Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 46

SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva

Bræður – sækist þið eftir að verða safnaðarþjónar?

Bræður – sækist þið eftir að verða safnaðarþjónar?

„Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“POST. 20:35.

Í HNOTSKURN

Skírðir bræður fá hvatningu til að sækja fram og uppfylla kröfurnar sem eru gerðar til safnaðarþjóna.

1. Hvernig leit Páll á safnaðarþjóna?

 SAFNAÐARÞJÓNAR vinna mikilvægt starf í söfnuðunum. Páll postuli mat þessa trúföstu menn greinilega mjög mikils. Til dæmis stílaði hann Filippíbréfið meðal annars á safnaðarþjóna og öldunga. – Fil. 1:1.

2. Hvað finnst bróður að nafni Luis um það að vera safnaðarþjónn?

2 Margir skírðir bræður, bæði ungir og gamlir, eru mjög ánægðir að vera safnaðarþjónar. Devan var 18 ára þegar hann var útnefndur safnaðarþjónn. En bróðir að nafni Luis var útnefndur þegar hann var á sextugsaldri. Margir safnaðarþjónar geta eflaust tekið undir það sem hann segir: „Ég er svo ánægður að geta þjónað bræðrum og systrum í söfnuðinum með þessum hætti. Þau hafa sýnt mér svo mikinn kærleika og nú get ég endurgoldið þeim kærleikann.“

3. Hvaða spurningar skoðum við í þessari námsgrein?

3 Ef þú ert skírður bróðir og ekki enn safnaðarþjónn gætirðu þá gert það að markmiði þínu? Hvað gæti verið þér hvatning til þess? Hvaða kröfur þarf safnaðarþjónn að uppfylla samkvæmt Biblíunni? Í þessari námsgrein fáum við svör við þessum spurningum. En lítum fyrst á hlutverk safnaðarþjóna.

HVERT ER HLUTVERK SAFNAÐARÞJÓNA?

4. Hvaða hlutverk hafa safnaðarþjónar? (Sjá einnig mynd.)

4 Safnaðarþjónn er skírður bróðir sem er útnefndur með hjálp heilags anda til að aðstoða öldungana við ýmis verkefni í söfnuðinum. Sumir safnaðarþjónar sjá til þess að boðberar hafi starfssvæði og rit fyrir boðunina. Aðrir hjálpa til við þrif og viðhald á ríkissalnum. Safnaðarþjónar aðstoða líka í hljóð- og mynddeild og sjá um umsjón í sal á samkomum. Margt af því sem þeir gera í söfnuðinum er af verklegu tagi. En fyrst og fremst eru safnaðarþjónar menn sem elska Jehóva og lifa í samræmi við réttlátan mælikvarða hans. Og þeir elska bræður sína og systur innilega. (Matt. 22:37–39) Hvernig getur skírður bróðir sóst eftir því að verða safnaðarþjónn?

Safnaðarþjónar líkja eftir Jesú með því að gefa af sjálfum sér og þjóna öðrum. (Sjá 4. grein.)


5. Hvernig getur bróðir sóst eftir því að verða safnaðarþjónn?

5 Í Biblíunni er útlistað hvaða kröfur eru gerðar til safnaðarþjóna. (1. Tím. 3:8–10, 12, 13) Þú getur sóst eftir þessu hlutverki með því að kynna þér kröfur Biblíunnar og leggja þig síðan fram við að uppfylla þær. En fyrst þarftu að gera þér grein fyrir því af hverju þú vilt verða safnaðarþjónn.

HVERS VEGNA VILTU VERÐA SAFNAÐARÞJÓNN?

6. Hver ætti að vera ástæðan fyrir því að þú vilt þjóna bræðrum þínum og systrum? (Matteus 20:28. Sjá einnig mynd.)

6 Jesús Kristur er besta fyrirmynd okkar. Hann var knúinn af kærleika til föður síns og kærleika til fólks. Vegna kærleika lagði hann hart að sér fyrir aðra og vann verk sem öðrum fannst ekki merkileg. (Lestu Matteus 20:28; Jóh. 13:5, 14, 15) Ef þú ert knúinn af kærleika mun Jehóva blessa þig og hjálpa þér að ná markmiði þínu að verða safnaðarþjónn. – 1. Kor. 16:14; 1. Pét. 5:5.

