Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva gaf okkur styrk á stríðstímum og friðartímum

Jehóva gaf okkur styrk á stríðstímum og friðartímum

Paul: Við vorum mjög spennt! Þetta var í nóvember 1985 og við vorum á leið til Líberíu í Vestur-Afríku þar sem fyrsta trúboðsverkefnið beið okkar. Flugvélin millilenti í Senegal. „Eftir eina klukkustund verðum við í Líberíu,“ sagði Anne. Þá var tilkynnt: „Farþegar á leið til Líberíu verða að fara úr vélinni hér. Vegna valdaránstilraunar er ekki mögulegt að lenda í Líberíu.“ Næstu tíu daga dvöldum við hjá trúboðum í Senegal og fylgdumst með fréttum frá Líberíu. Margir voru drepnir og ríkisstjórnin setti á útgöngubann og ef fólk virti ekki bannið var það skotið til bana.

Anne: Við erum ekki ævintýrafólk. Síðan ég var barn hef ég verið með lítið hjarta og var kölluð Anne músarhjarta. Ég er jafnvel hrædd að fara yfir götu! En við vorum ákveðin í að fara til Líberíu og sinna verkefni okkar.

Paul: Við Anne ólumst upp á sömu slóðum í vesturhluta Englands. Foreldrar mínir og mamma hennar hvöttu okkur til að verða brautryðjendur og strax eftir framhaldskóla gerðum við það. Þau studdu okkur heilshugar að helga líf okkar þjónustu Jehóva. Þegar ég var 19 ára var mér boðið að starfa á Betel og Anne byrjaði á Betel eftir að við giftum okkur árið 1982.

Við Gíleaðútskrift okkar 8. september 1985.

Anne: Við vorum mjög ánægð á Betel en okkur langaði alltaf að starfa þar sem væri meiri þörf á boðberum. Við unnum með bræðrum og systrum á Betel sem höfðu verið trúboðar og fordæmi þeirra og reynsla jók þá löngun. Við töluðum við Jehóva um þetta í bæn á hverju kvöldi í þrjú ár. Við vorum innilega spennt þegar okkur var boðið að sækja 79. bekk Gíleaðskólans árið 1985. Við vorum send til Líberíu í Vestur-Afríku.

KÆRLEIKUR BRÆÐRA OG SYSTRA STYRKTI OKKUR TIL AÐ HALDA ÚT

Paul: Við bókuðum flug til Líberíu með næstu flugvél. Andrúmsloftið var þrungið spennu og útgöngubann enn í gildi. Fólk var svo hrætt að þegar heyrðist skyndilegt hátt bílhljóð hrópaði það upp yfir sig og hljóp í burtu. Við lásum kafla í Sálmunum á hverju kvöldi til að róa okkur. En við vorum samt mjög ánægð með verkefnið. Anne boðaði trúna alla daga og ég vann á Betel með John Charuk. a Ég lærði mikið af honum þar sem hann hafði reynslu og skilning á aðstæðum bræðra og systra.

Anne: Hvað varð til þess að okkur þótti svona vænt um Líberíu? Það voru bræður okkar og systur. Þau voru opin, kærleiksrík og trúföst og urðu vinir okkar og nýja fjölskyldan. Við fengum góð ráð hjá þeim og hvatningu. Það var yndislegt í boðuninni. Fólk sem við heimsóttum kvartaði ef við kvöddum of snemma! Margir ræddu um Biblíuna úti á götu. Maður gat auðveldlega slegist í hópinn til að ræða við þá. Við vorum með svo marga biblíunemendur að það var erfitt að sinna þeim öllum. Þetta var lúxusvandamál.

STYRKUR Í STAÐ ÓTTA

Tekið á móti flóttafólki á Betel í Líberíu árið 1990.

Paul: Árið 1989, eftir fjögur tiltölulega friðsöm ár, varð breyting þar á – hræðilegt borgarastríð braust út. Uppreisnarflokkar tóku völd á svæðinu kringum Betel 2. júlí 1990. Í þrjá mánuði misstum við öll tengsl við umheiminn, þar á meðal fjölskyldur okkar og aðalstöðvarnar. Það ríkti stjórnleysi, matarskortur og mörgum konum var nauðgað. Átökin stóðu um allt land í 14 ár.

