NÁMSGREIN 40
Þú getur verið þolgóður eins og Pétur
„Farðu frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“– LÚK. 5:8.
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
YFIRLIT a
1. Hvernig brást Pétur við þegar Jesús hjálpaði honum með kraftaverki að veiða mikinn fisk?
PÉTUR hafði verið á veiðum alla nóttina án þess að fá neitt. Það kom honum á óvart þegar Jesús sagði: „Haltu út á djúpið og leggið netin til fiskjar.“ (Lúk. 5:4) Pétur efaðist um að hann myndi veiða nokkuð en hann gerði það sem Jesús sagði. Pétur og þeir sem voru með honum fengu svo mikinn fisk að netin byrjuðu að rifna. Þegar þeir áttuðu sig á að þeir höfðu orðið vitni að kraftaverki var þeim „mjög brugðið“. Pétur sagði: „Farðu frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ (Lúk. 5:6–9) Honum fannst hann líklega ekki verðugur þess að vera í návist Jesú.
2. Hvers vegna er gagnlegt fyrir okkur að hugleiða fordæmi Péturs?
2 Það var rétt hjá Pétri að hann væri „syndugur maður“. Það kemur fram í Biblíunni að hann sagði og gerði ýmislegt sem hann sá eftir. Líður þér stundum eins og Pétri? Hefurðu verið að berjast við skapgerðargalla eða veikleika í langan tíma? Ef svo er getur saga Péturs veitt þér uppörvun. Hvernig? Hugleiddu þetta: Jehóva hefði auðveldlega geta sleppt því að minnast á mistök Péturs í Biblíunni. En hann lét skrifa um þau til að við gætum lært af þeim. (2. Tím. 3:16, 17) Að læra um mann eins og hann, sem átti í glímu við veikleika og tilfinningar eins og við, getur hjálpað okkur að skilja að Jehóva væntir ekki fullkomleika af okkur. Hann vill ekki að við gefumst upp heldur höldum áfram að reyna, þrátt fyrir veikleika okkar.
3. Hvers vegna þurfum við að vera þolgóð?
3 Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að vera þolgóð? Sagt er að æfingin skapi meistarann. Tökum dæmi: Sá sem vill læra á hljóðfæri þarf að æfa sig í mörg ár til að ná tökum á því. Á þeim tíma slær hann þúsundir feilnótna en ef hann heldur áfram að æfa sig tekur hann framförum. Og þótt hann verði mjög fær hljóðfæraleikari verður honum öðru hverju á mistök. En hann gefst samt ekki upp. Hann heldur áfram að æfa sig og ná betri leikni. Eins getum við upplifað afturkipp eftir að við höfum sigrast á veikleika. En við höldum áfram að vinna að því að bæta okkur. Við segjum öll og gerum ýmislegt sem við sjáum eftir en ef við erum ákveðin í að gefast ekki upp hjálpar Jehóva okkur að gera smám saman betur. (1. Pét. 5:10) Skoðum hvernig Pétur er dæmi um þetta. Samúðin sem Jesús sýndi honum þrátt fyrir mistök hans getur hvatt okkur til að halda áfram að þjóna Jehóva.
BARÁTTA PÉTURS OG BLESSUN
4. Hvað sagði Pétur um sjálfan sig samkvæmt Lúkasi 5:5–10 en um hvað fullvissaði Jesús hann?
4 Biblían segir ekki hvers vegna Pétur talaði um sjálfan sig sem ‚syndugan mann‘ eða hvaða syndir hann hafði í huga. (Lestu Lúkas 5:5–10.) Kannski gerði hann alvarleg mistök. Jesús skynjaði ótta Péturs sem spratt kannski af vanmáttarkennd. Hann vissi líka að Pétur gat verið trúfastur áfram. Jesús sagði honum því vingjarnlega að ‚vera ekki hræddur‘. Traustið sem hann sýndi Pétri breytti lífi hans. Hann og Andrés bróðir hans yfirgáfu síðar atvinnu sína við fiskveiðar og urðu fylgjendur Messíasar í fullu starfi. Það var ákvörðun sem hafði merkilega blessun í för með sér. – Mark. 1:16–18.
