Besta vináttusambandið varir í óvinveittum heimi
Besta vináttusambandið varir í óvinveittum heimi
„Aflið yður vina með hinum rangláta mammón [auðæfum], svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“ — LÚKAS 16:9.
1. Hvers vegna giltu orðin í Orðskviðunum 14:20 ekki um Jesú Krist þegar hann var á jörðinni?
„FÁTÆKLINGURINN verður hvimleiður jafnvel vini sínum, en ríkismanninn elska margir.“ (Orðskviðirnir 14:20) Þessi orðskviður Salómons konungs í Ísrael átti ekki við mesta mikilmenni, sem verið hefur á jörðinni, Jesú Krist, sem var meiri en Salómon. Hann beitti ekki efnislegum auði til að eignast náin vináttubönd við Ísraelsmennina, og hann leit ekki heldur á jarðneskan auð sem grundvöll sannrar, varanlegrar vináttu.
2. Hvaða vináttusamband hvatti Jesús lærisveina sína til að rækta og hvers vegna?
2 Að vísu sagði Jesús einu sinni: „Aflið yður vina með hinum rangláta mammón [auðæfum], svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“ (Lúkas 16:9) En ‚vinirnir,‘ sem Jesús hafði í huga, voru Jehóva Guð, skapari alls sem vert er að eiga, og hann sjálfur, sonur hins óendanlega auðuga föður. Ef við nútímamenn fylgjum þessu sama ráði eignumst við besta vináttusamband sem til er á jörðinni — vináttu Jehóva Guðs fyrir milligöngu hins fórnfúsa sonar hans, Jesú Krists.
3. Hvaða „tjaldbúðir“ geta þessir himnesku vinir leitt okkur inn í?
3 Vegna ódauðleika síns geta hinir himnesku verið trúfastir vinir okkar og leitt okkur inn í „eilífar tjaldbúðir,“ hvort sem þær eiga að vera á himnum með öllum hinum heilögum englum eða hérna niðri á jörðinni í endurreistri paradís. —Lúkas 23:43.
Fengin aðild að besta vináttusambandinu
4. (a) Hvaða dæmi úr Biblíunni sýnir að vinátta Guðs er ekki föl fyrir fé? (b) Hvernig ber okkur að nota eigur okkar?
4 Vinátta hins hæsta Guðs og eingetins sonar hans, Jesú Krists, er ekki föl fyrir fé. Það kom skýrt í ljós í sambandi við Ananías og Saffíru í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Án þess að leita frægðar og álits, eins og þau gerðu, getum við notað jarðneskar eigur okkar á þann hátt sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa velþóknun á. (Postulasagan 5:1-11) Það er það sem Jesús átti við þegar hann sagði: „Notið veraldlegan auð til að afla ykkur vina, þannig að þegar hann er horfinn verðið þið boðnir velkomnir í eilífa bústaði.“ —Lúkas 16:9, New International Version.
5. Hvað gerði Sakkeus og hvaða afleiðingar hafði það?
5 Þegar Jesús mælti þessi orð var hann ekki að reyna að afla sér vinsælda skattheimtumanna rómverska heimsveldisins og annarra syndara. Hann hafði ekki áhuga á að safna sér efnislegum auði á jörðinni, því að hann hafði sagt lærisveinum sínum að safna sér fjársjóðum á himnum hið efra. Sakkeus, Gyðingur sem var tollheimtumaður í þjónustu rómversku stjórnarinnar, ákvað að fara að þessum ráðum Messíasar Jesú og lýsti opinskátt þeirri ætlun sinni. Vegna þeirrar stefnu til stuðnings Guðsríki sagði tignasti gestur í húsi Sakkeusar: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannsonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ (Lúkas 19:1-10) ‚Hið týnda‘ var meðal annars skattheimtumaðurinn Sakkeus sjálfur.
6. (a) Hvaða sérréttindi hlaut Sakkeus? (b) Hvaða röng stefna er okkur til varnaðar?
