„Þér eruð salt jarðar“
„Þér eruð salt jarðar“
„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?“ — MATTEUS 5:13.
1. Hvað er salt?
SALT er merkilegt efni. Það er efnasamband natríums, sem er málmur með óvenjulega eiginleika, og klórs sem er eitruð lofttegund. Sú staðreynd að þessi tvö hættulegu frumefni geta myndað svona nytsamlegt efnasamband er ein af hinum stórfenglegu ráðstöfunum skaparans til góðs fyrir mannkynið. — Sálmur 104:24.
2. Hvaða dæmi sýnir að salt er gott rotvarnarefni?
2 Salt er til dæmis mjög áhrifaríkt rotvarnarefni. Tökum dæmi: Maður nokkur setti tvær sauðagærur í farangursgeymslu bifreiðar sinnar og lagði af stað í langa ferð í heitri afríkusólinni. Þegar hann að síðustu opnaði farangursrýmið gaus á móti honum megnasti óþefur og gærurnar voru morandi í möðkum! Samt sem áður voru gærurnar þvegnar og núnar rækilega með salti. Þær voru síðan notaðar í mörg ár sem svefnherbergismottur.
3. Hvað er hægt að segja um verðmæti og framboð á salti?
3 Ljóst er að salt er mjög verðmætt rotvarnarefni. En það er líka verðmætt til annarra nota. Í Kína til forna gekk það gulli næst að verðmæti. Latneska orðið fyrir „salt“ er sal, og á dögum Rómaveldis var málaliðum greiddur hluti mála síns (salarium) í salti. Nú á dögum er salt víðast hvar auðfengið og ódýrt. Í hafinu eru um 19 milljónir rúmkílómetra af salti — nóg til að grafa alla Evrópu með nálega eins og hálfs kílómetra þykku lagi! Jafnvel þegar Jesús Kristur var á jörðinni var salt tiltölulega auðfengið. Til dæmis var salt auðunnið við Dauðahafið, og í nánd við þann stað þar sem kona Lots varð að „saltstöpli“ voru hæðir sem gáfu salt. — 1. Mósebók 19:26.
4. Hversu nauðsynlegt er salt?
4 Salt er líka nauðsynlegt heilsu og lífi. Líkami okkar inniheldur um 230 grömm af salti og við myndum ekki lifa án þess. Salt er því lífsnauðsynlegt. Í Biblíunni er salt einnig látið hafa táknræna merkingu í tengslum við kristilegt líf og starf.
„Salti kryddað“
5. Hvaða tilgangi þjónar salt í mat?
5 Þegar matreiðslumaður gleymir að salta það sem hann matbýr getur það orðið svo bragðdauft að fólk vilji ekki neyta þess. Eins og Job sagði: „Verður hið bragðlausa etið saltlaust?“ (Jobsbók 6:1, 6) Salt dregur fram bragð matarins. Bæði þessi eiginleiki saltsins og notagildi þess sem rotvarnarefni er notað í táknrænni merkingu í Ritningunni. Salt er einkanlega notað til að lýsa réttu tali.
6. Hvernig á Kólossubréfið 4:6 við þjónustu votta Jehóva?
6 Páll postuli skrifaði: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ Önnur þýðing hljóðar svo: „Sýnið nærgætni og kærleika þegar þið talið við fólk.“ (Kólossubréfið 4:6; Lifandi orð) Sannkristnir menn eyða miklum tíma í að tala við fólk um Guðsríki. Að sjálfsögðu er ekki öllum vottum Jehóva gefin mælskusnilli í vöggugjöf, en ef þeir meta boðskapinn að verðleikum og tala af sannfæringu og hlýleika geta þeir snúið hjörtum margra til sannleika orðs Guðs. Sannarlega er því mikilvægt að mál þjóna Jehóva sé ljúflegt og aðlaðandi!
7. Hvaða góð áhrif geta ‚krydduð‘ orð kristins manns haft?
7 ‚Krydduð‘ orð kristins manns gera ekki aðeins boðskap Biblíunnar aðlaðandi heldur geta líka orðið til þess að vernda líf þeirra sem hlýða á þau. Alveg eins og salt er nauðsynlegt fyrir lífið getur mál þjóna Jehóva haft líf í för með sér fyrir þá sem hlusta þakklátir á það sem þeir segja um tilgang Guðs og ríki. — Samanber Jóhannes 6:63, 68.
