Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 39

SÖNGUR 125 „Sælir eru miskunnsamir“

Njóttu ánægjunnar sem fylgir því að gefa

Njóttu ánægjunnar sem fylgir því að gefa

„Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“POST. 20:35.

Í HNOTSKURN

Við lærum um hvernig við getum varðveitt gleðina sem fylgir því að gefa og jafnvel aukið hana.

1, 2. Hvers vegna skapaði Jehóva okkur þannig að við verðum ánægðari þegar við gefum en þegar við þiggjum?

 ÞEGAR Jehóva skapaði mennina gerði hann þá þannig úr garði að það veitir þeim meiri ánægju að gefa en að þiggja. (Post. 20:35) Þýðir þetta að það veiti okkur ekki ánægju að vera þiggjendur? Nei, við vitum af eigin raun að það er alltaf gaman að fá gjöf. En það er samt ánægjulegra að gefa öðrum gjöf. Og það er okkur til góðs að Jehóva skapaði okkur þannig. Hvernig þá?

2 Jehóva gerði okkur fær um að auka gleði okkar með því að skapa okkur þannig. Við getum orðið ánægðari þegar við leitum leiða til að gefa. Er ekki frábært að hann skuli hafa gert okkur þannig úr garði? – Sálm. 139:14.

3. Hvers vegna er Jehóva „hinn hamingjusami Guð“?

3 Biblían fullvissar okkur um að það veiti ánægju að gefa. Það er því engin furða að hún segi að Jehóva sé „hinn hamingjusami Guð“. (1. Tím. 1:11) Jehóva var sá fyrsti til að gefa og enginn hefur gefið meira en hann. Það er hans vegna sem við „lifum, hreyfum okkur og erum til,“ eins og Páll postuli orðaði það. (Post. 17:28) „Sérhver góð og fullkomin gjöf“ kemur frá Jehóva. – Jak. 1:17.

4. Hvernig getum við aukið gleði okkar?

4 Við viljum líklega öll njóta ánægjunnar sem fylgir því að gefa. Við getum gert það í enn meira mæli með því að líkja eftir örlæti Jehóva. (Ef. 5:1) Í þessari námsgrein skoðum við hvað við getum gert ef okkur finnst aðrir ekki kunna að meta það sem við gerum fyrir þá. Þessar leiðbeiningar hjálpa okkur að halda áfram að vera örlát og ánægðari fyrir vikið.

LÍKJUM EFTIR ÖRLÆTI JEHÓVA

5. Hverju sér Jehóva okkur fyrir?

5 Hvernig sýnir Jehóva örlæti? Skoðum fáein dæmi. Jehóva sér fyrir efnislegum þörfum okkar. Við búum kannski ekki við munað en við getum þakkað Jehóva ef við höfum það sem við þurfum. Hann sér til þess að við höfum fæði, klæði og húsaskjól. (Sálm. 4:8; Matt. 6:31–33; 1. Tím. 6:6–8) Annast Jehóva efnislegar þarfir okkar af einskærri skyldurækni? Síður en svo! Hvers vegna gerir Jehóva þetta fyrir okkur?

6. Hvað lærum við af Matteusi 6:25, 26?

6 Jehóva sér fyrir efnislegum þörfum okkar vegna þess að hann elskar okkur. Skoðum það sem Jesús segir í Matteusi 6:25, 26. (Lestu.) Jesús tekur dæmi úr sköpunarverkinu. Hann segir um fuglana: „Þeir sá hvorki né uppskera né safna í hlöður.“ En tökum eftir því sem hann segir næst: „Faðir ykkar á himnum fóðrar þá.“ Síðan spyr Jesús: „Eruð þið ekki meira virði en þeir?“ Hvað var hann að kenna okkur? Trúfastir þjónar Jehóva eru langtum dýrmætari í augum hans en dýrin. Fyrst hann sér um dýrin getum við verið viss um að hann sjái um okkur. Eins og umhyggjusamur faðir sér Jehóva fyrir þörfum fjölskyldu sinnar vegna þess að hann elskar hana. – Sálm. 145:16; Matt. 6:32.

