Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

Hvernig er best að bregðast við óréttlæti?

Hvernig er best að bregðast við óréttlæti?

„Láttu ekki hið illa sigra þig heldur sigraðu alltaf illt með góðu.“RÓMV. 12:21.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig við getum brugðist við óréttlæti þannig að ástandið verði ekki verra.

1, 2. Hvers konar óréttlæti gætum við orðið fyrir?

 JESÚS sagði dæmisögu um ekkju sem þrábað dómara um að hjálpa sér að ná rétti sínum. Margir lærisveina Jesú tengdu vafalaust við þessa dæmisögu vegna þess að fólk á þessum tíma þurfti oft að þola óréttlæti. (Lúk. 18:1–5) Dæmisagan á líka erindi til okkar vegna þess að við glímum öll einhvern tíma við óréttlæti.

2 Okkur kemur það ekki á óvart að verða fyrir óréttlæti þar sem fordómar, ójöfnuður og kúgun er daglegt brauð í heimi nútímans. (Préd. 5:8) En okkur gæti þótt sérstaklega erfitt ef trúsystkini kæmi illa fram við okkur. Slíkt getur hent. Bræður okkar og systur eru að sjálfsögðu ekki andstæðingar sannleikans heldur einfaldlega ófullkomin. Við getum lært margt af því hvernig Jesús brást við óréttlæti illra manna. Fyrst við getum sýnt andstæðingum þolinmæði þótt þeir beiti okkur óréttlæti hversu miklu frekar ættum við að sýna trúsystkinum okkar þolinmæði! Hvað ætli Jehóva finnist um það þegar við erum beitt óréttlæti, hvort sem það er af hendi trúsystkina eða fólks utan safnaðarins? Stendur honum á sama?

3. Hvernig vitum við að Jehóva stendur ekki á sama um það þegar við þjáumst vegna óréttlætis?

3 Jehóva er umhugað um hvernig aðrir koma fram við þjóna hans. „Jehóva elskar réttlæti.“ (Sálm. 37:28) Jesús fullvissar okkur um að Jehóva ‚muni láta þá fljótt ná rétti sínum‘, þegar rétti tíminn er kominn. (Lúk. 18:7, 8) Og fljótlega sér hann til þess að þjáningar verði úr sögunni og þá þurfum við aldrei að þola óréttlæti framar. – Sálm. 72:1, 2.

4. Hvaða hjálp býður Jehóva okkur núna?

4 Meðan við bíðum þess tíma að réttlætið sigri hjálpar Jehóva okkur að takast á við óréttlæti. (2. Pét. 3:13) Hann kennir okkur að forðast að bregðast óskynsamlega við þegar við erum órétti beitt. Jehóva kennir okkur með fullkomnu fordæmi sonar síns. Hann gefur okkar líka leiðbeiningar í Biblíunni um hvað við eigum að gera við slíkar aðstæður.

HVERNIG ER BEST AÐ BREGÐAST VIÐ ÓRÉTTLÆTI?

5. Hvers vegna getur verið erfitt að bregðast rétt við þegar við verðum fyrir óréttlæti?

5 Óréttlæti gæti valdið okkur sársauka og rænt okkur hugarfriði. (Préd. 7:7) Sumum trúföstum þjónum Guðs, eins og Job og Habakkuk, leið þannig. (Job. 6:2, 3; Hab. 1:1–3) Þetta eru eðlileg viðbrögð en við þurfum að varast að gera eitthvað óskynsamlegt.

6. Hvernig er Absalon okkur víti til varnaðar? (Sjá einnig mynd.)

6 Við gætum freistast til að taka málin í okkar eigin hendur ef við eða einhver nákominn okkur verður fyrir óréttlæti. En það gæti gert ástandið enn verra. Tökum sem dæmi Absalon, son Davíðs konungs. Hann varð ævareiður þegar hálfbróðir hans, Amnon, nauðgaði Tamar systur þeirra. Samkvæmt Móselögunum verðskuldaði Amnon að deyja fyrir það sem hann gerði. (3. Mós. 20:17) Það er skiljanlegt að Absalon skyldi reiðast en það gaf honum ekki leyfi til að taka málin í sínar eigin hendur. – 2. Sam. 13:20–23, 28, 29.

Absalon lét reiði ná tökum á sér þegar Tamar systir hans var beitt óréttlæti. (Sjá 6. grein.)


7. Hver voru fyrstu viðbrögð sálmaskáldsins við óréttlæti?

7 Við gætum farið að efast um að það sé þess virði að gera rétt þegar við sjáum að þeir sem gera rangt virðast komast upp með það. Tökum sálmaskáldið sem dæmi. Hann tók eftir því að hinir illu virtust blómstra á kostnað hinna réttlátu. „Þannig eru hinir illu sem lifa þægilegu lífi,“ sagði hann. (Sálm. 73:12) Hann varð svo örvinglaður vegna óréttlætisins að honum leið eins og það væri ekki þess virði að þjóna Jehóva lengur. Hann sagði: „Ég reyndi að skilja það en það angraði mig.“ (Sálm. 73:14, 16) Hann viðurkenndi: „Við lá að ég villtist, minnstu munaði að ég hrasaði.“ (Sálm. 73:2) Eitthvað svipað henti bróður sem við skulum kalla Alberto.

