Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 38

SÖNGUR 25 Einstök eignarþjóð

Hlustar þú á viðvaranirnar?

Hlustar þú á viðvaranirnar?

„Annar verður tekinn og hinn skilinn eftir.“MATT. 24:40.

Í HNOTSKURN

Við skoðum þrjár af dæmisögum Jesú og ræðum hvernig þær tengjast dómstímanum við endi þessarar heimskipanar.

1. Hvað gerir Jesús bráðlega?

 VIÐ lifum á mjög sérstökum tímum. Bráðlega dæmir Jesús alla sem búa á jörðinni. Hann lýsti þessu tímabili með því að gefa lærisveinum sínum spádómlegt „tákn“ um ósýnilega nærveru sína og „lokaskeið þessarar heimsskipanar“. (Matt. 24:3) Þessi spádómur er skráður í Matteusi kafla 24 og 25 og í samsvarandi frásögn í Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.

2. Hverju beinum við athyglinni að í þessari námsgrein og hvers vegna er það gagnlegt?

2 Jesús sagði þrjár dæmisögur sem hafa að geyma viðvaranir til okkar. Það eru dæmisögurnar um sauðina og geiturnar, skynsömu og óskynsömu meyjarnar og talenturnar. Hver og ein þeirra kennir okkur að Jesús dæmi fólk eftir verkunum. Í þessari námsgrein skoðum við hvað fleira er hægt að læra af þessum dæmisögum. Fyrst lítum við á dæmisöguna um sauðina og geiturnar.

SAUÐIRNIR OG GEITURNAR

3. Hvenær dæmir Jesús fólk?

3 Í dæmisögunni um sauðina og geiturnar lýsir Jesús því að hann dæmi fólk eftir því hvernig það bregst við fagnaðarboðskapnum og hvort það styður andasmurða bræður hans. (Matt. 25:31–46) Í þrengingunni miklu fellir hann þennan dóm rétt áður en Harmagedón hefst. (Matt. 24:21) Eins og fjárhirðir skilur sauði frá geitum mun Jesús skilja þá sem styðja hann trúfastlega frá þeim sem gera það ekki.

4. Hvernig getum við verið viss um að Jesús dæmi fólk af sanngirni samkvæmt Jesaja 11:3, 4? (Sjá einnig mynd.)

4 Í Biblíunni segir að Jehóva hafi skipað Jesú sem dómara og að hann dæmi réttlátlega. (Lestu Jesaja 11:3, 4.) Jesús fylgist með hegðun, viðhorfum og tali fólks, þar á meðal hvernig það kemur fram við andasmurða bræður hans. (Matt. 12:36, 37; 25:40) Honum verður því fullkunnugt um hverjir styðja bræður hans og starf þeirra. a Ein mikilvægasta leiðin til að styðja bræður Krists er að aðstoða þá við boðunina. Þeir sem gera það verða dæmdir réttlátir og hljóta eilíft líf á jörð. (Matt. 25:46; Opinb. 7:16, 17) Það eru dásamleg laun fyrir að reynast trúfastur! Nöfn þeirra standa í „bók lífsins“ ef þeir eru trúfastir í þrengingunni miklu og þaðan í frá. – Opinb. 20:15.

Í náinni framtíð dæmir Jesús hvort einstaklingar reynast eins og sauðir eða geitur. (Sjá 4. grein.)


5. Hvað er hægt að læra af dæmisögunni um sauðina og geiturnar og hverjir ættu sérstaklega að taka hana til sín?

5 Vertu trúr og ráðvandur. Dæmisagan um sauðina og geiturnar á fyrst og fremst við um þá sem hafa jarðneska von. Þeir sýna trú sína bæði með því að styðja bræður Krists í boðuninni og með því að hlýða leiðsögn lítils hóps andasmurðra bræðra sem Jesús hefur útvalið. (Matt. 24:45) En hinir andasmurðu þurfa líka að taka mark á viðvöruninni sem felst í dæmisögunni. Jesús tekur eftir verkum þeirra, viðhorfum og tali. Þeir þurfa líka að vera trúir. Jesús sagði tvær aðrar dæmisögur sem hafa að geyma viðvaranir til hinna andasmurðu en þær er líka að finna í Matteusi kafla 25. Lítum nú á dæmisöguna um skynsömu og óskynsömu meyjarnar.

