NÁMSGREIN 45
Metum mikils að tilbiðja Jehóva í andlegu musteri hans
‚Tilbiðjið hann sem hefur gert himininn og jörðina.‘ – OPINB. 14:7.
SÖNGUR 93 Blessaðu samkomuna
YFIRLIT a
1. Hvað er engillinn að segja og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
MYNDIRÐU hlusta ef engill talaði við þig? Reyndar er engill að tala við þá ‚sem búa á jörðinni, hverja þjóð, ættflokk, tungu og kynþátt.‘ Hvað er hann að segja? ‚Óttist Guð og gefið honum dýrð. Tilbiðjið hann sem hefur gert himininn og jörðina.‘ (Opinb. 14:6, 7) Jehóva er hinn eini sanni Guð sem allir ættu að tilbiðja. Við erum honum innilega þakklát fyrir að gefa okkur tækifæri til að tilbiðja hann í andlegu musteri hans.
2. Hvað er andlegt musteri Jehóva? (Sjá einnig rammann „ Það sem það er ekki“.)
2 Hvað er andlega musterið nákvæmlega og hvar finnum við upplýsingar um það? Andlega musterið er ekki bókstafleg bygging. Það er fyrirkomulag Jehóva til að tilbiðja á þann hátt sem hann viðurkennir og það byggist á lausnarfórn Jesú. Páll postuli útskýrði þetta fyrirkomulag í bréfi sem hann skrifaði kristnum Hebreum sem bjuggu í Júdeu á fyrstu öld. b
3, 4. Hvers vegna hafði Páll áhyggjur af kristnum Hebreum í Júdeu og hvernig hjálpaði hann þeim?
3 Hvers vegna skrifaði hann til kristinna Hebrea í Júdeu? Líklega eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi til að uppörva þá. Flestir þeirra höfðu verið aldir upp í Gyðingatrú. Fyrrum trúarleiðtogar þeirra hafa ef til vill hæðst að þeim fyrir að gerast kristnir. Hvers vegna? Kristnir menn höfðu ekkert tilkomumikið musteri til að tilbiðja Guð í, ekkert bókstaflegt altari til að færa Guði fórnir á og enga presta. Þetta hefði getað dregið kjarkinn úr kristnum lærisveinum og veikt trú þeirra. (Hebr. 2:1; 3:12, 14) Sumir þeirra gætu jafnvel hafa freistast til að snúa aftur til Gyðingatrúar.
4 Í öðru lagi benti Páll kristnum Hebreum á að þeir legðu sig ekki nægilega fram við að skilja ný eða djúp andleg sannindi, „fasta fæðu“ í orði Guðs. (Hebr. 5:11–14) Sumir voru greinilega ekki tilbúnir að hætta að fylgja Móselögunum. Páll útskýrði hins vegar að fórnirnar sem lögin kváðu á um gætu ekki hreinsað menn algerlega af synd. Fyrir vikið höfðu lögin verið „felld úr gildi“. Því næst kenndi Páll þeim dýpri sannindi. Hann minnti trúsystkini sín á ‚betri von‘ byggða á fórn sem gæti hjálpað þeim að ‚nálgast Guð‘. – Hebr. 7:18, 19.
5. Hvað þurfum við að skilja sem er fjallað um í Hebreabréfinu og hvers vegna?
5 Páll útskýrði fyrir hebreskum trúsystkinum sínum hvers vegna tilbeiðsla þeirra væri langtum æðri tilbeiðslunni sem þeir höfðu áður stundað. Tilbeiðsla Gyðinga samkvæmt lögmálinu var aðeins „skuggi þess sem átti að koma en Kristur er veruleikinn“. (Kól. 2:17) Skuggi er aðeins óljós mynd þess sem hann fellur af. Tilbeiðsluform Gyðinga til forna var aðeins skuggi af þeim veruleika sem síðar kom í ljós. Við þurfum að skilja fyrirkomulag Jehóva til að fyrirgefa syndir svo að tilbeiðsla okkar sé honum þóknanleg. Berum saman „skuggann“ (tilbeiðslu Gyðinga til forna) við „veruleikann“ (tilbeiðslu kristinna manna) eins og er útskýrt í Hebreabréfinu. Þannig getum við fengið betri skilning á andlega musterinu og hvernig þetta fyrirkomulag snertir okkur.
