Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 42

Ert þú „fús til að hlýða“?

Ert þú „fús til að hlýða“?

„Viskan sem kemur ofan að er ... fús til að hlýða.“ – JAK. 3:17.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT a

1. Hvers vegna getur verið erfitt að hlýða?

 FINNST þér stundum erfitt að vera hlýðinn? Davíð konungi fannst það og bað til Guðs: „Vektu með mér löngun til að hlýða þér.“ (Sálm. 51:12) Davíð elskaði Jehóva. En samt hann átti stundum erfitt með að hlýða, rétt eins og við. Hvers vegna er þetta svona erfitt? Í fyrsta lagi höfum við erft tilhneiginguna til að óhlýðnast. Í öðru lagi reynir Satan stanslaust að fá okkur til að rísa gegn Jehóva eins og hann gerði sjálfur. (2. Kor. 11:3) Í þriðja lagi er alls staðar í kringum okkur uppreisnarandi, ‚andi sem starfar nú í þeim sem eru óhlýðnir‘. (Ef. 2:2) Djöfullinn og heimur hans beita okkur þrýstingi til að óhlýðnast. Við þurfum þess vegna að leggja hart að okkur til að berjast gegn syndugum tilhneigingum. Við verðum að leggja okkur fram við að hlýða Jehóva og þeim sem hann hefur veitt visst vald.

2. Hvað merkir að vera „fús til að hlýða“? (Jakobsbréfið 3:17)

2 Lestu Jakobsbréfið 3:17. Jakobi var innblásið að skrifa að þeir sem eru ‚fúsir til að hlýða‘ sýni visku. Hugleiðum hvað það merkir. Við ættum að vera fús og fljót að hlýða þeim sem Jehóva hefur treyst fyrir vissu valdi. Jehóva væntir þess að sjálfsögðu ekki að við hlýðum þeim sem segja okkur að óhlýðnast fyrirmælum hans. – Post. 4:18–20.

3. Hvers vegna skiptir það Jehóva máli að við hlýðum þeim sem fara með vald yfir okkur?

3 Okkur finnst kannski auðveldara að hlýða Jehóva en mönnum. Leiðsögn hans er jú fullkomin. (Sálm. 19:7) En ekki er hægt að segja það sama um menn sem fara með vald. Faðir okkar á himnum hefur samt falið foreldrum, yfirvöldum og öldungum visst vald. (Orðskv. 6:20; 1. Þess. 5:12; 1. Pét. 2:13, 14) Þegar við hlýðum þeim erum við í raun að hlýða Jehóva. Skoðum hvernig við getum hlýtt þeim sem Jehóva hefur veitt vald þótt okkur kunni stundum að finnast erfitt að samþykkja og fylgja leiðsögn þeirra.

HLÝDDU FORELDRUM ÞÍNUM

4. Hvers vegna óhlýðnast margir krakkar foreldrum sínum?

4 Ungt fólk er umkringt jafnöldrum sem eru „óhlýðnir foreldrum“. (2. Tím. 3:1, 2) Hvers vegna vilja margir þeirra ekki hlýða? Sumum finnst foreldrar sínir vera hræsnisfullir. Foreldrar ætlast stundum til að börnin sín geri eitthvað sem þeir gera ekki sjálfir. Aðrir líta á ráð foreldranna sem úrelt, óhentug eða of ströng. Ef þú ert ungur að árum, líður þér þá stundum þannig? Mörgum finnst erfitt að hlýða boði Jehóva: „Hlýðið foreldrum ykkar í samræmi við vilja Drottins því að það er rétt.“ (Ef. 6:1) Hvað getur hjálpað þér að gera það?

5. Hvað er eftirtektarvert við það að Jesús skyldi hlýða foreldrum sínum, samanber Lúkas 2:46–52?

5 Þú getur lært hlýðni af bestu fyrirmyndinni – Jesú. (1. Pét. 2:21–24) Hann var fullkomin manneskja en átti ófullkomna foreldra. Jesús sýndi þeim samt virðingu, jafnvel þegar þeir gerðu mistök og misskildu hann stundum. (2. Mós. 20:12) Skoðum hvað gerðist þegar Jesús var 12 ára. (Lestu Lúkas 2:46–52.) Foreldrar hans skildu hann eftir í Jerúsalem. Það var ábyrgð Jósefs og Maríu að passa upp á að öll börnin þeirra færu með þeim heim eftir hátíðina. Þegar þau fundu Jesú að lokum kenndi María honum um að hafa valdið þeim vandræðum. Jesús hefði getað bent á hversu ósanngjarnt það væri. En hann svaraði foreldrum sínum án orðalenginga og af virðingu. Jósef og María „skildu ekki hvað hann átti við“. En Jesús „var þeim hlýðinn áfram“ þrátt fyrir það.

