Safnaðarþjónar blessun fólki Jehóva
Safnaðarþjónar blessun fólki Jehóva
„Þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:10.
1. Hverjir eiga þátt í að tryggja hamingju og einingu safnaðarins?
JEHÓVA er ‚hinn sæli Guð‘ og vill að þjónar hans séu líka sælir, hamingjusamir. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Ísl. bi. 1912) Til að svo geti orðið hefur hann séð fyrir öldungum og safnaðarþjónum til blessunar fólki sínu. Þessir menn hafa ríka ábyrgðarkennd, þjóna jákvæðum tilgangi og stuðla að því að tryggja hamingju, einingu og snurðulaust starf kristna safnaðarins. Vottar Jehóva geta verið mjög þakklátir fyrir þá kærleiksríku og gagnlegu þjónustu sem þessir menn veita innan guðræðisskipulags Jehóva!
2. Hvaða viðhorf ættu öldungar og safnaðarþjónar að hafa, en á hverju ættu þeir aldrei að missa sjónar?
2 Þrátt fyrir hið mikilvæga starf öldunga og safnaðarþjóna innan safnaðarins eiga þeir ekki að láta mikið yfir hlutverki sínu. Þeir verða að hafa hugfast að Jesús Kristur áminnti fylgjendur sína um að vera auðmjúkir. Hann sagði þeim einu sinni: „Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matteus 18:4) Og lærisveinninn Jakob skrifaði: „Auðmýkið yður fyrir [Jehóva] og hann mun upphefja yður.“ (Jakobsbréfið 4:10; Rómverjabréfið 12:3) En auðmjúkt hugarfar gerir ekki kröfu til að þessir menn geri lítið úr þýðingu þjónustu sinnar sem öldungar og safnaðarþjónar. Þeir geta verið auðmjúkir en um leið tekið forystuna í þjónustustarfi sínu. Þeir ættu aldrei að missa sjónar á þeim jákvæða tilgangi sem þjónusta þeirra hefur, heldur hafa alltaf í huga þá skyldukvöð sína, bæði gagnvart Jehóva og kristnum bræðrum sínum, að gera eins vel og þeir geta í því að gegna skyldum sínum.
3. Við hvað má líkja sameinuðu starfi votta Jehóva og hvernig geta vígðir karlmenn stuðlað að slíkri einingu og eflingu hagsmuna Guðsríkis?
3 Einhuga starfi meðal votta Jehóva nú á tímum má líkja við einingu mannslíkamans. Páll líkti hinum andlega líkama Krists við mannslíkamann. Hann er myndaður af mörgum limum sem vinna þó allir saman að hagsmunum heildarinnar. (1. Korintubréf 12:12-31) Og vissulega eru hinir útnefndu öldungar og safnaðarþjónar fólki Jehóva til blessunar, því að þeir efla hið samræmda starf kristna safnaðarins nú á dögum. (Samanber Kólossubréfið 2:18, 19) Vígðir karlmenn í söfnuðinum, sem kappkosta að styðja skipulagsráðstafanir Jehóva með því að ‚sækjast eftir umsjónarstöðu,‘ stuðla með því að kristinni einingu og eflingu hagsmuna Guðsríkis. (1. Tímóteusarbréf 3:1) En hvernig gerir kristinn karlmaður sig hæfan til að verða safnaðarþjónn?
„Séu fyrst reyndir“
4. (a) Hvers vegna ættu væntanlegir safnaðarþjónar að vera ‚reyndir fyrst‘? (b) Hvað ættu þeir að vera fúsir til að gera?