5. Hvaða blessun hlaut Pétur þegar hann yfirvann ótta sinn og tók boði Jesú?
5 Pétur upplifði margt stórkostlegt sem fylgjandi Krists. Hann sá Jesú lækna veika, reka út illa anda og jafnvel reisa fólk upp frá dauðum. b (Matt. 8:14–17; Mark. 5:37, 41, 42) Pétur varð líka vitni að sýn af dýrð Jesú í Guðsríki. Hún hafði mjög mikil áhrif á hann. (Mark. 9:1–8; 2. Pét. 1:16–18) Pétur sá það sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér að hann ætti eftir að sjá. Hann hlýtur að hafa verið ánægður að hann skyldi ekki hafa látið neikvæðar tilfinningar gagnvart sjálfum sér verða til þess að hann missti af þessari blessun.
6. Var Pétur fljótur að sigrast á veikleikum sínum? Skýrðu svarið.
6 Pétur átti í baráttu við veikleika sína þrátt fyrir það sem hann hafði séð og heyrt. Skoðum fáein dæmi. Þegar Jesús útskýrði að hann myndi þjást og deyja til að uppfylla spádóm Biblíunnar ávítaði Pétur hann. (Mark. 8:31–33) Pétur og hinir lærisveinarnir deildu aftur og aftur um það hver þeirra væri mestur. (Mark. 9:33, 34) Kvöldið áður en Jesús dó réðst Pétur að manni og hjó af honum eyra. (Jóh. 18:10) Sama kvöld lét hann óttann ná tökum á sér og neitaði þrisvar að hann þekkti Jesú. (Mark. 14:66–72) Þá grét Pétur beisklega. – Matt. 26:75.
7. Hvaða tækifæri fékk Pétur eftir upprisu Jesú?
7 Jesús gafst ekki upp á kjarklausum postula sínum. Eftir að Jesús var reistur upp gaf hann Pétri tækifæri til að sýna að hann elskaði hann enn. Hann bauð honum að þjóna sem hirðir sauða hans. (Jóh. 21:15–17) Pétur brást vel við. Hann var í Jerúsalem á hvítasunnudag og meðal þeirra fyrstu sem voru smurðir heilögum anda.
8. Hvaða alvarlegu mistök gerði Pétur í Antíokkíu?
8 Pétur varð að takast á við veikleika sína jafnvel eftir að hann varð andasmurður kristinn maður. Árið 36 var Pétur viðstaddur þegar Kornelíus, óumskorinn maður af þjóðunum, var smurður heilögum anda en það var skýr sönnun þess að „Guð mismunar ekki fólki“ og að fólk af þjóðunum mátti vera í kristna söfnuðinum. (Post. 10:34, 44, 45) Eftir það fannst Pétri hann geta setið að borði með fólki af þjóðunum en það hefði hann aldrei gert áður. (Gal. 2:12) Sumum kristnum Gyðingum fannst hins vegar að Gyðingar og fólk af þjóðunum ættu ekki að sitja saman til borðs. Þegar sumir þeirrar skoðunar komu til Antíokkíu hætti Pétur að borða með trúsystkinum sínum af þjóðunum, trúlega vegna þess að hann óttaðist að móðga kristna Gyðinga. Páll postuli sá hræsnina sem þetta endurspeglaði og ávítaði Pétur fyrir framan alla. (Gal. 2:13, 14) Þrátt fyrir þessi mistök gafst Pétur ekki upp. Hvað hjálpaði honum?
HVAÐ HJÁLPAÐI PÉTRI AÐ VERA ÞOLGÓÐUR?
9. Hvernig kemur hollusta Péturs vel í ljós í Jóhannesi 6:68, 69?
9 Pétur var trúr. Hann lét ekkert stöðva sig í að fylgja Jesú. Hann sýndi trúfesti sína við eitt tækifæri þegar Jesús sagði nokkuð sem lærisveinarnir skildu ekki. (Lestu Jóhannes 6:68, 69.) Margir hættu að fylgja Jesú í stað þess að bíða eftir eða reyna að fá skýringu. En ekki Pétur. Hann áttaði sig á því að aðeins Jesús hefði „orð eilífs lífs“.