6, 7. Hvað getur hjálpað ungu fólki að hlýða foreldrum sínum?

6 Þið unga fólk, finnst ykkur erfitt að hlýða foreldrum ykkar þegar þeir gera mistök eða misskilja ykkur? Hvað er til ráða? Í fyrsta lagi skuluð þið leiða hugann að skoðun og tilfinningum Jehóva. Biblían segir að það ‚gleðji Drottin‘ þegar þið hlýðið foreldrum ykkar. (Kól. 3:20) Jehóva veit þegar foreldrar ykkar skilja ykkur ekki fyllilega eða þegar þeir setja reglur sem eru ekki beint fullkomnar. En þið gleðjið hann þegar þið veljið samt að hlýða þeim.

7 Veltið líka fyrir ykkur hvernig foreldrum ykkar líður. Þegar þið hlýðið þeim gleðjið þið þá og þeir treysta ykkur betur. (Orðskv. 23:22–25) Þið verðið trúlega líka nánari þeim. Alexandre, bróðir frá Belgíu, segir: „Þegar ég fór að gera oftar eins og foreldrar mínir báðu mig um breyttist samband okkar. Það varð nánara og ánægjulegra.“ b Í þriðja lagi skuluð þið hugsa um hvernig það hjálpar ykkur í framtíðinni að sýna hlýðni núna. Paulo býr í Brasilíu. Hann segir: „Að læra að hlýða foreldrum mínum hefur hjálpað mér að hlýða Jehóva og öðrum sem fara með vald.“ Orð Guðs bendir á góða ástæðu til að hlýða foreldrum sínum. Það segir: „Til að þér gangi vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“ – Ef. 6:2, 3.

8. Hvers vegna kýs margt ungt fólk að hlýða foreldrum sínum?

8 Margt ungt fólk hefur upplifað gagnið af því að sýna hlýðni. Luizu, sem er líka frá Brasilíu, fannst erfitt að skilja hvers vegna hún fékk ekki að hafa snjallsíma á tímabili. Flestir á hennar aldri áttu síma. En þá áttaði hún sig á því að foreldrar hennar voru í raun að vernda hana. Hún segir nú: „Ég lít ekki á reglur foreldra minna sem spennitreyju heldur öryggisbelti sem getur bjargað lífi mínu.“ Elizabeth er ung systir frá Bandaríkjunum. Hún á enn stundum erfitt með að hlýða foreldrum sínum. Hún segir: „Þegar ég skil ekki alveg hvers vegna foreldrar mínir setja vissa reglu hugsa ég um dæmi þegar reglur þeirra veittu mér vernd.“ Monica sem býr í Armeníu segir að það hafi alltaf komið betur út að hlýða foreldrum sínum í stað þess að óhlýðnast þeim.

HLÝDDU YFIRVÖLDUM

9. Hvað finnst mörgum um að hlýða lögum?

9 Margir eru sammála því að yfirvöld séu nauðsynleg og að við ættum að minnsta kosti að hlýða sumum af þeim lögum sem þau setja. (Rómv. 13:1) En þá langar kannski ekki að hlýða lögum sem þeim líkar ekki eða finnst ósanngjörn. Tökum skatta sem dæmi. Könnun sem var gerð í landi í Evrópu leiddi í ljós að fjórðungi aðspurðra fannst í lagi að borga ekki skatta sem þeim fannst óréttlátir. Það kemur ekki á óvart að borgarar þar skuli aðeins greiða um tvo þriðju hluta þeirra skatta sem yfirvöld leggja á þá.

Hvað lærum við um hlýðni af Jósef og Maríu? (Sjá 10.–12. grein.) c

10. Hvers vegna hlýðum við jafnvel lögum sem okkur líkar ekki?

10 Í Biblíunni er bent á að stjórnir manna valdi þjáningum, þær séu undir stjórn Satans og að þeim verði brátt eytt. (Sálm. 110:5, 6; Préd. 8:9; Lúk. 4:5, 6) Hún segir einnig að sá sem ‚setur sig upp á móti yfirvöldum standi gegn fyrirkomulagi Guðs‘. Afstæð hlýðni okkar við yfirvöld er hlýðni við tímabundna ráðstöfun Jehóva sem stuðlar að röð og reglu. Þess vegna verðum við að gefa „öllum það sem þeir eiga rétt á“, þar á meðal skatta, virðingu og hlýðni. (Rómv. 13:1–7) Okkur gæti fundist lög óhentug, óréttlát eða íþyngjandi. En við hlýðum Jehóva og hann segir okkur að hlýða þessum yfirvöldum svo framarlega sem þau segja okkur ekki að brjóta lög hans. – Post. 5:29.

