Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 38

Þið unga fólk – hvernig verður líf ykkar?

Þið unga fólk – hvernig verður líf ykkar?

‚Hyggindin munu vernda þig.‘ – ORÐSKV. 2:11.

SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn“

YFIRLIT a

1. Hvaða erfiðu aðstæðum stóðu þeir Jóas, Ússía og Jósía frammi fyrir?

 ÍMYNDAÐU þér að þú værir skipaður konungur fólks Guðs sem barn eða táningur. Hvernig myndirðu nota vald þitt? Í Biblíunni er sagt frá nokkrum sem urðu konungar á unga aldri. Jóas var til dæmis 7 ára þegar hann varð konungur, Ússía var 16 ára og Jósía 8 ára. Þeim hlýtur að hafa fundist það yfirþyrmandi! En þótt verkefnið hafi verið erfitt fengu þeir þá hjálp sem þeir þurftu til að sigrast á erfiðleikunum og ná góðum árangri.

2. Hvers vegna er gagnlegt að skoða frásögurnar af Jóasi, Ússía og Jósía?

2 Við erum ekki konungar og drottningar en við getum samt dregið dýrmætan lærdóm af frásögunum um þessa þrjá einstaklinga. Þeir tóku bæði góðar og vondar ákvarðanir. Við getum lært af reynslu þeirra hvers vegna við þurfum að velja okkur góðan félagsskap og halda áfram að vera auðmjúk og leita Jehóva.

VELDU ÞÉR GÓÐAN FÉLAGSSKAP

Það er hægt að líkja eftir fordæmi Jóasar með því að hlusta á ráð góðra vina. (Sjá 3. og 7. grein.) c

3. Hvernig brást Jóas konungur við leiðsögn Jójada æðstaprests?

3 Lærðu af góðum ákvörðunum Jóasar. Jóas tók góða ákvörðun þegar hann var ungur. Faðir hans var dáinn en hann fór eftir leiðbeiningum Jójada sem var trúfastur æðstiprestur. Jójada leiðbeindi Jóasi eins og hann væri sonur hans. Og Jóas brást við með því að taka forystuna í hreinni tilbeiðslu og þjóna Jehóva. Hann sá jafnvel til þess að musteri Jehóva yrði lagfært. – 2. Kron. 24:1, 2, 4, 13, 14.

4. Hvaða gagn höfum við af því að meta mikils boðorð Jehóva? (Orðskviðirnir 2:1, 10–12)

4 Þú hefur fengið verðmæta gjöf ef þú færð kennslu sem hjálpar þér að rækta kærleikann til Jehóva og lifa í samræmi við lög hans. (Lestu Orðskviðina 2:1, 10–12.) Foreldrar geta veitt slíka kennslu á marga vegu. Skoðum hvernig faðir systur sem heitir Katja hjálpaði henni að taka góðar ákvarðanir. Hann ræddi dagstextann við hana á hverjum degi á leiðinni í skólann. Hún segir: „Þessar umræður hjálpuðu mér að takast á við erfiðar aðstæður sem komu upp yfir daginn.“ En hvað nú ef kennslan sem foreldrar þínir veita þér og er byggð á Biblíunni virðist takmarka frelsi þitt? Hvað getur hjálpað þér að taka til þín leiðsögn þeirra? Systir að nafni Anastasja minnist þess að foreldrar hennar útskýrðu hvers vegna þeir settu vissar reglur. Hún segir: „Það hjálpaði mér að líta ekki á þessar takmarkanir sem hömlur heldur kærleiksríka vernd.“

5. Hvaða áhrif hefur breytni þín á foreldra þína og Jehóva? (Orðskviðirnir 22:6; 23:15, 24, 25)

5 Þú gleður foreldra þína þegar þú ferð eftir leiðsögn þeirra sem þeir byggja á Biblíunni. Enn mikilvægara er að þú gleður Jehóva og styrkir sambandið við hann. (Lestu Orðskviðina 22:6; 23:15, 24, 25). Gefur það þér ekki góða ástæðu til að líkja eftir fordæmi Jóasar þegar hann var ungur?

