Rétt og rangt: Við þurfum öll að velta því fyrir okkur
Hvað myndirðu gera ef þú ætlaðir að ferðast á stað sem þú hefur aldrei farið á áður?
1. Fara í þá átt sem þú heldur að sé rétt.
2. Fylgja öðrum og vona að þeir rati.
3. Reiða þig á traustan leiðarvísi, eins og GPS-tæki eða kort, eða traustan vin sem þekkir leiðina.
Ef við veljum valkost eitt eða tvö komumst við eitthvert en ekki endilega þangað sem við ætluðum okkur. Ef við veljum þriðja valkostinn megum við hins vegar búast við að komast á áfangastað.
Lífið er eins og ferðalag – og við vonum að það leiði til hamingju. Hvort við komumst á þann áfangastað eða ekki ræðst að miklu leyti af því hvar við leitum leiðsagnar þegar við tökum ákvarðanir.
Fæstar ákvarðanir sem við tökum hafa langvarandi áhrif á líf okkar, en sumar eru þýðingarmeiri. Þær endurspegla siðferðisgildi okkar – viðhorf okkar til þess hvað er rétt og rangt. Slíkar ákvarðanir hafa áhrif á okkur og þá sem við elskum til langframa, annað hvort til góðs eða ills. Þessar ákvarðanir tengjast málum eins og …
kynlífi og hjónabandi.
heiðarleika, vinnu og peningum.
barnauppeldi.
framkomu við aðra.
Hvernig geturðu verið viss um að ákvarðanir þínar á þessum sviðum leiði til hamingjuríks lífs fyrir þig og fjölskyldu þína?
Spurningin sem hver og einn stendur frammi fyrir er þessi: Hvaða leiðsögn þigg ég þegar ég tek ákvarðanir í siðferðismálum?
Þetta blað útskýrir hvers vegna Biblían er traustur leiðarvísir í siðferðismálum og hvernig hún getur hjálpað þér.