6 Sakkeus fékk hlutdeild í besta vináttusambandinu í heiminum, vináttu við Guð og föður hins sérstaka gests sem hann nú veitti beina. Biblían greinir ekki frá því hvort Sakkeus sá Jesús eftir upprisu hans frá dauðum, eða hvort hann var einn þeirra um það bil 120 lærisveina sem voru samankomnir í loftstofu í Jerúsalem hinn eftirminnilega hvítasunnudag árið 33. Vafalaust var þó Sakkeus í hópi hinna 5000 andagetnu, smurðu lærisveina sem sagt er frá skömmu eftir það. (Postulasagan 2. og 4. kafli; 1. Korintubréf 15:1-6) En hversu ólík honum voru ekki hjónin Ananías og Saffíra sem áður er getið. Þau voru tengd söfnuðinum í Jerúsalem og reyndu að afla sér álits meðal lærisveinanna með því að segja rangt til um fjárframlag sem þau höfðu gefið. Refsingin, sem þau hlutu fyrir óheiðarleika sinn, kostaði þau þetta dýrmæta vináttusamband og er öllum kristnum nútímamönnum til varnaðar. — Postulasagan 4:34–5:11.
7. Hvaða fágætra sérréttinda njóta vottar Jehóva þrátt fyrir óvináttu þessa heims?
7 Þrátt fyrir óvingjarnleika þessa heims halda vottar Jehóva áfram að njóta þess besta vináttusambands sem til er. En hvers vegna skyldu þeir njóta þessara fágætu sérréttinda en hin rúmlega þúsund, ólíku trúarsamfélög ekki? Öll rök hníga að því að orsökin sé fólgin í því að vottar Jehóva hafa gert eitthvað mikilvægt sem áhangendur kristna heimsins hafa látið ógert. Svo eitt sé nefnt hafa vottarnir aðgreint sig frá fölskum trúarstofnunum, því að þeir gera sér ljóst að þær mynda til samans heimsveldi falskra trúarbragða sem Biblían nefnir Babýlon hina miklu. Auðvitað verða menn ekki sjálfkrafa hluti af skipulagi Jehóva þótt þeir yfirgefi eitthvert falstrúarfélag, því að þeir gætu gengið í eitthvert annað trúfélag innan heimsveldis falskra trúarbragða.
8. Hverjum er núna boðið að yfirgefa Babýlon hina miklu?
8 Við ættum því að gefa því gaum að Guð skipar þeim sem hann kallar ‚sitt fólk‘ að yfirgefa Babýlon hina miklu. (Opinberunarbókin 18:4) Af Hebresku ritningunum má sjá að þetta boð Guðs er líkt boði sem hann gaf ísraelskum útlögum í Babýlon. (Jesaja 52:11) Orðin „mitt fólk“ eiga því beint við leifar hinna andagetnu, smurðu lærisveina Jesú Krists sem enn eru á jörðinni. Á fyrri heimsstyrjaldarárunum 1914-18 hafði Babýlon hin mikla beitt stjórnmála-, hernaðar- og dómskerfi þessa heims til að hneppa þessar andlegu leifar í fjötra og gera þær óstarfhæfar. Í táknrænum skilningi urðu leifarnar eins og fangar, misstu athafnafrelsi sitt í þjónustu Jehóva.
9. Hversu langt urðu vottar Jehóva að ganga til að yfirgefa Babýlon hina miklu?
9 Í 17. kafla Opinberunarbókarinnar er Babýlon hinni miklu lýst sem skækju er ríður villidýri með sjö höfuð og tíu horn. Þetta táknræna villidýr, sem fer niður í undirdjúp og kemur upp aftur, táknar þá stofnun sem ætlað er að koma á friði í heiminum, Sameinuðu þjóðirnar, arftaka Þjóðabandalagsins sem hvarf niður í undirdjúp þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Hvað gerðu þá þjónar Jehóva sem hann kallar ‚sitt fólk‘ þegar þeir hlýddu kalli hans um að yfirgefa Babýlon hina miklu? Þeir slitu sig lausa ekki aðeins undan oki heimsveldis falskra trúarbragða heldur líka stjórnmálaaflanna sem núna er að finna innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.