7. Hvernig getum við líkt eftir örlæti Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

7 Eins og Jehóva getum við stutt aðra efnislega vegna þess að við elskum þá. Veistu um bróður eða systur sem vantar mat eða föt? Jehóva getur notað þig til að mæta þessari þörf. Þjónar Jehóva eru þekktir fyrir að sýna örlæti á hættutímum. Á tímum COVID-19 faraldursins gáfu bræður og systur fæði, klæði og aðrar nauðsynjar þeim sem þurftu á því að halda. Margir gáfu líka rausnarleg fjárframlög til alþjóðastarfsins og það hjálpaði til við að fjármagna neyðaraðstoð um allan heim. Þessi trúsystkini tóku til sín hvatninguna í Hebreabréfinu 13:16: „Gleymið ekki að gera gott og gefa öðrum af því sem þið eigið því að Guð er ánægður með slíkar fórnir.“

Við getum öll líkt eftir örlæti Jehóva. (Sjá 7. grein.)


8. Hvað gefur Jehóva okkur kraft til að gera? (Filippíbréfið 4:13)

8 Jehóva gefur kraft. Jehóva er ónískur að veita tilbiðjendum sínum af ótakmörkuðum krafti sínum. (Lestu Filippíbréfið 2:13.) Hefur þú einhvern tíma beðið um styrk til að standast freistingu eða halda út í erfiðri prófraun? Þú hefur ef til vill beðið um nægilegan kraft til þess einfaldlega að komast í gegnum daginn. Þegar þú fékkst bænheyrslu varstu trúlega sammála Páli postula sem skrifaði: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Fil. 4:13.

9. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva með því að nota krafta okkar í þágu annarra? (Sjá einnig mynd.)

9 Við getum líkt eftir Jehóva og verið örlát á krafta okkar þótt við séum ófullkomin. Við gefum ekki öðrum orku í bókstaflegum skilningi en við getum notað krafta okkar í þágu annarra. Við gætum til dæmis hjálpað öldruðu eða veikburða trúsystkini við húsverkin eða farið í sendiferðir fyrir það. Ef aðstæður okkar leyfa gætum við hjálpað til við þrif og viðhald ríkissalarins. Við gerum margt fyrir bræður okkar og systur þegar við notum krafta okkar á þennan hátt.

Við getum notað krafta okkar í þágu annarra. (Sjá 9. grein.)


10. Hvernig getum við styrkt aðra með orðum okkar?

10 Gleymum ekki heldur að orð hafa mátt. Dettur þér einhver í hug sem gæti þurft á einlægu hrósi að halda? Veistu um einhvern sem þarfnast hughreystingar? Hvers vegna ekki að taka frumkvæðið og hafa samband við hann? Þú gætir heimsótt hann, hringt eða kannski sent kort, tölvupóst eða SMS. Þú þarft ekki að segja neitt stórkostlegt. Það sem trúsystkini þitt þarf á að halda er kannski bara að þú segir eitthvað einlægt frá hjartanu. Það getur einmitt verið það sem hjálpar því að þjóna Jehóva áfram af trúfesti eða til að líða aðeins betur. – Orðskv. 12:25; Ef. 4:29.

11. Hvernig gefur Jehóva af visku sinni?

11 Jehóva gefur visku. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana. Hann mun fá hana því að Guð gefur öllum af örlæti og án þess að finna að þeim.“ (Jak. 1:5) Eins og þessi orð gefa til kynna lúrir Jehóva ekki á viskunni. Hann er örlátur á hana. Tökum líka eftir að þegar Jehóva gefur einhverjum visku gerir hann það „án þess að finna að þeim“. Hann lætur okkur aldrei líða illa þegar við biðjum hann um leiðsögn. Hann vill gjarnan að við biðjum um hana. – Orðskv. 2:1–6.

