Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

SÖNGUR 118 Auk okkur trú

Bréf sem hjálpar okkur að vera trúföst allt til enda

Bréf sem hjálpar okkur að vera trúföst allt til enda

„Við varðveitum allt til enda sannfæringuna sem við höfðum í upphafi.“HEBR. 3:14.

Í HNOTSKURN

Hebreabréfið hefur að geyma leiðbeiningar sem hjálpa okkur að halda út og vera staðföst allt til enda þessarar heimsskipanar.

1, 2. (a) Hvernig var ástandið í Júdeu þegar Páll postuli skrifaði bréfið til Hebreanna? (b) Hvernig reyndist þetta innblásna bréf tímabært?

 EFTIR dauða Jesú árið 33 upplifðu kristnir Hebrear í Jerúsalem og Júdeu mikla erfiðleika. Stuttu eftir að kristni söfnuðurinn var stofnaður brutust út miklar ofsóknir gegn honum. (Post. 8:1) Um það bil 20 árum síðar stóðu fylgjendur Krists frammi fyrir alvarlegum fjárhagserfiðleikum, hugsanlega vegna hungursneyðar sem hafði gengið yfir landið. (Post. 11:27–30) En um árið 61 upplifðu kristnir menn tiltölulega friðsama tíma miðað við það sem átti eftir að koma. Á þeim tíma fengu þeir innblásið bréf frá Páli postula sem reyndist mjög tímabært.

2 Bréfið til Hebreanna var tímabært vegna þess að fram undan voru miklir erfiðleikar fyrir kristna menn. Páll gaf þeim gagnlegar leiðbeiningar sem myndu gera þeim kleift að sýna úthald í þrengingunni sem var á næsta leiti. Þjóðskipulag Gyðinga liði bráðlega undir lok eins og Jesús hafði sagt fyrir. (Lúk. 21:20) Hvorki Páll né kristnir menn í Júdeu vissu nákvæmlega hvenær þessi eyðing yrði. En þeir gátu engu að síður notað tímann fram að því til að byggja upp trú og þolgæði. – Hebr. 10:25; 12:1, 2.

3. Hvers vegna ættu kristnir menn nú á dögum að gefa Hebreabréfinu sérstakan gaum?

3 Við stöndum frammi fyrir enn meiri þrengingu en kristnir Hebrear gerðu. (Matt. 24:21; Opinb. 16:14, 16) Skoðum sumar af þeim leiðbeiningum sem Jehóva sá kristnum mönnum fyrir og geta nýst okkur líka.

SÆKJUM FRAM TIL ÞROSKA

4. Hvaða erfiðleikum stóðu kristnir Gyðingar frammi fyrir? (Sjá einnig mynd.)

4 Gyðingar sem tóku kristna trú þurftu að gera miklar breytingar og það var alls ekki auðvelt. Á sínum tíma höfðu Gyðingar verið Guðs útvalda þjóð. Um langan tíma hafði Jerúsalem verið mjög mikilvægur staður. Konungarnir sem sátu þar voru fulltrúar Jehóva og musterið var miðstöð sannrar tilbeiðslu. Allir trúfastir Gyðingar fylgdu Móselögunum og því sem trúarleiðtogar þeirra kenndu. Þetta stýrði mataræði þeirra, viðhorfi til umskurðar og jafnvel samskiptum þeirra við fólk af öðrum þjóðum. En eftir að Jesús dó viðurkenndi Jehóva ekki lengur fórnir Gyðinga. Það var því ekki auðvelt fyrir kristna Gyðinga sem voru vanir að fylgja lögunum að gera breytingar. (Hebr. 10:1, 4, 10) Jafnvel þroskaðir kristnir menn, eins og Pétur postuli, áttu erfitt með að aðlagast sumum af þessum breytingum. (Post. 10:9–14; Gal. 2:11–14) Kristnir menn urðu skotspónn trúarleiðtoga Gyðinga vegna nýrra trúarkenninga sinna.

Kristnir menn þurftu að halda fast við sannleikann og hafna röngum hugmyndum Gyðinga sem stóðu á móti þeim. (Sjá 4. og 5. grein.)


