Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

Treystum á Jehóva eins og Samson gerði

Treystum á Jehóva eins og Samson gerði

„Alvaldur Drottinn Jehóva, mundu eftir mér og veittu mér styrk.“ – DÓM. 16:28.

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

YFIRLIT a

1, 2. Hvers vegna ætti saga Samsonar að vekja áhuga okkar?

 HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir nafnið Samson? Trúlega hugsarðu um gríðarlega sterkan mann. Og hann var það. Samson tók hins vegar óviturlega ákvörðun og olli sjálfum sér miklum þjáningum. En Jehóva horfði á trúfasta þjónustu Samsonar í heild og lét skrá sögu hans í orð sitt okkur til gagns.

2 Fyrir tilstilli Samsonar vann Jehóva mögnuð verk í þágu þjóðar hans, Ísraels. Öldum eftir dauða Samsonar innblés Jehóva Páli postula að hafa nafn hans með á lista yfir menn með einstaka trú. (Hebr. 11:32–34) Fordæmi hans getur verið okkur hvatning. Hann treysti á Jehóva, jafnvel í erfiðum aðstæðum. Skoðum hvernig við getum lært ýmislegt af honum og fengið hvatningu.

SAMSON TREYSTI Á JEHÓVA

3. Hvaða verkefni fékk Samson?

3 Þegar Samson fæddist ríktu Filistear yfir Ísraelsþjóðinni og kúguðu hana. (Dóm. 13:1) Grimmileg yfirráð þeirra ollu Ísraelsmönnum miklum þjáningum. Jehóva fól Samson að „frelsa Ísrael úr höndum Filistea“. (Dóm. 13:5) En það var hægara sagt en gert. Samson myndi þurfa að treysta á Jehóva til að leysa þetta erfiða verkefni.

Samson treysti á Jehóva og var fús til að gera breytingar til að þjóna honum á sem bestan hátt. Hann notaði það sem stóð honum til boða til að gera vilja Guðs. (Sjá 4. og 5. grein.)

4. Hvernig hjálpaði Jehóva Samson að sleppa frá Filisteum? (Dómarabókin 15:14–16)

4 Skoðum dæmi um það hvernig Samson treysti á Jehóva og reiddi sig á stuðning hans. Einu sinni hafði herlið Filistea komið til að taka Samson til fanga í Lekí, líklega í Júda. Júdamenn voru hræddir og ákváðu að gefa Samson í hendur óvinarins. Hans eigið fólk batt hann vandlega með tveim nýjum reipum og framseldi hann Filisteum. (Dóm. 15:9–13) „En andi Jehóva gaf honum kraft“ og hann losaði sig úr reipunum. „Hann fann nýtt kjálkabein úr asna“, greip það og drap með því 1.000 menn Filistea. – Lestu Dómarabókina 15:14–16.

5. Hvernig sýndi Samson að hann treysti á Jehóva þegar hann notaði asnakjálkann?

5 Hvers vegna notaði Samson asnakjálka? Það var óvenjulegt vopn, vægast sagt! Samson vissi vafalaust að árangurinn var háður Jehóva en ekki hvaða vopn hann notaði. Þessi trúfasti maður notaði það sem stóð honum til boða til að framkvæma vilja Jehóva. Samson vann mikinn sigur vegna þess að hann treysti á hann.

6. Hvað getum við lært af Samson þegar við vinnum verkefni okkar í söfnuðinum?

6 Við getum líka fengið styrk frá Jehóva til að vinna verkefni okkar, jafnvel þau sem virðast okkur um megn. Jehóva getur gert það á þann hátt að það kemur okkur mjög á óvart. Treystu að Jehóva sem gaf Samson styrk hjálpi þér líka að gera vilja hans eins lengi og þú treystir á hjálp hans. – Orðskv. 16:3.