8. Hvers vegna ætti mál kristinna þjóna orðsins að vera viðfelldið?
8 Þegar kristnir menn tala við vantrúaða ætti því mál þeirra að vera viðfelldið. Stundum eru þeir sem heyra boðskapinn um Guðsríki hranalegir eða ruddalegir í tilsvörum, en þjónar Jehóva mega aldrei gjalda í sömu mynt. Þeir verða alltaf að vera vinsamlegir, viðfelldnir og kurteisir. Vinsemd og þolinmæði kristins manns, þegar hann svarar spurningum, mótbárum og gagnrýni eða komið er illa fram við hann, getur oft skipt sköpum. Eins og Orðskviðirnir segja: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Vinsemd, kurteisi og háttvís svör í hinni kristnu þjónustu geta oft mildað fólk sem hefur gott hjartalag þótt það sé harðneskjulegt og beiskt hið ytra. — Orðskviðirnir 25:15.
9. Hvernig ættu kristnir menn að tala við trúbræður sína og hvers vegna?
9 Hvernig ættu þá kristnir menn að koma fram gagnvart trúbræðrum sínum? Óvingjarnlega? Nei, aldrei! Hvers vegna? Vegna þess að allir þjónar Jehóva eru hluti af ‚hjörð Guðs‘ sem ber að sýna nærgætni. — Samanber 1. Pétursbréf 5:2-4; Postulasagan 20:29.
10. Hvað þýðir Efesusbréfið 4:29-32 í sambandi við tal og málfar þjóna Jehóva?
10 Ætti þjónn Jehóva að bregða fyrir sig skammaryrðum þegar hann talar við vinnufélaga sem hafa gert honum gramt í geði? Væri rétt af kristnum verkstjóra að nota ókvæðisorð þegar starfsmenn undir hans stjórn valda honum vonbrigðum? Ef kristnum eiginmanni og eiginkonu er gramt í geði, ættu þau þá að hreyta ónotum hvort í annað eða í börn sín? Nei, aldrei! Páll skrifaði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni . . . Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Efesusbréfið 4:29-32.
„Hafið salt í sjálfum yður“
11, 12. Hvers konar „salt“ átti Jesús við í Markúsi 9:50 og hvernig eigum við því að tala og breyta?
11 Með því að við erum ófullkomin hendir okkur öll að tala á þann hátt sem er ósæmandi kristnum manni. Lærisveinninn Jakob játaði hreinskilnislega: „Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ (Jakobsbréfið 3:2, 8-10) Fyrstu lærisveinar Jesú voru engin undantekning frá því og þurftu að fá áminningu fyrir að vera ekki viðfelldnir í tali hver við annan. Til dæmis deildu þeir einu sinni harðlega um það hver væri þeirra mestur. Jesús gaf öllum lærisveinahópnum viturlegar leiðbeiningar og varaði þá við því að hneyksla hver annan og þar með „eldi saltast“ eða tortímast í Gehenna. Síðan lauk hann máli sínu með þessum orðum: „Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli.“ — Markús 9:33-50.
12 Augljóst er að Jesús var ekki að tala hér um það litla magn af bókstaflegu salti sem var í líkama lærisveinanna, heldur að þeir væru tillitssamir, háttvísir, heilnæmir og friðsamir í orði og hegðun — smekkvísir í breytni gagnvart öðrum. Það er nauðsynlegt til að sannkristnir menn geti haldið frið sín á milli.
„Þér eruð salt jarðar“
13. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði fylgjendum sínum: „Þér eruð salt jarðar“?
13 Jesús sagði líka við fylgjendur sína: „Þér eruð salt jarðar.“ (Matteus 5:13) Með þessum orðum átti Jesús ekki við að lærisveinar hans væru bókstaflega úr salti. Salt er efni sem ver gegn skemmdum og eyðileggingu og boðskapurinn, sem fylgjendur Jesú færðu mönnum, myndi vernda líf margra. Lærisveinarnir höfðu verndandi áhrif á þá sem hlýddu á boðskap þeirra, komu í veg fyrir andlega og siðferðilega spillingu meðal slíkra manna. Enginn vafi lék á að fagnaðarerindið, sem fylgjendur Jesú boðuðu, myndi vernda líf manna. — Postulasagan 5:20; 13:46-48.