TJALDBÚÐIN
6. Hvernig var tjaldbúðin notuð?
6 Tilbeiðslan til forna. Páll byggði það sem hann sagði á lýsingu á tjaldbúðinni sem Móse lét reisa árið 1512 f.Kr. (Sjá skýringarmyndina „Tilbeiðslan til forna – tilbeiðsla kristinna manna“.) Tjaldbúðin var tjald sem Ísraelsmenn fluttu með sér frá einum stað til annars. Þeir notuðu hana í næstum 500 ár þar til musteri var byggt í Jerúsalem. (2. Mós. 25:8, 9; 4. Mós. 9:22) „Samfundatjaldið“ var staðurinn þar sem Ísraelsmenn söfnuðust saman til að tilbiðja Guð og færa fórnir. (2. Mós. 29:43–46) En tjaldbúðin táknaði nokkuð sem átti eftir að verða miklu þýðingarmeira fyrir þjóna Guðs.
7. Hvenær varð andlega musterið að veruleika?
7 Tilbeiðsla kristinna manna. Tjaldbúðin til forna var „skuggi þess sem er á himnum“ og táknaði hið mikla andlega musteri Jehóva. Páll sagði að ‚þessi tjaldbúð væri táknmynd fyrir þeirra tíma‘. (Hebr. 8:5; 9:9) Andlega musterið var því þegar til þegar hann skrifaði Hebreabréfið. Það varð að veruleika árið 29. Jesús lét þá skírast, var smurður með heilögum anda og byrjaði að þjóna sem hinn ‚mikli æðstiprestur‘ Jehóva í andlega musterinu. c – Hebr. 4:14; Post. 10:37, 38.
ÆÐSTIPRESTURINN
8, 9. Hvaða meginmunur er samkvæmt Hebreabréfinu 7:23–27 á æðstaprestinum í Ísrael og hinum mikla æðstapresti, Jesú Kristi?
8 Tilbeiðslan til forna. Æðstipresturinn kom fram fyrir Guð fyrir hönd fólksins. Fyrsti æðstipresturinn í Ísrael, Aron, var útnefndur af Jehóva þegar tjaldbúðin var vígð. En eins og Páll útskýrði „þurftu margir að vera prestar hver á fætur öðrum því að dauðinn kom í veg fyrir að þeir sætu áfram“. d (Lestu Hebreabréfið 7:23–27.) Þar sem æðstuprestarnir voru ófullkomnir menn þurftu þeir að færa fórnir fyrir eigin syndir. Að þessu leyti er mikill munur á æðstaprestinum í Ísrael og hinum mikla æðstapresti, Jesú Kristi.
9 Tilbeiðsla kristinna manna. Sem æðstiprestur þjónar Jesús Kristur „í hinni sönnu tjaldbúð sem Jehóva reisti en ekki maður“. (Hebr. 8:1, 2) Páll benti á að „þar sem Jesús lifir að eilífu tekur enginn við prestdómi af honum“. Hann sagði líka að Jesús væri „flekklaus, aðgreindur frá syndurum“ og þess vegna ‚þyrfti hann ekki að færa fórnir daglega‘ fyrir eigin syndir. Skoðum nú muninn á altarinu og fórnunum samfara tilbeiðslunni til forna annars vegar og tilbeiðslu kristinna manna hins vegar.
ALTARIÐ OG FÓRNIRNAR
10. Til hvers bentu fórnirnar sem voru bornar fram á koparaltarinu?
10 Tilbeiðslan til forna. Fyrir framan inngang tjaldbúðarinnar var koparaltari þar sem dýrafórnir voru færðar Jehóva. (2. Mós. 27:1, 2; 40:29) En þessar fórnir gátu ekki veitt fólki algera fyrirgefningu synda. (Hebr. 10:1–4) Stöðugar dýrafórnir í tjaldbúðinni fyrirmynduðu eina fórn sem myndi endurleysa mannkynið að fullu.