11, 12. Hvað gerðu Jósef og María til að hlýða lögum sem höfðu óþægindi í för með sér og með hvaða árangri samkvæmt Lúkasi 2:1–6? (Sjá einnig myndir.)

11 Við getum lært af reynslu Jósefs og Maríu. Þau sýndu yfirvöldum hlýðni jafnvel þegar það olli þeim óþægindum. (Lestu Lúkas 2:1–6.) Þegar María var komin níu mánuði á leið reyndi á hlýðni hennar og Jósefs. Ágústus keisari Rómaveldis fyrirskipaði manntal. Jósef og María þurftu að ferðast til Betlehem en það var 150 km langt ferðalag um fjalllendi. Þetta yrði óþægileg ferð, sérstaklega fyrir Maríu. Þau hafa kannski haft áhyggjur af öryggi hennar og ófædds barns þeirra. Hvað ef fæðingin færi af stað á leiðinni? Hún gekk með Messías framtíðarinnar. Væri það afsökun til að óhlýðnast skipun yfirvalda?

12 Jósef og María létu slíkar áhyggjur ekki hafa áhrif á það hvort þau hlýddu lögunum. Jehóva blessaði hlýðni þeirra. María kom heilu og höldnu til Betlehem, fæddi heilbrigt barn og átti þátt í að uppfylla spádóm Biblíunnar. – Míka 5:2.

13. Hvernig gæti hlýðni okkar haft áhrif á trúsystkini okkar?

13 Þegar við hlýðum yfirvöldum er það okkur sjálfum og öðrum til góðs. Hvernig þá? Við forðumst refsingu fyrir að óhlýðnast lögunum. (Rómv. 13:4) Hlýðni okkar sem einstaklinga getur haft áhrif á viðhorf yfirvalda til votta Jehóva almennt. Fyrir mörgum árum komu til dæmis hermenn inn í ríkissal í Nígeríu meðan á samkomu stóð, í leit að óeirðarseggjum sem voru að mótmæla sköttum. En herforinginn skipaði hermönnunum að yfirgefa svæðið og sagði: „Vottar Jehóva borga alltaf skattana sína.“ Í hvert sinn sem þú hlýðir lögunum geturðu haft jákvæð áhrif á orðspor þjóna Jehóva – orðspor sem gæti einhvern daginn orðið trúsystkinum þínum til verndar. – Matt. 5:16.

14. Hvað hjálpaði systur einni að vera „fús að hlýða“ yfirvöldum?

14 En okkur langar kannski ekki alltaf að hlýða yfirvöldum. „Það var mjög erfitt fyrir mig að sýna hlýðni,“ viðurkennir Joanna trúsystir okkar í Bandaríkjunum, „vegna þess að sumir í fjölskyldunni minni höfðu þurft að líða óréttlæti af hendi yfirvalda.“ En Joanna ákvað að hún þyrfti að breyta viðhorfi sínu. Hún hætti að lesa frásögur á samfélagsmiðlum sem vöktu neikvæðni í garð yfirvalda. (Orðskv. 20:3) Í stað þess að vonast eftir breytingu á stjórn manna bað hún nú til Jehóva um hjálp. (Sálm. 9:9, 10) Og hún las greinar í ritum okkar sem fjölluðu um hlutleysi. (Jóh. 17:16) Joanna segir nú að það hafi gefið henni „ólýsanlegan frið“ að sýna yfirvöldum hlýðni og virðingu.

HLÝDDU LEIÐBEININGUM SAFNAÐARINS

15. Hvers vegna gætum við átt í erfiðleikum með að hlýða leiðbeiningum frá söfnuði Jehóva?

15 Jehóva fer fram á að við hlýðum „þeim sem fara með forystuna“ í söfnuðinum. (Hebr. 13:17) Leiðtogi okkar, Jesús, er fullkominn en ekki þeir sem hann velur til að taka forystuna á jörðinni. Það getur því reynst okkur erfitt að sýna þeim hlýðni, sérstaklega ef þeir biðja okkur að gera eitthvað sem okkur langar ekki að gera. Pétur postuli hikaði eitt sinn við að sýna hlýðni. Þegar hann fékk fyrirmæli frá engli um að borða kjöt af dýrum sem voru óhrein samkvæmt Móselögunum neitaði Pétur því – ekki bara einu sinni, heldur þrisvar! (Post. 10:9–16) Hvers vegna? Hann skildi ekki þessar nýju leiðbeiningar. Þetta var ekki eins og hann var vanur. Fyrst Pétri fannst erfitt að hlýða leiðsögn fullkomins engils kemur varla á óvart að okkur gæti fundist erfitt að hlýða leiðsögn ófullkominna manna.

