Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 41

Lærum af tveim bréfum Péturs

Lærum af tveim bréfum Péturs

‚Ég ætla mér að minna ykkur stöðugt á þetta.‘ – 2. PÉT. 1:12.

SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa

YFIRLIT a

1. Hvað var Pétri postula innblásið að gera rétt fyrir dauða sinn?

 PÉTUR postuli vissi að líf hans var brátt á enda. Hann hafði þjónað Jehóva trúfastur áratugum saman. Hann hafði starfað með Jesú, opnað ný svæði í boðuninni og verið í stjórnandi ráði. En þjónustu Péturs var enn ekki lokið. Um árið 62–64 var honum innblásið að skrifa tvö bréf, fyrra og síðara Pétursbréf. Hann vonaðist til að bréfin myndu hjálpa þjónum Guðs eftir sinn dag. – 2. Pét. 1:12–15.

2. Hvers vegna voru bréfin frá Pétri tímabær?

2 Trúsystkini Péturs þurftu að þola „ýmsar prófraunir“ á þeim tíma sem hann skrifaði innblásin bréf sín. (1. Pét. 1:6) Illir menn reyndu að lauma inn falskenningum og siðleysi í söfnuðinn. (2. Pét. 2:1, 2, 14) Kristnir menn í Jerúsalem myndu fljótlega standa frammi fyrir ‚endi allra hluta‘. Her Rómverja var í þann mund að eyða borginni og þjóðskipulag Gyðinga myndi líða undir lok. (1. Pét. 4:7) Bréf Péturs hjálpuðu eflaust þjónum Jehóva að skilja hvernig þeir gætu haldið út í prófraunum og búið sig undir erfiðleika í framtíðinni. b

3. Hvers vegna ættum við að kynna okkur bréf Péturs?

3 Þótt Pétur hafi stílað bréfin á kristna menn á fyrstu öld ákvað Jehóva að þau skyldu tilheyra orði sínu. Fyrir vikið getum við haft gagn af þessum bréfum. (Rómv. 15:4) Við lifum líka í heimi sem ýtir undir siðlausa hegðun og stöndum frammi fyrir erfiðleikum sem geta gert okkur erfitt fyrir að þjóna Jehóva. Við munum brátt upplifa enn meiri þrengingu en þá sem batt enda á þjóðskipulag Gyðinga. Í bréfum Péturs er að finna mikilvægar áminningar fyrir okkur. Þær hjálpa okkur að vænta dags Jehóva, sigrast á ótta við menn og hafa brennandi kærleika hvert til annars. Þær geta líka hjálpað öldungum að annast þarfir hjarðarinnar.

VARÐVEITUM EFTIRVÆNTINGUNA

4. Hvað gæti skekið trú okkar, samanber 2. Pétursbréf 3:3, 4?

4 Við erum umkringd fólki sem hefur enga trú á spádómum Biblíunnar. Andstæðingar hæðast stundum að okkur vegna þess að við höfum vænst endisins af ákafa í mörg ár. Sumir halda því fram að endirinn komi aldrei. (Lestu 2. Pétursbréf 3:3, 4.) Það gæti skekið trú okkar að heyra slíkt í boðuninni eða frá vinnufélaga eða ættingja. Pétur benti á hvað getur hjálpað okkur.

5. Hvað getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til endis þessa illa heims? (2. Pétursbréf 3:8, 9)

5 Sumum gæti fundist Jehóva seinn á sér að binda enda á þennan illa heim. Það sem Pétur segir getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf. Hann bendir okkur á að Jehóva lítur tímann öðrum augum en menn. (Lestu 2. Pétursbréf 3:8, 9.) Í augum Jehóva eru þúsund ár eins og einn dagur. Hann er þolinmóður og vill ekki að neinn farist. En þegar dagur hans rennur upp verður bundinn endi á þennan heim. Það er mikill heiður að mega nota þann tíma sem eftir er til að boða fólki af öllum þjóðum trúna.