5. Gagnvart hverju þurftu kristnir menn að vera á verði?

5 Kristnir Hebrear fengu mótstöðu úr tveim áttum. Í fyrsta lagi komu trúarleiðtogar Gyðinga fram við þá eins og fráhvarfsmenn. Í öðru lagi kröfðust sumir í söfnuðinum þess að fylgjendur Krists héldu áfram að halda Móselögin, ef til vill til að komast hjá ofsóknum. (Gal. 6:12) Hvað gat hjálpað trúföstum kristnum mönnum að vera ráðvandir?

6. Hvað hvatti Páll trúsystkini sín til að gera? (Hebreabréfið 5:14–6:1)

6 Í bréfi sínu til Hebreanna hvatti Páll trúsystkini sín til að kafa dýpra í orð Guðs. (Lestu Hebreabréfið 5:14–6:1.) Páll vitnaði í Hebresku ritningarnar til að útskýra hvers vegna kristnin væri fremri gyðingdóminum. a Hann vissi að aukin þekking og skilningur á sannleikanum myndi hjálpa kristnum mönnum að koma auga á rangar hugmyndir sem gætu leitt þá afvega.

7. Hvað getur reynt á okkur nú á dögum?

7 Líkt og kristnir Hebrear heyrum við líka hugmyndir og skoðanir sem stríða gegn réttlátum mælikvarða Jehóva. Andstæðingar saka okkur gjarnan um að vera umburðarlaus og grimm af því að við fylgjum siðferðismælikvarða Biblíunnar. Viðhorf heimsins verða stöðugt ólíkari viðhorfum Guðs til málanna. (Orðskv. 17:15) Það er því mjög mikilvægt að geta komið auga á ranghugmyndir og hafnað þeim. Við megum ekki láta andstæðinga draga úr okkur kjarkinn þannig að við fjarlægjumst Jehóva. – Hebr. 13:9.

8. Hvernig getum við þroskast í trúnni?

8 Ráðin sem Páll gaf kristnum Hebreum um að sækja fram til þroska eiga líka erindi til okkar. Það felur meðal annars í sér að dýpka þekkingu okkar á sannleikanum og tileinka okkur betur hugsunarhátt Jehóva. Þetta á ekki síður við eftir að við höfum vígt Jehóva líf okkar og látið skírast. Við þurfum öll að lesa og hugleiða orð Guðs óháð því hversu lengi við höfum verið í sannleikanum. (Sálm. 1:2) Góðar námsvenjur geta hjálpað okkur að styrkja þann eiginleika sem Páll lagði áherslu á í bréfi sínu til Hebreanna – það er að segja trú. – Hebr. 11:1, 6.

TRÚUM OG HÖLDUM LÍFI

9. Hvers vegna þurftu kristnir Hebrear á sterkri trú að halda?

9 Kristnir Hebrear þurftu á sterkri trú að halda til að lifa af komandi þrengingu í Júdeu. (Hebr. 10:37–39) Jesús hafði sagt fylgjendum sínum að þeir ættu að flýja til fjalla þegar þeir sæju hersveitir umkringja Jerúsalem. Viðvörunin átti erindi til allra kristinna manna, hvort sem þeir bjuggu í sjálfri borginni eða á landsbyggðinni. (Lúk. 21:20–24) Þegar óvinaher ógnaði fólki á þeim dögum leitaði það venjulega skjóls í víggirtum borgum eins og Jerúsalem. Það hefði þótt óskynsamlegt að flýja til fjalla og kallaði á sterka trú.

10. Hvað myndi sterk trú knýja kristna menn til að gera? (Hebreabréfið 13:17)

10 Kristnir Hebrear þurftu líka að treysta þeim sem Jesús hafði valið til að leiða söfnuðinn. Þeir sem fóru með forystuna gáfu trúlega nákvæmar leiðbeiningar um það hvenær og hvernig þeir áttu að flýja. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Páll postuli sagði bræðrum og systrum að hlýða þeim sem fara með forystuna, fyrst og fremst vegna þess að þau gátu treyst þeim. Kristnir Hebrear þurftu því að byggja upp traust til þeirra sem fóru með forystuna áður en þrengingin hæfist. Það væri langtum auðveldara fyrir kristna menn að hlýða þegar erfiðleikar steðjuðu að ef þeir gerðu það á friðartímum.