Anne: Fólk af ólíkum ættflokkum barðist hvert við annað og drap hvert annað. Stríðsmenn hlaðnir vopnum og klæddir á undarlegan hátt óðu inn í hús og létu greipar sópa. Sumir ofbeldismennirnir líktu manndrápunum við það að slátra kjúklingum. Líkin hlóðust upp við eftirlitsstöðvar, jafnvel nálægt deildarskrifstofunni. Trúfastir vottar voru drepnir, þar á meðal tveir af kærum trúboðum okkar.

Þegar uppreisnarmenn fundu fólk af ættflokki sem þeir hötuðu drápu þeir það. Bræður okkar og systur lögðu líf sitt í hættu þegar þau földu trúsystkini til að bjarga þeim. Trúboðar og Betelítar gerðu slíkt hið sama. Á Betelheimilinu sváfu sumir vottar sem urðu að flýja á neðri hæðinni og aðrir í herbergjunum sem Betelítarnir bjuggu í á efri hæðinni. Sjö manna fjölskylda gisti með okkur Paul í herbergi.

Paul: Uppreisnarmennirnir reyndu að komast inn á Betel daglega til að sjá hvort við feldum einhverja. Þegar það gerðist fóru tvö okkar til að tala við uppreisnarmennina við hliðið og tveir fylgdust með því sem gerðist úr glugganum. Ef þau sem fóru að hliðinu héldu höndunum fyrir framan sig var ekki hætta á ferðum. En ef þau settu hendur aftur fyrir bak þýddi það að uppreisnarmennirnir væru árásargjarnir og hinir sem stóðu vörð drifu sig þá að fela trúsystkini okkar.

Anne: Dag einn gátu bræðurnir ekki komið í veg fyrir að reiðir uppreisnarmenn réðust inn. Ég og ein systir lokuðum okkur inni á baðherbergi þar sem var skápur með fölsku þili. Systirin tróð sér á bakvið þilið. Uppreisnarmennirnir fóru upp á aðra hæð vopnaðir vélbyssum. Þeir börðu reiðir á dyrnar. Páll reyndi að halda aftur af þeim og sagði: „Konan mín er á baðherberginu.“ Það heyrðist þegar ég setti þilið á sinn stað og það tók tíma að raða öllu aftur inn í skápinn. Ég skalf frá hvirfli til ilja og ætlaði varla að þora að opna dyrnar. Ég fór með stutta bæn og sárbað Jehóva um hjálp. Því næst opnaði ég dyrnar og einhvern veginn tókst mér að vera róleg. Einn mannanna ýtti mér til hliðar og gekk beint að skápnum, opnaði hann og velti dóti um koll. Hann skildi ekkert í því að finna ekki neinn inni í skápnum. Uppreisnarmennirnir fóru því næst að leita í öðrum herbergjum og á háloftinu en fundu ekkert.

SANNLEIKURINN VAR LJÓSIÐ Í MYRKRINU

Paul: Við höfðum mjög lítið að borða svo mánuðum skipti. En andlega fæðan var líflína okkar. Morgundagskráin á Betel var eini „morgunmaturinn“ sem við fengum og við kunnum öll að meta styrkinn sem hún veitti okkur.

Við vissum að ef við færum til að útvega mat og vatn gætum við ekki verndað þá sem við földum og það gæti kostað þá lífið. Jehóva sá okkur oft fyrir því sem við þurftum á hárréttum tíma og eftir ótrúlegum leiðum. Hann annaðist okkur og gerði okkur kleift að halda rónni.

Því myrkari sem heimurinn varð þeim mun bjartar skein sannleikurinn. Bræður okkar og systur flúðu aftur og aftur til að bjarga lífi sínu en trú þeirra var sterk og þau héldu ró sinni þrátt fyrir alla erfiðleikana. Sum þeirra sögðu að þessi erfiðleikatími væri „æfing fyrir þrenginguna miklu“. Hugrakkir öldungar og ungir bræður gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa trúsystkinum sínum. Bræður og systur sem flúðu til annarra svæða hjálpuðust að og boðuðu trúna þar. Þau notuðu hvaðeina sem þau fundu í skóginum til að reisa einfalda ríkissali. Samkomurnar voru eins og skjól í fárviðri og boðunin hjálpaði þeim að takast á við erfiðleikana. Þegar við dreifðum hjálpargögnum vorum við beðnir um töskur fyrir boðunina frekar en föt og það snerti okkur djúpt. Margir voru sorgmæddir og í áfalli vegna stríðsins og hlustuðu á fagnaðarboðskapinn. Þeir voru undrandi á því hve glaðir og jákvæðir vottarnir voru og hvernig þeir skinu eins og ljós í öllu myrkrinu. (Matt. 5:14–16) Sumir herskáir uppreisnarmenn urðu meira að segja þjónar Jehóva vegna kappsemi bræðra og systra.