10. Hvernig sýndi Jesús að hann hafði traust á Pétri? (Sjá einnig mynd.)
10 Jesús yfirgaf ekki Pétur. Síðasta kvöldið sem Jesús lifði á jörð vissi hann að Pétur og hinir postularnir myndu yfirgefa sig. Samt sagði hann Pétri að hann tryði því að hann myndi snúa aftur og vera trúfastur. (Lúk. 22:31, 32) Jesús skildi að „andinn er ... ákafur en holdið er veikt“. (Mark. 14:38) Fyrir vikið gafst Jesús ekki upp á postula sínum, jafnvel eftir að Pétur neitaði því að hann þekkti hann. Jesús birtist Pétri, augljóslega þegar Pétur var einn. (Mark. 16:7; Lúk. 24:34; 1. Kor. 15:5) Það hlýtur að hafa verið mjög mikil uppörvun fyrir Pétur sem var svo sorgmæddur vegna mistaka sinna.
11. Hvernig fullvissaði Jesús Pétur um að Jehóva myndi styðja hann?
11 Jesús fullvissaði Pétur um stuðning Jehóva. Hinn upprisni Jesús sá Pétri og postulunum aftur fyrir undraverðum fiskafla. (Jóh. 21:4–6) Þetta kraftaverk fullvissaði Pétur örugglega um að það væri hægur vandi fyrir Jehóva að sjá fyrir efnislegum þörfum hans. Kannski hefur hann þá rifjað upp orð Jesú um að Jehóva sæi fyrir þörfum þeirra sem ‚einbeittu sér fyrst og fremst að ríki Guðs‘. (Matt. 6:33) Í samræmi við þetta setti Pétur þjónustuna í fyrsta sætið í lífinu í stað fiskveiðanna. Hann boðaði trúna af hugrekki á hvítasunnu árið 33 og þúsundir tóku við fagnaðarboðskapnum fyrir vikið. (Post. 2:14, 37–41) Því næst hjálpaði hann íbúum Samaríu og fólki af þjóðunum að taka á móti Kristi. (Post. 8:14–17; 10:44–48) Pétur var sannarlega öflugt verkfæri í höndum Jehóva til að leiða alls konar fólk til safnaðarins.
HVAÐ LÆRUM VIÐ?
12. Hvað getum við lært af Pétri ef við glímum við þrálátan veikleika?
12 Jehóva getur hjálpað okkur að vera þolgóð. Það getur verið erfitt að halda okkar striki, sérstaklega ef við glímum við þrálátan veikleika. Stundum gæti okkur virst veikleikar okkar erfiðari en þeir sem Pétur átti í baráttu við. En Jehóva getur gefið okkur styrk til að gefast ekki upp. (Sálm. 94:17–19) Bróðir einn stundaði líferni samkynhneigðra í mörg ár áður en hann kynntist sannleikanum. Hann breytti algerlega um lífsstíl í samræmi við mælikvarða Biblíunnar. En stundum glímdi hann við rangar langanir. Hvað hjálpaði honum að gefast ekki upp? Hann segir: „Jehóva gefur okkur styrk. Með hjálp hans ... hef ég lært að það er hægt að halda áfram á vegi sannleikans ... Ég hef getað komið að gagni í þjónustu Jehóva og þrátt fyrir ófullkomleika minn heldur hann áfram að gefa mér styrk.“
13. Hvernig getum við líkt eftir því sem Pétur gerði og kemur fram í Postulasögunni 4:13, 29, 31? (Sjá einnig mynd.)
13 Eins og við höfum séð gerði Pétur alvarleg mistök vegna ótta við fólk. En hann gat tekið í sig kjark vegna þess að hann bað Jehóva um hugrekki. (Lestu Postulasöguna 4:13, 29, 31.) Við getum líka yfirunnið ótta okkar. Veltum fyrir okkur því sem henti Horst, ungan bróður sem bjó í Þýskalandi á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Oftar en einu sinni lét hann undan þrýstingi í skólanum og sagði: „Heil Hitler!“ Í stað þess að skamma Horst báðu foreldrar hans til Jehóva með honum og báðu hann að gefa honum hugrekki. Með hjálp þeirra og með því að treysta Jehóva fékk Horst að lokum styrk til að standa stöðugur. Síðar sagði hann: „Jehóva yfirgaf mig aldrei.“ c