7. Hvaða dæmi sýnir að það er mikilvægt að leita leiðsagnar Jehóva?

7 Margir bræður og systur sem hafa tekið þátt í byggingaframkvæmdum á vegum safnaðarins hafa sýnt traust á Jehóva. Áður fyrr var hönnun og bygging flestra ríkissala og annarra bygginga í höndum safnaðarins. En með tímanum kallaði vöxtur safnaðarins á breytingar. Bræðurnir sem tóku forystuna leituðu leiðsagnar Jehóva og reyndu nýjar aðferðir eins og að kaupa byggingar og gera þær upp. „Í fyrstu reyndist sumum erfitt að sætta sig við þessar breytingar,“ segir Robert, en hann hefur á undanförum árum unnið við margar byggingaframkvæmdir okkar víða um heim. Hann segir: „Þetta var mjög ólíkt því sem við höfðum gert lengi. En bræðurnir voru fúsir að laga sig að breytingunum og það er ljóst að Jehóva blessar þær.“ Þetta er bara eitt dæmi um það hvernig Jehóva leiðbeinir þjónum sínum að gera vilja sinn. Við ættum öll að spyrja okkur öðru hverju: Leita ég leiðsagnar Jehóva og er ég tilbúinn að gera breytingar til að þjóna honum sem best?   

SAMSON NÝTTI SÉR ÞAÐ SEM JEHÓVA SÁ HONUM FYRIR

8. Hvað gerði Samson einu sinni þegar hann varð mjög þyrstur?

8 Þú manst kannski eftir fleiri tilfellum þegar Samson vann mögnuð afrek. Hann drap til dæmis ljón einn síns liðs og seinna meir 30 menn í Askalon, borg Filistea. (Dóm. 14:5, 6, 19) Samson vissi að hann hefði aldrei getað gert þetta nema með hjálp Jehóva. Það sýndi sig þegar hann varð mjög þyrstur eftir að hafa drepið 1.000 Filistea. Hvað gerði hann? Hann kallaði til Jehóva um hjálp frekar en að treysta að hann fyndi sjálfur vatn. – Dóm. 15:18.

9. Hvernig brást Jehóva við bæn Samsonar um hjálp? (Dómarabókin 15:19)

9 Jehóva svaraði bæn Samsonar með því að sjá fyrir vatnslind með kraftaverki. „Þegar hann drakk hjarnaði hann við og hresstist allur.“ (Lestu Dómarabókina 15:19.) Þessi nýja vatnslind var greinilega enn til staðar árum síðar þegar Samúel spámanni var innblásið að skrifa Dómarabókina. Ísraelsmenn sem sáu rennandi vatnið voru kannski minntir á að þeir gætu treyst að Jehóva hjálpaði trúföstum þjónum sínum á neyðartímum.

Samson endurheimti styrk sinn eftir að hafa drukkið vatnið sem Jehóva sá honum fyrir. Við þurfum að nýta okkur ráðstafanir Jehóva til að vera honum trúföst, rétt eins og Samson. (Sjá 10. grein.)

10. Hvað þurfum við að gera til að fá hjálp Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

10 Við þurfum líka að leita til Jehóva til að fá hjálp óháð því hvaða hæfileika við höfum eða hverju við höfum áorkað í þjónustu hans. Við þurfum að vera hógvær og viðurkenna að raunverulegur árangur er aðeins mögulegur þegar við reiðum okkur á hann. Við styrkjumst andlega þegar við nýtum okkur allar þær ráðstafanir sem Jehóva hefur gert fyrir okkur, rétt eins og Samson fékk styrk þegar hann drakk vatnið sem Jehóva gaf honum. – Matt. 11:28.