SKYNSÖMU OG ÓSKYNSÖMU MEYJARNAR

6. Hvernig reyndust fimm af meyjunum skynsamar? (Matteus 25:6–10)

6 Í dæmisögunni um meyjarnar talar Jesús um tíu meyjar sem fóru til móts við brúðguma. (Matt. 25:1–4) Þær vonuðust til að geta fylgt brúðgumanum til brúðkaupsveislunnar. Jesús segir að fimm þeirra hafi verið skynsamar og fimm óskynsamar. Þær skynsömu voru viðbúnar og vakandi. Þær voru tilbúnar að bíða eftir brúðgumanum eins lengi og þörf var á, jafnvel þótt hann kæmi seint um kvöld. Þær tóku því með sér olíulampa til að lýsa upp myrkrið. Þær tóku líka með sér aukaolíu ef brúðgumanum seinkaði. Þannig gátu þær haldið ljósinu á lömpunum lifandi. (Lestu Matteus 25:6–10.) Þegar brúðguminn kom fóru skynsömu meyjarnar með honum í veisluna. Á svipaðan hátt munu smurðir kristnir menn sem reynast vakandi og trúir þegar Kristur kemur verða dæmdir þess verðugir að sameinast brúðgumanum, Kristi, í himnesku ríki hans. b (Opinb. 7:1–3) Hvað um fimm óskynsömu meyjarnar?

7. Hvernig fór fyrir óskynsömu meyjunum fimm og hvers vegna?

7 Ólíkt skynsömu meyjunum voru hinar fimm óskynsömu ekki tilbúnar þegar brúðguminn birtist. Ljósið á lömpum þeirra var við það að slokkna og þær höfðu ekki tekið með sér neina aukaolíu. Þegar þær fréttu að brúðguminn væri rétt ókominn þurftu þær að fara til að kaupa meiri olíu. Þær voru ekki komnar til baka þegar brúðguminn birtist. En „meyjarnar sem voru viðbúnar fóru með honum inn til brúðkaupsveislunnar og dyrunum var lokað“. (Matt. 25:10) Seinna sneru óskynsömu meyjarnar aftur og vildu komast inn en brúðguminn sagði þá: „Ég þekki ykkur ekki.“ (Matt. 25:11, 12) Þær voru ekki undir það búnar að bíða eftir brúðgumanum eins lengi og þörf var á. Hvað geta hinir andasmurðu lært af þessu?

8, 9. Hvað geta hinir andasmurðu lært af dæmisögunni um meyjarnar? (Sjá einnig mynd.)

8 Vertu viðbúinn og vakandi. Jesús var ekki að spá fyrir um tvo hópa andasmurðra – annan sem væri tilbúinn að bíða allt til enda þessa heims og hinn sem væri það ekki. Með dæmisögunni var hann að útskýra hvað myndi gerast hjá andasmurðum mönnum sem væru ekki tilbúnir til að halda trúfastir út allt til enda. Þeir myndu missa af laununum. (Jóh. 14:3, 4) Þetta er greinilega alvarlegt mál! Hvort sem við höfum himneska eða jarðneska von ættum við öll að taka til okkar viðvörunina í dæmisögunni um meyjarnar. Við þurfum öll að halda vöku okkar og vera tilbúin að halda út allt til enda. – Matt. 24:13.

9 Eftir að Jesús hafði lagt áherslu á að vera viðbúinn og vakandi í dæmisögunni um meyjarnar sagði hann dæmisöguna um talenturnar. Hún undirstrikar þörfina á að vera vinnusamur.

Það er mikilvægt að við tökum til okkar viðvörunina í dæmisögunni um meyjarnar með því að vera viðbúin, vakandi og tilbúin að halda út allt til enda. (Sjá 8. og 9. grein.)