6. Hvernig höfum við dag Jehóva „stöðugt í huga“? (2. Pétursbréf 3:11, 12)

6 Pétur hvetur okkur til að hafa dag Jehóva „stöðugt í huga“. (Lestu 2. Pétursbréf 3:11, 12.) Hvernig förum við að því? Með því að hugleiða – á hverjum degi, ef það er hægt – þá blessun sem nýr heimur mun færa okkur. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér anda að þér hreinu og fersku lofti, borða næringarríkan mat, taka á móti ástvinum sem koma í upprisunni og fræða fólk sem lifði fyrr á öldum um uppfyllingu biblíuspádóma. Slík hugleiðing hjálpar okkur að varðveita eftirvæntinguna og fullvissuna um að stutt sé í endi þessa heims. Við vitum þetta um framtíðina og látum því ekki ‚leiðast afvega‘ af falskennurum. – 2. Pét. 3:17.

SIGRUMST Á ÓTTA VIÐ MENN

7. Hvernig gæti ótti við menn haft áhrif á okkur?

7 Þar sem við vitum að dagur Jehóva er nálægur viljum við gera okkar besta til að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum. En samt gætum við stundum hikað við það. Hvers vegna? Við gætum látið undan ótta við menn. Það henti Pétur. Nóttina sem réttað var yfir Jesú viðurkenndi Pétur ekki að hann væri lærisveinn hans og neitaði jafnvel ítrekað að hann þekkti hann. (Matt. 26:69–75) Sami postuli sagði samt síðar af sannfæringu: „Óttist samt ekki það sem aðrir óttast og verið ekki kvíðin.“ (1. Pét. 3:14) Það sem Pétur segir sýnir að við getum sigrast á ótta við menn.

8. Hvað getur hjálpað okkur að yfirvinna ótta við menn? (1. Pétursbréf 3:15)

8 Hvað getur hjálpað okkur að sigrast á ótta við menn? Pétur segir: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar.“ (Lestu 1. Pétursbréf 3:15.) Það felur meðal annars í sér að hugleiða stöðu og vald Jesú Krists, drottins okkar og konungs. Ef þú ert óöruggur eða hræddur þegar tækifæri gefst til að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum skaltu muna eftir konungi okkar. Sjáðu hann fyrir þér ríkjandi á himnum, umkringdan milljónum engla. Mundu að hann hefur „allt vald á himni og jörð“ og verður með þér „alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar“. (Matt. 28:18–20) Pétur hvetur okkur til að vera „alltaf tilbúin“ til að verja trú okkar. Langar þig til að segja öðrum frá trú þinni í vinnunni, í skólanum eða við aðrar óformlegar aðstæður? Hugsaðu fyrir fram um hvenær þú gætir haft tækifæri til þess. Undirbúðu síðan það sem þú ætlar að segja. Biddu Jehóva um hugrekki og treystu á hjálp hans til að sigrast á ótta við menn. – Post. 4:29.

BERUM BRENNANDI KÆRLEIKA HVERT TIL ANNARS

Pétur tók leiðréttingu frá Páli. Bréfin tvö sem Pétur skrifaði kenna okkur að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika. (Sjá 9. grein.)

9. Hvernig mistókst Pétri við eitt tækifæri að sýna kærleika? (Sjá einnig mynd.)

9 Pétur lærði að sýna kærleika. Hann var viðstaddur þegar Jesús sagði: „Ég gef ykkur nýtt boðorð, að þið elskið hver annan. Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur.“ (Jóh. 13:34) En seinna lét Pétur samt undan þrýstingi og neitaði að borða með bræðrum sínum og systrum af þjóðunum. Páll postuli sagði það hafa verið hræsni af hálfu Péturs. (Gal. 2:11–14) Pétur tók við leiðréttingunni og lærði af henni. Í báðum bréfum sínum leggur hann áherslu á að við ættum ekki aðeins að finna fyrir kærleika til bræðra okkar og systra heldur líka sýna kærleika.

10. Hvað þurfum við að gera til að geta sýnt ‚hræsnislausa bróðurást‘? (1. Pétursbréf 1:22)

10 Pétur segir að við ættum að sýna trúsystkinum okkar „hræsnislausa bróðurást“. (Lestu 1. Pétursbréf 1:22.) Við getum það með því að „hlýða sannleikanum“. Hann felur í sér að „Guð mismunar ekki fólki“. (Post. 10:34, 35) Við getum ekki hlýtt fyrirmælum Jesú varðandi kærleika ef við elskum suma í söfnuðinum en ekki aðra. Auðvitað gætum við verið nánari sumum trúsystkinum en öðrum, rétt eins og Jesús. (Jóh. 13:23; 20:2) En Pétur segir að við ættum að leggja okkur fram við að sýna öllum trúsystkinum okkar bróðurást. Kærleikurinn sem við berum til þeirra ætti að sýna að við séum í sömu fjölskyldu. – 1. Pét. 2:17.