12. Hvaða tækifæri höfum við til að miðla þekkingu okkar til annarra?

12 Hvað um okkur? Getum við líkt eftir Jehóva að þessu leyti? (Sálm. 32:8) Þjónar Jehóva hafa mörg tækifæri til að deila með öðrum því sem þeir hafa lært. Við þjálfum til dæmis nýja í boðuninni. Öldungar kenna safnaðarþjónum og skírðum bræðrum að sinna verkefnum í söfnuðinum. Og þeir sem hafa reynslu af viðhaldi og byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins þjálfa þá sem eru reynsluminni.

13. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva þegar við þjálfum aðra?

13 Reyndu að líkja eftir Jehóva þegar þú þjálfar aðra. Hann er ekki nískur á visku sína. Við erum ekki heldur nísk á þekkingu okkar og reynslu þegar við kennum öðrum. Við höldum ekki aftur af okkur af ótta við að missa verkefni okkar í hendur þeirra sem við kennum. Og við hugsum ekki: „Það var enginn sem kenndi mér! Hann getur bara lært þetta sjálfur.“ Slíkt viðhorf á ekki heima meðal þjóna Guðs. Við erum tilbúinn að deila öllu sem við vitum og kunnum til að þjálfa aðra. (1. Þess. 2:8) Við viljum að þeir verði „hæfir til að kenna öðrum“. (2. Tím. 2:1, 2) Þannig getum við orðið hluti af hringrás örlætis sem leiðir til þess að við og aðrir verðum hamingjusamari.

ÞEGAR FÓLK VIRÐIST VANÞAKKLÁTT

14. Hvernig bregðast flestir við þegar við gerum eitthvað fyrir þá?

14 Þegar við erum örlát, sérstaklega gagnvart bræðrum okkar og systrum, þakka þau gjarnan fyrir sig. Þau senda kannski þakkarkort eða tjá þakklæti á annan hátt. (Kól. 3:15) Það gleður okkur þegar aðrir sýna slíkt þakklæti.

15. Hvað ættum við að hafa í huga þegar aðrir sýna ekki þakklæti?

15 En raunin er sú að það sýna ekki allir þakklæti fyrir það sem er gert fyrir þá. Við gætum stundum notað tíma okkar, eigur og krafta í þágu annarra og velt því fyrir okkur hvort þeir kunni að meta það. Hvernig getum við forðast að missa gleðina eða verða bitur ef það gerist? Mundu það sem segir í Postulasögunni 20:35. Gleðin af að gefa veltur ekki á viðbrögðunum. Við getum notið þess að gefa þótt aðrir virðist ekki kunna að meta það. Skoðum nokkrar leiðir til þess.

16. Hvað getur hjálpað okkur að gefa með gleði?

16 Líktu eftir Jehóva. Hann gefur fólki góða hluti hvort sem það kann að meta það eða ekki. (Matt. 5:43–48) Jehóva lofar að þegar við gerum slíkt hið sama og gefum „án þess að vænta nokkurrar endurgreiðslu“ verði laun okkar mikil. (Lúk. 6:35) Að vænta ekki nokkurrar endurgreiðslu getur falið í sér að búast ekki við að aðrir tjái þakklæti sitt. Hvort sem þeir gera það eða ekki mun Jehóva alltaf endurgjalda okkur fyrir það góða sem við gerum fyrir aðra. Hann blessar okkur þegar við erum glaðir gjafarar. – Orðskv. 19:17; 2. Kor. 9:7.

17. Hvað annað getur hjálpað okkur að hafarétt viðhorf til þess að gefa? (Lúkas 14:12–14)

17 Við finnum mikilvæga meginreglu í Lúkasi 14:12–14 sem hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf til þess að gefa. (Lestu.) Það er ekkert rangt í sjálfu sér að vera gestrisinn og örlátur við þá sem geta endurgoldið okkur. En hvað ef við höfum tilhneigingu til að verða vonsvikin þegar við gerum eitthvað fyrir aðra og fáum ekkert til baka? Þá væri gott að fara eftir hvatningu Jesú. Við gætum sýnt þeim gestrisni sem hafa ekki aðstæður til að sýna okkur gestrisni. Það mun veita okkur gleði vegna þess að þá erum við að líkja eftir Jehóva. Þetta sama viðhorf hjálpar okkur líka að varðveita gleði þegar aðrir sýna okkur ekki þakklæti.

