Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 36

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

Farið eftir orðinu

Farið eftir orðinu

„Látið ykkur ekki nægja að heyra orðið heldur farið eftir því.“JAK. 1:22.

Í HNOTSKURN

Þessi námsgrein getur hvatt þig til að lesa daglega í orði Guðs, hugleiða og fara eftir því sem þú lest.

1, 2. Af hverju eru þjónar Guðs hamingjusamir? (Jakobsbréfið 1:22–25)

 JEHÓVA og Jesús sonur hans vilja að við séum hamingjusöm. Sá sem orti Sálm 119:2 segir: „Þeir sem fara eftir áminningum hans eru hamingjusamir, þeir sem leita hans af öllu hjarta.“ Jesús undirstrikaði þetta þegar hann sagði: „Þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því, þeir eru hamingjusamir.“ – Lúk. 11:28.

2 Við sem þjónum Jehóva erum hamingjusöm. Það er margt sem stuðlar að því. Ein mikilvæg ástæða er sú að við lesum reglulega í orði Guðs og leitumst við að fara eftir því sem við lærum. – Lestu Jakobsbréfið 1:22–25.

3. Hvernig gagnast það okkur að fara eftir því sem við lesum í orði Guðs?

3 Það gagnast okkur á margan hátt að fara eftir því sem við lesum í orði Guðs. Það er mikilvæg leið til að gleðja Jehóva og þannig finnum við líka meiri gleði. (Préd. 12:13) Fjölskyldulífið verður betra og sambandið við trúsystkini verður sterkara þegar við förum eftir því sem við lesum í innblásnu orði Guðs. Þú hefur trúlega upplifað þetta. Við sneiðum auk þess hjá ýmsum vandamálum sem fólk glímir við þegar það fylgir ekki ráðum Jehóva. Davíð konungur lofaði lög, fyrirmæli og dóma Jehóva í söng og sagði: „Að fylgja þeim hefur mikla blessun í för með sér.“ Þetta eru orð að sönnu. – Sálm. 19:7–11.

4. Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að fara eftir orði Guðs?

4 Staðreyndin er sú að það er ekki alltaf auðvelt að lesa orð Guðs og fara eftir því. Þótt við höfum í mörgu að snúast þurfum við að taka okkur tíma til að lesa og rannsaka Biblíuna til að átta okkur á hvað Jehóva vill að við gerum. Lítum nú á nokkrar tillögur sem auðvelda okkur reglulegan biblíulestur. Við fáum líka góð ráð um það hvernig við getum hugleitt og farið eftir því sem við lesum.

TAKTU FRÁ TÍMA TIL AÐ LESA Í ORÐI GUÐS

5. Í hvað fer tími okkar?

5 Flestir þjónar Jehóva hafa mjög mikið að gera. Við notum mikinn tíma í að sinna hinum ýmsu verkefnum sem fylgja því að vera þjónar Guðs. Flestir eru útivinnandi til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. (1. Tím. 5:8) Mörg okkar annast veika eða aldraða ættingja. Og það kostar tíma að hugsa um eigin heilsu. Þar að auki höfum við ýmsum skyldum að gegna í söfnuðinum. Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að gera okkar besta í boðuninni. Hvernig geturðu fundið tíma til að lesa reglulega í Biblíunni, hugleiða og fara eftir því sem þú lærir þegar verkefnin eru svona mörg?

6. Hvernig geturðu látið biblíulesturinn hafa forgang? (Sjá einnig mynd.)

6 Biblíulestur er eitt af því sem er mikilvægt fyrir kristna menn. Við verðum því að láta hann hafa forgang. (Fil. 1:10) Í fyrsta sálminum segir að sá maður sé hamingjusamur sem „hefur yndi af lögum Jehóva og les þau lágum rómi dag og nótt“. (Sálm. 1:1, 2) Þetta gefur til kynna að við þurfum að taka frá tíma til að lesa í Biblíunni. Hvenær er besti tíminn til þess? Það getur verið mismunandi hjá hverjum og einum. En það sem skiptir máli er að við gerum það reglulega. Bróðir sem heitir Victor segir: „Ég kýs að lesa í Biblíunni á morgnana. Þótt ég sé engin morgunmanneskja verð ég fyrir minni truflun snemma á morgnana. Hugurinn er skýr og ég á betra með að einbeita mér.“ Á þetta líka við um þig? Þú gætir spurt þig: Hvenær er besti tíminn fyrir mig að lesa í Biblíunni?

Hvenær er hentugasti tíminn til að lesa í Biblíunni? Hvenær geturðu gert það á reglulegum grundvelli? (Sjá 6. grein.)


