Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

Við getum verið örugg á óvissutímum

Við getum verið örugg á óvissutímum

„‚Verið hugrökk ... Ég er með ykkur,‘ segir Jehóva hersveitanna.“ – HAG. 2:4.

SÖNGUR 118 Auk okkur trú

YFIRLIT a

1, 2. (a) Hvað er líkt með aðstæðum okkar og Gyðinganna sem sneru aftur til Jerúsalem? (b) Hvaða erfiðleikum stóðu Gyðingarnir frammi fyrir? (Sjá rammann „ Á dögum Haggaí, Sakaría og Esra“.)

 HEFURÐU stundum áhyggjur af framtíðinni? Þú hefur kannski misst vinnuna og hefur áhyggjur af því hvernig þú getur séð fyrir fjölskyldunni. Þú óttast kannski um öryggi fjölskyldunnar vegna óstöðugs stjórnmálaástands, ofsókna eða andstöðu við boðunina. Þarftu að glíma við eitthvað af þessu? Þá finnst þér eflaust gagnlegt að skoða hvernig Jehóva hjálpaði Ísraelsmönnum til forna þegar þeir stóðu frammi fyrir svipuðum vandamálum.

2 Það reyndi á trú Gyðinga sem höfðu búið í Babýlon alla ævi. Þeir þurftu að yfirgefa þægilegt líf og ferðast til lands sem fæstir þeirra þekktu. Þegar þangað var komið leið ekki á löngu áður en óstöðugt efnahags- og stjórnmálaástand og andstaða hafði erfiðleika í för með sér. Sumum fannst þess vegna erfitt að einbeita sér að endurbyggingu musteris Jehóva. Um árið 520 f.Kr. sendi Jehóva því tvo spámenn, Haggaí og Sakaría, til að endurvekja áhuga fólksins. (Hag. 1:1; Sak. 1:1) Eins og við munum sjá reyndist hvatning þeirra beggja mjög áhrifarík. En tæplega 50 árum síðar þurftu þeir sem höfðu snúið til Jerúsalem aftur á hvatningu að halda. Esra, sem var fær afritari laganna, kom þá frá Babýlon til Jerúsalem til að hvetja þjóð Guðs til að setja sanna tilbeiðslu í fyrsta sæti í lífinu. – Esra. 7:1, 6.

3. Hvaða spurningar skoðum við? (Orðskviðirnir 22:19)

3 Spámennirnir Haggaí og Sakaría hjálpuðu þjónum Guðs áður fyrr til að halda áfram að treysta Jehóva þegar þeir mættu andstöðu. Hvatning þeirra getur líka fullvissað okkur um að Jehóva hjálpar okkur í gegnum hvaða erfiðleika sem við tökumst á við. (Lestu Orðskviðina 22:19.) Við fáum svör við þrem spurningum þegar við skoðum það sem Guð sagði fyrir milligöngu Haggaí og Sakaría og athugum fordæmi Esra: Hvaða áhrif höfðu allir þessir erfiðleikar á Gyðingana sem sneru aftur til Jerúsalem? Hvers vegna ættum við að beina athygli okkar að vilja Guðs þegar lífið er erfitt? Og hvernig getum við öðlast meira traust á Jehóva þegar við tökumst á við erfiðleika?

HVAÐA ÁHRIF HÖFÐU ERFIÐLEIKAR Á GYÐINGANA SEM SNERU AFTUR?

4, 5. Hvað gæti hafa dregið úr kappsemi Gyðinganna til að endurbyggja musterið?

4 Þegar Gyðingarnir komu aftur til Jerúsalem höfðu þeir mikið verk að vinna. Þeir endurbyggðu fljótt altari Jehóva og lögðu grunn að musterinu. (Esra. 3:1–3, 10) En eldmóður þeirra dvínaði fljótt. Hvers vegna? Auk þess að vinna við musterið þurftu þeir að reisa handa sér hús, sá í akra og sjá fjölskyldum sínum fyrir fæðu. (Esra. 2:68, 70) Þar að auki þurftu þeir að þola andstöðu óvina sem lögðu á ráðin um að stöðva endurbyggingu musterisins. – Esra. 4:1–5.

5 Óstöðugt stjórnmála- og efnahagsástand hafði líka áhrif á þá sem komu úr útlegðinni. Land þeirra var nú hluti af persneska heimsveldinu. Eftir að Kýrus Persakonungur dó árið 530 f.Kr. hugðist arftaki hans, Kambýses, sigra Egyptaland. Á leið sinni þangað kröfðust hermenn hans trúlega matar, vatns og skjóls hjá Ísraelsmönnum en það hefur valdið þeim enn meiri erfiðleikum. Snemma í stjórnartíð næsta Persakonungs, Daríuasar fyrsta, voru enn miklir erfiðleikar í persneska heimsveldinu, eins og uppreisn og ófriður. Margir sem sneru úr útlegðinni höfðu þess vegna eflaust áhyggjur af því hvernig þeir myndu sjá fyrir fjölskyldum sínum. Vegna óvissunnar sem þeir bjuggu við fannst sumum Gyðingum þetta ekki vera rétti tíminn til að endurbyggja musteri Jehóva. – Hag. 1:2.

