Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Var Mordekaí sannsöguleg persóna?

GYÐINGUR að nafni Mordekaí leikur lykilhlutverk í atburðum Esterarbókar í Biblíunni. Hann var í útlegð ásamt öðrum Gyðingum og þjónaði í konungshöll Persaveldis við upphaf fimmtu aldar f.Kr., „á dögum Ahasverusar konungs“, en hann er venjulega álitinn sá sami og Xerxes fyrsti. Mordekaí kom í veg fyrir launráð um að ráða konunginn af dögum. Í þakklætisskyni gerði konungurinn ráðstafanir til að Mordekaí yrði heiðraður opinberlega. Eftir dauða Hamans, sem var óvinur Mordekaí og annarra Gyðinga, útnefndi konungurinn Mordekaí forsætisráðherra. Það gerði honum kleift að gefa út tilskipun sem bjargaði Gyðingum í Persaveldi frá þjóðarmorði. – Est. 1:1; 2:5, 21–23; 8:1, 2; 9:16.

Sumir sagnaritarar snemma á tuttugustu öldinni fullyrtu að Esterarbók væri skáldskapur og að Mordekaí hefði aldrei verið til. En árið 1941 fundu fornleifafræðingar hlut sem gæti rennt stoðum undir það sem Biblían segir um Mordekaí. Hvað fundu þeir?

Rannsóknarmenn fundu persneskar fleygrúnir sem nefna mann að nafni Marduka (á íslensku: Mordekaí). Hann var valdsmaður og hugsanlega bókari í Súsa. Arthur Ungnad er sérfræðingur í sögu Austurlanda. Hann segir að þessar fleyrúnir hafi á sínum tíma verið „eina heimildin fyrir utan Biblíuna sem nefnir Mordekaí“.

Fræðimenn hafa þýtt þúsundir persneskra fleygrúna síðan skýrsla Ungnads var gefin út. Meðal þeirra eru Persepólistöflurnar sem fundust nálægt borgarmúrnum í rústum borgarinnar Persepólís. Töflurnar eru frá stjórnartíma Xerxesar fyrsta. Áletrunin er á elamísku og nefnir ýmis nöfn sem er líka að finna í Esterarbók. a

Nafnið Mordekaí (Marduka) á persneskum fleygrúnum.

Marduka er nefndur á nokkrum af Persepólistöflunum. Hann var skrifari konungs í konungshöllinni í Súsa á valdatíma Xerxesar fyrsta. Á einni töflu er Marduka sagður vera þýðandi. Þetta er í samræmi við lýsingu Biblíunnar á Mordekaí. Hann var hirðmaður við hirð Ahasverusar konungs (Xerxesar fyrsta) og talaði að minnsta kosti tvö tungumál. Hann sat reglulega í konungshliðinu við höllina í Súsa. (Est. 2:19, 21; 3:3) Hliðið var tilkomumikil bygging og vinnustaður hirðmanna.

Það er áhugavert að taka eftir því sem er líkt með lýsingunni á Marduka á töflunum og því sem segir um Mordekaí í Biblíunni. Þeir voru uppi á sama tíma og á sama stað. Báðir voru hirðmenn við sömu hirð. Þetta bendir allt til þess að þessir fornleifafundir tengist þeim Mordekaí sem lesa má um í Esterarbók í Biblíunni.

a Árið 1992 birti prófessor Edwin M. Yamauchi grein þar sem hann nefnir tíu nöfn á áletruninni frá Persepólis sem er líka að finna í Esterarbók.