HUGLEIDDU ÞAÐ SEM ÞÚ LEST

7, 8. Hvað gæti komið í veg fyrir að við nýtum okkur til fulls það sem við lesum? Lýstu með dæmi.

7 Vel má vera að við lesum að staðaldri fullt af efni án þess að það skilji mikið eftir. Hefurðu einhvern tíma upplifað að muna ekki það sem þú varst að lesa? Við þekkjum það öll. Því miður getur þetta líka gerst þegar við lesum í Biblíunni. Kannski höfum við sett okkur það markmið að lesa nokkra kafla í Biblíunni á hverjum degi. Það er gott að setja sér markmið og reyna að ná þeim. (1. Kor. 9:26) En að lesa í Biblíunni er bara fyrsta skrefið. Við þurfum að gera meira ef við viljum hafa fullt gagn af biblíulestrinum.

8 Hugsum okkur eftirfarandi samlíkingu: Plöntur þurfa vatn til að vaxa og dafna. En ef það rignir mikið á stuttum tíma getur jarðvegurinn orðið of blautur. Þá er meira regn ekki til bóta. Jarðvegurinn þarf tíma til að draga vatnið í sig svo að plönturnar geti nýtt sér það. Við ættum á svipaðan hátt að forðast að lesa Biblíuna of hratt þannig að við náum ekki að leggja á minnið og nýta okkur það sem við lesum. – Jak. 1:24.

Rétt eins og jarðvegur þarf tíma til að drekka í sig regn eins þurfum við tíma til að hugleiða og heimfæra það sem við lesum í orði Guðs. (Sjá 8. grein.)


9. Hvað ættum við að gera ef við höfum vanið okkur á að lesa of hratt í Biblíunni?

9 Hefurðu einhvern tíma staðið þig að því að hraðlesa Biblíuna? Hvernig væri að hægja á sér og hugsa um hvað þú ert að lesa eða ert nýbúinn að lesa. Þetta þarf ekki að vera flókið. Þú gætir lengt lestrartímann til að hafa tíma til að hugleiða það sem þú hefur lesið. Eða þú gætir lesið færri vers og notað þann tíma sem er aflögu til að hugleiða efnið. „Ég reyni að lesa bara einn kafla í Biblíunni í einu,“ segir Victor sem minnst var á áður. „Þar sem ég les snemma dags get ég velt efninu fyrir mér það sem eftir er dagsins.“ Hvaða aðferð sem þú notar er mikilvægt að þú lesir á þeim hraða sem gerir þér kleift að fá sem mest út úr efninu. – Sálm. 119:97; sjá einnig rammann „ Spurningar til umhugsunar“.

10. Nefndu dæmi um hvernig þú getur farið eftir því sem þú lærir. (1. Þessaloníkubréf 5:17, 18)

10 Burtséð frá því hvenær þú lest í Biblíunni eða hve mikinn tíma þú notar við lestur skaltu vera vakandi fyrir því hvernig þú getur nýtt þér efnið. Þegar þú lest ákveðinn hluta í Biblíunni skaltu spyrja þig: Hvernig get ég nýtt mér þetta efni núna eða í náinni framtíð? Segjum til dæmis að þú sért að lesa 1. Þessaloníkubréf 5:17, 18. (Lestu.) Eftir að hafa lesið þessi vers skaltu staldra við og velta fyrir þér hversu oft og innilega þú biður. Þú getur líka hugsað um það sem þú getur verið þakklátur fyrir. Þú velur kannski eitthvað þrennt sem þú vilt þakka Jehóva fyrir. Jafnvel þótt þú notir ekki nema örfáar mínútur til að hugleiða slík biblíuvers er það þér til góðs og hjálpar þér að fara eftir orði Guðs. Hugsaðu þér hvaða gagn þú hefðir af því að gera þetta á hverjum degi þegar þú lest í Biblíunni. Þá muntu taka framförum í því að fara eftir orði Guðs. En hvað ef þér finnst þú þurfa að bæta þig á mörgum sviðum?