11. Hvernig nýtum við okkur hjálp Jehóva til fulls? Nefndu dæmi.

11 Skoðum reynslu Aleksej, en hann er rússneskur bróðir sem þarf að þola miklar ofsóknir. Hvað hefur hjálpað honum að vera sterkur við mjög erfiðar aðstæður? Hann og eiginkona hans hafa lengi haft góða andlega dagskrá. Hann segir: „Ég reyni að halda mig við andlega dagskrá mína varðandi sjálfsnám og daglegan biblíulestur. Við hjónin ræðum dagstextann og biðjum saman til Jehóva á hverjum morgni.“ Hvað lærum við? Við ættum að reiða okkur á Jehóva en ekki okkur sjálf. Hvernig? Með því að stunda það sem byggir upp trúna – hafa góða reglu á sjálfsnámi okkar og öðrum þáttum þjónustunnar við Jehóva. Þá mun hann ríkulega blessa viðleitni okkar til að þjóna honum. Hann styrkti Samson og getur líka gefið okkur styrk.   

SAMSON GAFST EKKI UPP

12. Hvaða slæmu ákvörðun tók Samson og hvernig voru aðstæðurnar ólíkar fyrri aðstæðum?

12 Samson var ófullkominn eins og við og tók stundum óskynsamlegar ákvarðanir. Ein ákvörðun sem hann tók hafði hrikalegar afleiðingar í för með sér. Eftir að Samson hafði verið dómari um tíma „varð hann ástfanginn af konu nokkurri í Sórekdal en hún hét Dalíla“. (Dóm. 16:4) Áður hafði hann verið trúlofaður filisteskri konu, en „þetta var frá Jehóva komið því að hann leitaði tilefnis til að ráðast gegn Filisteum“. Seinna fékk Samson inni hjá vændiskonu í Gasa, borg Filistea. Við það tækifæri gaf Guð Samsoni styrk til að bera burt hurðirnar á borgarhliðinu og veikja þannig varnir borgarinnar. (Dóm. 14:1–4; 16:1–3) Dalíla var hins vegar trúlega ísraelsk og Jehóva hefur þar af leiðandi ekki notað samband Samsonar við hana sem tækifæri til að berjast gegn Filisteum.

13. Hvað fékk Dalíla Samson til að gera?

13 Dalíla þáði háa peningaupphæð frá Filisteum fyrir að svíkja Samson. Var hann svo blindaður af ást að hann gat ekki séð hvað Dalíla var að gera? Það kemur ekki fram í frásögunni en Dalíla hélt áfram að spyrja Samson hvað gerði hann svona sterkan og að lokum gaf hann eftir og sagði henni það. Því miður urðu mistök Samsonar til þess að hann missti kraft sinn og viðurkenningu Jehóva um tíma. – Dóm. 16:16–20.

14. Hvernig fór fyrir Samson vegna þess að hann treysti Dalílu?

14 Samson mátti þola sársaukafullar afleiðingar þess að treysta Dalílu frekar en Jehóva. Filistear handtóku hann og blinduðu. Hann var fangelsaður í Gasa. Það var borgin þar sem hann hafði áður rifið hurðirnar af borgarhliðinu. Nú var hann látinn mala korn þar. Síðan var hann niðurlægður þegar Filistear söfnuðust saman til að halda hátíð. Þeir færðu Dagón falsguði sínum mikla fórn, rétt eins og hann hefði gefið Samson í hendur þeirra. Þeir tóku Samson úr fangelsinu og fóru með hann í veisluna til að „skemmta fólkinu“ – gera grín að honum. – Dóm. 16:21–25.

Jehóva gaf Samson styrk til að fullnæg ja dómi sínum yfir Filisteum. (Sjá 15. grein.)

15. Hvernig sýndi Samson að hann treysti aftur á Jehóva? (Dómarabókin 16:28–30) (Sjá forsíðumynd.)

15 Samson hafði gert alvarleg mistök en hann gafst ekki upp. Hann leitaði færis að ljúka verkefninu sem Guð hafði gefið honum í tengslum við Filisteana. (Lestu Dómarabókina 16:28–30.) Samson grátbað Jehóva: „Leyfðu mér að hefna mín á Filisteum.“ Guð svaraði bæn Samsonar og hann endurheimti ofurmannlegan kraft sinn. Hann drap fleiri Filistea við þetta tækifæri en nokkurn tíma áður.