Salt verndar gegn spillingu
14. Hvað þarf til að standa gegn spillingu heimsins?
14 Frá hinum háa og hreina sjónarhóli Jehóva Guðs hlýtur allt hið illa heimskerfi að líta svipað út og sauðagærurnar sem áður er getið um. Áður en þær voru hreinsaðar og salti bornar voru þær morandi í meindýrum og gáfu frá sér ódaun. Í vissum mæli verður sérhver maður fyrir áhrifum af því ástandi sem ríkir í heiminum, og til að sporna gegn spillingunni, sem teygir sig inn á sérhvert svið lífsins, þarf hugrekki og ráðvendni við Guð. Einungis þannig er hægt að vernda sig gegn siðferðilegri spillingu. Viðfelldið tal er ekki nóg heldur þarf líka þann varnareiginleika sem gerir honum fært að segja nei gagnvart spillingu í allri sinni mynd. Við höfum brýna þörf fyrir „salt.“ — 1. Pétursbréf 4:1-3.
15. Hvaða gott fordæmi settu Jesús og Daníel?
15 Trúfastur þjónn Jehóva verður að kunna að vísa á bug ósiðum og freistingum. Mundu að Jesús neitaði þrisvar þegar hans var freistað af Satan í eyðimörkinni. (Matteus 4:1-10) Og leiddu hugann að fordæmi spámannsins Daníels. Hann lærði að segja nei tiltölulega ungur að aldri. Þegar Daníel var ungur maður við konungshirðina í Babýlon var honum og félögum hans boðinn ákveðinn ‚daglegur skammtur frá konungsborði.‘ En Daníel og vinir hans afþökkuðu. Ekki er svo að skilja að þeir hafi vanmetið gestrisni konungsins heldur var þeim mikið í mun að forðast fæðu sem bönnuð var í lögmáli Jehóva eða saurguð heiðnum trúarsiðum, og kröfðust þess vegna að fá að nærast eingöngu á grænmeti og vatni. Það útheimti ósvikið hugrekki að taka þessa stefnu, en einarðleg afstaða þeirra borgaði sig því að loknum ákveðnum próftíma voru þeir hraustlegri að sjá en þeir sem höfðu nærst af borði konungsins. Þessi Hebrear nutu auk þess andlegrar blessunar og hylli Jehóva. — Daníel 1:5-17.
16. Hvers vegna má segja að Daníel ‚hafi haft salt í sér‘?
16 Jehóva Guð sá til þess að Daníel og félagar hans nytu verndar vegna þess að þeir ‚höfðu salt í sjálfum sér.‘ En við getum lært fleira af Daníel. Hann var skipaður í hátt embætti innan babýlonsku stjórnarinnar. Í þeirri stöðu hlýtur hann oft að hafa þurft að segja nei, því að hann var umkringdur heiðnu fólki og konungshirðin var vafalaust gagnsýrð siðleysi, lygum, mútum, pólitísku leynimakki og annarri spillingu. Daníel var mjög oft undir miklum þrýstingi, en þótt hann væri mitt í ‚heimi‘ þess tíma ‘heyrði hann ekki heiminum til.‘ (Jóhannes 17:16, Ísl. bi. 1912) Daníel var trúfastur, ‚vel saltaður‘ þjónn Jehóva. Ráðvendni og heiðarleiki Daníels kastaði vafalaust rýrð á óvini hans og vera má að það hafi verið þess vegna sem þeir reyndu jafnvel að ryðja honum úr vegi! Samt sem áður urðu þeir að viðurkenna að „ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.“ (Daníel 6:4, 5) Hann var sannarlega gott fordæmi!
17. Hvaða erfiðar prófraunir blasa við kristnu æskufólki núna?
17 Eins og hinn ungi Daníel og vinir hans stendur kristið æskufólk nú á dögum oft frammi fyrir erfiðum prófraunum. Einkum í skólanum þarf það að standa gegn fíkniefnum, tóbaki, áfengi, óhreinu tali, siðleysi, sviksemi, uppreisnarhug, falskri tilbeiðslu, þjóðernishyggju, slæmum félagsskap, falskenningum svo sem þróunarkenningunni og mörgu fleiru. Kristinn unglingur þarf að hafa mikið „salt“ í sjálfum sér til að varðveita ráðvendni í öllum þeim freistingum.
18. (a) Hvaða spurningar ættu kristnir foreldrar að íhuga? (b) Hvað eru foreldrar, sem eiga erfitt með að hjápa börnum sínum, hvattir til að gera?