Jesús kennir postulunum með fordæmi sínu að þjóna öðrum af auðmýkt í stað þess að sækjast eftir virðingarstöðu eða frama. (Sjá 6. grein.)


7. Hvers vegna ættu bræður að forðast að vera metnaðargjarnir?

7 Fólk í heiminum dáist oft að þeim sem álíta sig merkilega. Þjónar Jehóva eru ekki þannig. Bróðir sem er knúinn af kærleika eins og Jesús sækist ekki eftir völdum eða stöðu. Ef metnaðargjarn bróðir væri útnefndur í söfnuðinum léti hann líklega ekki bjóða sér að vinna lítilfjörleg verkefni sem eru nauðsynleg til að hægt sé að annast dýrmæta sauði Jehóva. Honum þætti ef til vill slík verkefni fyrir neðan sína virðingu. (Jóh. 10:12) Jehóva blessar ekki neinn sem lætur stjórnast af stolti eða metnaðargirnd. – 1. Kor. 10:24, 33; 13:4, 5.

8. Hvaða leiðbeiningar gaf Jesús postulunum?

8 Jafnvel nánustu vinir Jesú sóttust stundum eftir verkefnum af röngum hvötum. Skoðum atvik sem tengist tveim postulum Jesú, þeim Jakobi og Jóhannesi. Þeir báðu Jesú um sérstaka stöðu í ríki hans. Jesús var ekki ánægður með framagirnd þeirra heldur sagði við alla 12 postulana: „Sá sem vill verða mikill á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar og sá sem vill vera fremstur á meðal ykkar á að vera þræll allra.“ (Mark. 10:35–37, 43, 44) Bræður sem sækjast eftir því að verða safnaðarþjónar af réttum hvötum, það er til að þjóna öðrum, eru blessun fyrir söfnuðinn. – 1. Þess. 2:8.

HVAÐ GETUR EFLT LÖNGUNINA TIL AÐ ÞJÓNA TRÚSYSTKINUM?

9. Hvernig geturðu eflt löngunina til að verða safnaðarþjónn?

9 Þú elskar að sjálfsögðu Jehóva og vilt þjóna öðrum. En þig skortir kannski löngun til að gera það sem er vænst af safnaðarþjóni. Hvernig gætirðu eflt löngunina? Hugsaðu um hversu ánægður þú verður þegar þú gerir eitthvað fyrir bræður og systur. Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Hann lifði sjálfur eftir þessari lífsreglu. Hann naut þess að þjóna öðrum og þú getur það líka.

10. Hvernig sýndi Jesús að hann var fús að þjóna öðrum? (Markús 6:31–34)

10 Skoðum dæmi um það hvernig Jesús var fús að þjóna öðrum. (Lestu Markús 6:31–34.) Eitt sinn voru Jesús og postular hans þreyttir. Þeir voru á leiðinni á óbyggðan stað til að hvíla sig. En fjöldi fólks var kominn á staðinn á undan þeim og vonaðist til að fá fræðslu hjá Jesú. Það hefði verið skiljanlegt ef hann hefði sagt nei vegna þess að þeir höfðu ekki einu sinni haft næði til að borða. Og Jesús hefði getað sent fólkið burt eftir að hafa tekið sér smá tíma til að tala við það. En af því að kærleikurinn knúði hann fór hann „að kenna því margt“ og gerði það þar til var „orðið áliðið“. (Mark. 6:35) Hann gerði það ekki vegna þess að hann varð að gera það heldur ‚kenndi hann í brjósti um fólkið‘. Hann vildi kenna fólki vegna þess að hann elskaði það. Að þjóna öðrum gaf Jesú mikla gleði.

11. Hvernig veitti Jesús fólki hagnýta hjálp? (Sjá einnig mynd.)

11 Jesús gerði meira en að kenna fólki, hann annaðist einnig líkamlegar þarfir þess. Hann sá fólkinu fyrir mat með kraftaverki og bað lærisveinana að dreifa matnum til fólksins. (Mark. 6:41) Þannig kenndi hann lærisveinunum að þjóna öðrum og sýndi að það er mikilvægt. Eins geta safnaðarþjónar veitt hagnýta hjálp nú á dögum. Postularnir hljóta að hafa verið ótrúlega glaðir að verða vitni að þessu kraftaverki og fá að taka þátt í að dreifa mat þannig að „allir borðuðu og urðu saddir“. (Mark. 6:42) Þetta er aðeins eitt dæmi um að Jesús tók þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Hann þjónaði fólki allt sitt líf á jörðinni. (Matt. 4:23; 8:16) Það gaf Jesú gleði að kenna öðrum og annast þarfir þeirra. Þú munt án efa njóta mikillar gleði ef þú sýnir óeigingirni og sækist eftir því að verða safnaðarþjónn.

