Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 49

Mun Jehóva svara bænum mínum?

Mun Jehóva svara bænum mínum?

„Þið munuð kalla til mín og koma og biðja til mín, og ég hlusta á ykkur.“ – JER. 29:12.

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

YFIRLIT a

1, 2. Hvers vegna gæti okkur fundist eins og Jehóva svari ekki bænum okkar?

 „GLEÐSTU innilega yfir Jehóva, þá gefur hann þér það sem hjarta þitt þráir.“ (Sálm. 37:4) Þetta er yndislegt loforð! En ættum við að vænta þess að Jehóva gefi okkur strax allt sem við biðjum um? Hvers vegna er gott að velta því fyrir sér? Skoðum eftirfarandi aðstæður: Einhleyp systir biður til Jehóva um að fá að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis. En árin líða og henni er ekki boðið að sækja hann. Ungur bróðir biður Jehóva um að læknast af alvarlegum sjúkdómi svo að hann geti þjónað honum betur. En heilsan lagast ekki. Kristnir foreldrar biðja Jehóva að barnið þeirra þjóni Jehóva. En barnið ákveður að gera það ekki.

2 Þú hefur kannski beðið Jehóva um eitthvað en ekki orðið að ósk þinni. Þú gætir dregið þá ályktun að Jehóva svari bænum annarra en ekki þínum. Þú gætir líka hugsað sem svo að þú hljótir að hafa gert eitthvað rangt. Systur sem heitir Janice b leið þannig. Þau hjónin langaði mjög mikið að starfa á Betel og báðu til Jehóva um það. Hún segir: „Ég var alveg viss um að okkur yrði fljótlega boðið.“ En mánuðir urðu að árum og hjónunum var ekki boðið. Janice segir: „Ég var döpur og ringluð. Ég velti því fyrir mér hvað ég hefði gert til að hryggja Jehóva. Ég hafði beðið svo nákvæmlega um leiðsögn hans. Hvers vegna hafði hann ekki svarað bæn minni?“

3. Hvað verður til umfjöllunar í þessari námsgrein?

3 Við veltum því kannski stundum fyrir okkur hvort Jehóva hlusti á bænir okkar. Jafnvel sumir trúfastir menn til forna gerðu það líka. (Job. 30:20; Sálm. 22:2; Hab. 1:2) Hvað getur fullvissað þig um að Jehóva bregðist við bænum þínum? (Sálm. 65:2) Til að fá svar við því þurfum við fyrst að fá svar við þessum spurningum: (1) Hvers getum við vænst frá Jehóva? (2) Hvers væntir Jehóva af okkur? (3) Hvers vegna gætum við þurft að breyta bænum okkar?

HVERS GETUM VIÐ VÆNST FRÁ JEHÓVA?

4. Hvað lofar Jehóva að gera samkvæmt Jeremía 29:12?

4 Jehóva lofar að hlusta á bænir okkar. (Lestu Jeremía 29:12.) Guð elskar trúfasta tilbiðjendur sína og hunsar þess vegna aldrei bænir þeirra. (Sálm. 10:17; 37:28) Þetta þýðir samt ekki að hann verði alltaf við bón okkar. Við gætum þurft að bíða þangað til í nýja heiminum eftir sumu sem við biðjum hann um.

5. Hverju tekur Jehóva mið af þegar hann hlustar á bænir okkar? Skýrðu svarið.

5 Jehóva tekur mið af fyrirætlun sinni þegar hann svarar bænum okkar. (Jes. 55:8, 9) Hún felur meðal annars í sér að fylla jörðina körlum og konum sem hlýða honum sem stjórnanda af glöðu geði. En Satan vill meina að mönnum vegni betur ef þeir stjórna sér sjálfir. (1. Mós. 3:1–5) Til að sanna að fullyrðingar Djöfulsins séu lygi hefur Jehóva leyft mönnum að gera það. En stjórnir manna hafa orsakað mörg þeirra vandamála sem blasa nú við. (Préd. 8:9) Við vitum að Jehóva fjarlægir ekki öll þessi vandamál strax. Ef hann gerði það gætu sumir ályktað að stjórnir manna virkuðu, að þær væru í stakk búnar til að leysa vandamál mannkynsins.