11. Hvers vegna þurfa þjónar Guðs nú á dögum að hafa sterka trú?

11 Við þurfum líka á sterkri trú að halda eins og Hebrearnir sem Páll skrifaði. Við lifum á tímum sem flestir hafna eða hæðast að viðvörun Biblíunnar um að endir þessarar heimskipanar sé nærri. (2. Pét. 3:3, 4) Og þótt Biblían greini frá mörgu sem gerist í þrengingunni miklu er margt sem við vitum ekki. Við þurfum að treysta að endir þessarar heimsskipanar komi á réttum tíma og að Jehóva muni annast okkur þá. – Hab. 2:3.

12. Hvernig getum við komist í gegnum þrenginguna miklu?

12 Við þurfum líka að styrkja trú okkar á boðleiðinni sem Jehóva notar til að leiðbeina okkur nú á dögum – ‚trúa og skynsama þjóninum‘. (Matt. 24:45) Þegar þrengingin mikla hefst gætum við fengið nákvæmar leiðbeiningar sem bjarga lífi okkar, rétt eins og kristnir Hebrear kunna að hafa fengið þegar Rómverjar umkringdu Jerúsalem. Það er mjög mikilvægt að við treystum þeim sem fara með forystuna í söfnuði Jehóva. Ef við treystum þeim ekki og fylgjum ekki leiðbeiningum þeirra núna verður það erfitt í þrengingunni miklu.

13. Hvers vegna voru leiðbeiningarnar í Hebreabréfinu 13:5 nauðsynlegar?

13 Kristnir Hebrear þurftu að lifa einföldu lífi og hafna „ást á peningum“ á meðan þeir biðu eftir merkinu um að flýja. (Lestu Hebreabréfið 13:5.) Sumir þeirra höfðu þolað hungursneyð og fátækt. (Hebr. 10:32–34) Jafnvel þótt þeir hefðu eitt sinn verið tilbúnir að þola erfiðleika vegna fagnaðarboðskaparins voru sumir kannski farnir að treysta því að auðurinn veitti þeim vernd. En hversu miklu sem þeir söfnuðu gátu peningar ekki bjargað þeim frá eyðingu. (Jak. 5:3) Þeim sem elskuðu efnislega hluti fannst líklega erfiðara að flýja og skilja eftir heimili og eigur.

14. Hvernig getur sterk trú hjálpað okkur að taka ákvarðanir varðandi efnislega hluti?

14 Ef við trúum því staðfastlega að endir þessarar heimsskipanar sé yfirvofandi fær það okkur til að forðast efnishyggju. Í þrengingunni miklu verða peningar einskis virði. Biblían segir að menn muni „henda silfri sínu á göturnar“ þegar þeim verður ljóst að „hvorki silfur þeirra né gull getur bjargað þeim á reiðidegi Jehóva“. (Esek. 7:19) Frekar en að safna eins miklum peningum og við getum þurfum við að vera einbeitt í því að lifa einföldu en öfgalausu lífi. Það felur meðal annars í sér að standast þá freistingu að stofna til óþarfa skulda eða íþyngja sér með því að þurfa að sjá um efnislega hluti. Við forðumst líka að tengjast eigum okkar of mikið. (Matt. 6:19, 24) Eftir því sem endir þessarar heimskipanar nálgast ríður meira á að velja hvort við treystum á Jehóva eða eigur okkar.

VIÐ ÞURFUM AÐ VERA ÞOLGÓÐ

15. Hvers vegna þurftu kristnir Hebrear að vera þolgóðir?

15 Trú kristinna Hebrea yrði reynd þegar ástandið í Júdeu versnaði. (Hebr. 10:36) Sumir þeirra höfðu orðið fyrir hörðum ofsóknum en margir höfðu tekið við trúnni á tiltölulega friðsömu tímabili. Páll minnti þá á að fram að þessu hefðu þeir ekki verið trúfastir allt til dauða eins og Jesús, þótt þeir hefðu staðist erfiðar prófraunir. (Hebr. 12:4) En margir andstæðingar þeirra úr hópi Gyðinga voru orðnir ofstækisfullir og reiðir þegar kristnin breiddist út. Aðeins fáeinum árum áður réðst æstur múgur á Pál þegar hann var að boða trúna í Jerúsalem. Meira en 40 Gyðingar „sóru þess eið að borða hvorki né drekka fyrr en þeir hefðu drepið Pál“. (Post. 22:22; 23:12–14) Kristnir Hebrear þurftu að halda áfram að safnast saman til tilbeiðslu, boða fagnaðarboðskapinn og halda trú sinni sterkri þrátt fyrir þetta trúarofstæki.