11. Hvað felst í því að elska aðra „af öllu hjarta“?

11 Pétur hvatti okkur til að elska „hvert annað af öllu hjarta“. Í þessu samhengi merkir það að teygja okkur lengra til að sýna kærleika en okkur er eiginlegt. Hvað ef bróðir okkar til dæmis móðgar okkur eða særir? Fyrstu viðbrögð gætu verið að vilja hefna okkar frekar en að sýna kærleika. En Pétur hafði lært af Jesú að það væri ekki Guði að skapi að gjalda í sömu mynt. (Jóh. 18:10, 11) Pétur skrifaði: „Gjaldið ekki illt fyrir illt eða móðgun fyrir móðgun. Endurgjaldið heldur með blessun.“ (1. Pét. 3:9) Láttu brennandi kærleika hvetja þig til að vera vingjarnlegur og hugulsamur, jafnvel við þá sem gætu hafa sært þig.

12. (a) Hvað annað hjálpar brennandi kærleikur okkur að gera? (b) Hvað langar þig að leggja þig fram um að gera eins og kemur fram í myndbandinu Varðveittu dýrmæta gjöf – eininguna?

12 Í fyrra bréfi sínu talaði Pétur um „brennandi kærleika“. Þannig kærleikur hylur ekki aðeins fáeinar syndir heldur „fjölda synda“. (1. Pét. 4:8) Pétur hugsaði kannski til þess sem Jesús kenndi honum um fyrirgefninguna mörgum árum áður. Á þeim tíma fannst Pétri hann líklega vera mjög örlátur þegar hann stakk upp á því að hann fyrirgæfi bróður sínum „allt að sjö sinnum“. En Jesús kenndi honum – og um leið okkur – að fyrirgefa ‚allt að 77 sinnum‘, eða ótakmarkað. (Matt. 18:21, 22) Ekki missa móðinn ef þér hefur fundist erfitt að gera þetta. Allir ófullkomnir þjónar Jehóva hafa stundum átt erfitt með að fyrirgefa. Það sem er mikilvægt núna er að þú gerir það sem þú getur til að fyrirgefa bróður þínum og semjir frið við hann. c

ÖLDUNGAR, ANNIST HJÖRÐINA

13. Hvers vegna getur það verið áskorun fyrir öldunga að finna tíma til að annast bræður og systur?

13 Pétur gleymdi örugglega aldrei því sem Jesús sagði við hann eftir upprisu sína. Hann sagði: „Gættu lamba minna.“ (Jóh. 21:16) Ef þú ert öldungur veistu að þessar leiðbeiningar eiga líka við þig. En það getur verið erfitt fyrir öldung að finna tíma til að sinna þessu mikilvæga verkefni. Öldungar þurfa fyrst að ganga úr skugga um að þeir sinni líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum fjölskyldu sinnar. Þeir taka líka forystuna í boðun trúarinnar og að undirbúa dagskrá fyrir samkomur og mót. Sumir eru auk þess í spítalasamskiptanefnd eða hönnunar- og byggingardeildinni á staðnum. Öldungar eru sannarlega önnum kafnir!

Kærleiksríkir öldungar gera sitt besta til að gæta hjarðar Guðs þótt þeir séu önnum kafnir. (Sjá 14. og 15. grein.)

14. Hvað getur verið öldungum hvatning til að sinna þörfum bræðra og systra? (1. Pétursbréf 5:1–4)

14 Pétur hvatti samöldunga sína til að gæta „hjarðar Guðs“. (Lestu 1. Pétursbréf 5:1–4.) Ef þú ert öldungur vitum við að þú elskar bræður þína og systur og vilt gæta þeirra. En þér gæti stundum fundist þú vera svo upptekinn eða þreyttur að þú náir ekki að sinna verkefninu sem skyldi. Hvað er þá til ráða? Treystu Jehóva fyrir áhyggjum þínum. Pétur skrifaði: „Ef einhver þjónar þá reiði hann sig á máttinn sem Guð gefur.“ (1. Pét. 4:11) Trúsystkini þín glíma kannski við vandamál sem verða ekki leyst að fullu fyrr en í nýja heiminum. En mundu að „yfirhirðirinn“, Jesús Kristur, getur hjálpað þeim umfram það sem þú getur gert. Hann getur gert það bæði nú og í nýja heiminum. Guð vill einfaldlega að öldungar elski trúsystkini sín, gæti þeirra og séu „fyrirmynd hjarðarinnar“.