6. Hvers vegna þurfum við að vera sannfærð um að Jehóva geri alltaf það sem er kærleiksríkt og réttlátt?

6 Jehóva getur brugðist við sams konar bænum á mismunandi vegu. Þegar Hiskía konungur veiktist alvarlega grátbað hann Jehóva um lækningu. Jehóva svaraði bæn hans og læknaði hann. (2. Kon. 20:1–6) En þegar Páll postuli sárbændi Jehóva um að taka ‚þyrni í holdinu‘, sem var ef til vill heilsubrestur, læknaði Jehóva hann ekki. (2. Kor. 12:7–9) Skoðum einnig reynslu postulanna Jakobs og Péturs. Heródes konungur reyndi að fá þá báða drepna. Söfnuðurinn bað fyrir Pétri og líklega fyrir Jakobi. Jakob var tekinn af lífi en Pétri var bjargað fyrir kraftaverk. (Post. 12:1–11) Við spyrjum kannski hvers vegna Jehóva bjargaði Pétri en ekki Jakobi. Biblían greinir ekki frá því. c En við getum verið viss um að Jehóva er „aldrei ranglátur“. (5. Mós. 32:4) Og við vitum að bæði Pétur og Jakob höfðu velþóknun Jehóva. (Opinb. 21:14) Stundum svarar Jehóva kannski ekki bænum okkar eins og við vonuðumst til. En við véfengjum ekki hvernig hann svarar bænum okkar vegna þess að við treystum því að hann svari þeim alltaf í samræmi við kærleika sinn og réttlæti. – Job. 33:13.

7. Hvað reynum við að forðast og hvers vegna?

7 Við reynum að forðast að bera aðstæður okkar saman við aðstæður annarra. Við biðjum Jehóva kannski að hjálpa okkur í tilteknu máli en hann verður ekki við bón okkar. Síðar komumst við að því einhver annar bað Jehóva um eitthvað svipað og hann virðist hafa svarað bæninni. Systir sem heitir Anna upplifði þetta. Hún bað til Jehóva um að maðurinn hennar, Matthew, myndi ná sér af krabbameini. Tvær eldri systur í söfnuðinum voru líka að berjast við krabbamein á sama tíma. Anna bað heitt til Jehóva fyrir Matthew og systrunum. Systurnar náðu sér en Matthew dó. Í fyrstu velti Anna því fyrir sér hvort systurnar hefðu náð sér vegna þess að Jehóva ætti hlut að máli. Og ef svo væri hvers vegna svaraði hann þá ekki bæn hennar um að maðurinn hennar fengi lækningu. Við vitum að sjálfsögðu ekki hvers vegna systurnar náðu heilsu aftur. En við vitum að Jehóva mun binda enda á allar þjáningar okkar og hann hlakkar til að reisa látna vini sína til lífs á ný. – Job. 14:15.

8. (a) Hvernig styður Jehóva okkur samkvæmt Jesaja 43:2? (b) Hvernig getur bænin hjálpað okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum prófraunum? (Sjá myndbandið Bænin hjálpar okkur að halda út.)

8 Jehóva styður okkur alltaf. Jehóva er elskuríkur faðir og vill ekki að við þjáumst. (Jes. 63:9) Hann verndar okkur samt ekki fyrir öllum erfiðleikum sem má líkja við ár eða eld. (Lestu Jesaja 43:2.) En hann lofar að hjálpa okkur að ‚ganga gegnum‘ erfiðleikana. Og hann leyfir ekki að þeir skaði okkur varanlega. Jehóva lofar líka að gefa okkur öflugan heilagan anda sinn svo að við getum haldið út. (Lúk. 11:13; Fil. 4:13) Fyrir vikið getum við verið viss um að við höfum alltaf það sem við þurfum til að standast og vera honum trúföst. d

HVERS VÆNTIR JEHÓVA AF OKKUR?

9. Hvers vegna þurfum við að treysta því að Jehóva hjálpi okkur samkvæmt Jakobsbréfinu 1:6, 7?

9 Jehóva væntir þess að við treystum á hann. (Hebr. 11:6) Stundum virðast erfileikarnir óyfirstíganlegir. Við förum ef til vill að efast um að Jehóva muni hjálpa okkur. En Biblían fullvissar okkur um að í mætti Guðs getum við „klifið múra“. (Sálm. 18:29) Í stað þess að láta efa skjóta rótum í hjarta okkar ættum við að biðja til Jehóva í fullu trausti þess að hann svari bænum okkar. – Lestu Jakobsbréfið 1:6, 7.