10. Hvaða alþjóðasamtök eiga vottar Jehóva ekkert saman við að sælda og hvers vegna?
10 Hinar smurðu leifar hafa tekið ófrávíkjanlega hlutleysisstefnu gagnvart stjórnmálum og hermálum þessa heimskerfis. (Jóhannes 15:19) Þeir styðja sem einn maður ríki Guðs í höndum Jesú Krists sem stofnsett var á himnum við lok heiðingjatímanna árið 1914. Án tillits til Guðsríkis var Þjóðabandalaginu komið á fót og hlaut það stuðning Babýlonar hinnar miklu eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk árið 1918. Þess vegna eru þessi alþjóðasamtök manna viðurstyggileg Jehóva Guði og einnig hinum trúföstu leifum andlegu Ísraelsþjóðarinnar á jörðinni. Þær treysta á ríki Jehóva, ekki einhverja jarðneska varaskeifu þess. (Matteus 24:15, 16) Hið sama gerir hinn ‚mikli múgur,‘ táknaður af musterisþjónunum og ‚niðjum þræla Salómons.‘ — Opinberunarbókin 7:9-17; Esra 2:43-58.
11. (a) Hvers vegna er rangt af lærisveinum Jesú að vera vinir þessa heims? (b) Hver eru viðhorf þessa heims gagnvart vottum Jehóva en hvers geta þeir haldið áfram að njóta þrátt fyrir það?
11 Þegar Jesús stóð ákærður frammi fyrir rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi, og átti dauðadóm í vændum, sagði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Því væri alrangt af ‚þjónum‘ eða lærisveinum Jesú að vera vinir þessa heims. Áður hafði Jesús sagt hinum fyrstu af ‚þjónum‘ sínum, hinum ellefu trúföstu postulum, að þeir ‚væru ekki af heiminum‘ sem á sér Satan djöfulinn að ‚höfðingja.‘ (Jóhannes 14:30; 15:19; samanber 2. Korintubréf 4:4.) Af þessum orsökum hataði heimurinn þá og sýndi þeim fjandskap. Lærisveinar Jesú núna á 20. öldinni búa í heimi sem er ekkert síður fjandsamlegur. Þrátt fyrir það halda þeir áfram að njóta besta vináttusambandsins í alheiminum, vináttu Guðs sem hefur heitið að koma á nýjum heimi með ‚nýjum himni og nýrri jörð.‘ — 2. Pétursbréf 3:13.
12. Með hverjum verður að taka afstöðu þegar gengið er út úr Babýlon hinni miklu og snúið baki við veraldlegum elskhugum hennar, og hvað felur það í sér?
12 Þegar einhver gengur út úr Babýlon hinni miklu og snýr baki við veraldlegum lagsmönnum hennar, risafyrirtækjum, stjórnmálum og hernaðarhyggju, er aðeins eitt hæli að fá — í alheimsskipulagi hins eina lifandi og sanna Guðs, Jehóva. Enga aðra kosti er um að velja. Það krefst þess að einstaklingurinn þoli óvináttu þessa heims sem veldur því að mörgum finnst svo erfitt að taka ákvörðun um að yfirgefa Babýlon hina miklu og heiminn sem hún gegnir veigamiklu hlutverki í.
„Nýtt nafn“ frá okkar besta vini
13. Hvað voru lærisveinar Jesú kallaðir vegna guðlegrar forsjár á fyrstu öldinni?
13 Okkar dýrmæta samband við Guð kemur okkur til að fagna því að kallast vottar Jehóva. Að vísu höfðu lærisveinar Krists á fyrstu öld ekki tekið sér nafnið „vottar Jehóva,“ en taktu eftir hversu náið samband þeir áttu við þann besta vin sem unnt er að eiga. Postulasagan 11:26 segir: „Það var fyrst í Antíokkíu [í Sýrlandi] að lærisveinarnir voru vegna guðlegrar forsjár kallaðir kristnir.“ Þú tekur eftir að Nýheimsþýðingin segir að þeir hafi verið kallaðir kristnir „vegna guðlegrar forsjár.“ Grísku orðin, sem þýdd eru „vegna guðlegrar forsjár kallaðir,“ fela í sér meira en aðeins tilviljanakennda nafngjöf. Besti vinurinn í öllum alheiminum viðurkenndi nafngiftina ‚kristnir menn.‘