TALENTURNAR

10. Hvernig reyndust tveir þjónanna trúir? (Matteus 25:19–23)

10 Í dæmisögunni um talenturnar segir Jesús frá tveim þjónum sem voru trúir húsbónda sínum og einum sem var það ekki. (Matt. 25:14–18) Þjónarnir tveir reyndust trúir með því að leggja hart að sér að ávaxta fé húsbóndans. Áður en hann fór til útlanda treysti hann þeim fyrir talentum – hárri peningaupphæð. Þeir voru vinnusamir og versluðu skynsamlega með peningana. Þegar húsbóndi þeirra sneri aftur höfðu þeir tvöfaldað peningaupphæðina. Hann hrósaði þeim og ‚þeir fögnuðu með húsbónda sínum‘. (Lestu Matteus 25:19–23.) En hvað um þriðja þjóninn? Hvað gerði hann við peningana sem húsbóndinn hafði treyst honum fyrir?

11. Hvernig fór fyrir lata þjóninum og hvers vegna?

11 Þriðji þjónninn fékk eina talentu en hann reyndist latur. Húsbóndi hans vænti þess að hann færi skynsamlega með talentuna. En þess í stað gróf hann hana í jörð. Þegar húsbóndinn sneri aftur hafði þjónninn ekkert fram að færa nema þessa einu talentu. Í staðinn fyrir að biðjast afsökunar á því að hafa ekki ávaxtað eigur húsbóndans sakaði hann húsbóndann ranglega um að vera „kröfuharður maður“. Þjónninn hafði greinilega ekki rétt viðhorf og ávann sér ekki velþóknun húsbónda síns. Auk þess var talentan tekin af honum og honum var kastað úr húsi húsbóndans. – Matt. 25:24, 26–30.

12. Hverja tákna þjónarnir tveir nú á dögum?

12 Trúu þjónarnir tveir tákna trúfasta andasmurða einstaklinga. Húsbóndinn, Jesús, býður þeim að ‚fagna með sér‘. Þeir hljóta laun á himnum, það er hlut í fyrri upprisunni. (Matt. 25:21, 23; Opinb. 20:5a) En lati þjónninn er hinum andasmurðu víti til varnaðar. Hvernig þá?

13, 14. Hvað læra andasmurðir af dæmisögunni um talenturnar? (Sjá einnig mynd.)

13 Vertu iðinn. Eins og í dæmisögunni um meyjarnar var Jesús í dæmisögunni um talenturnar ekki að segja að hinir andasmurðu yrðu latir heldur hvað myndi gerast ef þeir hættu að þjóna af brennandi áhuga. Þeir reyndust þá ekki ‚trúir köllun sinni og útvalningu‘ og fengju ekki inngöngu í ríkið á himnum. – 2. Pét. 1:10.

14 Dæmisögur Jesú um meyjarnar og talenturnar sýna greinilega að allir andasmurðir kristnir menn verða að vera viðbúnir og vakandi auk þess að vera iðnir. En sagði Jesús eitthvað fleira sem átti að vera hinum andasmurðu til viðvörunar? Hann gerði það. Það sem Jesús segir í Matteusi 24:40, 41 á einnig við um lokadóminn yfir hinum andasmurðu.

Jesús vill sjá hina andasmurðu iðna í verki. (Sjá 13. og 14. grein.) d


HVER „VERÐUR TEKINN“?

15, 16. Hvernig hjálpar Matteus 24:40, 41 hinum andasmurðu að skilja að þeir þurfi að halda vöku sinni?

15 Áður en Jesús sagði þessar þrjár dæmisögur talaði hann um lokadóm yfir hinum andasmurðu sem myndi leiða í ljós hverjir þeirra hefðu velþóknun Guðs. Hann talaði um tvo menn sem voru að vinna á akri og tvær konur sem voru að mala í handkvörn. Mennirnir virtust báðir vera að gera það sama en Jesús sagði að annar yrði „tekinn og hinn skilinn eftir“, og hann sagði það sama um konurnar tvær. (Lestu Matteus 24:40, 41.) Hann hvetur síðan fylgjendur sína: „Haldið því vöku ykkar. Þið vitið ekki hvaða dag Drottinn ykkar kemur.“ (Matt. 24:42) Jesús sagði eitthvað svipað eftir að hafa sagt dæmisöguna um meyjarnar. (Matt. 25:13) Eru tengsl þarna á milli? Svo virðist vera. Aðeins þeir sem eru trúfastir köllun sinni ‚verða teknir‘ og fá inngöngu í himneskt ríki. – Jóh. 14:3.