10. Útskýrðu hvernig við getum breytt í samræmi við bænir okkar?

10 Jehóva væntir þess að við breytum í samræmi við bænir okkar. Bróðir gæti til dæmis beðið Jehóva um hjálp til að fá frí í vinnunni svo að hann geti sótt umdæmismót. Hvernig gæti Jehóva svarað bæninni? Hann gæti gefið bróðurnum hugrekki til að spyrja vinnuveitandann um frí. En bróðirinn yrði samt sem áður að fara til vinnuveitandans og biðja um frí. Hann gæti þurft að spyrja oftar en einu sinni. Hann gæti jafnvel boðist til að skiptast á vöktum við aðra starfsmenn. Og hann gæti boðist til að taka launalaust frí ef svo bæri undir.

11. Hvers vegna ættum við að biðja aftur og aftur um það sem okkur liggur á hjarta?

11 Jehóva væntir þess að við biðjum aftur og aftur um það sem hvílir á okkur. (1. Þess. 5:17) Jesús gaf í skyn að sumt af því sem við biðjum um fengjum við ekki strax svar við. (Lúk. 11:9) Gefstu ekki upp! Biddu innilega og aftur og aftur. (Lúk. 18:1–7) Þegar við höldum áfram að biðja um ákveðið mál sýnum við Jehóva að okkur er mikið í mun að hann svari okkur. Við sýnum einnig trú okkar á getu hans til að hjálpa okkur.

HVERS VEGNA GÆTUM VIÐ ÞURFT AÐ BREYTA BÆNUM OKKAR?

12. (a) Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur varðandi bón okkar og hvers vegna? (b) Hvernig getum við fullvissað okkur um að bænir okkar endurspegli virðingu fyrir Jehóva? (Sjá rammagreinina „ Sýna bænir mínar virðingu fyrir Jehóva?“)

12 Ef við fáum ekki svar við bæn okkar gætum við spurt okkur þriggja spurninga. Sú fyrsta er: Er rétt að biðja um þetta? Við stöndum gjarnan í þeirri trú að við vitum hvað er best fyrir okkur. En það sem við biðjum um er kannski ekki gott fyrir okkur til langs tíma litið. Ef við biðjum um lausn á vandamáli gæti verið til betri lausn en sú sem við biðjum um. Og sumt af því sem við biðjum um er kannski ekki í samræmi við vilja Jehóva. (1. Jóh. 5:14) Tökum sem dæmi foreldrana sem áður er minnst á. Þau höfðu beðið Jehóva um að barnið þeirra myndi þjóna honum. Það er ekki rangt að biðja þannig. En Jehóva neyðir engan til að þjóna sér. Hann vill að við öll, þar á meðal börnin okkar, velji að þjóna sér. (5. Mós. 10:12, 13; 30:19, 20) Foreldrarnir gætu beðið Jehóva um að hjálpa sér að ná til hjarta barnsins svo að það finni hjá sér löngun til að elska Jehóva og verða vinur hans. – Orðskv. 22:6; Ef. 6:4.

13. Hvenær hjálpar Jehóva okkur samkvæmt Hebreabréfinu 4:16? Skýrðu svarið.

13 Önnur spurningin er: Telur Jehóva tímabært að verða við bæn minni? Okkur gæti fundist við þurfa strax að fá svar við bænum okkar. En það er samt Jehóva sem veit best hvenær er rétti tíminn til að hjálpa. (Lestu Hebreabréfið 4:16.) Við gætum hugsað sem svo að svar hans væri „nei“ fyrst við fáum ekki strax það sem við biðjum um. En svarið gæti verið „ekki strax“. Hugsum til dæmis til unga bróðurins sem bað um að hann næði sér af veikindunum. Ef Jehóva hefði læknað hann með kraftaverki hefði Satan geta haldið því fram að bróðirinn héldi bara áfram að þjóna Jehóva vegna þess að hann fengi lækningu. (Job. 1:9–11; 2:4) Auk þess hefur Jehóva ákveðinn tíma sem hann ætlar að lækna alla veika. (Jes. 33:24; Opinb. 21:3, 4) Þangað til getum við ekki vænst þess að fá lækningu fyrir kraftaverk. Bróðirinn gæti því beðið Jehóva um að gefa sér styrk og hugarfrið til að takast á við veikindin og halda áfram að þjóna honum af trúfesti. – Sálm. 29:11.