Kærleikur til Jehóva og áhugi á að hjálpa öðrum knýr þig til að gera allt sem þú getur fyrir bræður og systur. (Sjá 11. grein.) a


12. Hvers vegna ætti enginn að hugsa sem svo að hann hafi lítið fram að færa í söfnuðinum?

12 Ekki missa kjarkinn ef þér finnst þú ekki hafa neina sérstaka hæfileika. Þú hefur án efa eiginleika sem nýtast í söfnuðinum. Veltu fyrir þér því sem Páll sagði í 1. Korintubréfi 12:12–30 og biddu Jehóva að hjálpa þér sjá sjálfan þig í ljósi þess sem segir þar. Það sem hann segir undirstrikar að allir í söfnuðinum, þar á meðal þú, hafa nauðsynlegu og dýrmætu hlutverki að gegna. Ekki missa móðinn ef þú uppfyllir ekki kröfurnar sem eru gerðar til safnaðarþjóna eins og er. Gerðu frekar það sem þú getur til að koma að gagni í þjónustu Jehóva og hjálpaðu trúsystkinum þínum. Þú getur verið viss um að öldungarnir taki tillit til getu þinnar og gefi þér verkefni við hæfi. – Rómv. 12:4–8.

13. Hvers konar kröfur eru gerðar til bræðra sem eru útnefndir?

13 Hugleiddu enn eina ástæðu til að sækjast eftir því að verða safnaðarþjónn: Flestar kröfurnar eiga við alla þjóna Guðs. Allir þjónar Guðs ættu að nálgast Jehóva, vera glaðir gjafarar og vera til fyrirmyndar í kristinni breytni. Hvað getur bróðir gert til að sækja fram?

HVERNIG GETURÐU STEFNT AÐ ÞVÍ AÐ VERÐA SAFNAÐARÞJÓNN?

14. Hvað felst í því að ‚vera ábyrgðarfullur‘? (1. Tímóteusarbréf 3:8–10, 12)

14 Skoðum nú nokkrar af þeim kröfum sem koma fram í 1. Tímóteusarbréfi 3:8–10, 12. (Lestu.) Safnaðarþjónar þurfa að „vera ábyrgðarfullir“. Þetta orð má líka þýða „alvarlegur“ eða „áreiðanlegur“ eða „sá sem hagar sér þannig að hann á skilið virðingu“. Þetta þýðir ekki að þú megir aldrei hlægja eða grínast. (Préd. 3:1, 4) En þú þarft að taka ábyrgð þína alvarlega. Þú nýtur virðingar í söfnuðinum ef þú ert þekktur fyrir að vera áreiðanlegur og traustur.

15. Hvað felst í því að vera ‚ekki falskur‘ og ‚ekki sólginn í efnislegan ávinning‘?

15 Að vera ‚ekki falskur‘ felur í sér að vera einlægur, heiðarlegur og áreiðanlegur. Maður stendur við það sem maður segir og blekkir ekki aðra. (Orðskv. 3:32) Að vera ‚ekki sólginn í efnislegan ávinning‘ felur í sér að vera heiðarlegur í viðskiptum og meðferð peninga. Það væri rangt að nýta sér tengsl við trúsystkini til að reyna að græða á þeim.

16. (a) Hvað felst í því að ‚drekka ekki of mikið vín‘? (b) Hvað felst í því að hafa ‚hreina samvisku‘?

16 ‚Að drekka ekki of mikið vín‘ felur í sér að drekka ekki áfengi í óhófi eða vera þekktur fyrir óhóflega drykkju. ‚Að hafa hreina samvisku‘ felur í sér að lifa í samræmi við mælikvarða Jehóva. Þú átt gott samband við Guð og getur verið sáttur þótt þú sért ekki fullkominn.

