Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hversu hár var forsalurinn í musteri Salómons?

Forsalurinn var eins og anddyri að hinu heilaga í musterinu. Samkvæmt Nýheimsþýðingu Biblíunnar sem var gefin út fyrir 2023 segir: „Forsalurinn var 20 álnir á breidd, jafn breiður og húsið, og 120 álnir á hæð.“ (2. Kron. 3:4) Aðrar þýðingar segja líka að forsalurinn hafi verið 120 álna hár en það þýðir að turn musterisins hafi verið 53 metrar á hæð.

En samkvæmt Nýheimsþýðingu Biblíunnar sem kom út eftir árið 2023 segir um forsalinn í musteri Salómons: „Forsalurinn var … 20 álnir á hæð,“ eða um 9 metrar. a Skoðum fáeinar ástæður fyrir þessari leiðréttingu.

Hæð forsalarins er ekki nefnd í 1. Konungabók 6:3. Í þessu biblíuversi nefnir Jeremía breidd og lengd forsalarins, ekki hæðina. Í köflunum sem fylgja á eftir lýsir hann í smáatriðum öðrum hlutum musterisins, þar á meðal eirhafinu, vögnunum tíu og koparsúlunum við forsalinn. (1. Kon. 7:15–37) Hefði Jeremía ekki nefnt hæð forsalarins ef hann var meira en 50 metra hár turn sem gnæfði yfir musterissvæðið? Sagnaritarar Gyðinga skrifuðu hundruðum ára síðar að forsalurinn hefði ekki verið hærri en sjálft musteri Salómons.

Fræðimenn efast um að musterisveggirnir hafi getað borið uppi 120 álna háan turn. Byggingar til forna úr steini og múrsteinum, eins og musterishlið í Egyptalandi, höfðu breiðan grunn og mjókkuðu upp á við. En musteri Salómons var ólíkt. Fræðimenn gera ráð fyrir því að veggir þess hafi ekki verið meira en 6 álnir á þykkt eða 2,7 metrar. Sagnaritari sem skrifar um arkitektúr, Theodor Busink, segir að forsalur musterisins „hafi ekki getað verið 120 álnir á hæð ef tekið er mið af þykkt veggjanna“.

Textinn í 2. Kroníkubók 3:4 gæti hafa verið misritaður. Í sumum fornum handritum stendur „120“ í þessu versi en í öðrum traustum heimildum eins og Codex Alexandrinus frá fimmtu öld og Codex Ambrosianus frá sjöttu öld segir „20 álnir“. Hvers vegna gæti afritarinn hafa misritað „120“? Orðin fyrir „hundrað“ og „álnir“ eru mjög lík á hebresku. Afritarinn gæti því hafa skrifað „hundrað“ í staðinn fyrir „álnir“.

Við reynum að átta okkur vel á musteri Salómons og lýsa því nákvæmlega en við horfum samt sérstaklega á það sem musterið fyrirmyndaði – hið mikla andlega musteri. Við erum innilega þakklát að Jehóva skuli bjóða öllum þjónum sínum að tilbiðja sig í því musteri. – Hebr. 9:11–14; Opinb. 3:12; 7:9–17.

a Neðanmálsathugasemd við versið segir: „Í sumum fornum handritum stendur ‚120‘ en í öðrum handritum og sumum þýðingum segir ‚20‘ álnir“.