14. Hvað má segja um nafngiftina „kristni heimurinn“ og hvaða spurningar ber að íhuga?
14 Núna er heill heimur manna sem kallar sig kristna og heil hersing sértrúarflokka og kirkjudeilda nefnd ‚kristin.‘ Nafngiftin „kristni heimurinn“ er þó ekki til komin vegna „guðlegrar forsjár“ í gegnum postulana eða aðra forsjá Guðs. Ástand mála er því mjög ólíkt núna og var á fyrstu öld. Aðeins sannir kristnir menn geta fengið að njóta hins besta vináttusambands sem hægt er að eiga í óvinveittum heimi. Það er því mikilvæg spurning hverjir séu ósviknir, sannir kristnir menn sem fylgja hinni innblásnu Ritningu. Einnig er mikilvægt að fá svar við því hvort vottar Jehóva séu sannkristnir menn sem eiga sér Jehóva Guð og Jesú Krist að vinum. Hér er í veði nafnið sem Guð hefur valið sér, Jehóva.
15. Í ljósi hvaða aðstæðna er nú tímabært að Jehóva skapi sér nafn, og hvaða hlutverki gegna ‚þeir sem bera nafn hans‘ núna í því sambandi?
15 Hvernig gæti kristni heimurinn, með sínar mörgu og mismunandi trúarstefnur, átt vináttusamband við Jehóva? Kristni heimurinn hefur lagt svo mikla áherslu á nafn Jesú Krists að nafn hins himneska föður hans, Jehóva, hefur nánast fallið í gleymsku. Samkvæmt spám Biblíunnar er samt sem áður kominn tími til núna að Jehóva skapi sér nafn. Nafn hans verður því að komast í sviðsljósið, og til þess notar hann sanna votta sína, útvalda þjóð sína, þá sem eiga vináttusamband við hann. Á sérstökum fundi, sem postularnir og aðrir af fremstu fylgjendum Jesú Krists héldu á fyrstu öld, sagði lærisveinninn Jakob: „Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.“ — Postulasagan 15:14.
16, 17. Hvað hefur verið gert í sambandi við nafn Guðs í biblíuþýðingum kristna heimsins, en hvað um Nýheimsþýðinguna?
16 Búast má við því að ‚lýðurinn sem ber nafn Guðs‚ sé vinur hans og haldi nafni hans á lofti. En hvað hefur gerst í kristna heiminum? Í flestum þýðingum hans á Biblíunni hefur titill verið látinn koma í stað nafns Jehóva. Í vinsælustu útgáfu Biblíunnar á ensku stendur nafnið aðeins fjórum sinnum, og í útbreiddustu útgáfum hennar á íslensku kemur nafn Guðs hvergi fyrir í meginmálinu, aðeins nokkrum sinnum í neðanmálsathugasemdum! Jafnvel í þýðingum Gyðinga á Hebresku ritningunum er nafn Guðs þýtt sem „Drottinn.“ Slíkar tilraunir til að halda nafni Guðs leyndu eru ekki verk vina hans.
17 Árið 1950 var byrjað að gefa út á ensku Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar og í henni er nafn Guðs látið standa á öllum þeim stöðum þar sem það kemur fyrir í frumtexta hebresku Biblíunnar. Í Nýheimsþýðingunni er nafn Guðs einnig látið endurheimta sinn réttmæta sess í texta kristnu Grísku ritninganna, hinu svonefnda Nýjatestamenti — alls 237 sinnum. Þarna eru vinir Jehóva að verki.