18. Hvað hjálpar okkur að dæma ekki aðra of hart?

18 Forðastu að dæma hvatir annarra. (1. Kor. 13:7) Ef aðrir tjá ekki þakklæti sitt gætum við spurt okkur: „Endurspeglar þetta vanþakklæti eða gleymdu þeir einfaldlega að þakka fyrir sig?“ Kannski eru aðrar ástæður fyrir því að þeir brugðust ekki við eins og við vonuðumst til. Sumir eru kannski innilega þakklátir en eiga erfitt með að sýna það. Þeim finnst kannski vandræðalegt að þiggja hjálp, sérstaklega ef það voru þeir sem gátu áður hjálpað öðrum. Ef við elskum bræður okkar og systur hugsum við ekki neikvætt til þeirra og höldum áfram að gefa þeim með gleði. – Ef. 4:2.

19, 20. Hvers vegna er mikilvægt að vera þolinmóð þegar við gerum eitthvað fyrir aðra? (Sjá einnig mynd.)

19 Sýndu þolinmæði. Salómon konungur skrifaði um örlæti: „Kastaðu brauði þínu út á vatnið því að mörgum dögum síðar muntu finna það aftur.“ (Préd. 11:1) Eins og þessi orð gefa til kynna þakka sumir fyrir sig kannski löngu seinna – „mörgum dögum síðar“. Skoðum reynslu einnar systur.

20 Fyrir mörgum árum skrifaði eiginkona farandhirðis hlýlegt kort til nýskírðrar systur. Í kortinu hvatti hún hana til að vera trúföst Jehóva. Um átta árum síðar skrifaði systirin henni til baka og sagði: „Mér fannst ég verða að skrifa þér og segja þér hvað það sem þú gerðir hefur reynst mér mikil hjálp í gegnum árin án þess að þú hefðir hugmynd um það.“ Hún bætir við: „Kortið frá þér var mjög hlýlegt en það var biblíuversið sem snerti hjarta mitt mest og fór aldrei úr huga mér.“ a Eftir að hafa útskýrt erfiðleikana sem hún hafði gengið í gegnum sagði hún: „Stundum langaði mig bara til að gefast upp og hætta að þjóna Jehóva. En versið greyptist í hjarta mér og ég gat … haldið áfram.“ Hún bætir við: „Í þessi átta ár hefur ekkert uppörvað mig eins mikið.“ Við getum rétt ímyndað okkur hversu ánægð eiginkona farandhirðisins hefur verið að fá þetta bréf „mörgum dögum síðar“. Okkur getur líka verið tjáð þakklæti löngu eftir að við höfum gert eitthvað fyrir aðra.

Sumir gætu þakkað okkur löngu eftir að við höfum gert þeim gott. (Sjá 20. grein.) b


21. Af hverju viltu leggja þig fram við að líkja eftir örlæti Jehóva?

21 Jehóva skapaði okkur með þann sérstaka eiginleika að vera ánægðari þegar við gefum heldur en þegar við þiggjum. Okkur líður vel þegar við hjálpum trúsystkinum okkar og erum glöð þegar þau tjá þakklæti sitt. En hvort sem þau gera það eða ekki getum við verið ánægð þegar við gerum það sem er rétt. En gleymdu því aldrei að hversu mikið sem þú gefur ‚getur Jehóva gefið þér miklu meira‘. (2. Kron. 25:9) Hann er sá sem er örlátastur! Og þegar Jehóva launar okkur jafnast ekkert á við það. Gerum allt sem við getum til að halda áfram að líkja eftir örlátum föður okkar á himnum.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

a Biblíuversið sem eiginkona farandhirðis vitnaði í var 2. Jóhannesarbréf 8 sem segir: „Gætið ykkar svo að þið glatið ekki því sem við höfum áorkað heldur hljótið full laun.“

b MYND: Sviðsett mynd af því þegar eiginkona farandhirðis skrifar uppörvandi kort til systur. Árum síðar fær hún þakkarbréf.