VIÐ FENGUM STYRK Í SORG

Paul: Við þurftum að yfirgefa Líberíu þrisvar um stuttan tíma og tvisvar í heilt ár. Systir sem var trúboði orðaði þetta vel: „Í Gíleað var okkur kennt að sinna verkefni okkar af öllu hjarta og það var það sem við gerðum. Að skilja við trúsystkini okkar við þessar aðstæður var eins og verið væri að rífa úr okkur hjartað.“ Við gátum sem betur fer stutt bræður og systur í Líberíu og boðunina þar frá nærliggjandi löndum.

Ánægð að vera komin aftur til Líberíu árið 1997.

Anne: Í maí 1996 vorum við á leiðinni frá Betel á öruggari stað í hinum enda bæjarins sem var í 16 kílómetra fjarlægð. Tvö önnur trúsystkini voru með okkur í bíl þegar uppreisnarmenn réðust inn á svæðið. Þeir hleyptu af skotum úr byssunum, stöðvuðu okkur, drógu þrjú okkar út úr bílnum og keyrðu af stað með Paul í bílnum. Við vorum í áfalli. En þá sáum við allt í einu Paul koma gangandi út úr mannfjöldanum með blóðugt enni. Okkur sýndist hann fyrst hafa orðið fyrir skoti en svo áttuðum við okkur á því að þá hefði hann ekki komið gangandi. Einn uppreisnarmannanna hafði slegið hann þegar hann ýtti honum út úr bílnum. Þetta var sem betur fer bara minniháttar sár.

Í grenndinni var herflutningabíll fullur af óttaslegnu fólki. Við ákváðum að klifra upp í bílinn en það var ekkert pláss í honum þannig að við þurftum að hanga utan á honum. Við höfðum ekki mikið hald að grípa í. Ökumaðurinn keyrði skyndilega af stað svo við duttum nærri því af bílnum. Við sárbændum hann um að stoppa en hann var of hræddur. Einhvern veginn náðum við að hanga en þegar við komum á áfangastað vorum við örmagna og skjálfandi af ótta.

Paul: Óhrein og í rifnum fötum litum við hvert á annað og undruðumst að vera enn á lífi. Við sváfum úti undir berum himni hjá sundurskotinni þyrlu sem við flugum með til Síerra Leóne næsta dag. Við vorum þakklát að vera á lífi en höfðum mjög miklar áhyggjur af trúsystkinum okkar.

VIÐ FENGUM STYRK Í ÓVÆNTUM ERFIÐLEIKUM

Anne: Við komumst á öruggan stað á Betel í Freetown í Síerra Leóne þar sem trúsystkini hugsuðu vel um okkur. Ég fór að endurupplifa það sem hafði gerst. Á daginn var ég hrædd og stöðugt með varann á og upplifði umhverfið óraunverulegt og eins og í móðu. Á næturnar vaknaði ég upp skjálfandi og óttaðist að eitthvað hræðilegt myndi gerast. Ég átti erfitt með að anda. Paul hélt utan um mig og bað með mér. Við sungum ríkissöngva þangað til ég hætti að skjálfa. Mér leið eins og ég væri að missa vitið og gæti ekki lengur verið trúboði.

Ég mun aldrei gleyma því sem gerðist næst. Þessa sömu viku bárust okkur tvö blöð. Annað var Vaknið! 8. júní 1996. Í blaðinu var grein sem fjallar um að takast á við kvíðakast. Þá fékk ég skilning á því hvað ég var að upplifa. Hitt blaðið var Varðturninn 15. maí 1996 þar sem er að finna greinina „Hvaðan kemur þeim styrkurinn?“ Í Varðturninum er mynd af sködduðu fiðrildi. Í greininni er útskýrt að fiðrildi geti haldið áfram að nærast og fljúga þrátt fyrir að vængirnir hafi laskast verulega. Eins getum við með hjálp anda Jehóva haldið áfram að hjálpa öðrum þótt við höfum orðið fyrir tilfinningalegu áfalli. Þetta var einmitt það sem ég þurfti og Jehóva gaf mér það á réttum tíma. (Matt. 24:45) Ég leitaði að fleiri greinum um þetta málefni og hélt þeim til haga. Þegar frá leið dró úr einkennum áfallastreitunnar.