18 Kristnir foreldrar ættu því að skoða grandgæfilega hvernig ástatt er í þeirra fjölskyldu. Taka allir í fjölskyldunni andlegum framförum? Hefur þú komið í veg fyrir að veraldleg spilling smiti börnin þín? Veistu hvað þau gera og hvað þau hugsa og hvað þeim finnst innst inni um sanna guðsdýrkun? Hafa þau andstyggð á óhreinindum þessa heims eða eru þau veik fyrir þeim? (Amos 5:14, 15) Ef þið foreldrar hafið ekki nægilega náin tengsl við börnin ykkar til að hjálpa þeim, eða finnst það erfitt, hvers vegna ekki að leggja málið hreinskilnislega fyrir Jehóva í bæn? Víst er að hann getur hjálpað ykkur að yfirstíga þessa hindrun. — 1. Jóhannesarbréf 5:14.
19. Nefnið sumt af því sem kristnir foreldrar ættu að vísa á bug.
19 Hvers konar fordæmi setjið þið sem kristnir foreldrar? Eruð þið einarðleg gegn skaðlegu ofáti og ofdrykkju og hinu margvíslega siðleysi og óhreinleika sem er í heiminum umhverfis? Vísið þig á bug mútum, smáhnupli og klúrri fyndi og tali veraldlegs fólks? Eruð þið þekktir á vinnustað og í grennd við heimili ykkar sem hreinir, heiðarlegir og ráðvandir einstaklingar? Að geta sagt nei þegar við á er ómissandi þáttur í að vera „salt jarðar.“
Varanleiki og hollusta
20. Hvernig var salt notað við tilbeiðsluna á Jehóva í Forn-Ísrael?
20 Salt var notað við tilbeiðslu Jehóva í Ísrael, vafalaust vegna þess að það táknaði lausn undan spillingu. Til dæmis urðu allar fórnir á altarinu að vera saltaðar. Í lögmálinu, sem gefið var fyrir milligöngu Móse, var sagt: „Þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera.“ Og ‚saltsáttmáli‘ var skoðaður sem bindandi. — 3. Mósebók 2:13; 4. Mósebók 18:19; 2. Kroníkubók 13:4, 5.
21. Hvers er krafist af þjónum Jehóva sem ‚salti jarðar‘?
21 Sem vottar um Jehóva eru þjónar hans nú á tímum „salt jarðar.“ Það útheimtir að þeir séu óspillanlegir, trúfastir og drottinhollir. Þeir verða að leggja rækt við ávexti heilags anda Guðs — kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Ávöxtur andans er uppspretta andlegra eiginleika sem eru salti líkir. En þótt einhver hafi þjónað Jehóva um langt árabil er það í sjálfu sér engin trygging fyrir að hann falli ekki frá. (1. Korintubréf 10:12) Jesús varaði sjálfur við því.
22. Hvernig ber að skilja síðari hluta Matteusar 5:13?
22 Munum að eftir að Jesús sagði: „Þér eruð salt jarðar,“ bætti hann við: „Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“ (Matteus 5:13) Sumt af því salti, sem notað var þegar Jesús var á jörðu, var blandað öðrum jarðefnum. Ef hið hreina salt skolaðist burt með regni eða öðrum hætti var það sem þá var eftir einskis nýtt; því var kastað út fyrir, ef til vill á gangstíga þar sem troðið var á því. Saltið gat eyðilagst ef það var ekki geymt við rétt skilyrði.
23. Hvernig ættum við, vottar Jehóva, að líta á orð Jesú: „Þér eruð salt jarðar“?
23 Við, drottinhollir þjónar Jehóva og sonar hans, Jesú Krists, skulum því gæta þess vandlega að ‚missa ekki kraft okkar‘ eða eiginleika sem salti líkjast. Þess í stað skulum við leggja okkur fram um að rækta ávexti anda Guðs. Megum við alltaf vera viðfelldnir í tali og kunngera kostgæfilega boðskapinn um Guðsríki og stuðla þar með að því að vernda líf annarra. Megum við aldrei láta þennan spillta heim yfirbuga okkur heldur hafa alltaf í huga hina djúpu merkingu og miklu sérréttindi sem felast í orðum Jesú: „Þér eruð salt jarðar.“
Prófaðu minnið
◻ Hvernig getum við ‚látið ræðu okkar vera salti kryddaða‘?
◻ Hvers vegna er mikilvægt fyrir kristna menn að ‚hafa salt í sjálfum sér‘?
◻ Í hvaða skilningi eru fylgjendur Jesú „salt jarðar“?
◻ Hvað forðast kristnir menn sem hafa nóg „salt“ í sjálfum sér?
◻ Hver ættu að vera viðhorf þjóna Jehóva nú á dögum með hliðsjón af Matteusi 5:13?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 31]
Á unga aldri lærði Daníel að segja nei.