8. Hvaða áhrif hafði óréttlæti á bróður nokkurn?

8 Alberto var ranglega sakaður um að hafa stolið peningum sem tilheyrðu söfnuðinum. Hann fékk ekki lengur að þjóna sem öldungur og margir í söfnuðinum sem fréttu af málinu hættu að bera virðingu fyrir honum. „Ég varð bitur, reiður og vonsvikinn,“ segir hann. Hann leyfði þessu að bitna á sambandi sínu við Jehóva og var óvirkur í fimm ár. Reynsla hans undirstrikar hvað getur gerst ef við verðum bitur vegna óréttlætis sem við verðum fyrir.

LÆRÐU AF ÞVÍ HVERNIG JESÚS BRÁST VIÐ ÓRÉTTLÆTI

9. Hvaða óréttlæti mátti Jesús þola? (Sjá einnig mynd.)

9 Jesús brást við óréttlæti á fullkominn hátt. Hann þurfti að þola óréttlæti margra, þar á meðal fjölskyldu sinnar. Ættingjar sem trúðu ekki á hann sögðu hann vera genginn af vitinu, trúarleiðtogarnir sögðu hann í slagtogi við illa anda og rómverskir hermenn hæddu hann, réðust á hann og drápu að lokum. (Mark. 3:21, 22; 14:55; 15:16–20, 35–37) Meðan á öllu þessu gekk syndgaði Jesús aldrei. Hvað getum við lært af honum?

Jesús er fullkomin fyrirmynd í að takast á við óréttlæti. (Sjá 9. og 10. grein.)


10. Hvernig brást Jesús við óréttlæti? (1. Pétursbréf 2:21–23)

10 Lestu 1. Pétursbréf 2:21–23. a Jesús er okkur fullkomin fyrirmynd í því hvernig á að bregðast við óréttlæti. Hann vissi hvenær var best að þegja og hvenær best að tala. (Matt. 26:62–64) Hann svaraði ekki öllu því sem var haldið ranglega fram um hann. (Matt. 11:19) Þegar hann kaus að tala móðgaði hann hvorki þá sem ofsóttu hann né hótaði þeim. Jesús sýndi sjálfstjórn vegna þess að hann „fól sjálfan sig á hendur honum sem dæmir með réttlæti“. Hann vissi að viðhorf Jehóva til málanna skipti mestu máli og treysti að Jehóva myndi leiðrétta allt óréttlæti á sínum tíma.

11 Hvað merkir að hafa stjórn á tungunni? (Sjá einnig myndir.)

11 Við getum líkt eftir Jesú með því að hafa stjórn á því sem við segjum þegar við verðum fyrir óréttlæti. Stundum er ekki þörf á að segja eða gera neitt í minniháttar mótlæti. Stundum gæti verið best að þegja til að segja ekki eitthvað sem gerir bara illt verra. (Préd. 3:7; Jak. 1:19, 20) Í öðrum tilvikum gætum við þurft að segja eitthvað, til dæmis þegar við verðum vitni að óréttlæti eða þurfum að verja sannleikann. (Post. 6:1, 2) Þegar við kjósum að tala ættum við að leggja okkur fram við að gera það rólega og af virðingu. – 1. Pét. 3:15. b

Við getum líkt eftir Jesú þegar við ákveðum hvenær og hvernig við tölum þegar við erum órétti beitt. (Sjá 11. og 12. grein.)


12. Hvernig felum við okkur á „hendur honum sem dæmir með réttlæti“?

12 Við getum líka líkt eftir Jesú með því að fela okkur á „hendur honum sem dæmir með réttlæti“. Við treystum því að Jehóva viti hið sanna í málinu þegar aðrir hafa okkur fyrir rangri sök eða við erum misrétti beitt. Þetta getur hjálpað okkur að þola óréttláta meðferð því að við vitum að á endanum mun Jehóva leiðrétta málin. Við komum í veg fyrir að reiði og gremja grafi um sig í hjartanu ef við látum málin í hendur Jehóva. Ef við missum stjórn á tilfinningum okkar gætum við gert eitthvað sem við sjáum eftir þannig að við misstum gleðina og skemmdum sambandið við Jehóva. – Sálm. 37:8.