14. Hvernig geta umhyggjusamir hirðar hughreyst þá sem eru niðurdregnir?
14 Jehóva og Jesús munu aldrei gefast upp á okkur. Pétur stóð á krossgötum í lífi sínu eftir að hafa afneitað Kristi. Myndi hann hætta eða myndi hann halda áfram að vera lærisveinn Krists? Jesús hafði beðið Jehóva ákaflega að trú Péturs myndi ekki bregðast. Jesús sagði Pétri frá því og tjáði honum traust sitt á að hann myndi síðar geta styrkt bræður sína. (Lúk. 22:31, 32) Það hlýtur að hafa huggað Pétur að rifja upp það sem Jesús sagði. Þegar við stöndum á krossgötum í lífinu gæti Jehóva notað umhyggjusama hirða til að sjá okkur fyrir þeirri huggun sem við þurfum til að vera trúföst. (Ef. 4:8, 11) Paul er bróðir sem hefur lengi þjónað sem öldungur. Hann reynir að veita slíka huggun. Hann hvetur þá sem langar að gefast upp til að rifja upp hvernig Jehóva dró þá til sannleikans. Hann fullvissar þá síðan um að tryggur kærleikur Jehóva leyfi honum ekki að gefast upp á þeim. Hann segir: „Ég hef séð marga sem hafa verið niðurdregnir halda út með hjálp Jehóva.“
15. Hvernig undirstrikar reynsla Péturs og Horsts sannleiksgildi Matteusar 6:33?
15 Jehóva sá fyrir efnislegum þörfum Péturs og hinna postulanna og hann mun líka sjá fyrir efnislegum þörfum okkar ef við setjum þjónustuna við hann í fyrsta sæti í lífi okkar. (Matt. 6:33) Horst, sem áður er minnst á, velti því fyrir sér að gerast brautryðjandi eftir síðari heimstyrjöldina. Hann var mjög fátækur og efaðist um að hann gæti séð fyrir sér og verið í fullu starfi. En hann ákvað að reyna Jehóva og notaði heila viku í þjónustunni þegar farandhirðirinn heimsótti söfnuðinn. Í lok vikunnar brá honum í brún þegar farandhirðirinn rétti honum umslag frá ónafngreindum einstaklingi. Í því voru nægir peningar til að framfleyta honum í brautryðjendastarfinu í marga mánuði. Horst leit á þessa gjöf sem svar frá Jehóva um að hann myndi sjá fyrir honum. Hann hafði Guðsríki í fyrsta sæti það sem eftir var ævinnar. – Mal. 3:10.
16. Hvers vegna ættum við að gefa gaum að skrifum og fordæmi Péturs?
16 Mikið hefur Pétur verið glaður að Jesús skyldi ekki fara frá honum, eins og hann hafði eitt sinn beðið hann um! Jesús hélt áfram að þjálfa Pétur til að vera trúfastur postuli og einstakt fordæmi fyrir þjóna Jehóva. Við getum öll lært margt af þeirri þjálfun sem Pétur fékk og sumt af því er að finna í tveim innblásnum bréfum sem Pétur sendi til safnaðanna á fyrstu öld. Næsta námsgrein fjallar um fáeina punkta úr þessum bréfum og hvernig við getum heimfært þá upp á líf okkar.
SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk
a Þessi námsgrein er hugsuð til að fullvissa þá sem glíma við veikleika að þeir geti yfirunnið þá og verið trúfastir þjónar Jehóva.
b Mörg biblíuvers í þessari námsgrein eru frá Markúsarguðspjalli. Hann virðist hafa skráð það sem hann heyrði hjá Pétri en hann var sjónarvottur að atburðunum.
c Sjá ævisögu Horsts Henschels „Hvattur áfram af hollustu fjölskyldu minnar við Guð“ í Vaknið 8. júlí 1998.
d MYND: Á þessari sviðsettu mynd sést að foreldrar Horsts Henschels báðu með honum svo að hann fengi styrk til að standa stöðugur.