6. Hvaða aðra erfiðleika glímdu Gyðingarnir við og hvað fullvissaði Sakaría þá um samkvæmt Sakaría 4:6, 7?

6 Lestu Sakaría 4:6, 7. Auk efnahagserfiðleika og ótryggs stjórnmálaástands urðu Gyðingar fyrir ofsóknum. Árið 522 f.Kr. tókst óvinum þeirra að fá persnesk yfirvöld til að leggja bann á endurbyggingu musteris Jehóva. En Sakaría fullvissaði Gyðingana um að Jehóva myndi nota máttugan anda sinn til að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Árið 520 f.Kr. aflétti Daríus banninu og veitti þeim fjárstyrk og aðstoð yfirvalda til að halda vinnunni áfram. – Esra. 6:1, 6–10.

7. Hvaða blessun hlutu Gyðingarnir sem sneru við þegar þeir létu vilja Guðs ganga fyrir öðru?

 7 Fyrir milligöngu Haggaí og Sakaría lofaði Jehóva fólki sínu stuðningi ef það léti endurbyggingu musterisins ganga fyrir öðru. (Hag. 1:8, 13, 14; Sak. 1:3, 16) Þessi hvatning spámannanna varð til þess að Gyðingar héldu áfram að vinna við musterið árið 520 f.Kr. og luku verkinu á innan við fimm árum. Jehóva studdi Gyðingana bæði efnislega og andlega vegna þess að þeir tóku vilja hans fram yfir allt annað. Fyrir vikið tilbáðu þeir Jehóva með gleði. – Esra. 6:14–16, 22.

GERUM EINBEITT VILJA GUÐS

8. Hvernig getur það sem segir í Haggaí 2:4 hjálpað okkur að vera einbeitt í því að gera vilja Guðs? (Sjá einnig neðanmáls.)

8 Þar sem þrengingin mikla færist nær skiljum við betur en nokkru sinni hversu áríðandi er að hlýða fyrirmælum Jesú um að taka þátt í boðun trúarinnar. (Mark. 13:10) Okkur gæti samt þótt erfitt að einbeita okkur að boðuninni ef við eigum í fjárhagserfiðleikum eða verðum fyrir ofsóknum vegna boðunarinnar. Hvað getur hjálpað okkur að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti? Við þurfum að vera alveg sannfærð um að „Jehóva hersveitanna“ b sé með okkur í liði. Hann mun styðja okkur ef við höldum áfram að taka hagsmuni Guðsríkis fram yfir eigin hagsmuni. Þá höfum við ekkert að óttast. – Lestu Haggaí 2:4.

9, 10. Hvernig áttuðu hjón sig á sannleiksgildi orða Jesú í Matteusi 6:33?

9 Skoðum reynslu brautryðjendahjónanna Olegs og Irinu. c Eftir að þau höfðu flutt til að aðstoða söfnuð á öðru svæði misstu þau vinnuna vegna versnandi efnahagsástands í landinu. Þau fengu ekki fasta vinnu í um ár en fundu allan tímann fyrir kærleiksríkum stuðningi Jehóva og fengu stundum hjálp frá bræðrum og systrum. Hvað hjálpaði þeim í þessum erfiðu aðstæðum? Oleg var í fyrstu niðurdreginn en segir: „Að vera upptekin í boðuninni hjálpaði okkur að einbeita okkur að því sem mestu máli skiptir í lífinu.“ Þau hjónin héldu áfram að leita að vinnu en voru upptekin í boðuninni á meðan.

10 Dag einn þegar þau komu heim úr boðuninni komust þau að því að góður vinur þeirra hafði ferðast um 160 kílómetra til að færa þeim tvo poka af mat. Oleg segir: „Þennan dag sáum við enn og aftur hversu Jehóva og söfnuðinum er annt um okkur. Við erum sannfærð um að Jehóva gleymi aldrei þjónum sínum, hversu vonlaus sem staða þeirra virðist vera.“ – Matt. 6:33.

11. Hverju getum við átt von á ef við einbeitum okkur að því að gera vilja Guðs?

11 Jehóva vill að við beinum athygli okkar að því að bjarga mannslífum með því að gera fólk að lærisveinum. Eins og minnst  var á í 7. tölugrein hvatti Haggaí þjóna Jehóva til að hefjast aftur handa í heilagri þjónustu. Jehóva lofaði að ‚blessa þá‘ ef þeir gerðu það. (Hag. 2:18, 19) Við getum líka verið viss um að Jehóva blessi viðleitni okkar ef við látum það verkefni sem hann hefur gefið okkur hafa forgang.