13. Hvað getur hjálpað okkur að vera þolinmóð þegar við verðum fyrir óréttlæti?

13 Við getum að sjálfsögðu aldrei fylgt fordæmi Jesú fullkomlega. Við segjum stundum eða gerum eitthvað sem við sjáum eftir. (Jak. 3:2) Og sumt óréttlæti getur skilið eftir sig tilfinningaleg eða líkamleg ör sem er erfitt að bera. Ef það á við um þig geturðu verið viss um að Jehóva veit hvað þú gengur í gegnum. Og Jesús veit hvernig þér líður vegna þess að hann þurfti líka að takast á við óréttlæti. (Hebr. 4:15, 16) Auk fordæmis Jesú gefur Jehóva okkur gagnlegar leiðbeiningar. Skoðum tvö vers í Rómverjabréfinu sem geta hjálpað okkur.

‚LEYFÐU REIÐI GUÐS AÐ KOMAST AБ

14. Hvað merkir að ‚leyfa reiði Guð að komast að‘? (Rómverjabréfið 12:19)

14 Lestu Rómverjabréfið 12:19. Páll postuli hvatti kristna menn til að leyfa reiði Guðs að komast að. Við gerum það með því að eftirláta honum að koma á réttlæti þegar það er tímabært. Bróðir að nafni John var beittur óréttlæti. Hann segir: „Ég þurfti að hafa stjórn á reiðinni til að taka ekki málin í mínar eigin hendur. Rómverjabréfið 12:19 hjálpaði mér að bíða eftir Jehóva.“

15. Hvers vegna er best að bíða eftir að Jehóva leiðrétti mál?

15 Það er okkur til góðs að bíða eftir að Jehóva leiðrétti málin. Þannig forðumst við streitu og vonbrigði sem fylgir því gjarnan að reyna að leysa vandamál upp á eigin spýtur. Jehóva býðst til að hjálpa okkur. Hann segir í raun: „Láttu mig um að taka á málinu og leiðrétta óréttlætið.“ Ef við trúum Jehóva þegar hann segir „ég mun endurgjalda“ getum við lagt málið til hliðar vitandi að hann leysi það á besta mögulega hátt. Það er það sem John gerði. Hann segir: „Ef ég bara bíð eftir Jehóva mun hann leysa málið á miklu betri hátt en ég get gert.“

„SIGRAÐU ALLTAF ILLT MEÐ GÓÐU“

16, 17. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að ‚sigra alltaf illt með góðu‘? (Rómverjabréfið 12:21)

16 Lestu Rómverjabréfið 12:21. Páll hvatti líka kristna menn til að ‚sigra alltaf illt með góðu‘. Jesús sagði í fjallræðunni: „Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.“ (Matt. 5:44) Það er einmitt það sem hann gerði. Við höfum líklega leitt hugann að þjáningunum sem Jesús þoldi þegar rómverskir hermenn negldu hann á staur. Við getum ekki skilið til fullnustu hversu mikinn sársauka og niðurlægingu hann þurfti að þola.

17 Jesús var trúfastur þrátt fyrir óréttlætið sem hann leið. Í stað þess að biðja Jehóva um að refsa hermönnunum bað hann: „Faðir, fyrirgefðu þeim því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“ (Lúk. 23:34) Þegar við biðjum fyrir þeim sem beita okkur órétti getur það dregið úr gremju og reiði og jafnvel breytt viðhorfi okkar til þeirra.

18. Hvernig hjálpaði bænin Alberto og John að bregðast rétt við óréttlæti?

18 Bænin hjálpaði bræðrunum tveim, sem áður er minnst á, til að bregðast rétt við óréttlætinu sem þeir urðu fyrir. Alberto segir: „Ég bað fyrir bræðrunum sem beittu mig óréttlæti. Ég bað Jehóva oftar en einu sinni að hjálpa mér að hætta að hugsa um óréttlætið sem ég varð fyrir.“ Sem betur fer hafði þetta ekki varanleg áhrif á samband Albertos við Jehóva. John segir: „Ég bað oft fyrir bróðurnum sem særði mig. Það hjálpaði mér að hætta að dæma hann og vera reiður út í hann.“

19. Hvað verðum við að gera allt til enda þessarar heimskipanar? (1. Pétursbréf 3:8, 9)

19 Við getum þurft að þola óréttlæti á meðan þessi heimskipan stendur. Hættum aldrei að biðja Jehóva um hjálp, hvað sem verður á vegi okkar. Líkjum eftir því hvernig Jesús brást við illri meðferð og höldum áfram að fylgja meginreglum Biblíunnar. Þá getum við verið viss um að Jehóva blessi okkur. – Lestu 1. Pétursbréf 3:8, 9.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

a Í 2. og 3. kafla fyrra Pétursbréfs lýsir Pétur aðstæðum kristinna einstaklinga sem urðu fyrir óréttlæti af hendi harðra yfirmanna eða eiginmanna sem voru ekki í trúnni. – 1. Pét. 2:18–20; 3:1–6, 8, 9.

b Sjá myndskeiðið Kærleikur veitir sannan frið á jw.org.