4 Páll postuli sagði samverkamanni sínum Tímóteusi hvers væri krafist áður en hægt væri að útnefna mann sem safnaðarþjón. Meðal annars sagði Páll: „Þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.“ (1. Tímóteusarbréf 3:10) Það myndi koma í veg fyrir að óhæfir menn hlytu útnefningu, þeir sem ekki fullnægðu ákveðnum grundvallarkröfum Ritningarinnar. Með þessum hætti gæfist líka tími til að ganga úr skugga um hvert væri tilefni hins væntanlega safnaðarþjóns. Vissulega ætti tilefni slíks manns ekki að vera löngun í upphefð og virðingarstöðu því það bæri vott um vöntun á auðmýkt. Þess í stað ætti bróðir að vera fús til að gegna hverju því starfi sem Jehóva álítur rétt að nota hann til í skipulagi sínu, og með því sýna að kristin vígsla til Guðs sé skilyrðislaus og alger. Já, væntanlegir safnaðarþjónar ættu að vera fúsir til að þjóna eins og hinn trúfasti Jesaja sem sagði: „Hér er ég, send þú mig!“ — Jesaja 6:8.
5. (a) Hvaða kröfur til safnaðarþjóna eru settar fram í 1. Tímóteusarbréfi 3:8? (b) Hvað merkir það að vera „alvarlegur“? (c) Hvað átti Páll við þegar hann sagði að safnaðarþjónar mættu ekki vera „tvítyngdir“?
5 „Safnaðarþjónar ættu á sama hátt að vera alvarlegir, ekki tvítyngdir, ekki sólgnir í vín, ekki áfjáðir í óheiðarlegan ávinning heldur varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku,“ sagði Páll. (1. Tímóteusarbréf 3:8, NW) Þótt sumir safnaðarþjónar kunni að vera tiltölulega ungir eru þeir engir unglingar og verða að vera „alvarlegir.“ Þeir verða að hafa lært að skoða þýðingarmikil mál af alvöru. (Samanber Orðskviðina 22:15.) Þeir verða að vera traustir og samviskusamir, ekki hafa tilhneigingu til að vera léttúðugir gagnvart ábyrgð. Þeir ættu að vera áreiðanlegir, taka skyldur sínar alvarlega. Hvað getur verið alvarlegra mál en hin helga þjónusta við Jehóva? Hún er málefni sem varðar líf og dauða — fyrir þá og aðra. (Samanber 1. Tímóteusarbréf 4:16.) Þegar Páll sagði að safnaðarþjónar mættu ekki vera „tvítyngdir“ átti hann við að þeir ættu að vera hreinskiptir og sannsögulir, ekki gefnir fyrir slúður, hræsni né undirferli. — Orðskviðirnir 3:32.
6. Í hverju meðal annars ættu safnaðarþjónar að sýna jafnvægi?
6 Gott jafnvægi í einkalífinu er skilyrði fyrir því að vera hæfur til að gegna starfi safnaðarþjóns. Þegar Páll sagði að safnaðarþjónn mætti ekki vera ‚sólginn í vín né áfjáður í óheiðarlegan ávinning‘ átti hann bersýnilega við að þeir mættu ekki vera drykkfelldir, ágjarnir né óheiðarlegir. Þessir kristnu menn verða líka að varast að gefa öðrum þá hugmynd að þeir hafi óhóflegan áhuga á munaðar- og skemmtanalífi eða efnislegum hlutum. Þeir ættu alltaf að kappkosta að láta andleg mál sitja í fyrirrúmi í lífinu. Það mun hjálpa þeim að varðveita ‚hreina samvisku‘ frammi fyrir öðrum mönnum, en þó sér í lagi í augum Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 3:8, 9.
7. (a) Hvers vegna má segja að unglingum sé ekki ætluð ábyrgð safnaðarþjóna? (b) Hvaða vísbendingu getur það að safnaðarþjónn sé einhleypur gefið um hann?
7 Sú þunga ábyrgð, sem fylgir starfi safnaðarþjóns, er ekki ætluð unglingum. Ritningin talar þannig um þessa menn að þeir séu nógu gamlir til að geta verið kvæntir og átt börn. Sem slíkir yrðu þeir að ‚hafa góða stjórn á börnum sínum og heimilum.‘ ( 1. Tímóteusarbréf 3:12) Ber að skilja þetta svo að ungur maður komi ekki til greina sem safnaðarþjónn fyrr en hann hafi kvænst og eignast börn? Nei, alls ekki. Að hann skuli ekki rjúka út í hjónaband án nægilegs undirbúnings eða fyrr en hann hefur fundið sér skírða, kristna konu við sitt hæfi, getur meira að segja bent til þess að hann búi yfir nægum þroska til að annast vel einkamál sín og gegna vel ábyrgð í söfnuðinum sem er enn þá alvarlegri.