17. Hvernig eru bræður ‚reyndir til að sjá hvort þeir séu hæfir‘? (1. Tímóteusarbréf 3:10. Sjá einnig mynd.)

17 Bræður sem hafa sýnt að hægt er að treysta á þá hafa verið ‚reyndir til að sjá hvort þeir væru hæfir‘. Fylgdu því vandlega ráðum öldunganna og þeim leiðbeiningum sem söfnuðurinn sér fyrir þegar þú færð verkefni. Gakktu úr skugga um að þú skiljir vel hvað verkefnið felur í sér og hvenær því ætti að vera lokið. Þegar þú leggur þig fram um að sinna verkefnum þínum taka aðrir í söfnuðinum eftir því og sjá að þú tekur góðum framförum. Öldungar, verið vakandi fyrir því að þjálfa skírða bræður. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 3:10.) Eru skírðir bræður í þínum söfnuði sem eru á táningsaldri eða yngri? Stunda þeir sjálfsnám og undirbúa sig vel fyrir samkomur? Svara þeir reglulega á samkomum og taka þátt í boðuninni? Ef svo er, skaltu úthluta þeim verkefni í samræmi við aldur þeirra og getu. Þannig geta þessir ungu bræður verið ‚reyndir hvort þeir séu hæfir‘. Þegar þeir nálgast tvítugsaldurinn eru þeir trúlega hæfir til að vera safnaðarþjónar.

Öldungar geta gengið úr skugga um hvort skírðir bræður „séu hæfir“ með því að úthluta þeim verkefni. (Sjá 17. grein.)


18. Hvað felst í því að ‚vera ekki borinn neinum sökum‘?

18 ‚Að vera ekki borinn neinum sökum‘ merkir að ekki er réttilega hægt að saka mann um alvarlegt brot. Þjónar Guðs eru stundum sakaðir um það sem þeir hafa ekki gert. Jesús var borinn fölskum sökum og sagði að fylgjendur sínir yrðu fyrir því sama. (Jóh. 15:20) En þú ávinnur þér góðan orðstír í söfnuðinum ef þú ástundar það sem er rétt eins og Jesús. – Matt. 11:19.

19. Hvað felst í því að vera „einnar konu eiginmaður“?

19 „Einnar konu eiginmaður.“ Ef þú ert giftur þarftu að fylgja mælikvarða Jehóva um hjónabandið. Hann sagði að það væri samband eins manns og einnar konu. (Matt. 19:3–9) Kristinn maður ætti aldrei að fremja kynferðislegt siðleysi. (Hebr. 13:4) En meira þarf til. Hann þarf líka að vera trúr eiginkonu sinni með því sýna öðrum konum aldrei rómantískan áhuga. – Job. 31:1.

20. Hvernig veitir maður heimili sínu ‚góða forystu‘?

20 ‚Hann veitir börnum sínum og heimili góða forystu.‘ Ef þú ert fjölskyldufaðir verðurðu að taka ábyrgð þína alvarlega. Hafðu reglu á fjölskyldunáminu. Boðaðu trúna með eiginkonu þinni og börnum eins oft og þú getur. Hjálpaðu börnunum þínum að byggja upp persónulegt samband við Jehóva. (Ef. 6:4) Maður sem annast fjölskyldu sína sýnir að hann getur annast söfnuðinn. – Samanber 1. Tímóteusarbréf 3:5.

21. Hvað geturðu gert ef þú ert ekki safnaðarþjónn nú þegar?

21 Bræður, ef þið eruð ekki enn þá safnaðarþjónar hvetjum við ykkur til að hugleiða efni þessarar námsgreinar vel og leggja málið fyrir Jehóva í bæn. Skoðið vel kröfurnar sem eru gerðar til safnaðarþjóna og leggið ykkur fram við að uppfylla þær. Styrkið kærleikann til Jehóva og til bræðra ykkar og systra og löngunina til að þjóna þeim. (1. Pét. 4:8, 10) Vinnið að markmiði ykkar að verða safnaðarþjónar. Það mun veita ykkur mikla gleði að þjóna bræðrum ykkar og systrum. Megi Jehóva blessa viðleitni ykkar ríkulega. – Fil. 2:13.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

a MYND: Til vinstri: Jesús þjónar auðmjúkur lærisveinum sínum. Til hægri: Safnaðarþjónn aðstoðar eldri bróður í söfnuðinum.