15. Hvernig sinnir öldungur einn bræðrum og systrum? (Sjá einnig mynd.)

15 William hefur lengi verið öldungur og skilur mikilvægi þess að annast hjörðina. Þegar COVID-19 faraldurinn byrjaði ákváðu hann og samöldungar hans að leggja sig fram um að hafa samband við alla í sínum starfshóp í hverri viku. Hann útskýrir hvers vegna: „Mörg trúsystkini voru ein heima og hefðu hæglega geta byrjað að hugsa neikvætt.“ William hlustar af athygli þegar trúsystkini á við vandamál að glíma til að skilja þarfir þess og áhyggjur. Hann reynir síðan að finna grein eða myndband á vefsíðunni okkar sem getur hjálpað viðkomandi bróður eða systur. Hann segir: „Það er meiri þörf en nokkru sinni fyrr á að gæta hjarðarinnar. Við leggjum mikið á okkur til að hjálpa fólki að læra um Jehóva. Við þurfum að leggja jafn mikið á okkur til að annast hjörðina og hjálpa sauðum Jehóva að vera staðfastir í sannleikanum.“

LEYFUM JEHÓVA AÐ LJÚKA ÞJÁLFUN OKKAR

16. Hvernig gætum við farið eftir því sem við höfum lært af bréfum Péturs?

16 Við höfum aðeins stiklað á stóru í tveim innblásnum bréfum Péturs. Þú hefur kannski komið auga á svið þar sem þú vilt bæta þig. Myndirðu til dæmis oftar vilja hugleiða blessunina sem við eigum í vændum í nýja heiminum? Hefurðu sett þér það markmið að segja frá trú þinni í vinnunni, í skólanum eða við aðrar óformlegar aðstæður? Kemurðu auga á hvernig þú getur sýnt brennandi kærleika til bræðra þinna og systra í enn meiri mæli? Öldungar, eruð þið ákveðnir í að annast hjörð Jehóva fúslega og af ákefð? Heiðarleg sjálfsrannsókn leiðir kannski í ljós að þú getur gert betur á vissum sviðum. En láttu það ekki draga úr þér kjark. „Drottinn [Jesús] er góður“ og hjálpar þér að taka framförum. (1. Pét. 2:3) Pétur fullvissar okkur með þessu orðum: ‚Guð mun ljúka þjálfun ykkar. Hann mun efla ykkur, styrkja og gera óhagganleg.‘ – 1. Pét. 5:10.

17. Hver er árangurinn ef við sýnum þolgæði og höldum áfram að leyfa Jehóva að þjálfa okkur?

17 Pétri fannst hann einu sinni óverðugur þess að vera í návist sonar Guðs. (Lúk. 5:8) En með kærleiksríkum stuðningi Jehóva og Jesú hélt hann áfram að fylgja Kristi. Þar með var öruggt að Pétur fengi að ganga inn „í eilíft ríki Drottins okkar og frelsara Jesú Krists“. (2. Pét. 1:11) Hvílík umbun! Ef þú sýnir þolgæði eins og Pétur og lætur Jehóva ljúka þjálfun þinni launar Jehóva þér líka með eilífu lífi. Þannig nærðu ‚takmarki trúar þinnar og frelsast‘. – 1. Pét. 1:9.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

a Í þessari námsgrein skoðum við hvernig það sem Pétur skrifaði í bréfum sínum getur hjálpað okkur að halda út í erfiðleikum. Öldungar fá líka að sjá hvernig þeir geta axlað ábyrgð sína sem hirðar.

b Þjónar Jehóva sem bjuggu í Palestínu fengu að öllum líkindum bæði bréfin frá Pétri áður en Rómverjar réðust á Jerúsalem árið 66.

c Sjá myndbandið Varðveitum dýrmæta gjöf – eininguna á jw.org.