16. Hvað gerði Páll postuli þótt honum hefði getað fundist leiðbeiningarnar sem hann fékk ósanngjarnar? (Postulasagan 21:23, 24, 26)

16 Páll postuli var „fús til að hlýða“, jafnvel þegar hann fékk leiðbeiningar sem honum hefði getað fundist ósanngjarnar. Kristnir Gyðingar höfðu heyrt sögusagnir um að Páll boðaði „fráhvarf frá Móse“ og sýndi Móselögunum óvirðingu. (Post. 21:21) Eldri kristnir menn í Jerúsalem sögðu því Páli að taka fjóra menn með sér í musterið og hreinsa sig trúarlega til að sýna að hann héldi lögmálið. En Páll vissi að kristnir menn væru ekki lengur undir lögmálinu. Og hann hafði ekki gert neitt rangt. Páll fór samt strax eftir leiðbeiningum þeirra. Hann „tók þá mennina með sér daginn eftir og hreinsaði sig ásamt þeim samkvæmt helgisiðunum“. (Lestu Postulasöguna 21:23, 24, 26.) Hlýðni Páls stuðlaði að einingu. – Rómv. 14:19, 21.

17. Hvað lærum við af Stephanie?

17 Systir sem heitir Stephanie átti erfitt með að sætta sig við ákvörðun bræðra í ábyrgðastöðum í landinu þar sem hún bjó. Hún naut þess ásamt eiginmanni sínum að starfa með erlendum málhópi. Bræðurnir á deildarskrifstofunni lögðu málhópinn niður og hjónin voru beðin að fara aftur í söfnuðinn sem talaði móðurmál þeirra. „Ég var mjög óánægð,“ viðurkennir Stephanie. „Ég var ekki sammála því að það væri meiri þörf í söfnuði sem talaði okkar tungumál.“ En hún ákvað að styðja þessar nýju leiðbeiningar. „Með tímanum sá ég hvað þetta var skynsamleg ákvörðun,“ segir hún. „Við erum orðin andlegir foreldrar nokkurra í söfnuðinum sem eru einu vottarnir í sinni fjölskyldu. Ég er að aðstoða systur við biblíunám sem er nýlega orðin virk aftur. Og núna hef ég meiri tíma fyrir sjálfsnám. Ég hef góða samvisku vitandi að ég hef gert mitt besta til að sýna hlýðni.“

18. Hvaða gagn höfum við af því að vera hlýðin?

18 Við getum lært að sýna hlýðni. Jesús ‚lærði hlýðni‘, ekki vegna þess að hann byggi við fullkomnar aðstæður heldur „af þeim þjáningum sem hann gekk í gegnum“. (Hebr. 5:8) Við lærum oft hlýðni vegna erfiðra aðstæðna, rétt eins og Jesús. Áttirðu til dæmis erfitt með að hlýða þegar okkur var sagt að hætta að hittast í ríkissölum okkar í byrjun COVID-19 faraldursins og boða trúna hús úr húsi? En hlýðni þín verndaði þig, hjálpaði söfnuðinum að vera sameinaður og gladdi Jehóva. Við erum nú betur undir það búin að hlýða leiðbeiningunum sem við fáum í þrengingunni miklu. Líf okkar gæti verið undir því komið! – Job. 36:11.

19. Hvers vegna vilt þú hlýða?

19 Við höfum séð að hlýðni hefur ómælda blessun í för með sér. En við kjósum að hlýða Jehóva fyrst og fremst vegna þess að við elskum hann og viljum gleðja hann. (1. Jóh. 5:3) Við getum aldrei endurgoldið Jehóva allt sem hann hefur gert fyrir okkur. (Sálm. 116:12) En við getum hlýtt honum og þeim sem fara með vald yfir okkur. Við sýnum visku þegar við hlýðum. Og þeir sem eru vitrir gleðja hjarta Jehóva. – Orðskv. 27:11.

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

a Þar sem við erum ófullkomin eigum við öll stundum erfitt með að sýna hlýðni, jafnvel þegar sá sem leiðbeinir okkur er í fullum rétti til að gera það. Þessi námsgrein fjallar um gagnið sem hlýst af því að hlýða foreldrum, yfirvöldum og bræðrum sem taka forystuna í söfnuði Jehóva.

b Sjá greinina „Hvernig get ég talað við foreldra mína um reglurnar sem þeir setja?“ á jw.org til að fá tillögur um það hvernig þú getur talað við foreldra þína um reglur sem þér finnst erfitt að hlýða.

c MYND: Jósef og María hlýddu tilskipun keisarans um að láta skrá sig í Betlehem. Þjónar Guðs nú á dögum hlýða umferðarlögum, skattalögum og reglum heilbrigðisyfirvalda.