14. Hvað lærðir þú af reynslu Janice?

14 Hugsum um reynslu Janice sem bað til Jehóva um að fá að starfa á Betel. Það liðu fimm ár áður en hún skildi hvernig Jehóva hafði svarað bæn hennar. Hún segir: „Jehóva notaði þennan tíma til að kenna mér og hjálpa mér að verða betri þjónn hans. Ég þurfti að styrkja traust mitt á honum. Ég þurfti að bæta námsvenjur mínar. Og ég þurfti að læra að ég get þjónað Jehóva glöð óháð því hvert verkefni mitt er í þjónustu hans.“ Síðar var Janice og eiginmanni hennar boðið að þjóna í farandstarfinu. Hún segir þegar hún lítur til baka: „Jehóva svaraði bænum mínum þótt það væri ekki á þann hátt sem ég vænti. Það tók tíma fyrir mig að sjá hvað hann svaraði mér fallega en ég er innilega þakklát að hafa upplifað kærleika hans og góðvild.“

Ef þér finnst Jehóva ekki hafa svarað bæn þinni skaltu hugleiða þann möguleika að biðja um eitthvað annað. (Sjá 15. grein.) f

15. Hvers vegna gætum við þurft að víkka út bón okkar þegar við biðjum til Jehóva? (Sjá einnig myndir.)

15 Þriðja spurningin er: Ætti ég að biðja til Jehóva um eitthvað annað? Það er gott að við séum nákvæm í bænum okkar. En stundum er auðveldara að sjá hver sé vilji Jehóva með okkur ef við höfum bón okkar ekki of nákvæma. Tökum sem dæmi einhleypu systurina sem hefur verið að biðja til Jehóva um að fá að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis. Hana langar að sækja skólann til að geta þjónað þar sem er meiri þörf. Meðan hún heldur áfram að biðja til Jehóva um að henni verði boðið í skólann gæti hún líka beðið hann að hjálpa sér að sjá önnur tækifæri til að gera meira í þjónustu hans. (Post. 16:9, 10) Og í samræmi við bænina gæti hún spurt farandhirðinn hvort einhverjir söfnuðir í nágrenninu hafi þörf fyrir fleiri brautryðjendur. Hún gæti líka skrifað til deildarskrifstofunnar til að fá upplýsingar um það hvar er þörf á fleiri boðberum. e

16. Hvað getum við verið fullviss um?

16 Við getum verið viss um að Jehóva svarar bænum okkar á kærleiksríkan og réttlátan hátt. (Sálm. 4:3; Jes. 30:18) Stundum fáum við ekki það svar sem við vonuðumst eftir. En Jehóva hunsar aldrei bænir okkar. Hann elskar okkur innilega. Og hann yfirgefur okkur aldrei. (Sálm. 9:10) Haltu því áfram að ‚treysta honum öllum stundum‘ og úthelltu hjarta þínu fyrir honum í bæn. – Sálm. 62:8.

SÖNGUR 43 Þakkarbæn

a Í þessari námsgrein er útskýrt hvers vegna við getum verið sannfærð um að Jehóva muni alltaf svara bænum okkar á kærleiksríkan og réttlátan hátt.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Sjá greinina „Treystir þú því að Jehóva geri alltaf rétt?“ í Varðturninum febrúar 2022, gr. 3–6.

d Sjá myndbandið Bænin hjálpar okkur að halda út til að fá frekari upplýsingar um það hvernig Jehóva hjálpar okkur að halda út í erfiðum prófraunum.

e Sjá bókina Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva kafla 10, gr. 6–9, til að fá leiðbeiningar um það hvernig maður getur boðið sig fram til að þjóna á svæði annarrar deildarskrifstofu.

f MYND: Tvær systur fara með bæn áður en þær sækja um Skólann fyrir boðbera Guðsríkis. Síðar er annarri þeirra boðið að sækja skólann en ekki hinni. Sú sem fær ekki jákvætt svar lætur það ekki valda sér of miklum vonbrigðum en biður Jehóva að hjálpa sér að koma auga á tækifæri til að auka þjónustu sína. Hún skrifar síðan bréf til deildarskrifstofunnar og lætur vita að hún sé tilbúin að starfa þar sem þörfin er meiri.