11. Á hvaða altari bauð Jesús sig fram sem fórn? (Hebreabréfið 10:5–7, 10)
11 Tilbeiðsla kristinna manna. Jesús vissi að Jehóva hafði sent hann til jarðar til að gefa líf sitt sem lausnarfórn fyrir mannkynið. (Matt. 20:28) Hann bauð sig því fram við skírn sína til að gera vilja Jehóva. (Jóh. 6:38; Gal. 1:4) Jesús fórnaði sjálfum sér á táknrænu altari sem táknaði þann vilja Guðs að hann myndi fórna fullkomnu mannslífi sínu. Lífi Jesú var fórnað „í eitt skipti fyrir öll“ til að friðþægja fyrir, eða hylja, syndir allra sem trúa á Krist. (Lestu Hebreabréfið 10:5–7, 10.) Skoðum nú merkingu þess sem var inni í tjaldbúðinni.
HIÐ HEILAGA OG HIÐ ALLRA HELGASTA
12. Hverjir fengu að koma inn í herbergin í tjaldbúðinni?
12 Tilbeiðslan til forna. Tjaldbúðin og musterin sem voru byggð síðar í Jerúsalem voru í grundvallaratriðum eins skipulögð. Inni voru tvö rými – „hið heilaga“ og „hið allra helgasta“ – sem voru aðgreind með útsaumuðu tjaldi. (Hebr. 9:2–5; 2. Mós. 26:31–33) Inni í hinu heilaga var gullljósastika, altari til að brenna reykelsi á og borð undir skoðunarbrauðin. Aðeins ‚hinir smurðu prestar‘ máttu fara inn í hið heilaga til að sinna þjónustu sinni. (4. Mós. 3:3, 7, 10) Í hinu allra helgasta var gulli lögð sáttmálsörkin sem táknaði nærveru Jehóva. (2. Mós. 25:21, 22) Einungis æðstipresturinn mátti fara inn fyrir tjaldið einu sinni á ári á friðþægingardeginum. (3. Mós. 16:2, 17) Ár eftir ár fór hann þangað með dýrablóð til að friðþægja fyrir eigin syndir og syndir allrar þjóðarinnar. Með tímanum beitti Jehóva heilögum anda sínum til að upplýsa hver væri raunveruleg merking fyrirkomulagsins í tjaldbúðinni. – Hebr. 9:6–8. e
13. Hvaða merkja hið heilaga og hið allra helgasta í tjaldbúðinni fyrir kristna menn?
13 Tilbeiðsla kristinna manna. Ákveðinn fjöldi lærisveina Krists hefur verið smurður heilögum anda og þannig öðlast sérstakt samband við Jehóva. Og þessir 144.000 einstaklingar eiga að þjóna sem prestar á himni með Jesú. (Opinb. 1:6; 14:1) Hið heilaga í tjaldbúðinni táknar að þeir hafi verið ættleiddir sem andlegir synir Guðs meðan þeir eru enn á jörðinni. (Rómv. 8:15–17) Hið allra helgasta í tjaldbúðinni táknar himininn þar sem Jehóva dvelur. „Fortjaldið“ sem skildi að hið heilaga og hið allra helgasta táknar jarðneskan líkama Jesú. Eins lengi og hann væri í honum kæmist hann ekki til himna til að vera æðstiprestur í andlega musterinu. Með því að fórna jarðneskum líkama sínum fyrir mannkynið opnaði Jesús öllum andasmurðum þjónum Jehóva möguleikann á lífi á himnum. Þeir þurfa líka að afsala sér jarðneskum líkama sínum til að fá himnesk laun sín. (Hebr. 10:19, 20; 1. Kor. 15:50) Eftir að Jesús var reistur upp gekk hann inn í hið allra helgasta í andlega musterinu þar sem allir andasmurðir þjónar Guðs verða á endanum með honum.
14. Hverjir eru yfirburðir fyrirkomulags Jehóva með andlega musterið samkvæmt Hebreabréfinu 9:12, 24–26?
14 Með þessu sjáum við yfirburði fyrirkomulags Jehóva með hreina tilbeiðslu byggða á lausnarfórninni og prestdómi Jesú Krists. Æðstipresturinn í Ísrael fór inn í hið allra helgasta gert af mönnum með blóð fórnardýranna en Jesús fór „inn í sjálfan himininn“, helgasta staðinn af öllum, til að birtast frammi fyrir Jehóva. Þar afhenti hann verðgildi fullkomins mannslífs síns sem hann var búinn að fórna í okkar þágu „til að afmá syndina“. (Lestu Hebreabréfið 9:12, 24–26.) Fórn Jesú er hin fullkomna fórn sem hreinsar burt syndir að eilífu. En eins og við skoðum næst getum við öll tilbeðið Jehóva í andlegu musteri hans hvort sem við höfum von um að lifa á himni eða jörð.