8. Hvaða ábyrgð hvílir á safnaðarþjónum samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 3:13 og Matteusi 24:14?
8 Páll sagði að ‚þeir sem veittu góða þjónustu kæmu sér vel í veg og öðluðust mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:13) Ein leið til að sýna þá ‚miklu djörfung‘ sem er krafist, er að taka virkan þátt í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ (Matteus 24:14) Þeir ættu að gera sér ljóst að þeir bera, ásamt öldungunum, þá ábyrgð að taka forystuna í að prédika hús úr húsi og taka þátt í öðrum greinum þjónustunnar. (Postulasagan 5:42; 20:20, 21) Eftir því sem nær dregur endalokum hins illa kerfis Satans liggur meira á að prédika. Safnaðarþjónar ættu því, með því að setja sjálfir mjög gott fordæmi í þjónustunni á akrinum, að halda söfnuðinum vakandi fyrir því hversu áríðandi er að prédika Guðsríki.
Fulltímaþjónusta hjálpar
9. Hvaða þjónustu hafa margir kristnir menn tekist á hendur í ljósi þess hversu áríðandi tímar nú eru?
9 Með það í huga hversu áríðandi okkar örðugu tímar eru hefur fjölmargt kristinna karla og kvenna lagt út í fulltímaþjónustu. Margir, nefndir brautryðjendur, verja að meðaltali frá tveim til fimm klukkustundum daglega til prédikunarstarfsins, sumir sem trúboðar erlendis. Aðrir þjóna allan sinn tíma í aðalstöðvum Biblíufélagsins Varðturninn eða deildarskrifstofum þess víða um heiminn. Þjónusta þeirra veitir bæði þeim sjálfum og þeim sem þeir þjóna gleði og lífsfyllingu. Og í mörgum tilfellum hefur reynslan af fulltímaþjónustu hjálpað karlmönnum að þroska með sér þá hæfileika sem þarf til að vera söfnuðinum til gagns sem safnaðarþjónar.
10, 11. Hvernig getur fulltímaþjónusta verið þeim til gagns sem vilja verða safnaðarþjónar?
10 Fyrrum safnaðarþjónn, sem nú er öldungur í söfnuði í Berlín í Þýskalandi, segir um brautryðjandastarfið sem hann hóf fyrir mörgum árum sem ungur maður: „Ég get sagt að það var skref sem ég hef aldrei séð eftir. Jehóva hefur blessað mig. Samband mitt við hann hefur orðið nánara.“ Já, eins og þúsundir annarra uppgötvaði þessi bróðir að fulltímaþjónusta getur gert samband einstaklingsins við Jehóva nánara og flýtt framför hans til kristins þroska.
11 Annar gamalreyndur brautryðjandi segir frá því hvernig fulltímaþjónustan hjálpaði honum: „Ég róaðist og náði betra jafnvægi gagnvart því að verða ekki fljótfær í dómum,“ segir hann. „Ég varð ánægðari og sveigjanlegri í samskiptum við ólíkt fólk.“ Eru þetta ekki nauðsynlegir eiginleikar þeirra sem þrá að þjóna sem safnaðarþjónar?
12. (a) Hvaða tækifæri eru til að taka þátt í fulltímaþjónustu? (b) Hvaða hæfileika útheimtir fulltímaþjónusta sem geta hjálpað safnaðarþjóni að rækja skyldur sínar?
