Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinir dularfullu riddarar Opinberunarbókarinnar

Hinir dularfullu riddarar Opinberunarbókarinnar

Hinir dularfullu riddarar Opinberunarbókarinnar

ÞÚ HORFIR hugfanginn á hestinn þeytast niður grýtta brekkuna. Nasirnar eru þandar og faxið þyrlast í allar áttir. Hraustlegur knapinn virðist sem límdur við hnakkinn, rétt eins og hann sé hluti af þessum tifandi hestsvöðvum.

Hvort sem þú ert staddur úti í óbyggðum Íslands eða hinum megin á hnettinum, á nautgripabúi í Ástralíu, er alltaf jafnhrífandi að sjá samstilltan knapa og reiðskjóta. Það er ekki síður fögur sjón að sjá skrúðfylkingu veltamdra hesta og knapa.

Slíkir knapar og reiðskjótar vekja hrifningu okkar. En hestarnir og knaparnir, sem ritari Opinberunarbókarinnar sá, orka líka mjög sterkt á okkar, því að þeir eru dularfullir auk þess að vekja með okkur óttablandna lotningu. Þessir knapar eru víðkunnir sem riddarar Opinberunarbókarinnar.

Ímyndaðu þér nú að fjórir æfðir knapar komi þeysandi á reiðskjótum sínum í átt til þín, og einn þeirra bregði meira að segja á loft sverði! Taktu eftir hvernig hestarnir þeirra eru á litinn, hver ólíkur öðrum. Einn hestanna er hvítur, annar rauður, sá þriðji svartur og sá fjórði sjúklega græn-gulur á litinn. Þeir eru sannarlega undarleg sjón að sjá og dularfull.

Fylgstu með hinni hröðu frásögn biblíuritarans, Jóhannesar postula. Hann segir: „Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra. . . . Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið. . . . Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. Og . . . heyrði ég eins konar rödd er sagði: ‚Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun‘ . . . Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ — Opinberunarbókin 6:2-8.

Allt frá því að þessi sýn var fyrst fest á blað hefur merking hennar verið mörgum manninum ráðgáta. Hvað tákna þessir dularfullu hestar og knaparnir sem ríða þeim? Hvenær hófst reið þeirra? Hefur hún einhver tengsl við líf okkar núna? Ótal skýringum hefur verið slegið fram á því hvað hestarnir og knapar þeirra geti merkt og hvenær reið þeirra eigi sér stað.

Mesta misræmið er í skýringum manna á því hvað hvíti fákurinn og riddarinn á honum tákni. Til dæmis segir kaþólska alfræðibókin New Catholic Encyclopedia að hvíti hesturinn tákni ‚annaðhvort sigur fagnaðarerindisins eða heimsvaldastefnunnar.‘

Í bók sinni Daniel and the Revelation (Daníelsbók og Opinberunarbókin) gefur Uriah Smith þessa skýringu: „Hvítur hestur . . . er viðeigandi tákn um sigra fagnaðarerindisins á fyrstu öld . . . hinn hvíti litur hestsins táknar hreinleika trúarinnar á þeim tíma.“

The Expositor’s Bible segir: „Í gervi fyrsta riddarans er málstaður frekar en persóna Krists kynnt fyrir okkur í upphafi sigurgöngu sinnar, og með loforði um framtíðarsigur hans [málstaðarins]. . . . Við komumst að þeirri niðurstöðu að þessi málstaður er í heiminum, að þetta ríki er mitt á meðal okkar og að þeir sem standa gegn því verða yfirbugaðir og sigraðir.“ En Woodrow Kroll hjá The Christian Jew Foundation álítur að riddarinn á hvíta hestinum sé andkristur.

Sumir hafa haldið því fram að hestarnir og riddararnir séu fimm en ekki fjórir. Hvernig getum við gengið úr skugga um hver af þessum mörgu skýringum sé hin rétta? Hvernig getum við verið viss um að til sé einhver rétt skýring? Hverjir eru eiginlega þessir dularfullu riddarar Opinberunarbókarinnar og hvenær hófst reið þeirra?