Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rétt og rangt: Þú þarft að velja

Rétt og rangt: Þú þarft að velja

Þær siðferðisreglur sem við veljum okkur koma til með að hafa mikil áhrif á líf okkar. Jehóva Guð veit það. Þess vegna vill hann að við fylgjum þeim mælikvarða sem hann setur okkur.

Jehóva vill að við njótum friðar og hamingju.

„Ég, Jehóva, er Guð þinn sem kenni þér það sem er þér fyrir bestu og vísa þér veginn sem þú átt að ganga. Bara að þú vildir hlusta á boðorð mín! Þá yrði friður þinn eins og fljót og réttlæti þitt eins og öldur hafsins.“ – Jesaja 48:17, 18.

Guð er skapari okkar og hann veit hvernig er best fyrir okkur að haga lífinu. Hann býður okkur að fylgja leiðbeiningum sínum vegna þess að hann veit að það er okkur til góðs. Við þurfum aldrei að efast um að ákvörðun okkar leiði til góðs ef við fylgjum fyrirmælum Guðs. Það er alltaf rétt ákvörðun sem hefur frið og hamingju í för með sér.

Jehóva biður okkur ekki um að gera eitthvað sem við getum ekki.

„Þetta boðorð, sem ég gef þér í dag, er ekki of þungt fyrir þig og ekki utan seilingar.“ – 5. Mósebók 30:11.

Við gætum þurft að breyta því hvernig við hugsum og hegðum okkur til að fylgja siðferðisreglum Guðs. En Jehóva er ekki að fara fram á of mikið. Hann er jú skaparinn og veit hvað við erum fær um. Og þegar við kynnumst Jehóva komumst við að því að „boðorð hans eru ekki þung“. – 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Jehóva lofar að hjálpa þeim sem velja að fylgja mælikvarða hans.

„Ég, Jehóva Guð þinn, gríp í hægri hönd þína, ég segi við þig: ‚Vertu ekki hræddur, ég hjálpa þér.‘“ – Jesaja 41:13.

Við getum fylgt siðferðisreglum Guðs vegna þess að hann hjálpar okkur. Hann getur notað til þess orð sitt, Biblíuna, sem veitir okkur uppörvun og von.

Milljónum manna um heim allan finnst meginreglur Biblíunnar hafa bætt líf sitt. Við hvetjum þig til að kynna þér nánar góð ráð Biblíunnar. Þú getur byrjað á því að skoða bæklinginn Von um bjarta framtíð, sem er byggður á Biblíunni. Hægt er að nálgast hann án endurgjalds á jw.org. Í honum eru eftirfarandi kaflar:

  • Hvernig getur Biblían gagnast þér?

  • Biblían veitir von

  • Er hægt að treysta Biblíunni?

Þegar þú rannsakar orð Guðs, Biblíuna, muntu komast að því að hún er ekki úrelt. Hún er „alltaf áreiðanleg, bæði nú og að eilífu“. (Sálmur 111:8) Að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar er besta lífsleiðin. En Guð neyðir okkur ekki til þess. (5. Mósebók 30:19, 20; Jósúabók 24:15) Við þurfum hvert og eitt að taka ákvörðun um það sjálf.