16 Haltu vöku þinni. Andasmurður einstaklingur sem heldur ekki vöku sinni verður ekki á meðal hinna „útvöldu“ sem verður safnað saman. (Matt. 24:31) En í raun á þetta við um alla þjóna Guðs sama hvaða von þeir hafa. Allir þurfa að taka mark á viðvörun Jesú um að halda vöku sinni og vera trúfastir.

17. Hvers vegna ætti það ekki að valda okkur heilabrotum þótt Jehóva ákveði að smyrja fólk með heilögum anda sínum nú á dögum?

17 Við þekkjum Jehóva og getum því treyst dómum hans. Það veldur okkur ekki heilabrotum þótt hann hafi nú á síðari árum útvalið einstaklinga til að tilheyra hópi andasmurðra. c Við munum hvað Jesús sagði um verkamennina sem voru ráðnir á elleftu stund í dæmisögu sinni um víngarðinn. (Matt. 20:1–16) Þeir sem fengu vinnu í víngarðinum seinna um daginn hlutu sömu laun og þeir sem byrjuðu að vinna fyrr um daginn. Eins hljóta hinir andasmurðu sömu laun ef þeir reynast trúfastir og það skiptir engu hvenær þeir voru valdir.

HLUSTAÐU Á VIÐVARANIRNAR

18, 19. Hvaða viðvaranir höfum við skoðað í þessari námsgrein?

18 Rifjum upp það sem við höfum rætt. Dæmisagan um sauðina og geiturnar sýnir þeim sem vonast til að lifa að eilífu á jörðinni hversu mikilvægt það er að vera trú og ráðvönd Jehóva – núna og í þrengingunni miklu sem er nærri. Þeir sem Jehóva dæmir trúfasta á þeim tíma eru þess verðir að „hljóta eilíft líf“. – Matt. 25:46.

19 Við skoðuðum líka tvær dæmisögur sem hafa að geyma viðvaranir til hinna andasmurðu. Í dæmisögu Jesú um skynsömu og óskynsömu meyjarnar reyndust fimm þeirra vitrar. Þær voru vel undirbúnar og vakandi og tilbúnar að bíða eftir brúðgumanum eins lengi og þörf var á. En óskynsömu meyjarnar voru óundirbúnar og þess vegna vildi brúðguminn ekki hleypa þeim í brúðkaupsveisluna. Við verðum sömuleiðis að vera tilbúin að bíða þangað til Jesús bindur enda á þessa heimsskipan, hvenær sem það verður. Í dæmisögu Jesú um talenturnar ræddum við um tvo trúa og iðna þjóna. Þeir unnu hörðum höndum fyrir húsbónda sinn og fengu velþóknun hans. En lata þjóninum var hafnað. Hvað lærum við af því? Við verðum að vera upptekin í þjónustu Jehóva allt til enda. Að síðustu ræddum við hvernig hinir andasmurðu verða að halda vöku sinni til að Jesús taki þá til himna þar sem þeir hljóta laun sín. Þeir bíða spenntir eftir því að hann safni þeim saman til himna. Eftir Harmagedónstríðið taka þeir þátt í brúðkaupi lambsins sem brúður Jesú. – 2. Þess. 2:1; Opinb. 19:9.

20. Hvað gerir Jehóva fyrir þá sem taka mark á viðvörunum hans?

20 Þótt tími dóms nálgist er engin ástæða til að óttast. Ef við erum trúföst mun kærleiksríkur faðir okkar á himnum gefa okkur ‚kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘ svo að við getum ‚staðist frammi fyrir mannssyninum‘. (2. Kor. 4:7; Lúk. 21:36) Við gleðjum föður okkar á himnum ef við tökum mark á viðvörununum í dæmisögum Jesú, hvort sem von okkar er að lifa á jörðinni eða á himnum. Vegna einstakrar góðvildar Jehóva verða nöfn okkar skráð í „bók lífsins“. – Dan. 12:1; Opinb. 3:5.

SÖNGUR 26 Þið gerðuð mér gott

a Sjá greinina „Hvað vitum við um dóma Jehóva í framtíðinni?“ í Varðturninum í maí 2024.

b Lestu greinina „Ætlar þú að halda vöku þinni?“ í Varðturninum 15. mars 2015 til að fá frekari upplýsingar.

d MYND: Andasmurð systir aðstoðar unga konu sem hún hitti í boðuninni við biblíunám.