Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rétt og rangt: Leiðbeiningar sem virka

Rétt og rangt: Leiðbeiningar sem virka

Skoðum fjögur svið lífsins þar sem Biblían veitir traustar leiðbeiningar sem hafa hjálpað milljónum manna.

1. Hjónaband

Fólk hefur mismunandi viðhorf til hjónabands og ólíkar skoðanir á því hvað þarf til að gera það hamingjuríkt.

Í BIBLÍUNNI SEGIR: ‚Hver og einn á að elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.‘ – Efesusbréfið 5:33.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Guð stofnaði hjónabandið og hann veit því hvað þarf til að hjón séu hamingjusöm. (Markús 10:6–9) Hjón njóta hamingju þegar þau einblína á hvernig þau geta styrkt hjónabandið en ekki hvað þau geti sjálf fengið út úr því. Eiginmaður sem elskar konuna sína sýnir það með því að koma vel fram við hana og láta sér annt um hana. Og eiginkona sem ber virðingu fyrir manni sínum sýnir það bæði í orði og verki.

LEIÐBEININGAR BIBLÍUNNAR VIRKA: Quang og Thi frá Víetnam fannst þau vera fangar í slæmu hjónabandi. Quang var oft kuldalegur. Hann segir: „Mér stóð á sama um hvernig Thi leið og gerði oft lítið úr henni.“ Thi langaði að skilja. Hún segir: „Mér fannst ég ekki lengur geta treyst manninum mínum og sýnt honum virðingu.“

Quang og Thi kynntust síðar Biblíunni og lærðu að heimfæra Efesusbréfið 5:33 upp á hjónaband sitt. „Versið gerði mér ljóst að ég þyrfti að vera hlýlegur,“ segir Quang, „og láta Thi finna að ég elskaði hana og annaðist hana efnislega, líkamlega og tilfinningalega. Þegar ég geri það elskar hún mig og virðir.“ Og Thi segir: „Því betur sem ég fer eftir Efesusbréfinu 5:33 og virði eiginmann minn því betur finn ég að hann elskar mig og verndar, og það veitir mér frið.“

Lestu meira um hjónabandið í Vaknið! nr. 2 2018 sem ber heitið „Hvað einkennir farsælar fjölskyldur?“ á jw.org.

2. Framkoma við aðra

Fólk kemur oft illa fram við aðra vegna kynþáttar þeirra, þjóðernis, útlits, trúar eða kynhneigðar.

Í BIBLÍUNNI SEGIR: „Virðið alls konar menn.“ – 1. Pétursbréf 2:17.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Biblían leggur ekki blessun sína yfir kynþáttafordóma, útlendingahatur eða fordóma gegn samkynhneigðum. Hún hvetur okkur öllu heldur til að virða alla, óháð kynþætti, þjóðerni og samfélagsstöðu. (Postulasagan 10:34) Þó að við séum ósammála skoðunum annarra eða hegðun þeirra getum við verið vingjarnleg og sýnt þeim virðingu. – Matteus 7:12.

LEIÐBEININGAR BIBLÍUNNAR VIRKA: Daniel var kennt að líta á fólk frá Asíu sem ógn við land sitt. Hann hataði alla af asískum uppruna og gerði oft lítið úr þeim á almannafæri. „Ég réttlætti hegðun mína sem ‚föðurlandsást‘,“ segir Daniel. „Mér datt ekki einu sinni í hug að það sem ég hugsaði og gerði væri rangt.“

Síðar meir kynntist Daniel því sem Biblían kennir. „Ég þurfti að gerbreyta hugsunarhætti mínum,“ segir Daniel. „Ég þurfti að sjá fólk frá sjónarhóli Guðs – við erum öll jöfn, sama hvaðan við komum.“ Daniel lýsir því hvernig hann hugsar núna þegar hann hittir fólk. Hann segir: „Ég pæli oft ekki einu sinni í því hvaðan það er. Núna elska ég fólk af alls konar uppruna og á nána vini héðan og þaðan úr heiminum.“

Lestu Vaknið! nr. 3 2020 sem ber heitið „Er hægt að sigrast á fordómum?“ á jw.org til að fá nánari upplýsingar.

