hefur liðið. Hann hafði þolað ýmsa erfiðleika og hafði jafnvel lagt líf sitt í hættu fyrir þá. (Post. 20:18–21; 2. Kor. 1:8) Við viljum aldrei vera eins og þeir sem yfirgáfu Pál á þessum erfiða tíma. Hvað ættum við að hafa í huga þegar bræður í ábyrgðarstöðum eru ofsóttir?

10. Hverju ættum við ekki að gleyma þegar bræður í ábyrgðarstöðum eru ofsóttir og hvers vegna?

10 Gleymdu ekki hvers vegna við erum ofsótt og hver það er sem stendur á bak við það. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:12 segir: „Allir sem vilja lifa guðrækilegu lífi sem lærisveinar Krists Jesú verða ofsóttir.“ Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að Satan beini spjótum sínum að bræðrum í ábyrgðarstöðum. Markmiðið með því er að brjóta niður ráðvendni þeirra og hræða okkur. – 1. Pét. 5:8.

Þótt Páll væri í fangelsi sýndi Ónesífórus hugrekki og studdi hann. Bræður okkar og systur nú á dögum styðja trúsystkini sín sem eru í fangelsi, eins og þessi sviðsetta mynd sýnir. (Sjá 11. og 12. grein.)

11. Hvað getum við lært af Ónesífórusi? (2. Tímóteusarbréf 1:16–18)

11 Haltu áfram að styðja bræðurna og stattu dyggilega með þeim. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:16–18.) Þjónn Guðs á fyrstu öld sem hét Ónesífórus brást öðruvísi við þegar Páll var fangelsaður. Hann „skammaðist sín ekki fyrir fjötra“ Páls. Ónesífórus leitaði að Páli og gerði það sem hann gat til að hjálpa honum þegar hann hafði fundið hann. Það þýddi að Ónesífórus lagði líf sitt í hættu. Hvað lærum við? Við megum ekki láta ótta við menn koma í veg fyrir að við styðjum bræður okkar sem verða fyrir ofsóknum. Við komum þeim til varnar og réttum þeim hjálparhönd. (Orðskv. 17:17) Þeir þurfa á kærleika okkar og stuðningi að halda.

12. Hvað lærum við af bræðrum okkar og systrum í Rússlandi?

12 Leiðum hugann að bræðrum og systrum í Rússlandi sem hafa komið trúsystkinum sínum í fangelsi til hjálpar. Þegar sum þeirra eru leidd fyrir rétt koma mörg trúsystkini á staðinn til að sýna þeim stuðning. Hvað lærum við? Látum það ekki hræða okkur þegar bræður í ábyrgðarstöðum eru rægðir, handteknir eða ofsóttir. Biðjum fyrir þeim, hlúum að fjölskyldum þeirra og leitum annarra leiða til að sýna þeim stuðning. – Post. 12:5; 2. Kor. 1:10, 11.

ÞEGAR VIÐ VERÐUM FYRIR HÁÐI

13. Hvernig getur háð grafið undan trausti okkar á Jehóva og söfnuði hans?

13 Ættingjar, vinnufélagar eða skólafélagar sem eru ekki vottar hæða okkur kannski fyrir að boða trúna eða lifa eftir háum siðferðismælikvarða Jehóva. (1. Pét. 4:4) Þeir segja kannski: „Mér líkar alveg við þig en trú þín er alltof ströng og ekki í takt við raunveruleikann.“ Sumir gagnrýna okkur kannski fyrir það hvernig við komum fram við þá sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Þeir segja kannski: „Hvernig geturðu sagt að þú sért góð manneskja?“ Slíkar athugasemdir geta sáð efasemdum í huga okkar. Við gætum farið að hugsa: „Ætlast Jehóva til of mikils af mér? Eru of strangar reglur í söfnuðinum?“ Hvernig geturðu viðhaldið góðu sambandi við Jehóva og söfnuðinn ef þú ert í slíkum aðstæðum?

Job neitaði að trúa lygum svokallaðra vina sem hæddu hann. Hann var ákveðinn í að vera Jehóva trúfastur. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig ættum við að bregðast við þegar aðrir hæða okkur fyrir að fylgja mælikvarða Jehóva? (Sálmur 119:50–52)

14 Vertu ákveðinn í að fylgja mælikvarða Jehóva. Job fylgdi mælikvarða Jehóva þótt hann væri hæddur fyrir það. Einn af svokölluðum vinum Jobs reyndi meira að segja að sannfæra hann um að það skipti Guð engu máli hvort Job fylgdi mælikvarða hans eða ekki. (Job. 4:17, 18; 22:3) En Job neitaði að trúa slíkum lygum. Hann vissi að mælikvarði Jehóva á rétt og rangt er réttlátur og hann var ákveðinn í að fylgja honum. Hann leyfði öðrum ekki að brjóta niður ráðvendni sína. (Job. 27:5, 6) Hvað lærum við? Leyfðu ekki háði að fá þig til að draga mælikvarða Jehóva í efa. Rifjaðu upp eigin reynslu. Þú hefur trúlega oft upplifað hvernig líf þitt er betra þegar þú fylgir mælikvarða Jehóva. Vertu ákveðinn í að styðja söfnuðinn sem fylgir þessum mælikvarða. Þá skiptir engu máli hversu miklu háði þú verður fyrir eða hvaðan það kemur, það mun ekki gera þig viðskila við Jehóva. – Lestu Sálm 119:50–52.