BYGGJUM UPP TRAUST Á JEHÓVA

12. Hvers vegna þurftu Esra og aðrir útlagar að hafa sterka trú?

12 Árið 468 f.Kr. fór Esra með annan hóp Gyðinga frá Babýlon til Jerúsalem. Esra og samferðamenn hans þurftu að hafa sterka trú til að leggja í þessa ferð. Þeir þurftu að fara um hættulegar slóðir með mikið af gulli og silfri sem hafði verið gefið til musterisins. Ræningjar hefðu getað ráðist á þá. (Esra. 7:12–16; 8:31) Og þar að auki áttuðu þeir sig fljótlega á því að Jerúsalem var ekki örugg. Fáir bjuggu í borginni og múrar hennar og hlið þörfnuðust viðgerðar. Hvað getum við lært af Esra um að styrkja traustið á Jehóva?

13. Hvernig byggði Esra upp traust á Jehóva? (Sjá einnig neðanmáls.)

13 Esra hafði séð hvernig Jehóva studdi þjóna sína á erfiðum tímum. Áratugum áður, eða árið 484 f.Kr., bjó Esra líklega í Babýlon þegar Ahasverus konungur gaf út tilskipun um að útrýma Gyðingum úr persneska heimsveldinu. (Est. 3:7, 13–15) Esra var í lífshættu! Þegar Gyðingar heyrðu um þessa ógn föstuðu þeir og syrgðu „í öllum skattlöndunum“, vafalaust til að biðja Jehóva um leiðsögn. (Est. 4:3) Hugsa sér hvernig Esra og öðrum Gyðingum hefur liðið þegar þegar taflið snerist þeim í óhag sem höfðu lagt á ráðin um að útrýma þeim! (Est. 9:1, 2) Það sem Esra upplifði á þessum erfiða tíma gæti hafa búið hann undir prófraunir síðar meir og hefur trúlega byggt upp traust hans á að Jehóva geti verndað fólk sitt. d

14. Hvað lærði systir ein þegar Jehóva annaðist hana á erfiðum tíma?

14 Þegar við njótum umhyggju Jehóva í erfiðleikum styrkist traust okkar á hann. Anastasia býr í Austur-Evrópu en hún sagði upp vinnunni vegna afstöðu sinnar til hlutleysis. Hún segir: „Þetta var í fyrsta skipti sem ég átti enga peninga.“ Hún bætir við: „Ég lét málin í hendur Jehóva og sá hversu vel hann sá um mig. Ef ég skyldi einhvern tíma missa vinnuna aftur verð ég ekki óttaslegin. Himneskur faðir minn sér um mig í dag og hann gerir það líka á morgun.“

15. Hvað hjálpaði Esra að treysta alltaf á Jehóva? (Esrabók 7:27, 28)

15 Esra sá hönd Jehóva í eigin lífi. Það sem hefur hjálpað Esra að treysta á Jehóva var að rifja upp hvernig hann hafði annast hann áður. Tökum eftir orðalaginu „hönd Jehóva Guðs míns var með mér“. (Lestu Esrabók 7:27, 28.) Esra notaði svipað orðalag sex sinnum í bókinni sem ber nafn hans. – Esra. 7:6, 9; 8:18, 22, 31.

Við hvaða aðstæður gætum við séð hönd Guðs skýrar í lífi okkar? (Sjá 16. grein.) e

16. Við hvaða aðstæður getum við séð hönd Jehóva skýrar í lífi okkar? (Sjá einnig mynd.)

16 Jehóva getur hjálpað okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum. Við fáum tækifæri til að sjá hönd Jehóva í lífi okkar þegar við spyrjum til dæmis yfirmann okkar um frí til að fara á mót eða þegar við biðjum um breytingu á vinnutíma svo að við getum sótt allar samkomur. Útkoman gæti orðið betri en við búumst við. Fyrir vikið styrkist traust okkar á Jehóva.

Esra grætur og biður til Jehóva í musterinu. Hann er dapur vegna synda fólksins. Fólkið grætur líka. Síðan huggar Sekanja Esra með því að fullvissa hann: ‚Ekki er öll von úti fyrir Ísrael. Við styðjum þig.‘ – Esra. 10:2, 4. (Sjá 17. grein.)