3. Peningar

Margir sækjast eftir auði til að hljóta hamingju og örugga framtíð.

Í BIBLÍUNNI SEGIR: „Viska veitir vernd eins og peningar veita vernd en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir að samfara visku heldur hún manni á lífi.“ – Prédikarinn 7:12.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Við þurfum peninga en þeir eru engin trygging, hvorki fyrir hamingju né fyrir framtíð okkar. (Orðskviðirnir 18:11; 23:4, 5) Sönn hamingja og örugg framtíð er öllu heldur háð því að við tökum til okkar visku Guðs sem er að finna í Biblíunni. – 1. Tímóteusarbréf 6:17–19.

LEIÐBEININGAR BIBLÍUNNAR VIRKA: Cardo, maður í Indónesíu, einblíndi á að afla sér auðs. „Ég átti það sem flesta dreymir um,“ segir hann. „Ég gat ferðast og keypt mér munaðarvörur, bíla og fleiri en eitt hús.“ En þessi velgengni entist ekki lengi. „Ég var svikinn og auðurinn sem ég hafði stritað fyrir öll þessi ár var horfinn á augabragði,“ segir Cardo. „Ég hafði eytt ævinni í að sækjast eftir auði en þegar öllu var á botninn hvolft stóð ég eftir tómhentur, vonsvikinn og fannst ég einskis virði.“

Cardo fór að tileinka sér ráð Biblíunnar varðandi peninga. Hann notar ekki lengur alla orkuna í að sanka að sér auði heldur lifir einfaldara lífi. „Sönn og varanleg verðmæti tengjast sambandi okkar við Guð,“ segir hann. „Ég get sofið vært og hef fundið sanna hamingju.“

Lestu greinina „Þrennt sem fæst ekki fyrir peninga“ í Vaknið! nóvember 2013 á jw.org til að kynnast viðhorfi Biblíunnar til peninga.

4. Kynlíf

Fólk hefur mjög ólíkar skoðanir á því hvað er viðeigandi í kynferðismálum.

Í BIBLÍUNNI SEGIR: „Haldið ykkur frá kynferðislegu siðleysi. Hvert og eitt ykkar ætti að kunna að hafa stjórn á líkama sínum og halda honum heilögum og til sóma en ekki láta stjórnast af girnd og taumlausum losta eins og þjóðirnar sem þekkja ekki Guð.“ – 1. Þessaloníkubréf 4:3–5.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Biblían setur því ákveðin mörk hvernig við megum tjá kynferðislanganir okkar. ‚Kynferðislegt siðleysi‘ felur í sér framhjáhald, vændi, kynmök ógiftra einstaklinga, kynmök samkynhneigðra og kynmök við dýr. (1. Korintubréf 6:9, 10) Kynlíf er gjöf frá Guði sem hann ætlaði eingöngu karlmanni og konu innan hjónabands. – Orðskviðirnir 5:18, 19.

LEIÐBEININGAR BIBLÍUNNAR VIRKA: Kona í Ástralíu, sem heitir Kylie, segir: „Þar sem ég var einhleyp hugsaði ég að ég fyndi fyrir ást og öryggi ef ég stundaði kynlíf. En það var alveg öfugt. Ég var óörugg og í ástarsorg.“

Seinna kynntist Kylie því hvað Biblían segir um kynlíf og fór eftir því. „Ég áttaði mig á að Guð gaf okkur meginreglur til að vernda okkur gegn sársauka,“ segir hún. „Núna finn ég fyrir öryggi og finnst ég vera elskuð af því að ég lifi eins og Jehóva vill að við gerum. Leiðbeiningar Biblíunnar hafa hlíft mér við miklum sársauka!“

Lestu greinina „Hvað segir Biblían um óvígða sambúð?“ á jw.org til að fá nánari upplýsingar.

Skaparinn hjálpar okkur að þekkja muninn á réttu og röngu. Þó að það sé ekki alltaf auðvelt að halda sig við leiðbeiningar hans í siðferðismálum er það þess virði. Við getum treyst því að þær séu okkur alltaf fyrir bestu til langframa.