6. Ráð hverra fór Jóas að hlusta á og með hvaða afleiðingum? (2. Kroníkubók 24:17, 18)

6 Dragðu lærdóm af vondum ákvörðunum Jóasar. Eftir að Jójada dó valdi Jóas sér slæman félagsskap. (Lestu 2. Kroníkubók 24:17, 18.) Hann kaus að hlusta á höfðingja Júda sem elskuðu ekki Jehóva. Þú ert líklega sammála því að Jóas hefði betur forðast þessa vandræðagemlinga. (Orðskv. 1:10) En hann hlustaði á svokallaða vini sína. Þegar Sakaría frændi hans reyndi að leiðrétta hann lét hann jafnvel taka hann af lífi. (2. Kron. 24:20, 21; Matt. 23:35) Það var bæði hræðilegt og heimskulegt! Jóas byrjaði vel en varð fráhvarfsmaður og morðingi. Að lokum drápu hans eigin þjónar hann. (2. Kron. 24:22–25) Líf hans hefði orðið allt öðruvísi ef hann hefði haldið áfram að hlusta á Jehóva og þá sem elskuðu hann. Hvað geturðu lært af frásögunni um Jóas?

7. Hverja ættirðu að velja þér að vinum? (Sjá einnig mynd.)

7 Eitt sem við getum lært af vondri ákvörðun Jóasar er að við þurfum að velja félagsskap sem hefur góð áhrif á okkur – vini sem elska Jehóva og vilja gleðja hann. Við þurfum ekki að takmarka vinahópinn við þá sem eru á sama aldri og við. Jóas var miklu yngri en Jójada vinur hans. Spyrðu sjálfan þig varðandi val þitt á vinum: Hjálpa þeir mér að styrkja trú mína á Jehóva? Hvetja þeir mig til að breyta í samræmi við mælikvarða hans? Tala þeir um Jehóva og dýrmæt sannindi hans? Sýna þeir í verki að þeir virði mælikvarða hans? Segja þeir mér það sem ég vil heyra eða hafa þeir hugrekki til að leiðrétta mig þegar þörf er á? (Orðskv. 27:5, 6, 17) Ef vinir þínir elska ekki Jehóva þarftu í sannleika sagt ekki á þeim að halda. En það er gagnlegt fyrir þig að rækta vináttu við þá sem elska hann. – Orðskv. 13:20.

8. Hvað ættum við að hafa í huga ef við notum samfélagsmiðla?

8 Samfélagsmiðlar geta verið góð leið til að halda sambandi við fjölskyldu og vini. En margir nota þá til að ganga í augun á öðrum og hlaða upp myndum og myndskeiðum af því sem þeir hafa gert eða keypt. Ef þú notar samfélagsmiðla er gott að spyrja: Reyni ég að ganga í augun á öðrum? Er markmið mitt að byggja aðra upp eða vil ég vekja aðdáun þeirra? Leyfi ég fólki sem notar þessa samskiptaleið að hafa neikvæð áhrif á hugsun mína, tal og breytni? Bróðir Nathan Knorr, sem var í stjórnandi ráði, gaf þetta ráð: „Reyndu ekki að þóknast mönnum. Það endar með því að þú þóknast engum. Þóknastu Jehóva. Þá þóknastu líka öllum sem elska hann.“

VIÐ ÞURFUM AÐ VERA AUÐMJÚK

9. Hvað hjálpaði Jehóva Ússía að gera? (2. Kroníkubók 26:1–5)

9 Lærðu af góðum ákvörðunum Ússía. Ússía var auðmjúkur á sínum yngri árum. Hann lærði „að óttast hinn sanna Guð“. Jehóva blessaði hann meirihluta 68 ára ævi hans. (Lestu 2. Kroníkubók 26:1–5.) Ússía sigraði marga af óvinum þjóðarinnar og styrkti varnir Jerúsalem. (2. Kron. 26:6–15) Hann var eflaust ánægður með allt sem Jehóva hafði hjálpað honum að áorka. – Préd. 3:12, 13.

10. Hvernig fór fyrir Ússía?

10 Dragðu lærdóm af vondum ákvörðunum Ússía. Ússía konungur var vanur að gefa öðrum skipanir. Fékk það hann til að hugsa sem svo að hann gæti gert það sem honum sýndist? Dag einn sýndi hann þá ósvífni að ganga inn í musteri Jehóva til að brenna reykelsi, en konungar höfðu ekki leyfi til þess. (2. Kron. 26:16–18) Asarja æðstiprestur reyndi að leiðrétta Ússía en hann brást reiður við. Ússía hafði þjónað Jehóva trúfastlega en þarna eyðilagði hann því miður mannorð sitt og var refsað með holdsveiki. (2. Kron. 26:19–21) Líf hans hefði endað allt öðruvísi ef hann hefði varðveitt auðmýkt sína.