SETTU ÞÉR SANNGJÖRN MARKMIÐ

11. Hvers vegna gæti þér stundum fallist hendur? Lýstu með dæmi.

11 Þegar þú lest í Biblíunni gæti þér stundum fundist þú þurfa að breyta svo mörgu að þér fallast hendur. Ímyndaðu þér að þú sért að lesa í Biblíunni þar sem varað er við hlutdrægni. (Jak. 2:1–8) Þú sérð að þú getur bætt framkomu þína við aðra og ákveður því að gera breytingar. Það er góð byrjun. Næsta dag lestu biblíuvers sem undirstrikar mikilvægi þess að hafa stjórn á því hvernig maður talar. (Jak. 3:1–12) Þú áttar þig á að þú ert stundum svolítið neikvæður í tali. Þú ákveður því að vera meira hvetjandi og jákvæður þegar þú talar við aðra. Þarnæsta dag lestu viðvörun um að vera ekki vinur heimsins. (Jak. 4:4–12) Þú uppgötvar að þú þarft að vanda þig betur þegar þú velur þér afþreyingarefni. Á fjórða degi finnst þér svo margt sem þú þarft að laga að það er yfirþyrmandi.

12. Hvers vegna ættirðu ekki að missa kjarkinn ef biblíulesturinn leiðir í ljós að þú þarft að gera breytingar? (Sjá einnig neðanmáls.)

12 Misstu ekki kjarkinn þótt þú þurfir að bæta þig á ýmsum sviðum. Sú staðreynd að þú gerir þér grein fyrir því sýnir að þú hefur gott hjartalag. Sá sem er auðmjúkur og heiðarlegur við sjálfan sig les Biblíuna með það fyrir augum að bæta sig. a Mundu líka að það er áframhaldandi verkefni að „íklæðist hinum nýja manni“. (Kól. 3:10) Hvað hjálpar þér að halda áfram að fara eftir orði Guðs?

13. Hvernig er hægt að tileinka sér það sem maður hefur lært? (Sjá einnig mynd.)

13 Í stað þess að reyna að tileinka þér strax allt sem þú lest skaltu setja þér fáein markmið. (Orðskv. 11:2) Hér er hugmynd: Gerðu lista yfir það sem þú þarft að vinna í. Veldu síðan eitt eða tvennt á honum til byrja að vinna í og geymdu það sem eftir er til síðari tíma. Á hvaða markmiði væri best að byrja?

Hvers vegna ekki að setja þér sanngjörn markmið og einbeita þér að einu í einu þegar þú ferð eftir því sem þú lest í Biblíunni. (Sjá 13. og 14. grein.)


14. Á hvaða markmiði gætirðu byrjað?

14 Þú gætir byrjað á því markmiði sem er tiltölulega auðvelt fyrir þig að ná. Eða þú gætir valið að vinna að einhverju sem þú þarft sérstaklega að bæta þig í. Þegar þú hefur ákveðið hvaða markmið þú ætlar að taka fyrir skaltu skoða hvað ritin okkar segja með því að nýta þér Efnislykil að ritum Votta Jehóva eða Watch Tower Publications Index. Biddu Jehóva um að gefa þér bæði „löngun og kraft“ til að ná markmiðum þínum. (Fil. 2:13) Reyndu síðan að fara eftir því sem þú hefur lært. Þegar þú hefur náð fyrsta markmiðinu er það þér líklega hvatning til að vinna að því næsta. Þegar þú nærð árangri á ákveðnu sviði eða hefur tileinkað þér betur kristinn eiginleika verður trúlega auðveldara fyrir þig að gera ýmsar aðrar breytingar.

LÁTTU ORÐ GUÐS SÝNA „ÁHRIFAMÁTT SINN“ Í ÞÉR

15. Hvernig eru vottar Jehóva ólíkir fólki almennt sem les Biblíuna? (1. Þessaloníkubréf 2:13)

15 Sumir segjast hafa lesið Biblíuna mörgum sinnum. En trúa þeir því sem hún segir? Hafa þeir reynt að lifa í samræmi við það sem hún kennir? Því miður er það sjaldnast raunin. En þjónar Jehóva líta öðrum augum á Biblíuna. Rétt eins og hinir frumkristnu lítum við á hana sem ‚orð Guðs eins og það sannarlega er‘. Við gerum allt sem við getum til að láta það hafa áhrif á líf okkar. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:13.

16. Hvað getur auðveldað okkur að fara eftir orði Guðs?

16 Það er ekki alltaf auðvelt að lesa orð Guðs og fara eftir því. Stundum er erfitt að finna tíma til að lesa. Og við höfum kannski tilhneigingu til að lesa of hratt svo að efnið fer fyrir ofan garð og neðan. Við gætum líka misst kjarkinn af því að við þurfum að bæta okkur á svo mörgum sviðum. Hver svo sem áskorunin er þá er hún ekki óyfirstíganleg. Jehóva hjálpar þér. Þiggjum hjálp hans og gleymum ekki því sem við lesum í orði Guðs heldur förum eftir því. Því meir sem við gerum það því hamingjusamari verðum við. – Jak. 1:25.

SÖNGUR 94 Þakklát fyrir orð Guðs