FORGARÐARNIR
15. Hverjir þjónuðu í forgarði tjaldbúðarinnar?
15 Tilbeiðslan til forna. Í tjaldbúðinni var einn forgarður – afgirt, opið svæði þar sem prestarnir sinntu þjónustu sinni. Stórt brennifórnaraltari úr kopar var í forgarðinum ásamt koparkeri með vatni sem prestarnir notuðu til að hreinsa sig áður en þeir gegndu heilagri þjónustu. (2. Mós. 30:17–20; 40:6–8) Í musterunum sem voru byggð síðar var auk þess ytri forgarður en þar gátu þeir sem voru ekki prestar komið og tilbeðið Guð.
16. Hverjir þjóna í hvorum forgarðinum fyrir sig í andlega musterinu?
16 Tilbeiðsla kristinna manna. Áður en þeir sem eru eftir af andasmurðum þjónum Jehóva fara til himna til að þjóna sem prestar ásamt Jesú þjóna þeir í innri forgarði andlega musterisins á jörð. Stóra vatnskerið sem var í tjaldbúðinni og musterunum er mikilvæg áminning um að allir þjónar Guðs þurfi að halda sér siðferðilega og andlega hreinum. „Múgurinn mikli“ styður Krist og andasmurð trúsystkini sín af trúfesti. Hvar þjónar hann Jehóva? Jóhannes postuli sá hann „standa frammi fyrir hásætinu“ en það samsvarar ytri forgarðinum á jörðinni þar sem hann ‚veitir Guði heilaga þjónustu dag og nótt í musteri hans‘. (Opinb. 7:9, 13–15) Við erum innilega þakklát að fá að tilbiðja Jehóva í hinu mikla andlega musteri hans!
ÞAÐ ER HEIÐUR AÐ TILBIÐJA JEHÓVA
17. Hvaða fórnir fáum við að færa Jehóva?
17 Nú á dögum fá allir þjónar Guðs að færa Jehóva fórnir með því að nota tíma sinn, krafta og efnislegar eigur til að efla hag Guðsríkis. Eins og Páll sagði kristnum Hebreum getum við ‚alltaf fært Guði lofgerðarfórn, það er ávöxt vara okkar sem boða nafn hans opinberlega‘. (Hebr. 13:15) Við getum sýnt að við metum mjög mikils tilbeiðsluna á Jehóva með því að færa honum okkar bestu fórnir.
18. Hvað ættum við aldrei að vanrækja og hverju ættum við aldrei að gleyma samkvæmt Hebreabréfinu 10:22–25?
18 Lestu Hebreabréfið 10:22–25. Í lok bréfs síns til Hebrea bendir Páll á mismunandi þætti tilbeiðslu okkar sem við ættum aldrei að vanrækja, þar á meðal bænir okkar til Jehóva, boðun trúarinnar, að sækja samkomur og hvetja hvert annað ‚því meir sem við sjáum að dagur Jehóva nálgast‘. Undir lok Opinberunarbókarinnar segir engill Jehóva tvisvar til áherslu: „Þú átt að tilbiðja Guð.“ (Opinb. 19:10; 22:9) Við megum aldrei gleyma þessum djúpu andlegu sannindum um hið mikla andlega musteri Jehóva og hversu mikill heiður það er að fá að tilbiðja okkar stórkostlega Guð!
SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn
a Það sem segir í orði Guðs um hið mikla andlega musteri er með dýpri sannindum þess. Hvaða musteri er þetta? Í þessari námsgrein verður farið ofan í saumana á því sem segir um það í Hebreabréfinu. Námsgreinin getur hjálpað þér að meta enn betur þann heiður að fá að tilbiðja Jehóva.
b Horfðu á myndbandið Kynning á Hebreabréfinu á jw.org til að fá yfirlit yfir Hebreabréfið.
c Hebreabréfið er eina bókin í Grísku ritningunum sem nefnir Jesú æðstaprest.
d Samkvæmt einu skýringarriti gæti verið að 84 æðstuprestar hafi þjónað í Ísrael fram að eyðingu Jerúsalem árið 70.
g Sjá rammagreinina „Andinn opinberar hvað andlega musterið er“ í Varðturninum 15. júlí 2010, bls. 22.