18. Hvaða skref stigu þjónar Guðs árið 1931 í anda Jesaja 62:2, og hvaða ábyrgð hafa þeir uppfyllt?
18 Orðin í Jesaja 62:2 eru áhugaverð fyrir vini Jehóva. Í þessu versi, þar sem ávarpað er hið sýnilega skipulag vígðra, skírðra, andagetinna lærisveina Messíasar, stendur: „Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafi, er munnur [Jehóva] mun ákveða.“ Þetta ‚nafn‘ á við þá miklu blessun sem þessir smurðu lærisveinar nútímans fá nú að njóta. Til að vera ‚lýður sem ber nafn Guðs‘ ættu þeir sem eftir eru af meðlimum hins sýnilega skipulags hans auk þess að bera nafn hans. Þeir gerðu sér það ljóst í fyllingu tímans. Því tók hið andagetna skipulag, sem komið var saman á móti í Columbus í Ohio árið 1931, fagnandi við nafninu „vottar Jehóva“ í anda Jesaja 62:2. Allir söfnuðir vígðra þjóna Jehóva fylgdu því fordæmi og tóku sér nafnið. Fólk Guðs ber enn þetta nafn þrátt fyrir spár heimsins um hið gagnstæða. Í Opinberunarbókinni 3:14 kallaði hinn dýrlega gerði Jesús Kristur sig ‚vottinn trúa og sanna.‘ Það er því vegna forsjár Guðs að söfnuðir lærisveina hans á jörðinni hafa borið þetta nafn frá hinu minnisverða ári 1931. Þaðan í frá hafa þeir leitast við að rísa undir þeirri ábyrgð að lifa í samræmi við nafnið og kunngera það. Þar af leiðandi hefur nafn Jehóva — hið óviðjafnanlega nafn hins besta vinar þeirra, verið gert kunnugt um allan heiminn. Og Jehóva hefur gefið vottum sínum augljósa sönnun um vináttu sína sem varir enn þann dag í dag.
19. (a) Hvers vegna óttast vígðir vottar Jehóva ekki óvináttu þessa heims og hvaða sérréttindi munu ráðvandir menn hljóta við Harmagedón? (b) Fyrir hvað ættum við að þakka Jehóva og lofa?
19 Þar sem Jehóva Guð er með okkur, vígðum vottum sínum, hver getur þá staðið á móti okkur? (Rómverjabréfið 8:31-34) Við óttumst ekki óvináttu þessa fjandsamlega heims. Við höldum áfram að gegna starfi sendiherra eða erindreka messíasarríkisins, og hvetjum sauðumlíka menn til að sættast við Jehóva Guð fyrir milligöngu hins konunglega æðsta prests, Jesú Krists. (2. Korintubréf 5:20) Þótt fjandskapur heimsins gegn hinum smurðu leifum og félögum þeirra, ‚múginum mikla,‘ haldi af þessum orsökum áfram að vaxa er besta vináttusambandið í öllum alheiminum, vináttusambandið við Jehóva Guð, traust og stöðugt. (Opinberunarbókin 7:9) Það mun aldrei rofna ef við varðveitum ráðvendni gagnvart honum. Brátt mun Guð láta þessa vináttu birtast á eftirminnilegri hátt en nokkru sinni fyrr, í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þar, augliti til auglitis við Satan djöfulinn, sveitir hinna illu anda hans og allt hans jarðneska skipulag, mun Jehóva upphefja drottinvald sitt yfir alheimi með sínum stórkostlegasta sigri allra tíma. Við, sem höfum fengið að njóta vináttu Jehóva, munum þá hljóta vernd og þann heiður að vera sjónarvottar að hinum mikla sigri hans fyrir atbeina konungsins Jesú Krists. (Sálmur 110:1, 2; Jesaja 66:23, 24) Við þökkum og lofum Jehóva Guð af öllu hjarta fyrir hina traustu vináttu hans! — Sálmur 136:1-26.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða vináttusamband hvatti Jesús lærisveina sína til að rækta, og hvaða „tjaldbúðir“ geta þeir með því komist inn í?
◻ Hver eru viðhorf heimsins gagnvart vottum Jehóva en hvaða vináttusambands njóta þeir stöðuglega?
◻ Hvaða skyldu gagnvart nafni Guðs uppfylla ‚þeir sem bera nafn hans‘?
◻ Hvers vegna óttast vottar Jehóva ekki óvináttu þessa heims?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 25]
Sakkeus fékk aðild að besta vináttusambandi í öllum alheiminum. Hefur þú fengið það líka?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Árið 1931 afréðu vottar Jehóva að bera hið óviðjafnanlega nafn hans, fullir fagnaðar yfir því að eiga Guð sem sinn besta vin.