12 Þátttaka í fulltímaþjónustu, ef biblíulegar skyldur leyfa, getur verið afbragðsgott tækifæri fyrir kristna karlmenn til að ‚vera fyrst reyndir.‘ Sumir taka upp slíka þjónustu til frambúðar, aðrir endrum og eins. Þeir sem ungir eru gætu gert það í skólaleyfum og þeir sem eldri eru í sumarleyfum eða á öðrum hentugum tímum ársins. Að sjálfsögðu útheimtir þátttaka í fulltímaþjónustu jafnvægi og góða skipulagningu. Safnaðarþjónar hafa þörf fyrir hvorttveggja og það hjálpar þeim að inna skyldustörf sín af hendi. Hvaða skyldustörf?
Skyldur safnaðarþjóna
13. Hvað má ráða af Postulasögunni 6:1-6 um eðli þeirra starfa sem safnaðarþjónum eru falin?
13 Þótt Postulasagan 6:1-6 fjalli ekki beinlínis um útnefningu safnaðarþjóna, gefur það sem þar er sagt vísbendingu um eðli þeirra starfa og skyldna sem safnaðarþjónum munu venjulega vera faldar. Þeir ‚sjö vel kynntu menn,‘ sem þá voru valdir, gerðu postulunum fært að ‚helga sig bæninni og þjónustu orðsins,‘ ekki með því að kenna hinum trúuðu heldur útbýta matvælum. Með því að gegna áþekkum skyldum núna skapa safnaðarþjónarnir öldungunum meiri tíma til að gæta ‚hjarðar Guðs‘ og kenna. — 1. Pétursbréf 5:2, 3.
14. Hvaða mismunandi störf má fela safnaðarþjónum?
14 Bókin Organized to Accomplish Our Ministry (Skipulag til að fullna þjónustuna) segir um skyldur safnaðarþjóna: „Fela má einum safnaðarþjóni að sjá um bókabirgðir safnaðarins þannig að auðvelt sé fyrir okkur öll að fá þau rit sem við þurfum til eigin nota og til þjónustunnar á akrinum. Fela má öðrum að sjá um blöðin. Enn öðrum er falið að halda ýmsar skrár, svo sem bókhald safnaðarins, eða annast úthlutun og bókhald starfssvæðanna, sjá um hljóðnema, maganarakerfi og svið Ríkissalarins eða aðstoða öldungana á aðra vegu. Viðhald og ræsting Ríkissalarins er mikið starf þannig að oft eru safnaðarþjónar beðnir að aðstoða með því að bera ábyrgð á slíku. Safnaðarþjónum er líka falið að hafa umsjón í salnum, bjóða nýja velkomna og aðstoða við að halda röð og reglu á samkomum safnaðarins.“ — Bls. 57-8.
15. (a) Hvað þarf safnaðarþjónn að hafa til að bera auk þess að hafa verksvit? (b) Hvert ætti að vera aðaláhugamál safnaðarþjóna þótt þeir hafi ýmis verkleg störf með höndum?
15 Gæti nánast hvaða verkséður bróðir sem er gegnt þessum störfum? Nei, því að hinir ‚vel kynntu‘ menn, sem valdir voru í Jerúsalem á fyrstu öld, voru „fullir . . . anda og visku“ eða „bæði verkséðir og andlega sinnaðir.“ (Postulasagan 6:3, Phillips) Jafnvel þótt þeir hafi verið rosknir menn meðal þjóna Jehóva voru þeim falin störf áþekk þeim sem safnaðarþjónar vinna núna. Ef safnaðarþjónar okkar tíma eiga að gegna skyldum sínum vel verða þeir líka að vera „bæði verkséðir og andlega sinnaðir.“ Jafnvel þótt þeir hafi með höndum hin smærri skipulagsatriði ætti aðaláhugi þeirra að beinast að því að þjóna fólki á þann hátt sem kemur því að gagni andlega.