Í stað þess að monta okkur ættum við að gefa Jehóva heiðurinn af því sem við áorkum. (Sjá 11. grein.) d

11. Hvað getur leitt í ljós hvort við séum auðmjúk? (Sjá einnig mynd.)

11 Þegar Ússía varð voldugur gleymdi hann hver var uppspretta styrks hans og velgengni. Hver er lærdómurinn? Það er gott fyrir okkur að minna okkur á að allt það góða sem við eigum og njótum kemur frá Jehóva. Í stað þess að miklast af því sem við áorkum ættum við að gefa Jehóva heiðurinn. b (1. Kor. 4:7) Við þurfum að vera auðmjúk og viðurkenna að við erum ófullkomin og þurfum á leiðréttingu að halda. Bróðir á sjötugsaldri skrifaði: „Ég hef lært að taka mig ekki of alvarlega. Þegar ég er leiðréttur vegna heimskulegra mistaka sem ég geri stundum reyni ég að bæta mig og sækja fram.“ Við lifum hamingjuríku lífi ef við óttumst Jehóva og varðveitum auðmjúkt hugarfar. – Orðskv. 22:4.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ LEITA JEHÓVA

12. Hvernig leitaði Jósía Jehóva þegar hann var ungur? (2. Kroníkubók 34:1–3)

12 Lærðu af góðum ákvörðunum Jósía. Jósía var táningur þegar hann fór að leita Jehóva. Hann vildi kynnast Jehóva og gera vilja hans. En lífið var ekki auðvelt fyrir þennan unga konung. Hann þurfti að sýna hugrekki og taka afstöðu með hreinni tilbeiðslu þegar fölsk tilbeiðsla var ríkjandi. Og það gerði hann sannarlega! Fyrir tvítugt var hann farinn að hreinsa falska tilbeiðslu úr landinu. – Lestu 2. Kroníkubók 34:1–3.

13. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að vígjast Jehóva?

13 Þótt þú sért mjög ungur geturðu ákveðið að líkja eftir Jósía með því að leita Jehóva og læra að meta eiginleika hans. Þá finnurðu hjá þér löngun til að vígjast honum. Hvaða áhrif hefur það á líf þitt? Luke lét skírast 14 ára. Hann segir: „Héðan í frá hef ég þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti í lífinu og reyni að gleðja hann.“ (Mark. 12:30) Þú uppskerð mikla blessun ef þig langar að gera slíkt hið sama.

14. Nefndu dæmi um ungt fólk sem líkir eftir Jósía konungi.

14 Hvaða erfiðleika gætirðu þurft að glíma við sem ungur þjónn Jehóva? Johan lét skírast 12 ára. Hann segir að skólafélagarnir þrýsti á sig að veipa – að nota rafsígarettur. Til að geta staðist þrýstinginn minnir Johan sig á hvaða áhrif það hefði á heilsuna og vináttuna við Jehóva að veipa. Rachel, sem lét skírast 14 ára, útskýrir hvað hjálpar henni að takast á við áskoranir sem hún mætir í skólanum. Hún segir: „Ég reyni að koma auga á það sem ég get tengt við Biblíuna og Jehóva. Þegar við erum að læra mannkynssögu getur það minnt mig á frásögu eða spádóm í Biblíunni. Samtal kallar kannski fram biblíuvers sem ég gæti sýnt einhverjum.“ Erfiðleikarnir sem þú þarft að takast á við eru kannski ekki þeir sömu og hjá Jósía konungi, en þú getur verið skynsamur og trúfastur eins og hann. Að takast á við prófraunir á unglingsárunum býr þig undir erfiðleikana sem mæta þér á komandi árum.

15. Hvað hjálpaði Jósía að þjóna Jehóva trúfastur? (2. Kroníkubók 34:14, 18–21)

15 Þegar Jósía konungur var 26 ára hófst hann handa við að láta gera við musterið. Meðan á framkvæmdinni stóð fannst „lögbók Jehóva sem hafði verið gefin fyrir milligöngu Móse“. Þegar Jósía heyrði það sem sagði í bókinni brást hann tafarlaust við og fór eftir því. (Lestu 2. Kroníkubók 34:14, 18–21.) Reynir þú að lesa reglulega í Biblíunni? Hvernig gengur? Safnarðu biblíuversum sem þú getur sérstaklega haft gagn af? Luke, sem er minnst á áður, skrifar áhugaverða punkta í dagbók. Gætir þú gert eitthvað svipað til að muna biblíuvers og athyglisverð atriði? Því betur sem þú þekkir og metur Biblíuna því meiri verður löngun þín að þjóna Jehóva. Og orð hans mun hvetja þig til verka, rétt eins og tilfellið var með Jósía.