15. Hvers vegna varð Brizit fyrir háði?

15 Skoðum reynslu Brizit, systur á Indlandi. Ættingjar hennar hæddu hana vegna trúar hennar. Stuttu eftir að hún lét skírast árið 1997 missti eiginmaður hennar sem var ekki vottur vinnuna. Hann ákvað því að hann, Brizit og dætur þeirra flyttu til foreldra hans sem bjuggu í annarri borg. En þetta var bara byrjunin á erfiðleikunum. Hún þurfti að vinna fulla vinnu til að sjá fyrir fjölskyldunni vegna þess að eiginmaður hennar var atvinnulaus. Næsti söfnuður var þar að auki í 350 kílómetra fjarlægð. Því miður stóð fjölskylda eiginmanns hennar á móti henni vegna trúar hennar. Andstaðan varð svo mikil að fjölskylda Brizit varð að flytja aftur. Því næst dó maðurinn hennar skyndilega. Síðar missti hún dóttur sína aðeins 12 ára gamla úr krabbameini. Það sem gerði þetta enn verra var að ættingjar Brizit kenndu henni um hvernig fór. Þeir sögðu að þessar hörmungar hefðu aldrei dunið yfir ef hún hefði ekki orðið vottur Jehóva. En hún hélt áfram að treysta á Jehóva og hélt sterku sambandi við söfnuðinn.

16. Hvaða blessun hlaut Brizit fyrir að halda sterku sambandi við Jehóva og söfnuð hans?

16 Farandhirðir hvatti Brizit til að boða trúna á sínu svæði og halda samkomur á heimili sínu þar sem hún bjó svo langt frá næsta söfnuði. Til að byrja með fannst henni það yfirþyrmandi. En hún fylgdi leiðbeiningunum. Hún sagði öðrum frá fagnaðarboðskapnum, hélt samkomur heima hjá sér og tók frá tíma fyrir tilbeiðslustund fjölskyldunnar með dætrum sínum. Hver var árangurinn? Brizit aðstoðaði marga við biblíunám og margir nemenda hennar létu skírast. Árið 2005 gerðist hún brautryðjandi. Henni var umbunað fyrir að treysta Jehóva og vera söfnuði hans trygg. Dætur hennar þjóna Jehóva trúfastar og nú eru tveir söfnuðir á svæðinu. Brizit er sannfærð um að Jehóva hafi gefið henni styrk til að halda út í erfiðleikum og þola háð frá fjölskyldu sinni.

VERUM JEHÓVA OG SÖFNUÐI HANS TRÚ

17. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

17 Satan reynir að fá okkur til að trúa því að Jehóva yfirgefi okkur þegar við glímum við erfiðleika og að það geri lífið bara erfiðara að halda áfram að vera í söfnuði hans. Satan vill að við missum kjarkinn þegar bræður í ábyrgðarstöðum eru rægðir, ofsóttir eða fangelsaðir. Og hann notar háð til að grafa undan trausti okkar á mælikvarða Jehóva og söfnuði hans. En við þekkjum grimmar aðferðir Satans og látum ekki blekkjast. (2. Kor. 2:11) Verum ákveðin í að hafna lygum hans og vera Jehóva og söfnuði hans trú. Jehóva yfirgefur okkur aldrei. (Sálm. 28:7) Látum því ekkert gera okkur viðskila við Jehóva. – Rómv. 8:35–39.

18. Hvað ræðum við í næstu námsgrein?

18 Í þessari námsgrein höfum við skoðað utanaðkomandi prófraunir sem við glímum kannski við. En prófraunir innan safnaðarins geta líka reynt á traust okkar á Jehóva og söfnuði hans. Hvernig getum við tekist á við slíkar prófraunir með góðum árangri? Við ræðum það í næstu námsgrein.

SÖNGUR 118 Auk okkur trú

a Til að halda út og vera trúföst á þessum síðustu dögum verðum við að halda áfram að treysta á Jehóva og söfnuð hans. Djöfullinn reynir að nota prófraunir til að grafa undan þessu trausti. Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem Djöfullinn gerir til þess og hvað við getum gert til að vera trúföst Jehóva og söfnuði hans.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.