17. Hvernig sýndi Esra auðmýkt á erfiðum tímum? (Sjá forsíðumynd.)

17 Esra leitaði auðmjúkur hjálpar Jehóva. Esra bað til Jehóva í hvert sinn sem honum fannst verkefni sitt yfirþyrmandi. (Esra. 8:21–23; 9:3–5) Viðhorf hans knúði aðra til að styðja hann og líkja eftir trú hans. (Esra. 10:1–4) Við þurfum að treysta Jehóva og snúa okkur til hans í bæn þegar áhyggjur vegna efnislegra þarfa eða öryggis fjölskyldunnar íþyngja okkur.

18. Hvað getur hjálpað okkur að öðlast meira traust á Jehóva?

18 Traust okkar á Jehóva eykst ef við leitum auðmjúk hjálpar hans í bæn og þiggjum stuðning trúsystkina okkar. Erika er þriggja barna móðir. Hún var alltaf sannfærð um að Jehóva sæi um hana, jafnvel þegar hún varð fyrir gríðarlegum missi. Á stuttum tíma missti hún ófætt barn sitt og ástkæran eiginmann. Hún segir um allt sem gerðist: „Maður getur ekki vitað fyrir fram hvernig Jehóva hjálpar manni. Hjálpin getur komið úr óvæntri átt. Það sem vinir mínir hafa sagt og gert hefur oft verið svar við bænum mínum. Þeir eiga auðveldara með að hjálpa ef ég segi þeim hvað ég er að takast á við.“

TREYSTUM JEHÓVA ALLT TIL ENDA

19, 20. Hvað lærum við af Gyðingunum sem gátu ekki snúið aftur til Jerúsalem?

19 Við getum líka lært mikilvægan hlut af Gyðingunum sem gátu ekki snúið aftur til Jerúsalem. Sumum voru líklega takmörk sett vegna elli, alvarlegra veikinda eða fjölskylduábyrgðar. En þeir veittu þeim sem sneru til baka efnislegan stuðning af fúsu geði. (Esra. 1:5, 6) Um 19 árum eftir að fyrsti hópur útlaga sneri aftur til Jerúsalem virðast þeir sem voru áfram í Babýlon enn hafa verið að senda framlög til Jerúsalem. – Sak. 6:10.

20 Jafnvel þótt okkur finnist það takmarkað sem við getum gert í þjónustu Jehóva getum við verið viss um að Jehóva kunni að meta einlæga viðleitni okkar til að gleðja sig. Hvernig vitum við það? Á dögum Sakaría bað Jehóva spámann sinn að gera kórónu úr gulli og silfri sem útlagarnir í Babýlon höfðu sent. (Sak. 6:11) „Tignarleg kórónan“ átti að „minna á“ rausnarleg framlög þeirra. (Sak. 6:14, neðanmáls) Við getum verið alveg viss um að Jehóva gleymi aldrei heils hugar viðleitni til að þjóna honum á óvissutímum. – Hebr. 6:10.

21. Hvað mun hjálpa okkur að treysta Jehóva hvað sem gerist í framtíðinni?

21 Við upplifum vafalaust áfram óvissu á þessum síðustu dögum og ástandið gæti jafnvel versnað. (2. Tím. 3:1, 13) En við þurfum ekki að hafa of miklar áhyggjur. Munum hvað Jehóva sagði fólki sínu á dögum Haggaí: „Ég er með ykkur ... Verið ekki hrædd.“ (Hag. 2:4, 5) Við getum líka verið viss um að Jehóva verður með okkur eins lengi og við gerum okkar besta til að gera vilja hans. Traust okkar á Jehóva mun aldrei bila, sama hvað kemur upp á í framtíðinni, ef við fylgjum fordæmi spámannanna Haggaí, Sakaría og Esra.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

a Þessari námsgrein er ætlað að styrkja traust okkar á Jehóva þegar við stöndum frammi fyrir efnahagserfiðleikum, óstöðugu stjórnmálaástandi eða andstöðu við boðunina.

b Orðalagið „Jehóva hersveitanna“ kemur fyrir 14 sinnum í bók Haggaí. Það minnti Gyðingana á og minnir okkur á að Jehóva hefur ótakmarkaðan kraft og hefur yfir að ráða stórum hersveitum engla. – Sálm. 103:20, 21.

c Sumum nöfnum hefur verið breytt.

d Esra var fær afritari laga Guðs. Hann hafði með því öðlast mikið traust á spádómum Jehóva áður en hann ferðaðist til Jerúsalem. – 2. Kron. 36:22, 23; Esra. 7:6, 9, 10; Jer. 29:14.

e MYND: Bróðir biður vinnuveitanda sinn um frí til að fara á mót en fær það ekki. Hann biður til Jehóva um hjálp og leiðsögn og býr sig undir að spyrja vinnuveitandann aftur. Hann sýnir vinnuveitandanum boðsmiða og útskýrir hvernig Biblían hjálpar fólki að bæta líf sitt. Vinnuveitandinn er hrifinn og endurskoðar ákvörðun sína.