Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Gefandi vegferð í þjónustu Jehóva

Gefandi vegferð í þjónustu Jehóva

ÁRIÐ var 1951 og ég nýkominn til Rouyn, lítils bæjar í Quebec-fylki í Kanada. Mér hafði verið vísað á ákveðið heimilisfang og ég fór þangað og bankaði á dyr. Marcel Filteau, a trúboði úr Gíleaðskólanum, kom til dyra. Hann var 23 ára og hávaxinn en ég var 16 ára og langtum lægri. Ég sýndi honum bréfið um hvaða verkefni mér hafði verið úthlutað sem brautryðjandi. Hann las það, leit á mig og sagði: „Veit mamma þín að þú ert hérna?“

TRÚARLEGA SKIPT HEIMILI

Ég fæddist árið 1934 í fjölskyldu svissneskra innflytjenda sem settist að í Timmins, námubæ í Ontario-fylki í Kanada. Um árið 1939 fór móðir mín að lesa Varðturninn og mæta á samkomur hjá Vottum Jehóva. Hún tók mig og sex systkini mín með sér. Fljótlega gerðist hún vottur Jehóva.

Pabbi var ekki ánægður með ákvörðun mömmu en hún elskaði sannleikann og var ákveðin í að vera trúföst. Hún var það jafnvel þegar starfsemi Votta Jehóva var bönnuð í Kanada snemma á fjórða áratugnum. Og hún kom alltaf fram við föður minn af góðvild og virðingu, líka þegar hann sagði eitthvað óvinsamlegt við hana. Frábært fordæmi hennar hvatti okkur systkinin til að taka líka við sannleikanum. Sem betur fer mildaðist pabbi með árunum og fór að koma betur fram við okkur.

ÉG BYRJA Í FULLU STARFI

Sumarið 1950 fór ég á mótið „Vöxtur guðveldisins“ í New York. Eftir að hafa hitt bræður og systur frá öllum heimshornum og hlustað á spennandi viðtöl við þá sem höfðu útskrifast úr Gíleaðskólanum langaði mig að gera meira í þjónustu Jehóva. Ég var ákveðnari en nokkru sinni fyrr að þjóna honum í fullu starfi. Ég sótti um að gerast brautryðjandi um leið og ég kom heim. Ég fékk bréf frá deildarskrifstofunni í Kanada þar sem ég var hvattur til að láta fyrst skírast. Ég gerði það 1. október 1950. Mánuði síðar gerðist ég brautryðjandi og fékk fyrsta verkefnið mitt í Kapuskasing. Þessi bær var í margra kílómetra fjarlægð frá heimili mínu.

Í boðuninni í Quebec.

Vorið 1951 bað deildarskrifstofan votta sem töluðu frönsku að íhuga að flytja til þess hluta Quebec-fylkis þar sem töluð er franska. En þar var mikil þörf fyrir boðbera. Ég talaði bæði frönsku og ensku svo að ég þáði boðið og fékk verkefni í Rouyn. Ég þekkti engan þar. Það eina sem ég hafði var heimilisfangið sem ég sagði frá í upphafi. En allt gekk vel. Við Marcel urðum góðir vinir og ég naut þess að starfa í Quebec næstu fjögur árin og endaði sem sérbrautryðjandi.

GÍLEAÐSKÓLINN OG LANGDREGIN EFTIRVÆNTING

Ég var mjög spenntur þegar ég fékk boð um að sækja 26. bekk Gíleaðskólans í South Lansing í New York. Ég útskrifaðist 12. febrúar 1956 og mér var úthlutað starfssvæði í Gana b í Vestur-Afríku. En áður en ég fór þangað þurfti ég að fara til Kanada „í nokkrar vikur“ á meðan ég beið eftir nauðsynlegum skjölum til að ferðast.

Ég beið í sjö mánuði í Toronto. Ég fékk að gista hjá Cripps-fjölskyldunni og kynntist Sheilu, dóttur hjónanna. Við urðum ástfangin. Þegar ég var að fara að biðja hennar var vegabréfsáritunin tilbúin. Við Sheila leituðum til Jehóva í bæn og ákváðum að ég héldi mínu striki og færi til Gana. Við ætluðum að skrifast á og sjá til hvort við myndum gifta okkur síðar. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en reyndist sú rétta í stöðunni.

Eftir mánaðarlangt ferðalag með lest, vöruflutningaskipi og flugvél kom ég til Akkra í Gana. Þar átti ég að starfa sem umdæmishirðir. Það fól meðal annars í sér að ferðast um Gana, Fílabeinströndina og Tógóland (nú Tógó). Oftast var ég einn á ferð í jeppa sem deildarskrifstofan útvegaði mér og ég naut þess í botn að heimsækja trúsystkini.