16. Hvernig getur Hebreabréfið hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til ofsókna? (Hebreabréfið 12:7)

16 Hvernig gátu kristnir Hebrear verið þolgóðir þrátt fyrir andstöðuna sem þeir urðu fyrir? Páll vissi að þeir þurftu að sjá erfiðleikana í réttu ljósi. Hann útskýrði að Guð leyfði ef til vill prófraunir til að þjálfa þá. (Lestu Hebreabréfið 12:7.) Þeir gætu tileinkað sér og fágað eiginleika sem væru Jehóva að skapi. Með því að beina athyglinni að því jákvæða sem kæmi út úr slíkum prófraunum væri auðveldara fyrir kristna Hebrea að vera þolgóðir. – Hebr. 12:11.

17. Hvaða reynslu hafði Páll af því að halda út í ofsóknum?

17 Páll hvatti kristna Hebrea til að vera hugrakkir og sýna úthald í prófraunum. Hann var rétti maðurinn til að gefa þessar leiðbeiningar. Hann hafði áður ofsótt kristna menn og vissi þess vegna við hvað þeir áttu að etja. Hann vissi líka af eigin raun hvernig var hægt að halda út í ofsóknum enda þurfti hann að þola margvíslega andstöðu eftir að hafa gerst kristinn. (2. Kor. 11:23–25) Páll vissi því vel hvað þurfti til að halda út. Hann minnti þessa kristnu menn á að þeir þyrftu að treysta á Jehóva en ekki sjálfa sig í prófraunum. Þeir gætu hugrakkir sagt: „Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt.“ – Hebr. 13:6.

18. Hvaða vitneskja um framtíðina auðveldar okkur að halda út í ofsóknum?

18 Sum trúsystkini okkar þurfa að þola ofsóknir um þessar mundir. Við getum sýnt þeim kærleika með því að biðja fyrir þeim og rétta þeim hjálparhönd. (Hebr. 10:33) Biblían segir: „Allir sem vilja lifa guðrækilegu lífi sem lærisveinar Krists Jesú verða ofsóttir.“ (2. Tím. 3:12) Við þurfum því öll að búa okkur undir það sem er fram undan. Höldum áfram að treysta algerlega á Jehóva, að hann hjálpi okkur að halda út í hvaða prófraun sem verður á vegi okkar. Hann mun veita öllum trúföstum þjónum sínum lausn þegar þar að kemur. – 2. Þess. 1:7, 8.

19. Hvað getum við gert til að búa okkur undir þrenginguna miklu? (Sjá einnig mynd.)

19 Bréf Páls til Hebreanna hjálpaði án efa kristnum mönnum á fyrstu öld að búa sig undir þrenginguna sem beið þeirra. Páll hvatti trúsystkini sín til að dýpka þekkingu sína og skilning á orði Guðs. Það myndi auðvelda þeim að koma auga á og hafna hugmyndum sem myndu grafa undan trú þeirra. Hann hvatti þá til að styrkja trú sína svo að þeir myndu án tafar fylgja leiðbeiningum Jesú og þeirra sem færu með forystuna í söfnuðinum. Og hann hjálpaði kristnum mönnum að vera þolgóðir með því að líta prófraunir réttum augum – sem tækifæri til að fá þjálfun hjá kærleiksríkum föður sínum. Við skulum líka taka þessar innblásnu leiðbeiningar til okkar. Þannig getum við verið trúföst allt til enda. – Hebr. 3:14.

Trúfastir kristnir menn voru þolgóðir og hlutu blessun fyrir. Þeir héldu áfram að safnast saman eftir að þeir flúðu frá Júdeu. Hvað lærum við af því? (Sjá 19. grein.)

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

a Í fyrsta kafla Hebreabréfsins vitnar Páll að minnsta kosti sjö sinnum í Hebresku ritningarnar til að sýna fram á að kristnin væri fremri gyðingdóminum. – Hebr. 1:5–13.