16. Hvað getum við lært af mistökum Samsonar?

16 Þótt Samson hafi mátt þola sársaukafullar afleiðingar mistaka sinna hætti hann ekki að reyna að gera vilja Jehóva. Þótt við gerum mistök og þurfum áminningu eða missum verkefni megum við ekki gefast upp. Munum að Jehóva gefst ekki upp á okkur. (Sálm. 103:8–10) Þrátt fyrir mistök okkar getum við komið Jehóva að gagni, rétt eins og Samson.

Samson leið trúlega hræðilega vegna mistaka sinna en hann gafst ekki upp. Við ættum ekki heldur að gera það. (Sjá 17. og 18. grein.)

17, 18. Hvað finnst þér uppörvandi við það sem Michael gerði? (Sjá einnig mynd.)

17 Skoðum reynslu bróður að nafni Michael. Hann var safnaðarþjónn og brautryðjandi og önnum kafinn í þjónustu Jehóva. En því miður gerði hann mistök sem urðu til þess að hann missti verkefni sín í söfnuðinum. Hann segir: „Fram að þessu hafði ég verið á góðri siglingu í þjónustunni við Jehóva. En þá var eins og fótunum væri skyndilega kippt undan mér. Ég hugsaði aldrei að Jehóva myndi yfirgefa mig, en ég velti fyrir mér hvort samband mitt við hann yrði jafn gott aftur og hvort ég myndi geta þjónað honum í söfnuðinum eins og áður.“

18 Það er hrósvert að Michael skyldi ekki gefast upp. Hann segir: „Ég einbeitti mér að því að laga samband mitt við Jehóva með því að opna hjarta mitt fyrir honum í bæn og rannsaka og hugleiða orð hans.“ Með tímanum fékk Michael aftur verkefni í söfnuðinum. Nú þjónar hann sem öldungur og brautryðjandi. Hann segir: „Stuðningurinn og hvatningin sem ég fékk, sérstaklega frá öldungunum, hjálpaði mér að skilja að Jehóva elskar mig enn. Ég get aftur þjónað í söfnuðinum með hreinni samvisku. Þessi lífsreynsla hefur kennt mér að Jehóva fyrirgefur öllum sem iðrast í einlægni.“ Við getum verið viss um að Jehóva noti okkur og blessi jafnvel þótt við gerum mistök svo framarlega sem við gerum okkar besta til að leiðrétta okkur og höldum áfram að reiða okkur á hann. – Sálm. 86:5; Orðskv. 28:13.   

19. Hvernig hefur fordæmi Samsonar styrkt þig?

19 Í þessari námsgrein höfum við rifjað upp nokkur merkileg atvik í lífi Samsonar. Hann var ekki fullkominn en hann gafst ekki upp að reyna að þjóna Jehóva, jafnvel eftir mistökin með Dalílu. Og Jehóva gafst ekki upp á honum. Hann notaði Samson aftur með mikilfenglegum hætti. Hann áleit hann enn mann með einstaka trú og hann er nefndur ásamt öðru trúföstu fólki í 11. kafla Hebreabréfsins. Það er uppörvandi að vita að við þjónum kærleiksríkum föður á himnum sem þráir að styrkja okkur, sérstaklega þegar við eigum í erfiðleikum og þörfnumst hjálpar. Gerum því eins og Samson og grátbiðjum Jehóva: „Mundu eftir mér og veittu mér styrk.“ – Dóm. 16:28.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

a Samson – margir kannast við nafn þessarar biblíupersónu, jafnvel þeir sem hafa litla þekkingu á Biblíunni. Leikritahöfundar, lagahöfundar og kvikmyndagerðamenn hafa fjallað um sögu hans. En líf hans er ekki bara athyglisverð saga. Við getum lært margt af þessum manni sem hafði sterka trú.