Um helgar var ég með verkefni á svæðismótum. Við höfðum engar mótshallir. Bræðurnir reistu bráðabirgðaþak úr bambusstöngum og þöktu það með pálmagreinum sem skýldu fyrir heitri sólinni. Það var enginn kælir í mötuneytinu þannig að dýr voru höfð við höndina til að slátra eftir þörfum til að fæða þá sem sóttu mótið.

Ýmislegt skemmtilegt gerðist á þessum mótum. Eitt sinn var Herb Jennings, c sem var trúboði, með ræðu þegar naut slapp úr mötuneytinu. Það hljóp á milli sviðsins og áhorfendanna. Herb hætti að tala og nautið virtist alveg ringlað. En fjórum sterkum bræðrum tókst að ná taki á því og teyma það aftur í mötuneytið, við mikil fagnaðarlæti áhorfenda.

Á milli þess sem mótin voru haldin sýndi ég kvikmyndina The New World Society in Action í nálægum þorpum. Til þess notaði ég hvítan striga sem ég strengdi milli tveggja staura eða trjáa. Þorpsbúarnir voru hæstánægðir. Fyrir marga var þetta fyrsta kvikmyndin sem þeir sáu. Þeir klöppuðu ákaft þegar þeir sáu fólk á tjaldinu skírast. Áhorfendur gátu séð að við erum sameinaður söfnuður sem nær um allan heim.

Við giftum okkur í Gana árið 1959

Eftir að hafa verið í Afríku í tvö ár var ég mjög spenntur að sækja alþjóðamótið í New York árið 1958. Ég var himinlifandi að hitta Sheilu sem kom frá Quebec þar sem hún starfaði sem sérbrautryðjandi. Við höfðum verið í bréfasambandi en nú bað ég hana að giftast mér og hún sagði já. Ég skrifaði bróður Knorr d og spurði hvort Sheila gæti sótt Gíleaðskólann og komið síðan til Afríku til mín. Hann samþykkti það. Að lokum kom Sheila til Gana. Við giftum okkur í Akkra 3. október 1959. Okkur fannst Jehóva hafa blessað okkur fyrir að setja hann í fyrsta sæti í lífi okkar.

VIÐ STÖRFUM SAMAN Í KAMERÚN

Að störfum á deildarskrifstofunni í Kamerún.

Árið 1961 vorum við send til Kamerún. Ég var beðinn um að setja á laggirnar nýja deildarskrifstofu, þannig að það var nóg að gera. Ég var settur yfir verkefnið og þurfti að læra margt. Árið 1965 komumst við að því að Sheila átti von á barni. Ég verð að viðurkenna að við þurftum að venjast tilhugsuninni um að verða foreldrar. En þegar við vorum orðin spennt að takast á við þessa nýju ábyrgð og farin að skipuleggja að fara aftur til Kanada urðum við fyrir miklu áfalli.

Sheila missti fóstrið. Læknirinn sagði okkur að þetta hefði verið drengur. Nú eru 50 ár liðin. Við gleymdum þessu aldrei. Við fundum fyrir mikilli sorg en héldum áfram á trúboðssvæði okkar sem var okkur svo kært.

Með Sheilu í Kamerún árið 1965.

Bræður í Kamerún þurfa oft að þola ofsóknir vegna hlutleysisafstöðu sinnar. Ástandið var sérstaklega erfitt í kringum forsetakosningar. Það sem við óttuðumst mest gerðist 13. maí 1970 þegar söfnuður Votta Jehóva var opinberlega bannaður. Ríkisstjórnin tók fallegu nýju deildarskrifstofuna okkar eignarnámi en við höfðum flutt inn í hana aðeins fimm mánuðum áður. Öllum trúboðunum, þar á meðal okkur Sheilu, var vísað úr landi á innan við viku. Það var erfitt að yfirgefa bræður og systur því að okkur þótti svo vænt um þau og við óttuðumst hvernig þeim myndi farnast.

Við vorum á deildarskrifstofunni í Frakklandi næstu sex mánuði. Þar reyndi ég að gera allt sem í mínu valdi stóð til að sinna þörfum bræðra og systra í Kamerún. Í desember sama ár vorum við send til deildarskrifstofunnar í Nígeríu sem fékk það verkefni að sjá um starfið í Kamerún. Bræður og systur í Nígeríu tóku hlýlega á móti okkur og við nutum þess að starfa þar í nokkur ár.

ERFIÐ ÁKVÖRÐUN

Árið 1973 þurftum við að taka mjög erfiða ákvörðun. Sheila hafði átt við erfið veikindi að stríða. Þegar við vorum á móti í New York brotnaði hún saman og sagði: „Ég get ekki haldið svona áfram. Ég er úrvinda og oftast veik.“ Hún hafði verið með mér í Vestur-Afríku í meira en 14 ár. Ég var svo stoltur af trúfastri þjónustu hennar en við þurftum að gera breytingar. Eftir að hafa rætt saman og beðið ákaft til Jehóva ákváðum við að fara aftur til Kanada þar sem hægt væri að sinna heilsu hennar betur. Að hætta í trúboðsstarfinu og fullu starfi er ein erfiðasta ákvörðun sem við höfum þurft að taka.