16. Hvað leiddi til þess að Jósía gerði alvarleg mistök og hvað lærum við af því?

16 Dragðu lærdóm af slæmri ákvörðun Jósía. Þegar Jósía var um 39 ára gerði hann mistök sem kostuðu hann lífið. Hann treysti á sjálfan sig í stað þess að leita leiðsagnar Jehóva. (2. Kron. 35:20–25) Í þessu felst mikilvægur lærdómur. Óháð því hversu gömul við erum eða hve lengi við höfum lesið Biblíuna þurfum við að halda áfram að leita Jehóva. Það felur í sér að biðja reglulega um leiðsögn hans, rannsaka orð hans og nýta okkur ráðleggingar þroskaðra trúsystkina. Þá eru minni líkur á að við gerum alvarleg mistök og líklegra að við séum hamingjusöm. – Jak. 1:25.

ÞIÐ UNGA FÓLKIÐ GETIÐ LIFAÐ HAMINGJURÍKU LÍFI

17. Hvaða lærdóm getum við dregið af frásögunum af Júdakonungunum þrem?

17 Æskuárin eru tímabil góðra tækifæra. Frásögurnar af Jóasi, Ússía og Jósía sýna að ungt fólk getur tekið viturlegar ákvarðanir og glatt Jehóva með lífsstefnu sinni. Það er auðvitað ekki sjálfgefið að allt endi vel, eins og við höfum séð. En við getum lifað hamingjuríku lífi ef við líkjum eftir því góða sem þessir konungar gerðu og forðumst að gera sömu mistök og þeir. Þá getum við reiknað með að útkoman verði góð.

Davíð eignaðist ungur náið samband við Jehóva. Hann hlaut velþóknun hans og náði góðum árangri í lífinu. (Sjá 18. grein.)

18. Hvaða dæmi í Biblíunni sýna að þú getur lifað hamingjuríku lífi? (Sjá einnig mynd.)

18 Í Biblíunni er sagt frá öðru ungu fólki sem ræktaði náið samband við Jehóva, hafði velþóknun hans og náði góðum árangri í lífinu. Davíð er dæmi um það. Hann kaus ungur að taka afstöðu með Jehóva og varð seinna trúfastur konungur. Hann gerði stundum mistök en Jehóva sá heildarmyndina og áleit hann trúfastan. (1. Kon. 3:6; 9:4, 5; 14:8) Það getur verið hvetjandi og uppörvandi fyrir þig að skoða vandlega líf Davíðs og trúfasta þjónustu. Þú gætir líka kynnt þér líf og starf Markúsar eða Tímóteusar. Þú sérð þá að þeir þjónuðu Jehóva frá unga aldri og héldu trúfastlega áfram að gera það. Fyrir vikið lifðu þeir hamingjuríku lífi.

19. Hvernig getur líf þitt verið?

19 Hvernig þú notar líf þitt núna hefur áhrif á líf þitt í framtíðinni. Ef þú treystir Jehóva frekar en að reiða þig á eigin vitsmuni mun hann stýra skrefum þínum. (Orðskv. 20:24) Þú getur lifað hamingjuríku og innihaldsríku lífi. Mundu að Jehóva kann að meta það sem þú gerir fyrir hann. Er til betri lífsstefna en að þjóna kærleiksríkum föður okkar á himni?

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

a Þið unga fólk, Jehóva veit að þið þurfið að takast á við aðstæður sem geta reynt á vináttu ykkar við hann. Hvernig getið þið tekið viturlegar ákvarðanir sem gleðja föður ykkar á himni? Við skulum skoða frásögu þriggja drengja sem urðu konungar Júda. Sjáum hvað við getum lært af ákvörðunum þeirra.

b Sjá rammann „Varaðu þig á ‚hógværu gorti‘“ í greininni „Hversu mikilvægt er að vera vinsæll á netinu?“ á jw.org.

c MYND: Systir gefur yngri systur ráð.

d MYNDIR: Systir sem tekur þátt í dagskránni á svæðismóti reiðir sig á Jehóva og gefur honum heiðurinn.