16. Hvaða skyldur má fela safnaðarþjónum ef ekki eru nægilega margir öldungar í söfnuðinum?
16 Þar eð safnaðarþjónar verða að vera andlega sinnaðir eru þeir stundum notaðir til starfa sem að öllu jöfnu eru unnin af öldungum. Bókin Skipulag til að fullna þjónustuna (Bls. 58-9) segir: „Ef ekki eru nógu margir öldungar til að stjórna náminu í bóknámshópunum eru einhverjir af hæfustu safnaðarþjónunum notaðir til að sjá um ákveðna hópa. Fela má þeim að flytja atriði á þjónustusamkomum og í guðveldisskólanum og flytja opinbera fyrirlestra í heimasöfnuði sínum. Veita má sumum safnaðarþjónanna önnur sérréttindi ef sérstök þörf er á því og þeir fullnægja þeim kröfum sem þarf til þess verkefnis. — Samanber 1. Pétursbréf 4:10.“
17. Hvers konar maður var Stefán og hvaða spurningu vekur það um safnaðarþjóna?
17 Einn hinna ‚sjö vel kynntu manna‘ á tímum Biblíunnar var ‚Stefán, maður fullur af trú og heilögum anda.‘ (Postulasagan 6:5) Áður en Stefán dó sem trúfastur píslarvottur gaf hann hrífandi vitnisburð frammi fyrir æðstaráði Gyðinganna. Þegar þú lest frásöguna munt þú sannfærast um að hann var andlega sinnaður og afbragðsgóður vottur sem var móttækilegur fyrir handleiðslu heilags anda Guðs og fús til að gefa líf sitt í þjónustu Jehóva. (Postulasagan 6:8–7:60) Ef þú ert safnaðarþjónn, tekur þú þá skyldur þínar í söfnuðinum og þjónustunni á akrinum jafn-alvarlega og Stefán tók sína ábyrgð og sérréttindi að tala sannleikann?
Hvernig standast þeir kröfurnar?
18. Hvað má segja um starf margra safnaðarþjóna og hverju mega þeir treysta?
18 Margir safnaðarþjónar setja mjög gott fordæmi í kristilegu líferni, sinna ágætlega skyldum sínum í söfnuðinum og taka góða forystu í þjónustunni á akrinum. Trúbræður þeirra meta starf þeirra mikils, og Jehóva mun ekki láta vanta að umbuna þeim því að kristnum Hebreum var sagt: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ — Hebreabréfið 6:10.
19. (a) Hvaða spurninga ætti sérhver safnaðarþjónn að spyrja sig? (b) Hvers vegna er gott að ræða vandamál sem sumir safnaðarþjónar hafa átt við að etja?
19 Sérhver safnaðarþjónn ætti samt sem áður að spyrja sig: Hvernig stenst ég þær kröfur sem Ritningin gerir? Stuðla ég í sannleika að einingu safnaðarins? Gegni ég þeim skyldustörfum, sem mér hafa verið falin, rétt og kostgæfilega? Set ég gott fordæmi í þjónustunni á akrinum? Sumir safnaðarþjónar hafa átt í erfiðleikum með að standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Við skulum því ræða sum af þeim vandamálum. Það getur hjálpað sérhverjum safnaðarþjóni að ‚rannsaka breytni sjálfs sín.‘ (Galatabréfið 6:4) Það ætti líka að hjálpa öðrum að meta betur að verðleikum kærleiksverk þessara manna sem þjóna jákvæðum tilgangi meðal votta Jehóva og eru blessun fólki Guðs.
Getur þú útskýrt?
◻ Hvernig eru safnaðarþjónar blessun fólki Jehóva?
◻ Hvernig getur fulltímaþjónusta hjálpað bræðrum sem vilja verða safnaðarþjónar?
◻ Hvers vegna verða safnaðarþjónar að vera „bæði verkséðir og andlega sinnaðir“?
◻ Hvernig var hinn trúfasti Stefán gott fordæmi safnaðarþjónum nú á dögum?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 9]
Öldungar og safnaðarþjónar eru söfnuðinum blessun.
[Myndir á blaðsíðu 11]
Brautryðjandaþjónusta er afbragðsgóð þjálfun fyrir þá sem vilja verða safnaðarþjónar eða öldungar.