Eftir að við komum til Kanada fékk ég vinnu hjá gömlum vini sem átti bílasölu í bæ norður af Toronto. Við tókum íbúð á leigu, keyptum notuð húsgögn og gátum hafið nýtt líf án þess að steypa okkur í skuldir. Við vildum hafa líf okkar einfalt í þeirri von að geta hafið aftur fullt starf í þjónustu Jehóva. Okkur til undrunar tókst það fyrr en við áttum von á.

Ég byrjaði í sjálfboðavinnu á laugardögum við byggingu mótshallar í Norval í Ontario. Seinna var ég beðinn að hafa umsjón með mótshöllinni. Heilsa Sheilu fór batnandi og okkur fannst við ráða við þetta nýja verkefni. Við fluttum því í íbúðina í mótshöllinni í júní 1974. Við vorum sérlega ánægð að vera aftur farin að þjóna í fullu starfi.

Sem betur fer fór heilsa Sheilu áfram batnandi. Tveim árum síðar gátum við hafið farandstarf. Farandsvæðið var í Manitoba í Kanada og er þekkt fyrir mjög kalda vetur. Við kunnum hins vegar að meta hlýju bræðra og systra þar. Við komumst að því að það skiptir ekki máli hvar við störfum fyrir Jehóva – aðalmálið er að halda því áfram hvar sem við erum.

ÉG LÆRI MIKILVÆGA LEXÍU

Árið 1978, eftir nokkur ár í farandstarfinu, var okkur boðið til starfa á Betel í Kanada. Stuttu síðar lærði ég mikilvæga en sársaukafulla lexíu. Á sérstakri samkomu í Montreal fékk ég það verkefni að flytja einnar og hálfrar klukkustundar langa ræðu á frönsku. Það reyndist áheyrendum því miður erfitt að einbeita sér að því sem ég sagði og bróðir í þjónustudeildinni benti mér á það. Ég hefði átt að vera búinn að átta mig á því að ég er ekki sérstaklega góður ræðumaður. En ég tók leiðbeiningum hans ekki vel. Við vorum ólíkir og mér fannst hann bara benda á það sem var ekki nógu gott. Ég gerði þau mistök að dæma leiðbeiningar hans eftir því hvernig hann gaf þær og eftir áliti mínu á honum.

Ég lærði dýrmæta lexíu eftir að hafa flutt ræðu á frönsku.

Fáeinum dögum síðar talaði bróðir í deildarnefndinni við mig um þetta. Ég viðurkenndi að ég hefði ekki brugðist vel við og sagði að mér þætti það leitt. Því næst talaði ég við bróðurinn sem hafði gefið mér leiðbeiningarnar. Hann var fús að fyrirgefa mér. Þetta kenndi mér hversu mikilvægt það er að vera auðmjúkur og ég mun aldrei gleyma þessu. (Orðskv. 16:18) Ég hef oft talað við Jehóva um þetta í bæn og ætla framvegis ekki að taka því svona illa þegar einhver gefur mér leiðbeiningar.

Ég er núna búinn að vera á Betel í Kanada í meira en 40 ár og hef starfað í deildarnefndinni síðan 1985. Í febrúar 2021 lést elsku Sheila mín. Ég sakna hennar sárlega og er sjálfur ekki heilsuhraustur. En ég er upptekinn og ánægður í þjónustu Jehóva og ‚tek varla eftir hvernig dagarnir fljúga hjá‘. (Préd. 5:20) Þótt ég hafi tekist á við margt í lífinu vegur það sem hefur gefið mér gleði langtum meira. Það hefur sannarlega verið gefandi að hafa Jehóva í fyrsta sætinu í lífinu og vera í fullu starfi í þjónustu hans í 70 ár. Ég bið Jehóva að hjálpa ungum bræðrum og systrum að hafa Jehóva alltaf í fyrsta sæti í lífinu. Ég er sannfærður um að þá muni þau eiga spennandi og gefandi líf en það er aðeins hægt með því að þjóna Jehóva.

a Sjá ævisögu Marcel Filteau „Jehovah Is My Refuge and Strength“ í Varðturninum á ensku 1. febrúar 2000.

b Þetta land í Afríku var bresk nýlenda og fram að árinu 1957 var það þekkt sem Gullströndin.

c Sjá ævisögu Herberts Jennings „You Do Not Know What Your Life Will Be Tomorrow“ í Varðturninum á ensku 1. desember 2000.

d Nathan H. Knorr tók forystuna í starfi okkar á þessum tíma.