VIÐ FENGUM STYRK TIL AÐ AÐLAGAST NÝJUM AÐSTÆÐUM

Paul: Við vorum alltaf svo ánægð þegar við komumst aftur heim til Líberíu. Í lok 2004 höfðum við sinnt þessu verkefni í næstum 20 ár. Stríðinu var lokið. Það voru fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir við deildarskrifstofuna. En þá vorum við beðin að taka að okkur annað verkefni.

Þetta reyndist okkur erfitt. Við vorum svo náin andlegri fjölskyldu okkar. Við vildum ekki yfirgefa þau. En við gerðum eins og við vorum beðin um og tókum að okkur verkefnið. Við höfðum lært að þegar við kvöddum fjölskyldur okkar og fórum í Gíleaðskólann var það til blessunar af því að við létum málin í hendur Jehóva. Nýja verkefnið var í nágrannalandinu Gana.

Anne: Það féllu mörg tár þegar við kvöddum Líberíu. Við vorum hissa þegar Frank, vitur eldri bróðir, sagði: „Þið þurfið að gleyma okkur!“ Hann útskýrði síðan: „Við vitum að þið gleymið okkur aldrei en þið þurfið að sinna nýja verkefninu af heilu hjarta. Þetta er verkefni frá Jehóva þannig að þið eigið að tengjast bræðrum og systrum á nýja staðnum.“ Það sem hann sagði hvatti okkur til að byrja upp á nýtt þar sem nánast enginn þekkti okkur og allt var nýtt fyrir okkur.

Paul: Ekki leið á löngu þar til okkur fór að þykja vænt um bræður og systur í Gana. Það voru svo margir vottar þar. Við lærðum mikið af hollustu og sterkri trú þessara nýju vina okkar. Þegar við höfðum verið í Gana í 13 ár gerðist aftur eitthvað óvænt. Við vorum beðin um að sinna verkefni á deildarskrifstofunni í Kenía í Austur-Afríku. Við eignuðumst strax nýja vini þótt við söknuðum vina okkar á gamla staðnum. Það er líka mikið að gera í boðuninni í Kenía eins og í Gana og Líberíu.

Ásamt nýjum vinum í Austur-Afríku árið 2023.

LITIÐ UM ÖXL

Anne: Ég hef upplifað mjög erfiðar aðstæður í gegnum árin og stundum verið mjög hrædd. Hættulegar aðstæður geta verið yfirþyrmandi og tekið sinn toll bæði líkamlega og tilfinningalega. Við getum ekki vænst þess að Jehóva verndi okkur gegn slíku. Ef ég heyri skothvelli fæ ég illt í magann og hendurnar dofna. En ég hef lært að reiða mig á alla þá hjálp sem Jehóva veitir, þar á meðal hjálp bræðra og systra. Og Jehóva getur hjálpað okkur að sinna verkefnum okkar áfram ef við einbeitum okkur að andlegu dagskránni.

Paul: Stundum spyr fólk: „Ertu ánægður með verkefnið þitt?“ Land getur verið fagurt en ástandið þar getur líka verið óstöðugt og hættulegt. Hvað er það sem við elskum meira en landið? Við elskum dýrmæt trúsystkini okkar, fjölskylduna okkar. Þótt við höfum ólíkan bakgrunn tengjumst við Jehóva á sama hátt. Við héldum að við værum send til að uppörva þau en raunin er sú að þau hafa styrkt okkur.

Í hvert sinn sem við flytjum sjáum við nútímakraftaverk, bræðrafélagið. Eins lengi og við erum í söfnuðinum eigum við fjölskyldu þar sem okkur líður vel. Við erum viss um að ef við höldum áfram að reiða okkur á Jehóva styrki hann okkur í samræmi við þarfir okkar. – Fil. 4:13.

a Sjá ævisögu Johns Charuks í Varðturninum á ensku 15. mars 1973.